Categories
Fréttir

Uppstilling í Norðurþingi

Deila grein

04/12/2013

Uppstilling í Norðurþingi

Toggi-formadurÁ félagsfundi hjá Framsóknarfélagi Þingeyinga s.l. laugardag var samþykkt að stilla upp á B-lista Framsóknarflokks í Norðurþingi. Jafnframt var samþykkt tillaga þess efnis að stjórn félagsins skuli skipa uppstillingarnefnd sem síðan leggur tillögu sína fyrir félagsfund.

Þorgrímur Sigmundsson er formaður Framsóknarfélags Þingeyinga. FRÉTTABRÉFI FRAMSÓKNAR lék forvitni á að vita meira um Þorgrím og fengum hann til að segja okkur eitt og annað af sér og flokksstarfinu.

Hvar ertu fæddur og hvenær?  Ég er fæddur á sjúkrahúsinu á Húsavík 18. apríl 1976. Í logni og glampandi sól.

Við hvað starfar þú?  Ég er verktaki hjá Íslandspósti (landpóstur) og þar áður var ég forvarnarfulltrúi og ráðgjafi hjá félagsþjónustu Norðurþings.

Hvers vegna framsóknarmaður?  Félagshyggju og samvinnuhugsjónin hefur fallið vel að þeim gildum sem ég vil standa fyrir. Hún er laus við öfgar hvort heldur sem er til hægri eða vinstri og felur í sér bæði áherslu á frelsi til athafna sem og sameiginlega ábyrgð á því að allir eigi að geta notið grunnréttinda. Sem endurspeglast t.d. í þeim skilningi að ríkisvaldið getur þurft að koma með afgerandi hætti að uppbyggingu atvinnutækifæra án þess þó að hefta einstaklingsframtakið.

Hvernig hefur vetrarstarfið farið í gang hjá félaginu?  Við hittumst alla laugardagsmorgna í Kiwanishúsinu og ræðum það sem ber hæst hverju sinni hvort heldur sem er í bæjarmálunum eða landsmálunum. Þessir fundir eru alla jafna vel sóttir og oft mikið fjör í umræðunni. Einnig höldum við með reglubundnum hætti sérstaka bæjarmálafundi og erum þá örlítið formlegri, kjörnir fulltrúar gera okkur þá betur grein fyrir gangi mála í sveitarstjórnarmálunum en á hefðbundnum laugardagsfundum. Þessir fundir eru mjög mikilvægir fyrir okkur og gegna lykilhlutverki þegar kemur að því sem nú er svo mjög kallað eftir, þ.e. opnari stjórnsýslu.

HPIM0539Framundan hjá okkur núna er hinn geisivinsæli jólagrautur og verður hann laugardaginn 14. desember í Kiwanishúsinu og þangað eru allir velkomnir. Í framhaldi af samþykkt félagsfundar okkar er uppstillingarnefndin nú að hefja vinnu við að setja saman framboðslista og reikna ég með því að fulltrúaráðið verði kallað saman, nefndinni til stuðnings, til að nýta krafta sem flestra, en í því felst mikill styrkur.

Framsóknarflokkurinn í Norðurþingi hefur alloft staðið sig vel í kosningum, fengið nær 40% atkvæða, hvað eruð þið að gera sem skilar svo góðum árangri?  Þar er margt sem spilar saman og ekkert eitt sem hægt er að draga út fyrir sviga. En nefna má í þessu samhengi öflugt grasrótarstarf, laugardagsfundirnir, bæjarmálafundirnir og almennt góða samfellu í flokksstarfinu. Þá hefur málefnastaða flokksins verið traust og við höfum borið gæfu til að stilla upp öflugum frambjóðendum af báðum kynjum á mismunandi aldri og með ólíka reynslu. Allt þetta hefur skapað góðan grunn fyrir hverjar kosningar.

FRÉTTABRÉF FRAMSÓKNAR óskar Framsóknarfélagi Þingeyinga velfarnaðar í starfi.