,,Fjármálaáætlun er eitt mikilvægasta stjórntæki ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hún á að veita skýra sýn á stefnu, forgangsröðun og markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum. Fjármálaáætlunin hefur þannig veruleg áhrif á traust markaðsaðila og getur ýmist styrkt eða veikt stöðu efnahagsmála. Hún er lykilatriði í því að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu til skemmri og lengri tíma.
Við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi, einkum vegna viðvarandi verðbólgu, hárra vaxta og almennrar óvissu, er mikilvægi skýrrar og traustrar fjármálaáætlunar enn meira en áður.
Óskýr framtíðarsýn veldur óvissu
Þrátt fyrir mikilvægi skýrrar framtíðarsýnar er nýjasta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar (2026-2030) verulegt áhyggjuefni. Skortur á stefnumótun og aðgerðum varðandi mikilvæg samfélagsmál veldur óvissu meðal almennings og atvinnulífs. Nokkur dæmi eru lýsandi:
Menntamál í kreppu: Engin metnaðarfull markmið eða áform eru sett fram til að bæta árangur nemenda, þrátt fyrir þungar áhyggjur af stöðu menntakerfisins. Auk þess eru fjárheimildir til framhaldsskóla og háskóla lækkaðar næstu árin.
Heilbrigðisþjónusta í óvissu: Þrátt fyrir að fagfólk, og nú síðast Ríkisendurskoðun, hafi lýst miklum áhyggjum af rekstri Landspítalans eru litlar sem engar vísbendingar um fyrirhugaðar umbætur eða aðgerðir kynntar.
Ferðaþjónusta án stefnu: Engin heildstæð sýn er lögð fram um gjaldtöku varðandi „auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands“, þótt gefið sé til kynna að slíkt gjald verði tekið upp.
Sjávarútvegur án framtíðarsýnar: Engar áætlanir eru kynntar um auknar rannsóknir eða þekkingaröflun, á sama tíma og átök um veiðigjöld lama þingstörfin.
Bakslag í fyrirsjáanleika
Vegna skorts á skýrleika og raunhæfum markmiðum minnir fjármálaáætlunin í auknum mæli á hefðbundin fjárlög fortíðarinnar. Í þeim var fyrst og fremst einblínt á útgjöld án skýrrar stefnumótunar. Þetta er alvarlegt bakslag frá þeim árangri sem náðist með lögum um opinber fjármál frá 2016, sem lögðu áherslu á skýra stefnumótun og aukinn fyrirsjáanleika sem fjármálaáætlun átti að tryggja.
Forsendur áætlunarinnar í uppnámi?
Óskýr stefnumótun er sérstaklega alvarleg nú þegar margar forsendur fjármálaáætlunarinnar kunna þegar að hafa brostið. Alþjóðlegar aðstæður, stríðsátök, óvissa um tollamál, aukin verðbólga, óljósar fyrirætlanir um hækkun veiðigjalda, útgjaldaþrýstingur og óljóst umfang útgjalda til varnarmála skapa mikla hættu á óstöðugleika. Þetta mun hafa bein áhrif á vaxtastig og þar með kjör heimila og fyrirtækja.
Hallalaus rekstur: Raunhæft markmið eða óskhyggja?
Við þessar aðstæður vaknar eðlilega sú spurning hvort markmið ríkisstjórnarinnar um hallalausan rekstur árið 2027 sé raunhæft eða aðeins óskhyggja. Nú þegar hefur markmiðið verið gefið upp á bátinn, þar sem gert er ráð fyrir milljarða króna halla árið 2027 í stað afgangs, eins og áður hafði verið boðað.
Hagræðingaráform ríkisstjórnarinnar upp á 107 milljarða króna skortir jafnframt bæði sýnilegar aðgerðir og raunhæfar útfærslur. Markmið um jákvæða afkomu eru því veik í grunninn. Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin leggi tafarlaust fram raunhæfa áætlun um hvernig hún hyggst koma í veg fyrir hallarekstur til að skapa forsendur fyrir niðurgreiðslu skulda ríkisins.
Stjórntæki til framtíðar, ekki spegill fortíðar
Til að fjármálaáætlunin virki sem raunverulegt stjórntæki verður hún að sýna með skýrum hætti hvert stefnt er, hvernig markmiðum verði náð og hvernig aðgerðir verða fjármagnaðar. Alþingi þarf því að krefjast skýrari stefnumörkunar svo hagstjórn landsins verði raunverulegt leiðarljós inn í framtíðina, en ekki eingöngu viðleitni til að halda í óbreytt ástand.”
Grein eftir Stefán Vagn Stefánsson, þingmann Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Grinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júlí 2025.