Á síðustu árum hefur heimsendingarþjónusta á vörum og mat aukist verulega, ekki síst í kjölfar heimsfaraldursins. Neytendur hafa í auknum mæli tileinkað sér þau þægindi sem felast í að fá sendar vörur og mat beint heim að dyrum, og hafa matar- og vöruinnkaup í gegnum netið orðið fastur hluti af daglegu lífi fjölmargra. Þessi þróun hefur þó skapað áskoranir í miðborginni, þar sem aðgengi bíla er takmarkað og bílastæði ofanjarðar fá. Sendibílstjórar og aðrir sem sinna skammtímaakstri neyðast oft til að leggja ólöglega eða langt frá áfangastað, sem veldur seinkunum, truflunum í umferð og eykur hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Aðilar sem stunda heimsendingarþjónustu hafa bent á mikilvægi þess að svæði séu hönnuð þannig að hægt sé að sækja vörur og mat án þess að þurfa að leggja langt frá þeim stað þar sem sækja á varninginn, og án þess að greiða háar fjárhæðir fyrir aðeins 5-10 mínútna stopp. Skortur á skammtímastæðum leiðir til þess að tími og kostnaður sendibílstjóra eykst, sem bitnar bæði á fyrirtækjum og neytendum.
Sleppistæði, þar sem heimilt væri að staldra við í stuttan tíma án gjaldtöku, myndu leysa stóran hluta þessara áskorana. Með þeim væri hægt að tryggja fljótlegt og öruggt aðgengi fyrir þá þjónustu sem einungis krefst þess að stoppað sé í skamma stund. Slík stæði myndu ekki aðeins bæta starfsskilyrði fyrir heimsendingarþjónustu, heldur einnig gagnast leigubílum sem sinna farþegum í miðborginni og velferðarþjónustu sem afhendir mat og lyf heim til fólks og sér um akstursþjónustu.
Raunhæfar lausnir
Skipulagning á sleppistæðum myndi stuðla að betra flæði í miðborginni, draga úr ólöglegum stoppum og bæta upplifun og öryggi bæði íbúa og gesta. Við í Framsókn viljum horfa til raunhæfra lausna sem bæta daglegt líf borgarbúa og styrkja atvinnulífið í miðborginni. Því lögðum við til að umhverfis- og skipulagssviði yrði falið að móta tillögur um útfærslu skammtímasleppistæða í miðborg Reykjavíkur í nálægð við veitingastaði og verslanir, til að greiða aðgengi að heimsendingarþjónustu og styðja við rekstrarmöguleika veitingastaða og verslana í miðborginni. Þrátt fyrir að tillagan sé skynsamleg og í takt við þá þróun sem á sér stað í borgum víða um heim ákvað borgarstjórnarmeirihlutinn að hafna henni. Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins felldu tillöguna. Það er sorglegt að þau virðast ekki sjá þörfina fyrir að bæta umferðarflæði né styðja við atvinnulífið í miðborginni.
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2025.
