Aðfaranótt 23. september 1241 riðu sjötíu menn Gissurar Þorvaldssonar ásamt Oddaverjum og konungsmönnum að Reykholti, heimili Snorra Sturlusonar. Samkvæmt frásögn Sturlungu kom fram í bréfi nokkru sem Gissur hafði undir höndum frá Hákoni konungi að hann skyldi láta Snorra fara til Noregs aftur, hvort sem honum líkaði það eður ei. Að öðrum kosti skyldi Gissur tryggja dráp hans. Meginástæða þessarar tilskipunar Hákonar konungs var sú að Snorri hefði farið til Íslands í trássi við vilja hans árið 1239 og því væri hann landráðamaður. Snorri vildi halda heim til Íslands eftir að hann frétti af miklu falli skyldmenna sinna í Örlygsstaðabardaganum árið 1238. Að auki gekk Snorri til liðs við Skúla jarl, sem var óvinveittur konungi. Hákon konungur var staðráðinn í að refsa Snorra fyrir þessi svik. Gissur og menn hans komu Snorra að óvörum og fundu hann í kjallaranum í Reykholti. Í Sturlungu er þessu lýst svo: „Eftir það urðu þeir varir við hvar Snorri var og gengu þeir í kjallarann Markús Marðarson, Símon knútur, Árni beiskur, Þorsteinn Guðinason, Þórarinn Ásgrímsson. Símon knútur bað Árna höggva hann. „Eigi skal höggva,“ sagði Snorri. „Högg þú,“ sagði Símon. „Eigi skal höggva,“ sagði Snorri. Eftir það veitti Árni honum banasár og báðir þeir Þorsteinn unnu á honum.“
Þarna var framið eitt mesta ódæðisverk í sögu þjóðarinnar. Snorri Sturluson var mesta sagnaskáldið í Evrópu og stórbrotinn pólitískur hugmyndafræðingur. Eins og flestir þekkja liggja eftir hann Snorra-Edda og Heimskringla og honum er líka eignuð Egils saga Skallagrímssonar.
Í tilefni dagsins kemur út endurprentun ritsins Stjórnspeki Snorra Sturlusonar í Heimskringlu eftir Sigurð Líndal, gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi, og stendur Miðaldastofa í samstarfi við Lagastofnun HÍ, Bókmenntafélagið og RSE fyrir málstofu í fundarsal Eddu kl. 16.30 í dag. Erindi flytja Ditlev Tamm, prófessor emeritus í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Tom G. Palmer, alþjóðafulltrúi Atlas Network.
Að mínu mati eigum við að halda enn frekar á loft bókmenntasögu miðalda, þar sem hún er eitt það dýrmætasta sem þjóðin hefur skapað. Bókmenntirnar sameina okkur og veita einstaka sýn inn í hugarþel þessa tíma. Því er það vel til fundið að í tilefni dagsins sé verka Snorra Sturlusonar minnst með þessum hætti í Eddu. Húsið er reist til að varðveita þessa merku bókmenntasögu, miðla henni og efla íslensk fræði. Vel hefur tekist til og ánægjulegt að sjá veglega dagskrá vetrarins, sem mun efla vitund landsmanna um hinn merka bókmenntaarf. Mestu skiptir fyrir framtíðina að honum sé miðlað til yngstu kynslóðarinnar og bókmenntirnar haldi áfram að vera ljóslifandi í huga þjóðarinnar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2025.