Categories
Fréttir Greinar

Þegar fjár­lögin vinna gegn mark­miðinu

Deila grein

08/12/2025

Þegar fjár­lögin vinna gegn mark­miðinu

Fjárlög eru eitt mikilvægasta stýritæki stjórnvalda – sérstaklega þegar efnahagshorfur versna. En fjárlög 2026, eins og þau liggja fyrir, skortir nauðsynlega varfærni og byggja á veikum forsendum á tíma þegar hagvöxtur 2025 er langt undir væntingum og 2026 gæti reynst enn erfiðara ár. Í slíkri stöðu þarf skýrari forgangsröðun, meira aðhald og traustari áætlanagerð. Þess í stað blasir við útgjaldaaukning í sögulegu hámarki: 143 milljarðar milli ára af um 1.600 milljarða útgjöldum. Um leið eru vaxtagjöld komin í nýjar hæðir og hallinn verður áfram verulegur. Þetta vinnur gegn stöðugleika þegar þörfin er mest.

Trúverðugleiki ríkisfjármála – lykillinn að lægri vöxtum og verðbólgu

Það sem skiptir þó mestu er trúverðugleiki ríkisfjármála. Ríkisfjármálin eru lykilþáttur í því að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði til vaxtalækkana. Þegar útgjöld vaxa hratt, forsendur eru óhóflega bjartsýnar og halli viðvarandi dregur það úr trúverðugleika efnahagsstefnunnar. Afleiðingin getur orðið sú að verðbólguvæntingar haldast þrálátar og vaxtaálag verði hærra en ella. Ef markmiðið er að létta vaxtabyrði heimila og fyrirtækja þarf fjárlagagerðin að styðja við það markmið – ekki vinna gegn því.

Varasjóðurinn í lágmarki – minni viðnámskraftur gegn áföllum

Sérstaklega vekur athygli að almennur varasjóður ríkissjóðs er skorinn niður í um 1% – sem er lágmark samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það er gert á sama tíma og áhættur í efnahagslífinu hafa aukist, bæði heima og erlendis. Varasjóður er öryggisnet þegar forsendur bresta. Að halda honum í lágmarki við þessar aðstæður er ákvörðun sem veikir getu ríkisins til að bregðast við óvæntum áföllum.

Minnkandi trúverðugleiki ríkisfjármála

Þá er svigrúm stöðugleikareglunnar nýtt til fulls og hætt við að hún standist ekki þegar samspil útgjalda og tekna er metið. Þegar reglur um ábyrga hagstjórn eru teygðar í botn, rýrnar trúverðugleiki ríkisfjármála – og sá trúverðugleiki er forsenda þess að peningastefnan geti skilað árangri með lægri vöxtum. Vandinn er ekki aðeins tölulegur heldur líka kerfislægur: of víða eru markmið fjárlaga óljós og illa mælanleg, sem veikir getu Alþingis til að sinna fjárstjórnarhlutverki sínu. Fjárlög eiga að segja skýrt hvaða árangri er stefnt að – annars er Alþingi svipt raunhæfum grunni til að meta forgangsröðun og fylgja eftir framkvæmd.

Niðurstaða

Við þurfum fjárlög sem endurspegla efnahagslegan veruleika: meiri varfærni, burðugri varasjóð, skýrari markmið og raunhæfari forsendur. Fjárlög 2026 verða að draga úr áhættu – og vera hluti af lausninni til að ná niður verðbólgu og vöxtum, ekki þáttur í því að festa vandann í sessi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2025.