Traust almennings til borgarstjórnar er lítið – bæði til meirihlutans og minnihlutans. Það er staðreynd sem allir borgarfulltrúar verða að taka til sín og taka alvarlega.
Svarið við spurningunni „hvers vegna“ er ekki einfalt. Það er ekki ein ákvörðun sem hefur grafið undan trausti heldur samspil margra ákvarðana og stefnu sem hefur um árabil verið sett fram án þess að taka nægilega mikið mið af vilja og þörfum íbúa. Tökum dæmi:
Bílastæðamálin
Flestir íbúar nota fjölskyldubílinn til að komast á milli staða. Þrátt fyrir það var ákveðið á síðasta kjörtímabili að setja afar ströng skilyrði um fjölda bílastæða við nýbyggingar. Á stóru svæði borgarinnar er aðeins heimilt að byggja að hámarki 0,75 stæði fyrir tveggja herbergja íbúð en almenna viðmiðið er 0,25 stæði á íbúð.
Þetta hefur skapað mikla óánægju, sérstaklega í nýjum hverfum sem byggst hafa upp á svæðum sem almenningssamgöngur ná ekki til eða eru lélegar og því ekki raunverulegur kostur. Borgin virðist oft byrja á öfugum enda: stæðum er fækkað áður en almenningssamgöngur eru bættar. Markmiðið kann að vera göfugt, þ.e. að minnka umferð og mengun, en útfærslan hefur ekki verið hugsuð til enda og gengur því ekki upp fyrir hversdagslegt líf fólks. Fyrir utan það að of fá bílastæði gera fjölskyldum með ung börn og fólki með skerta hreyfigetu sem reiða sig á bíl til að komast á milli staða erfiðara fyrir að ferðast, einkum á veturna.
Við í Framsókn leggjum til að meginreglan verði eitt stæði á íbúð nema sérstakar skipulagsaðstæður kalli á annað. Bílastæði þurfa þó ekki öll að vera ofanjarðar. Hægt er að byggja bílakjallara í nýjum hverfum til að nýta land betur. Til að gera slíkar lausnir raunhæfar höfum við lagt til að gatnagerðargjald vegna bílastæðakjallara verði lækkað.
Leikskólamálin
Staða leikskólamála í Reykjavík er öllum kunn. Ítrekað hefur verið lofað að öll börn, 12 mánaða og eldri, fái leikskólapláss. Raunveruleikinn er annar. Hundruð barna bíða á biðlistum.
Þegar komið er að lausnaleit er öllum nýjum hugmyndum vísað á bug ef þær falla ekki að ríkjandi pólitískum viðhorfum ákveðinna flokka jafnvel þótt meirihluti sé fyrir þeim í borgarstjórn. Hvorki vinnustaðaleikskólar, sem vinnustaðir hafa sýnt áhuga á að setja á laggirnar, né tímabundnar heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir plássi fá hljómgrunn. Afleiðingin er að fjölskyldur lenda í ómögulegri stöðu að loknu fæðingarorlofi vegna þess að enga dagvistun er að fá og óljóst hvenær barn getur hafið vistun.
Húsnæðismálin
Það er húsnæðiskrísa á Íslandi. Hún hefur þrýst fasteignaverði upp og viðhaldið verðbólgu og háum vöxtum. Sem stærsta sveitarfélagið ber Reykjavíkurborg ríka ábyrgð á að tryggja að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði og ber að leggja sig alla fram við að tryggja sjálfbært framboð fjölbreyttra lóða. Borgin hefur þó nær eingöngu lagt áherslu á þéttingu byggðar og þótt þétting hafi sums staðar gengið vel hefur hún líka skapað mikla óánægju, meðal annars vegna skuggavarps, fækkunar grænna svæða og of hás fasteignaverðs. Þétting ein og sér mætir þá heldur ekki uppbyggingarþörfinni.
Skortur á byggingarhæfum lóðum í nýjum hverfum viðheldur háu fasteignaverði sem bitnar verst á ungu fólki sem er að koma undir sig fótunum í lífinu. Fyrir utan þá staðreynd að ekki allir vilja búa í þéttri byggð. Að eiga öruggt heimili er grundvallarþörf, og það er á ábyrgð borgarinnar að tryggja framboð lóða.
Hugsjónir og raunveruleiki
Ofangreind dæmi sýna ákveðið mynstur. Ákvarðanir borgarinnar hafa verið svo fastar í útópískri framtíðarhugsjón að það fórst fyrir að takast á við daglegar þarfir fólks í dag. Hugsjónir eru góðar og nauðsynlegar, en þær mega ekki blinda fyrir raunveruleikanum.
Við þurfum skynsamlegar lausnir sem taka mið af fjölbreyttum þörfum borgarbúa. Því samfélagið er ekki svart og hvítt heldur marglitt, rétt eins og þarfir íbúa, sem passa ekki allar í einn kassa heldur krefjast fjölbreyttra lausna.
Spurningin sem eftir situr fyrir borgarstjórn að svara er því einföld: Fyrir hvern er borgin?
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2025.