Íslandi hefur verið lýst sem ósökkvandi flugmóðurskipi í Norður-Atlantshafinu. Mikilvægi Íslands út frá öryggis- og varnarmálum er óumdeilt enda lagði Churchill mikið á sig til að halda siglingaleiðinni yfir Atlantshafið öruggri. Sú sögulega staðreynd að Ísland var staðsett þar sem lýðræði og markaðshagkerfi hafa verið ráðandi skýrir að mörgu leyti þá framþróun landsins frá sjálfstæði. Lýðræðishefðin á Íslandi á sér þó miklu lengri sögu, eins og þekkt er.
Mikil umræða hefur verið um utanríkisstefnu Bandaríkjanna í ljósi afskipta af stjórnarfari í Venesúela. Slík aðkoma Bandaríkjanna er ekki ný af nálinni. Hins vegar er það algjört nýmæli að forseti Bandaríkjanna lýsi ítrekað yfir vilja sínum til að komast yfir landsvæði bandalagsþjóða í trássi við vilja þeirra og heimamanna. Fjölmargar skoðanakannanir sýna að Grænlendingar vilja sjálfstæði, sérstaklega ef hagkerfið verður sjálfbært, en enn í dag reiða þeir sig á umfangsmikið fjárframlag frá Danmörku. Hins vegar, í ljósi þeirra auðlinda sem Grænland býr yfir, þá ætti efnahagur þeirra að taka við sér til heilla fyrir Grænlendinga sjálfa.
Eðlilega eru viðbrögðin sterk við þessari stefnubreytingu forseta Bandaríkjanna hjá bandalagsþjóðum. Hins vegar, ef marka má umræður í öldungadeild Bandaríkjanna í vikunni, þá virðast þessi áform forsetans eiga langt í land. Ásamt því liggur fyrir þingsályktunartillaga þess efnis að takmarka heimildir forsetans um að taka einhliða ákvörðun um stríðsrekstur þjóðarinnar.
Staða Íslands í alþjóðakerfinu er enn sterk út frá öryggis- og varnarhagsmunum. Fernt skiptir mestu í því samhengi, sem verður að halda til haga. Í fyrsta lagi að Ísland er herlaust ríki sem reiðir sig á varnarsamvinnu við önnur lýðræðisríki. Í öðru lagi þarf að styrkja þátttöku í starfi og verkefnum Atlantshafsbandalagsins – sem er ein meginvörn landsins. Í þriðja lagi þarf að efla varnarsamstarfið við Bandaríkin á grundvelli varnarsamnings frá 1951. Að lokum verður að styrkja þátttöku í svæðisbundnu samstarfi um varnar- og öryggismál með áherslu á norðurslóðir og norrænt varnarsamstarf. Þessar fjórar meginstoðir hafa að mestu verið gerðar í þverpólitískri sátt undanfarin ár og má finna í öryggis- og varnarmálastefnu utanríkisráðherra.
Rökstuðningur utanríkisráðherra um mikilvægi þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að styrkja varnir Íslands er veikur í besta falli, þar sem Evrópusambandið hefur ekki miðlægan her. Möguleg aðild að ESB er mjög umdeild og til þess fallin að sundra íslensku þjóðinni. Yfirvegun og festa eru lykilatriði fyrir Ísland á þessum viðsjárverðu tímum. Hringlandaháttur er ekki í boði. Sjálfstæði þjóðarinnar er okkar mesta auðlind og það ber að styrkja og verja.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. janúar 2026.
