Fullveldi Íslands varð ekki til fyrir tilviljun. Það er afrakstur langrar baráttu forfeðra okkar, sem höfðu skýra sýn og trú á framtíð Íslands. Það sem við höfum í dag sem sjálfstætt lýðveldi er tilkomið vegna ákvörðunar og ábyrgðar þeirra sem komu á undan okkur. Vörður fullveldis, helstu áfangar sjálfstæðisbaráttunnar, minna okkur á að þjóð sem stendur á eigin fótum og tekur ábyrgð á sínum málum, stendur á sterkum grunni.
Endurreisn Alþingis árið 1845, eftir aldir undir konungsvaldi, var fyrsta stóra skrefið í átt til nútímasjálfstæðis. Alþingi varð aftur vettvangur þar sem rödd þjóðarinnar fékk að heyrast. Með stjórnarskránni 1874 var stigið næsta skref. Þótt vald þjóðarinnar væri enn takmarkað var það tákn um að Íslendingar ættu að setja sín eigin lög.
Heimastjórnin 1904 færði framkvæmdavaldið heim og með því fengum við raunverulega stjórn á okkar eigin forsendum. Það var ekki bara tæknileg breyting, heldur staðfesting á því að við værum fær um að bera ábyrgð á samfélaginu okkar. Þannig mótuðum við framtíðina sjálf sem þjóð.
Sambandslögin 1918 viðurkenndu Ísland sem fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku, með eigin fána og lagasetningu. Lokaskrefið kom svo árið 1944, þegar þjóðin sameinaðist á Lögbergi við Öxará og stofnaði lýðveldi með skýran vilja um að Ísland skyldi vera sjálfstætt, frjálst og fullvalda.
Við sem búum hér í dag þurfum að horfa til þessara varða, ekki bara sem minnisvarða um liðna tíð, heldur sem sigra sem gerðust ekki af sjálfu sér. Því miður sést í samtímanum þróun sem vinnur gegn þessum grunngildum. Þrýstingur frá ákveðnum öflum hérlendis um að ganga í Evrópusambandið er til staðar. Til eru stjórnmálamenn sem þrá hvað heitast að framselja vald þjóðarinnar og áhrif til yfir þjóðlegra stofnana. Í stefnuskrá ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur kemur fram að kjósa skuli um aðildarviðræður við Evrópusambandið eigi síðar en 2027.
Á hvaða vegferð erum við sem þjóð, ef við erum tilbúin að framselja áunnið vald forfeðra okkar úr landi? Ég tel að slíkt samræmist ekki hagsmunum Íslands. Við þurfum ekki að afsala okkur sjálfstæði til að vinna með öðrum. Samstarf á að byggjast á jafnræði og gagnkvæmri virðingu, og slíkt er hægt að byggja upp meðal annars með fríverslunarsamningum á milli þjóða.
Við verðum að standa vörð um fullveldi okkar – ekki aðeins af virðingu við söguna, heldur til að tryggja framtíðina. Vörður fullveldis minna okkur á að ef þjóð lætur undan þrýstingi og gleymir rótum sínum, getur hún auðveldlega tapað því sem erfitt var að vinna. En þjóð sem stendur með sjálfri sér og ræður för – hún á sér sterka og bjarta framtíð.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. ágúst 2025.