Categories
Fréttir Greinar

Sterkt atvinnulíf er grunnur velferðar

Deila grein

09/10/2025

Sterkt atvinnulíf er grunnur velferðar

Þegar vel gengur í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, undirstöðuatvinnugreinum landsbyggðarinnar, þá styrkist íslenskt samfélag í heild. Þessar greinar eru burðarásar í efnahagslífi þjóðarinnar og skapa grundvöll að velferð, verðmætasköpun og sjálfbærni. Ríkissjóður býr ekki til peninga; það gerir fólkið og fyrirtækin sem halda hjólum efnahagslífsins gangandi um allt land.

Brú milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis

Oft er látið að því liggja að hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgar fari ekki saman. Sú hugsun er röng. Þvert á móti þarf að byggja trausta brú milli svæðanna þar sem vöxtur og velgengni dreifist um landið. Þegar undirstöðuatvinnugreinarnar dafna á landsbyggðinni nýtur höfuðborgarsvæðið góðs af. Þetta er samverkandi hringrás sem styrkir íslenskt samfélag.

Þrátt fyrir þetta virðist stefna stjórnvalda í garð undirstöðuatvinnugreina í mörgu endurspegla takmarkaðan skilning á mikilvægi þeirra fyrir efnahagslífið í heild. Þegar ákvarðanir eru teknar án fulls skilnings á rekstrarskilyrðum greina sem halda landinu gangandi – til dæmis með hækkun skatta og gjalda, auknu regluverki og óstöðugum ákvarðanatökum – þá veikist samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin á að stuðla að stöðugleika og skynsamlegu starfsumhverfi fyrir atvinnulífið, en of oft hefur breytingum verið hrint í framkvæmd án raunverulegs samráðs og í miklum flýti. Mikilvægast er að skapa rekstrarumhverfi sem er stöðugt og byggist á sanngjörnum forsendum.

Hátt atvinnustig er okkar styrkleiki

Hátt atvinnustig hefur verið eitt af aðalsmerkjum íslensks samfélags. Í mörgum Evrópulöndum hefur atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks, verið þrálátt vandamál um áratugaskeið. Slíkar aðstæður hafa djúpstæð áhrif á einstaklinga og samfélög og geta grafið undan von og trú á framtíðina.

Við höfum notið hárrar atvinnuþátttöku og stöðugleika á vinnumarkaði, en það er ekki sjálfgefið. Að undanförnu höfum við því miður séð störf tapast og atvinnuleysi aukast. Það að hafa vinnu gefur fólki öryggi, sjálfstæði og virðingu. Að missa vinnuna er oft mikið áfall og því ber okkur að sýna skilning og samstöðu með þeim sem standa frammi fyrir slíkum aðstæðum. Við verðum að skapa tækifæri til atvinnu í öllum landshlutum og tryggja að hver og einn geti lifað og starfað þar sem hann kýs, með reisn.

Sterkt samfélag byggist á jafnvægi milli svæða, atvinnugreina og fólks. Við höfum öll hag af því að undirstöðuatvinnugreinar landsbyggðarinnar fái að dafna, því þegar þeim gengur vel, gengur þjóðinni vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2025.