Categories
Fréttir

„Byggðamál er ekki bara verkefni landsbyggðarinnar“

Deila grein

11/09/2015

„Byggðamál er ekki bara verkefni landsbyggðarinnar“

ásmundur„Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Allir hafa heyrt um land sem lendir í hremmingum, efnahagslegum og pólitískum, og á um tvo kosti að velja, annars vegar að treysta á þjóðina sjálfa og fullveldið til að vinna sig úr vandanum, hins vegar að treysta á Evrópusambandið eða aðra erlenda aðila til þess að leysa vandann. Þessar línur eiga við um Ísland strax eftir efnahagshrun, en þær geta líka átt við land sunnar í Evrópu, Grikkland. Báðar þjóðir lentu fyrir sjö árum í kreppu sem að hluta var heimasmíðuð en að hluta alþjóðleg. Enginn er að halda því fram að ekki þurfi að bæta úr ýmsu hér á landi, en staðreyndin er hins vegar sú að Grikkir eru ólíkt Íslendingum enn í mjög djúpri kreppu og ekki sér fyrir endann á henni.
Þjóðarskuldir Grikkja nema í dag um 200% af landsframleiðslu og hafa tvöfaldast frá því svokallaðar björgunaraðgerðir hófust, enda hafa björgunaraðgerðir fyrir Grikki einkum falið í sér yfirtöku gríska ríkisins á gífurlegum skuldum einkaaðila samhliða yfirtöku annarra þjóða á mikilvægum innviðum samfélagsins. Ísland gat hins vegar í krafti fullveldis sett neyðarlög á bankakerfið. Sagan sýnir okkur að Íslendingar standa í þakkarskuld við þá einstaklinga sem stóðu að undirbúningi og börðust fyrir framgangi þeirra laga. Þrátt fyrir neyðarlögin þá munaði litlu á síðasta kjörtímabili að Íslandssagan endaði í grískum harmleik. Með þrýstingi erlendis frá var ítrekað reynt að fá þjóðina til að yfirtaka skuldir einkaaðila. Þetta væru ekki nema bara nokkur hundruð milljarðar, meðal annars í formi Icesave-skulda. Almenningur reis upp og þjóðin hafnaði því ítrekað að ríkisvæða skuldir einkaaðila. Forsetinn greiddi götu þjóðarinnar að málinu og fyrir það á hann þakkir skildar.
Á sama tíma og Grikkir bæta enn við skuldir sínar eru Íslendingar, undir forustu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og í krafti fullveldis, að taka lokaslaginn frá hruni. Það er að taka á þrotabúum fallinna fjármálastofnana með stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlagi sem mun skila ríkissjóði háum fjárhæðum. Svo tala menn um hægri stjórn.
Síðasta vor samþykkti Alþingi tvö frumvörp þar að lútandi. Annað gerir ráð fyrir fastri skattlagningu á þrotabú, en hitt veitir kröfuhöfum tímabundið svigrúm til að leggja fram raunhæfar hugmyndir um nauðasamninga. Trúir því virkilega einhver að Evrópski seðlabankinn hefði lagt blessun sína yfir sambærilegar aðgerðir í Grikklandi?
Í krafti fullveldis er lokakafli þessa máls að hefjast og það er mikilvægt að standa fast á hagsmunum Íslands og verja stöðu almennings og fyrirtækja. Fari svo að ákveðnir kröfuhafar leggi fram tillögu að nauðasamningum þá verður það að fara formlega fyrir Seðlabanka Íslands, fyrir ríkisstjórn Íslands og fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þetta opna ferli er mikilvægt til að tryggja hagsmuni Íslands og eftirlit með því að lífskjör almennings séu nægilega vel varin.
Góðir landsmenn. Einn helsti kostur Íslendinga er að við erum þjóð sem leysir eigin vandamál, þjóð sem lætur ekki segja sér fyrir verkum, þjóð sem vill og getur stjórnað sér sjálf. Þess vegna kallar almenningur eðlilega í auknum mæli eftir beinu lýðræði. Við því þarf að bregðast.
Síðustu ár hafa hins vegar sýnt okkur að fullveldið er ekki síður mikilvægt þjóðinni en beina lýðræðið. Nú stendur yfir vinna við að endurskoða stjórnarskrá Íslands. Í þeirri vinnu er jafn mikilvægt að veikja ekki fullveldi landsins og að auka beint lýðræði. Það er líka áhyggjuefni að í gegnum tíðina hafa stjórnmálamenn í of miklum mæli aukið völd stofnana og embættismanna. Það er enginn að kalla eftir því að stjórnmálamenn fari á nýjan leik að stýra bönkum og sitja í lánanefndum líkt og tíðkaðist á árum áður. En getur verið að Ísland, þetta litla kraftmikla samfélag, sé búið að byggja upp of mikið kostnaðarsamt og svifaseint kerfi? Ég óttast að svo sé.
Ég hef orðið var við það af samtölum við meðal annars erlenda stjórnmálamenn að vaxandi efasemda gætir gagnvart auknu valdi utanaðkomandi aðila, stofnana, embættismanna og æ fleiri tala um mikilvægi þess að styrkja stöðu þeirra sem kosnir eru með lýðræðislegum hætti.
Við þurfum í stórauknum mæli að horfa á jöfnun búsetuskilyrða. Núverandi ríkisstjórn er búin að ljúka við jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar sem var mikið réttlætismál fyrir mörg svæði. Hafin er vinna við að ljósleiðaravæða allt landið, en það er mjög mikilvægt verkefni og þarf að vinnast hratt og vel.
Boða þarf til sambærilegra átaksverkefna á sviði samgöngumála og menntamála. Eitt mikilvægasta byggðamálið er að efla menntun á landsbyggðinni. Þar er sama hvort um er að ræða háskólana í Borgarfirði, Skagafirði, á Akureyri, háskólasetrin vítt og breitt um landið, eða fjölbrautaskólana vítt og breitt um landið.
Byggðamál er ekki bara verkefni landsbyggðarinnar. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að halda öllu landinu í byggð. Við getum ekki horft aðgerðalaus á byggðahnignun síðustu áratuga. Þetta þarf að vera eitt af forgangsmálum á seinni hluta kjörtímabilsins.
Við þurfum að búa vel að útflutningsgreinum þjóðarinnar, ferðaþjónustunni, þekkingariðnaðinum, sjávarútveginum og þeim fjölmörgu atvinnugreinum sem blómstra. Ísland þarf að eiga viðskipti við sem flestar þjóðir, enda skiptir aukin og dreifð gjaldeyrissköpun þjóðarbúið miklu. Það er til að mynda full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri viðskiptastöðu sem Íslendingar eru í gagnvart sölu á sjávarafurðum eftir lokun markaða í Austur-Evrópu og þeirra áhrifa sem það hefur á íslenskan efnahag og einstök byggðarlög.
Góðir landsmenn. Á sama tíma og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er að koma íslenskum efnahag á skrið þá ber okkur skylda til að huga að öðru mikilvægu máli. Það eru í gangi miklar stríðshörmungar í Sýrlandi og reyndar víðar. Íslendingar mega ekki sitja hjá þegar kemur að þessum málum. Okkur ber skylda til þess að leggja okkar af mörkum, bæði í formi fjárhagslegra framlaga, í móttöku flóttamanna og annarrar aðstoðar. Þarna getum við ekki eingöngu hugsað um það sem borgar sig fjárhagslega.“

Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarmanna
145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.