Categories
Greinar

Háir vextir

Deila grein

10/08/2017

Háir vextir

Háir vextir hér á landi eru undirliggjandi vandi hagkerfisins og hafa mikil áhrif á gengisflökt krónunnar. Háir vextir draga erlent fjármagn til landsins sem veldur sveiflukenndu gengi. Háir vextir valda því að íslensk heimili greiða nokkrum milljónum króna meira af húsnæðislánum sínum borið saman við löndin í kringum okkur og fyrirtækin greiða hærri fjármagnskostnað. Háir vextir eru tilkomnir vegna ákvörðunar Seðlabankans og bankarnir græða. Þetta er hins vegar hægt að laga, næsti vaxtaákvörðunardagur er 23. ágúst.

Verndun vaxta
Háir vextir sem leiða óhjákvæmilega til vaxtamunaviðskipta eru í eðli sínu óstöðug atvinnugrein innan hagkerfisins og valda þrýstingi á gjaldmiðilinn. Fjármálaráðherra lætur reka á reiðanum. Fer í herferð gegn eigin mynt og heldur hinu gagnstæða fram, að háir vextir séu tilkomnir vegna óstöðugleika krónunnar. Staðreyndin er sú að eftirspurnin eftir háum vöxtum er mikil og krónan sveiflast í kjölfarið. Þeir sem fjármagnið eiga sækjast eftir því að fjárfesta hér á hærri vöxtum en hægt er að fá í öðrum löndum. Hagkerfið er gjörbreytt frá 2003 þegar núverandi peninga- og hávaxtastefna voru tekin upp. Núna erum við útflytjendur á fjármagni.

Viðvarandi vaxtavandamál
Hætturnar eru kunnuglegar. Þegar verðbólguvæntingar aukast þá er líklegt að Seðlabankinn hækki vexti og dragi til sín fleiri fjárfesta sem styrkir krónuna enn frekar. Fjárfestar munu ekki hika í sínum ákvörðunartökum og geta metið að hæstu hæðum krónunnar sé náð, farið út með sitt fé, allir í einu og afleiðingin er gamalkunn; gengið fellur og verðbólgudraugurinn rankar við sér.
Það er því ekki boðlegt að ráðstöfunarfé almennings stýrist af væntingum fjárfesta, hvort þeir eigi að selja krónurnar eða ekki sem þeir eru að ávaxta hér á landi. Þeir sem fjármagnið eiga stýra sveiflunum, hagnast sem aldrei fyrr – og bilið breikkar milli þeirra sem eiga og hinna sem greiða.

Það sem þarf að gera
Ráðaleysi er einkennandi fyrir ríkisstjórnina. Fjármálaráðherra og hans flokkur sem á aðild að ríkisstjórn eiga þá ósk heitasta að skipta út krónunni út fyrir evru. Þeir efnameiru skuli auk þess hagnast á háum vöxtum. Ekki verður heldur séð að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi beinst sérstaklega að því að undirbúa hagkerfið til að taka á móti sveiflum. Er ekki skynsamlegt að halda áfram að byggja upp gjaldeyrisforða til að vega upp á móti útstreymi fjármagns? Á sama hátt er brýnt að byggja upp stöðugleikasjóð með það að markmiði að hjálpa til við efnahagslegan stöðugleika. Vaxtamunaviðskipti er of áhættusöm atvinnugrein og leiðir til meira ójafnvægis en hagkerfið ræður við. Ójöfnuður eykst. Þess vegna þarf að lækka vexti.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 10. ágúst 2017

Categories
Greinar

Stóra myndin í uppbyggingu fiskeldis

Deila grein

09/08/2017

Stóra myndin í uppbyggingu fiskeldis

Síðastliðið haust setti ég af stað sem sjávarútvegsráðherra, vinnu við stefnumótun fyrir fiskeldi en þar var lagt upp með að taka tillit til allra þeirra þátta sem varða uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Erfðablöndun er mikilvægur þáttur af þeirri heildarmynd en alls ekki sá eini. Árið 2004 var megnið af strandlengju landsins lokað fyrir fiskeldi til þess að passa uppá íslenska laxastofninn og þá sérstaklega gagnvart erfðablöndun. Í ráðherratíð minni var ég spurður útí þá aðgerð af ráðherrum annarra landa, sem fannst mikið til koma hve langt Íslendingar væru að ganga til þess að vernda íslenska laxastofninn.

Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun er ágætt fyrsta skref til þess að meta áhrifin af fiskeldi betur, stofnunin nefnir hinsvegar sjálf að óvissa sé mikil um niðurstöður enda verið að beita þessari aðferðafræði í fyrsta sinn. Fram hafa komið greinargóðar athugasemdir um að ekki sé tekið tillit til fyrirbyggjandi aðgerða í skýrslunni. Auðvitað verður að gera þá kröfu að sú þekking og tækni sem sem er til staðar sé nýtt til þess að fyrirbyggja mögulegan skaða og eðlilegt að taka tillit til þess er kemur að ákvöðrun um framhald fiskeldis í Djúpinu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina, a.m.k. var það markmið mitt er vinnan var sett af stað. Það þýðir að taka þarf einnig inn samfélagslega- og byggðalega þætti. Ekki er hægt að komast að niðurstöðu án þess að samfélagsleg áhrif séu metin.

Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis.

Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.

Þegar ég tók þá ákvörðun að fiskeldissvið Hafrannsóknarstofnunar skyldi staðsett á Ísafirði frá og með árinu 2018 og að eftirlit Matvælastofnunar yrði staðsett á Vestfjörðum og Austfjörðum, var það m.a. til að sýna í verki áherslu stjórnvalda á mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir landsbyggðina. Hlakka ég til að sjá starfsemi þessara stofnana vaxa og eflast á Vestfjörðum í nálægð við uppbygginguna.

Í stærra samhengi er svo fiskeldi að verða sífellt stærri hluti af fiskneyslu í heiminum og við sem sjávarútvegsþjóð getum ekki setið eftir. Mikil verðmætasköpun fylgir eldinu sem þjóðarbúið og byggðir landsins njóta, viðsnúningurinn á sunnanverðum Vestfjörðum er lifandi dæmi þess.

Við erum í þeirri forréttindastöðu að vera að byggja eldi hér upp nánast frá grunni, þannig getum við lært af mistökum okkar og annarra eldisþjóða og tryggt að gera þetta rétt og vel. Vestfirðingum hefur fækkað um 25% á síðustu 30 árum og þeir eru ekki að biðja um álver eða stóriðju, þeir eru að biðja um sanngirni ríkisvaldsins, að það leggist ekki í veg fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu með boðum og bönnum heldur finni lausnir á þeim vandamálum sem fylgt geta slíkri starfsemi. Fyrir því mun ég berjast inní umhverfisnefnd þingsins og á þinginu sjálfu.

Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður.

Greinin birtist á bb.is 8. ágúst 2017.

Categories
Greinar

Leiksýning fjármálaráðherra

Deila grein

21/07/2017

Leiksýning fjármálaráðherra

Íslensk hagstjórn stendur frammi fyrir tveimur umfangsmiklum verkefnum á næstu misserum. Annars vegar að byggja upp traust á fjármálakerfinu og hins vegar að endurskoða peningastefnuna.

Til að auka traust og tiltrú á fjármálakerfinu og stofnanaumgjörðinni er nauðsynlegt að ráðist sé í breytingar og að eftirlit með fjármálastofnunum verði fært undir einn hatt í stað tveggja eins og er í dag. Sameina þarf starfsemi Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins er lýtur að bankaeftirliti. Í byrjun júlímánaðar tók gildi ný eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkisstjórnin stefnir að því að ríkið eigi 34-40 prósenta eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa en annað verði selt þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Engin haldbær rök eru færð fyrir því hvers vegna ríkissjóður hyggst eiga að hámarki 40 prósent í Landsbankanum, en ekki meira eða minna. Ástæða þess er einföld, það skortir sýn í þessu veigamikla máli.

Til þess að stefnumótun sé farsæl og trúverðug þarf bæði skýra framtíðarsýn og góðan undirbúning. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hafnað gjaldmiðli þjóðarinnar án þess að vera búinn að undirbúa málið nokkuð innan ríkisstjórnarinnar. Skipuð var verkefnastjórn um endurmat á peningastefnu þar sem gengið er út frá því að umgjörð krónunnar verði bætt. Óskað hefur verið eftir samvinnu og sátt um vinnu þessarar verkefnastjórnar. En hvernig er það hægt þegar fjármála- og efnahagsráðherra ætlar sjálfur ekki að leyfa verkefnastjórninni að vinna í friði og er kominn með fyrirframgefna niðurstöðu? Hvað mun ráðherrann gera ef verkefnastjórnin kemst að annarri niðurstöðu en ráðherrann? Er Viðreisn þá sætt í ríkisstjórninni? Eða er ekkert að marka orð fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann tekur afstöðu í grundvallarmáli eins og þessu? Það er fáheyrt að fjármálaráðherra þjóðríkja tali gegn eigin gjaldmiðli. Ef mark er tekið á ráðherranum þá veikist gjaldmiðillinn og almenningur verður fyrir kjararýrnun.

Þetta nýjasta krónufrumhlaup ráðherrans minnir okkur á þegar hann ætlaði að kasta 10.000 króna seðlinum án æskilegs undirbúnings og hörfaði á mettíma af leiksviðinu með málið. Þjóðin á betri vinnubrögð og undirbúning skilið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. júlí 2017.

Categories
Greinar

Okurvextir

Deila grein

21/07/2017

Okurvextir

Háir vextir hérlendis eru undirliggjandi vandi hagkerfisins. Í gegnum árin hafa vextir alltaf verið háir óháð því hvort hér sé kreppa með fjármagnshöftum eða blússandi gangur í hagkerfinu. Íslensk heimili greiða nokkrum milljónum krónum meira af húsnæðislánum sínum borið saman við löndin í kringum okkur og fyrirtækin greiða hærri fjármagnskostnað. Þetta er hins vegar hægt að laga.

Stýrivextir eru nú 4,75% á með­an þeir eru við núllið í nágrannalöndum okkar. Ekki hafa fengist skýr svör frá Seðlabankanum hvers vegna vextir hér á landi þurfa að vera háir – alltaf! Seðlabankinn tók hænuskref til lækkunar í vor en hafa þær eitthvað að segja? Nærtækara hefði verið að taka skrefið til fulls til lækkunar, því ef aðgerðir Seðlabankans ná ekki tilætluðum árangri er hætt við að hann missi trúverðugleikann.

Hvað veldur?

Frá ársbyrjun 2014 hefur Seðlabankinn spáð hærri verðbólgu en raunin hefur orðið og miðað stýrivexti við þær spár. Afleiðingin er sú að Seðlabankinn hefur haldið vöxtum of háum allan þennan tíma.

Þá er því haldið fram að vaxtamunurinn við útlönd sé rakinn til þess að verðbólga hafi verið hærri hérlendis en erlendis. Það leiði til þess að verðbólguvæntingar séu hærri sem síðan hljóti að leiða til hærri nafnvaxta. Jafnframt hefur því verið haldið fram að sparnaðarvilji sé fremur lítill meðal almennings og því þurfi tiltölulega hátt raunvaxtastig til þess að halda innlendri eftirspurn í skefjum á uppsveiflutímum. Þessi sögulegu rök eru í sjálfu sér góð og gild.

Breyttir tímar

En nú er ljóst að einkaneysla hefur aukist hægar en vöxtur ráðstöfunartekna, samhliða að skuldir heimila hafa lækkað sem hluti af landsframleiðslu.

Og að staðan er sú að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið undir skilgreindum markmiðum Seðlabankans nú á fjórða ár og hagkerfið er gjörbreytt frá því sem áður var. Við erum í raun orðin að útflytjendum á fjármagni.

Hvað þýða háir vextir?

Háir vextir ýta undir ójöfnuð hér á landi. Heimilin borga stærri hlut ráðstöfunartekna sinna til fjármálageirans í formi vaxta. Þeir sem fjármagnið eiga hagnast sem aldrei fyrr – og bilið breikkar milli þeirra sem eiga og hinna sem greiða. Þá verða fjárfestingar mun dýrari fyrir fyrirtækin og atvinnulífið minna samkeppnishæft við erlend fyrirtæki og þar með innflutning.

Háir vextir sem leiða til vaxtamunaviðskipta eru í eðli sínu óstöðug atvinnugrein innan hagkerfisins og valda óþarfa þrýstingi á krónuna.

Ekki er eftirsóknarvert að bjóða erlendum fjárfestum upp á hærri vexti ef tilgangur þeirra er aðeins skammtímagróði. Viðvarandi gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðamanna er eitt, en skammtíma innflæði vegna vaxtamunar er allt annað og mun verra ef stýringin er ekki rétt. Ástæðan er sú að allt í einu geta fjárfestar tekið ákvörð­ un um að hæstu hæðum krónunnar sé náð, farið út með sitt fé, allir í einu og afleiðingin er gamalkunn; gengið fellur og verðbólgudraugurinn rankar við sér.

Afleiðing hárra vaxta verður einnig til þess að innlendir fjárfestar, s.s. lífeyrissjóðir þora ekki að fjárfesta erlendis. Einn daginn geta þeir ekki beðið lengur– allir fara út í einu – enginn vill vera síðastur – afleiðingin er þekkt!

Það sem þarf að gera

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans þurfa að beinast að því að jafna sveiflur og laga galla. Fjármagnið sem kemur inn þarf að vera eftirsóknarvert og lífeyrissjóðirnir þurfa að sjá ávinning í því að dreifa áhættunni með því að nýta sér kaup á erlendum eignum.

Til að spyrna á móti háu vaxtastigi og fyrirbyggja skaðleg áhrif sterks gengis á útflutningsatvinnugreinarnar þá þarf að halda áfram að byggja upp gjaldeyrisforða. Seðlabankinn hefur ekki getað rökstutt með skýrum hætti hvers vegna reglubundnum gjaldeyriskaupum var hætt og kom sú tilkynning nokkuð á óvart að ekki væri talin þörf fyrir frekari stækkun forðans. Þess í stað keypti Seðlabankinn krónur sem var líka nokkuð óvænt.

Á sama hátt er brýnt að byggja upp stöðugleikasjóð með það að markmiði að hjálpa til við efnahagslegan stöðugleika.

Vaxtamunaviðskipti er of áhættusöm atvinnugrein og leið­ir til meira ójafnvægis en hagkerfið ræður við. Þess vegna þarf að lækka vexti. Seðlabankinn hefur tækifæri til að bregðast við 23. ágúst næstkomandi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 20. júlí 2017.

Categories
Greinar

Vitlaust gefið

Deila grein

20/07/2017

Vitlaust gefið

Heilbrigðisþjónustunni á Suðurnesjum er ábótavant. Það er staðreynd sem íbúum hér er vel kunn. Nýleg úttekt Landlæknis á starfseminni staðfestir þetta. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur mætt afgangi í kerfinu um árabil. Suðurnesin eru öflugt og ört vaxandi samfélag sem tekur einnig á móti miklum fjölda ferðamanna á ári hverju. Við þurfum því að tryggja rekstur HSS til framtíðar.

HSS fær næstminnst úr ríkissjóði
Í Víkurfréttum birtist nýlega grein frá hjúkrunarráði HSS. Greinin bar heitið: „Nú þurfa allir að taka á honum stóra sínum“. Undirrituð taka heilshugar undir það. Í grein hjúkrunarráðs var farið yfir nokkrar afar mikilvægar staðreyndir er varða stöðu HSS, eins og til dæmis að Slysa- og bráðamóttaka HSS er með minnstu mönnun miðað við aðrar stofnanir á landinu þrátt fyrir að vera ein af þremur stærstu slysa- og bráðamóttökum landsins. Deildarstjórar Slysa- og bráðamóttöku HSS rituðu einnig grein í VF þar sem þær draga fram það misræmi sem er á milli úthlutunar ríkisfjár til heilbrigðisstofnanna. Þar fer HSS verulega halloka en samkvæmt  skýrslu Ríkisendurskoðun (mars 2016) kom fram að HSS fékk næst minnst allra heilbrigðisstofnana landsins eða tæpa 2,5 milljarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands fékk 4,7 milljarða sem er svipað og Suðurland fékk. Eina stofnunin sem fékk minna en við voru Vestfirðirnir með tæpa 2 milljarða en Vestfirðirnir eru talsvert minna samfélag en Suðurnesin. HSS tekur á móti svipuðum fjölda sjúklinga og bráðamóttakan á Akureyri.

Starfsfólk þarf að hlaupa hraðar
Í nýlegri rannsókn kemur m.a. að aukning í komum á erlendum ferðamönnum á bráðamóttöku HSS hefur aukist um 344% milli áranna 2005 og 2016. Aðrir þættir hafa líka áhrif, eins og gríðarleg fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun hælisleitenda. Margir íbúar Ásbrúar eru hér tímabundið og eru því ekki skráðir með lögheimili hér en fá samt sem áður þjónustu hjá HSS. Auðvitað þarf að taka slíka þætti með í dæmið þegar fé er úthlutað til reksturs. Þrátt fyrir þessa fjölgun þjónustuþega hefur mönnun á vaktir ekki aukist. Eftir miðnætti er t.d. enginn hjúkrunarfræðingur á vakt á slysa- og bráðamóttökunni, aðeins einn læknir. Um helgar er enn styttri vöktun en þá er enginn hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku í 16 klukkustundir af 24. Þessi þjónusta er ekki boðleg fyrir samfélag sem telur ríflega 20 þúsund íbúa auk þess að hér er staðsett alþjóðleg flugstöð og mest sótti ferðamannastaður landsins, Bláa lónið. Þetta álag er heldur ekki boðlegt fyrir starfsfólk HSS sem gerir sitt allra besta tili að hlúa að veikum og slösuðum alla daga, allt árið.

Tryggjum sanngjarnari skiptingu fjármagns
Ástandið á HSS er því miður lýsandi fyrir heilbrigðiskerfið okkar að mörgu leyti. Það hefur þróast en þó ekki verið gerð heildstæð stefnumótun fyrir kerfið til langs tíma. Heilbrigðiskerfið virðist stundum lifa sjálfstæðu lífi og fjármagni útdeilt eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Þessu viljum við Framsóknarmenn breyta og gerðum að forgangsmáli okkar á síðasta þingi að gerð yrði heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Málið var samþykkt á vordögum og nú stendur yfir vinna í heilbrigðisráðuneytinu sem við fáum fregnir af frá ráðherra á haustdögum.

Hvað felst í heilbrigðisáætlun?
Áætlunin gengur m.a. út á að fé verði úthlutað til stofnana með markvissum hætti og tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, forvarna og lýðheilsu og umfangi ferðamannastaða, svo eitthvað sé nefnt. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt. Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Að lokum er skýrt kveðið á um að fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið komi að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.

Heildstætt kerfi og jafnræði
Tölurnar sýna okkur það svart á hvítu að það er ekki rétt gefið. Því þarf að bregðast við strax en fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir 2018 verður lögð fyrir þingið í september. Heilbrigðisáætlunin er verkefni sem mun til lengri tíma tryggja aukið jafnræði á milli stofnana og að heilbrigðiskerfið okkar sé byggt markvisst upp og horft til allra þátta þess.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Víkurfréttum 20. júlí 2017.

Categories
Greinar

Byggjum upp traust

Deila grein

15/07/2017

Byggjum upp traust

Margt hefur áunnist á undanförnum árum er varðar endurreisn eftir efnahagsáfallið haustið 2008. Þeirri vegferð er þó ekki lokið þar sem íslenskt samfélag á nokkuð í land með að endurvekja traust til fulls. Þar er sérstaklega horft til fjármálakerfisins en atburðir liðinna mánaða gefa til kynna svo ekki verður um villst að þar er enn verk að vinna þó margt hafi áunnist. Regluverk bankakerfisins hefur verið stórbætt frá hruni til að draga úr áhættu. Eftirlit þarf að vera skilvirkt og grípa inn í þegar þörf krefur. Tiltrú almennings er forsenda þess að traust sé endurvakið, að almenningur upplifi að gripið sé inn í ef hætta steðjar að. Vísbendingar eru um að sú tiltrú sé ekki til staðar auk þess sem stjórnvöld skortir sýn um framtíð fjármálakerfisins. Þess vegna þarf að bregðast við nú þegar komið er að því að selja banka til einkafjárfesta. Með því að sameina eftirlit með bönkunum á einum stað má auka skilvirkni og traust.

Efnahagsleg endurreisn hefur gengið vel
Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið vonum framar. Hagvöxtur er kröftugur, fjölmörg störf hafa orðið til, skuldir heimila og ríkissjóðs lækkað og erlendar eignir eru nú meiri en erlendar skuldir í fyrsta sinn síðan mælingar hófust. Að sama skapi hafa átt sér stað miklar breytingar á íslensku fjármálakerfi frá því að bankakerfið hrundi. Regluverk hefur verið aukið í þeim tilgangi að draga úr áhættu kerfisins og stofnanaumgjörð hefur verið efld. Ríkari kröfur eru nú gerðar til fjármálafyrirtækja bæði hvað varðar fjárhagslega stöðu sem og stjórnarhætti. Bankakerfið hefur minnkað og er nú brot af því sem áður var eða rúm 150% af landsframleiðslu. Bankarnir standa mun betur en áður enda með ríflegt eigið fé, vanskil hafa minnkað verulega og kjör á erlendri markaðsfjármögnun hafa batnað mikið.

Efasemdir í tengslum við bankasölu
Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun þá skortir enn á traust og eru nokkur nýleg dæmi um það. Eitt slíkt er nýleg sala á stórum hlut í Arion banka til erlendra vogunarsjóða.Margir hafa goldið varhug við þessari þróun og má nefna a.m.k. þrjár ástæður þess. Í fyrsta lagi þá er ekki vitað hverjir eiga þessa sjóði. Gagnsætt eignarhald er forsenda þess að skapa traust og tiltrú á íslensku bankakerfi. Í öðru lagi má nefna vafasama fortíð eins sjóðanna en hann tengist mútumáli í Afríku. Það sýnir ágætlega hversu langt slíkir aðilar ganga til að verja sína hagsmuni. Í þriðja lagi er alls kostar óljóst hverjar fyrirætlanir nýrra eigenda eru. Eins og fyrr segir eru íslensku bankarnir með ríflegt eigið fé og því hugsanlegt að nýir eigendur vilji greiða sér myndarlegan arð úr Arion. Eins er ekki hægt að útiloka það að einstaka eignir Arion, sbr. dótturfélög bankans, verði seld í þeim tilgangi að skila eigendum bankans fjármunum. Kjarni málsins er sá að ef eftirlitið virkar sem skyldi þá geta eigendur bankanna ekki gengið of nærri þeim og þar með varpað of mikilli áhættu á samfélagið.

Viðbrögð stjórnvalda vekja ekki traust
Áhyggjur almennings í tengslum við þetta mál benda til þess að tiltrú skorti á eftirlit, að eigendur banka geti farið með þá eign sína að vild án þess að gripið sé inn í og að almenningur sitji eftir með reikninginn ef illa fer. Ef ekki tekst að auka traust og tiltrú á fjármálakerfið, þá mun næsti áfangi í endurreisninni misheppnast. Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því málið kom inn á borð stjórnvalda hefur málið lítið skýrst. Fjármálaeftirlitið hefur ekki svarað lykilspurningum í málinu eins og hvort einhver hinna nýju hluthafa í Arion banka fari með virkan eignarhlut, beint eða óbeint. Margítrekað hefur efnahags- og viðskiptanefnd óskað eftir skýrari rökstuðningi en hann hefur ekki fengist þrátt fyrir fundi og skrifleg samskipti við Fjármálaeftirlitið. Þrátt fyrir skort á upplýsingum þegar málið var kynnt opinberlega taldi fjármála- og efnahagsráðherra ekki eftir sér að fagna viðskiptunum og segja að nú væru vogunarsjóðirnir að veðja með Íslandi. Þessi framganga er ekki til að byggja upp traust á kerfinu.

Styrkja þarf fjármálaeftirlit til að byggja upp traust
Fyrir hina alþjóðlegu fjármálakreppu sem hófst árið 2008 þá var í mörgum ríkjum starfsemi fjármálaeftirlits og seðlabanka aðskilin, m.a. vegna þess að skynsamlegt þótt að aðskilja ætti eftirlit með öryggi innstæðueigenda og fjármálastöðugleika. Bankaeftirlitið var aðskilið Seðlabanka Íslands árið 1999 og Fjármálaeftirlitið stofnað. Í fjármálakreppunni komu fram miklir gallar á þessari hugmyndafræði sem gekk út á að skilja að peningalegan og fjármálalegan stöðugleika, þar sem heildarsýn á áhættuþætti fjármálakerfisins skorti hjá seðlabankanum sem lánveitanda til þrautavara. Fram hafa komið sterk rök hjá sérfræðingum á þessu sviði í þá veru að bankaeftirlit eigi heima hjá seðlabankanum. Nefnt er þar að skipulag fjármálaeftirlits, þ.e. aðskilnaður Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, hafi haft þau áhrif að lánveitandi til þrautavara hafi haft ófullnægjandi mynd af fjárhagslegri stöðu bankanna í aðdraganda fjármálahrunsins á Íslandi. Þróunin hefur verið sú hjá þeim ríkjum sem lentu í mestum erfiðleikum í fjármálakreppunni að þau hafa verið að færa seðlabönkum sínum auknar heimildir á sviði þjóðhagsvarúðar og nefna má Holland og Írland. Sum ríki, líkt og Bretland, hafa sameinað eftirlit með fjárhagsstöðu lánastofnana á nýjan leik innan Englandsbanka. Þar í landi er einnig rekin stofnun, FCA, sem annast neytendavernd á fjármálamarkaði og að fjármálafyrirtæki breyti í samræmi við góða viðskiptahætti.

Veigamikil rök hníga í þá átt að sameina fjármálaeftirlit á Íslandi. Í fyrsta lagi mun það auka heildarsýn á helstu áhættuþætti fjármálakerfisins að sameina krafta Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Í öðru lagi með því að sameina eftirlit með lausafjárstöðu viðskiptabanka og eiginfjárstöðu þeirra, þá verður framkvæmd fjármálaeftirlits skýrari og auðveldara fyrir lánveitanda til þrautavara að bregðast við með skilvirkari hætti. Í þriðja lagi mun takast betur að viðhalda peningalegum og fjármálalegum stöðugleika í hagkerfinu með því að stýritæki þjóðhagsvarúðarstefnu séu hjá einum aðila. Í fjórða lagi þá mun mannauður nýtast betur og upplýsingaskipti verða greiðari með þessu fyrirkomulagi. Þekkingargrunnur sameinaðs eftirlits verður fjölbreyttari og þar af leiðandi meiri slagkraftur. Kallað hefur verið eftir endurskoðun á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og ætti endurskoðunin að horfa til ofangreindra þátta.

Hörð gagnrýni AGS á fjármálaeftirlit
Það er ekki eingöngu almenningur á Íslandi sem óttast að eftirlitið sé ekki nægilega skilvirkt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýverið reglubundna skýrslu sína um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. Meginniðurstöðurnar eru jákvæðar og bent á að Ísland hafi náð miklum árangri eftir fjármálahrunið. Sá árangur hefur verið drifinn áfram af ferðaþjónustu, hagfelldum ytri skilyrðum og síðast en ekki síst skynsamlegri nálgun er varðar úrlausn á fjármálahruninu og eftirmálum þess. Hins vegar er bent á að teikn séu á lofti um ofþenslu hagkerfisins. Ekkert í þessari umsögn kemur á óvart og í samræmi við fyrri álit.

Hörð gagnrýni AGS á fjármálaeftirlit í landinu vekur hins vegar mikla athygli. AGS segir styrkingu fjármálaeftirlits vera forgangsatriði í stefnumótun fyrir fjármálakerfið. Sérstaklega er nefnd sala á hlut í Arion banka og tilgreint að áhættusækni gæti aukist innan kerfisins ef fjármálaeftirlitið sé ekki eflt. Lagt er til að stjórnvöld taki djarfar ákvarðanir og að stofnanauppbyggingin sé endurskoðuð í þeim tilgangi. Annars vegar að fjárhagslegt og rekstrarlegt sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins sé aukið frá fjármálaráðuneytinu og hins vegar að eftirlit með bankakerfinu og lausafjárstöðu þess verði flutt aftur til Seðlabanka Íslands. Meginástæða þess er að þá hefur lánveitandi til þrautavara mun betri yfirsýn yfir bankakerfið og verkaskipting verður skýrari og einfaldari.

Auglýst eftir framtíðarsýn um bankakerfið
Bankakerfið þarf að þjóna almenningi og atvinnulífi á hagkvæman hátt. Fjármálakerfið þarf að vera traust og almenningur að bera traust til þess sem og til eftirlits. Áður en lengra er haldið og tilkynnt er um umfangsmikla eignasölu á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum þarf að útfæra nánar hvernig fjármálakerfi hentar okkur best og hvernig megi styrkja umgjörðina enn frekar. Stjórnvöld, sem setja fjármálakerfinu umgjörð auk þess að vera hluthafi í bönkunum þremur, virðast skila auðu þegar kemur að framtíðarskipan fjármálakerfisins. Í byrjun júlímánaðar tók gildi ný eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn fyrir framtíðarskipan á fjármálamarkaði er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkisstjórnin stefnir að því að ríkið eigi 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa. Að öðru leyti er nefnt að 60-66% eignarhlutur í bankanum verði seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkaði.

Ríkisstjórnin stefnir að því að selja allan eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa. Engin haldbær rök eru færð fyrir því hvers vegna ríkissjóður hyggst eiga að hámarki 40% í Landsbankanum, en ekki meira eða minna. Ástæða þess einföld. Hún er sú að stjórnvöld skortir sýn í þessu veigamikla máli. Það er verðugt umhugsunarefni að ný eigendastefna hafi tekið gildi án þess að vinna sé hafin við heildarendurskoðun á framtíðarskipan fjármálakerfisins. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli stjórnendum bankanna sjálfra að móta slíka stefnu. Almenningur á Íslandi þarf því að reiða sig á erlenda vogunarsjóði, nýja eigendur Arion banka, til að móta slíka sýn fyrir ríkisstjórnina.

Bregðast þarf við fyrir sölu banka
Til að auka traust og tiltrú á fjármálakerfinu og stofnanaumgjörðinni er nauðsynlegt að ráðast í breytingar og færa eftirlit með fjármálastofnunum undir einn hatt í stað tveggja í dag. Að sama skapi þarf að útfæra framtíðarstefnu um fjármálakerfið áður en ráðist er í frekari sölu á bönkum. Að öðrum kosti mun ekki takast að byggja upp traust í samfélaginu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 2017.

Categories
Fréttir

Vinnuhópur tekur að sér stefnumótun í ferðaþjónustu

Deila grein

13/07/2017

Vinnuhópur tekur að sér stefnumótun í ferðaþjónustu

Framkvæmdarstjórn Framsóknarflokksins hefur sett af stað vinnuhóp við að móta tillögur til stefnumótunar fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu. Hópurinn er tilkominn vegna ályktunar á vorfundi miðstjórnar flokksins.
Hópinn skipa fulltrúar og ferðaþjónustuaðilar með víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu vítt og breitt um landið. Tilgangur hans er að móta tillögur sem miða að því að bæta framleiðni í greininni, tryggja sjálfbærni, auka skilvirkni, nýsköpun og þjálfun.
Það er fagnaðarefni að fá svona öflugt fólk, með reynslu úr ferðaþjónustu og er eða hefur verið í miklum samskiptum við ferðamanninn sjálfan, til að takast á við þetta brýna verkefni. Ríkisstjórninni hefur ekki auðnast að taka mikilvægar ákvarðanir tengdar greininni sem miða að því að skapa umhverfi sem gefur möguleika á vel launuðum störfum. Þá liggur fyrir að taka þarf ákvarðanir um dreifingu ferðamanna um landið og hvernig eigi að standa að gjaldtöku“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Ör vöxtur og stefnuleysi í ferðaþjónustu getur auðveldlega haft neikvæð áhrif á efnahags- og umhverfislega þætti. Brýnt er því að móta framtíðarstefnu sem byggir á sérstöðu landsins, náttúrunni, sameiginlegri sögu og menningu.
Vandamálin eru fjöldamörg. Auknar líkur eru á því að arðsemi minnki og fleiri láglaunastörf verði til í landinu ef ferðamönnum fjölgar meira en hægt er að sinna með góðu móti. Við ofnýtingu auðlinda er hætt við því að einsleit ferðamennska fylgi í kjölfarið með ferðamönnum sem hafa lægri kaupmátt en ella. Sérhæfingu og fjölbreytni starfa yrði ógnað í ferðaþjónustu sem og öðrum útflutningsgreinum.
Ef ferðamönnum fækkar þá óhjákvæmilega fækkar störfum sem kemur verst niður á landsbyggðinni.
Ákvarðanir um einstök mál hafa setið á hakanum of lengi. Til að mynda hvernig hægt er að ná meiri dreifingu ferðamanna um landið og hvort taka eigi gjald á ferðamannasvæðum eða ekki.
Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir komugjöldum. Þau hafa ekki áhrif á hvort ferðamaðurinn stoppar t.d. í þrjá daga eða þrjár vikur. Fyrirvaralausar álögur eins og lagðar voru fram nú í vor hefðu án efa komið harðast niður á landsbyggðinni sem hefur oftar en ekki þurft að horfa á eftir störfum yfir í þéttari byggðir. Þess vegna er svo brýnt að fjölga ferðamönnum á austurlandi, norðurlandi og vesturlandi því þar er sannarlega þörf á nýjum viðskiptavinum í verslun og þjónustu.
Hópurinn mun m.a. horfa til eftirfarandi atriða:
• Hvernig getur ferðaþjónustan viðhaldið samkeppnishæfni sinni betur borið saman við önnur lönd og skapað aukin verðmæti?
• Hvernig getur landsbyggðin búið sér til atvinnutæki og fjölgað heilsársstörfum í ferðaþjónustunni?
• Hvaða innviði þarf að styrkja í ferðþjónustu svo greinin geti vaxið og dafnað á heilsársvísu og orðið blómleg atvinnugrein til lengri tíma?
Hópinn skipa:
Formaður: Einar Freyr Elínarson, ferðaþjónustubóndi
Einar G. Bollason, fyrrum framkvæmdarstjóri
Fjóla Hrund Björnsdóttir, stjórnmálafræðingur, starfar við ferðaþjónustu
Gréta Björg Egilsdóttir, vararborgarfulltrúi
Karl Garðarsson, framkvæmdarstjóri
Lilja Sigurðardóttir, sjávarútvegsfræðingur
Pétur Snæbjörnsson, landeigandi og hótelstjóri
Sigurlaug Gissurardóttir, ferðaþjónustubóndi
Snorri Eldjárn Hauksson, sjávarútvegsfræðingur
Sólborg L. Steinþórsdóttir, hótelstjóri
Viggó Jónsson, framkvæmdarstjóri skíðadeildar
Þórður Ingi Bjarnason, ferðamálafræðingur
Þórey Anna Matthíasdóttir, sérfræðingur í ferðaþjónustu og leiðsögumaður

Categories
Greinar

Listi ráðalausu ríkisstjórnarinnar lengist

Deila grein

12/07/2017

Listi ráðalausu ríkisstjórnarinnar lengist

Ráðherra ferðamála vill fjölga stofnunum við stjórnsýsluna. Skilja má ráðherra á þann veg að ný stofnun sé nauðsynleg til að hægt sé að taka ákvarðanir um takmörkun á aðgengi ferðamanna að viðkvæmum svæðum í náttúru Íslands.

Í stað þess að einhenda sér í að móta stefnu til lengri tíma, tryggja sjálfbærni ferðaþjónustunnar sem byggir á þeirri vitneskju sem við höfum meðal okkar fagfólks, þá er ráðleysið slíkt að aftur eigi að búa til eitthvað nýtt. Er þörf á „lítilli Hafró“, eins og ráðherra kýs að kalla hana? Að mínu mati væri nærtækara að styrkja þann faglega grunn sem nú þegar er fyrir hendi og efla rannsóknir enn frekar innan þeirra stofnana sem sjá um þessi mál, a.m.k. á meðan ekki er til sérstakt ráðuneyti ferðamála.

Flækjustig
Umtalsvert flækjustig er í málaflokknum. Hugmynd ráðherra væri ágæt ef ekki væru nú þegar til stofnanir sem hafa umsjón með þessu verkefni, en Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðamálastofa og Rannsóknarmiðstöð ferðamála sjá um rannsóknir, vöktun, gagnaöflun og ákvarðanatöku með einum eða öðrum hætti.

Ég veit ekki betur en að Umhverfisstofnun styðjist við gögn frá fagfólki og birti rauða og appelsínugula lista yfir svæði, sem eru í hættu vegna átroðnings. Umhverfisstofnun hefur auk þess heimild til að loka og taka gjald fyrir veitta þjónustu á náttúruverndarsvæðum. Skyldi ráðherra umhverfis- og auðlindamála vera samþykkur því sem ferðamálaráðherra boðar?

Ferðamálastofa, sem er á ábyrgð ferðamálaráðherra, fór í umfangsmikla stefnumótunarvinnu síðastliðið haust. Þessi ágæta stofnun starfar eftir metnaðarfullri framtíðarsýn til að tryggja faglega umgjörð og sinnir m.a. gagnaöflun og rannsóknum í ferðaþjónustu, svo hægt sé að taka góðar og réttmætar ákvarðanir. Rannsóknarmiðstöð ferðamála hefur það að markmiði að efla rannsóknir á sviði ferðamála. Að henni standa nokkrir háskólar, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa. Við þetta bætist Stjórnstöð ferðamála sem hefur þann tilgang að samhæfa stjórnsýslu ferðaþjónustunnar og halda utan um brýn verkefni.

Er flækjustigið ekki nóg?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. júlí 2017

Categories
Greinar

Vanmetin Costco-áhrif?

Deila grein

04/07/2017

Vanmetin Costco-áhrif?

Það var fagnaðarefni þegar samkeppnisumhverfið í smásölu tók stórt stökk fram á við til hins betra með tilkomu Costco, enda láta viðbrögðin ekki á sér standa. Neytendur bera saman verð og gæði á síðum samfélagsmiðlanna og verðvitund þeirra eykst í kjölfarið.
Því setur það óneitanlega að manni ugg að sjá ummæli forstjóra N1 sem hefur ekki miklar áhyggjur af innkomu Costco á eldsneytismarkaðinn. Þar á bæ spá menn því að jafnvægi verði aftur komið á markaðinn áður en langt um líður, þegar nýjabrumið verður runnið af neytendum og allt verður fallið í sama farið aftur, eins og ekkert hafi í skorist.

Er lækkandi vöruverð tímabundinn sumarsmellur sem rennur sitt skeið á enda? Má skilja þessi ummæli sem svo að smásalinn ætli að bregðast neytendum og heimilunum í landinu sem sjá nú fram á lækkandi vöruverð og aukinn kaupmátt samhliða aukinni samkeppni?
Fram hefur komið að álagning verslana og/eða vöruverð er hærra hér á landi en almennt gerist í nágrannalöndum okkar og hefur Samkeppniseftirlitið bent á þá staðreynd. Fákeppni og samþjöppun hafa hamlað heilbrigðri samkeppni og eru neytendur berskjaldaðir gagnvart stærð ráðandi aðila.

Þá er samkeppnismenningin enn að slíta barnsskónum og hugarfar þeirra sem stýra vöruverði snýst öðru fremur um skammtímasjónarmið. Vöruverð hefur t.d. ekki lækkað í takt við styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og er það miður. Enda kom það á daginn að eftir að alþjóðleg samkeppni var orðin staðreynd, tók verslunin skyndilega við sér og fór í róttækar hagræðingaraðgerðir til að mjaka vöruverðinu eilítið niður á við.

Hingað til hafa neytendur haft takmarkað val, á mörgum sviðum, um gæði og úrval. Virk samkeppni skiptir því öllu og er gríðarlega mikilvæg fyrir heimilin í landinu, efnahagslegan vöxt hagkerfisins og ekki síst fyrir verslunina sjálfa. Neytendur hafa val um vöru og verð og eru því virkir þátttakendur í samkeppnisumhverfinu. Aðhald frá þeim er mikilvægasta vopnið í baráttunni við að bæta samkeppnismenninguna svo vöruverð verði sambærilegt og í nágrannalöndum okkar.

Tækifærið rann þeim úr greipum
Verslunin fékk tækifæri til að lækka verð án þess að það kæmi niður á álagningunni hjá þeim sem eiga í hlut. Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru skattar lækkaðir, vörugjöld afnumin, tollar felldir niður og tollar lækkaðir af landbúnaðarvörum til að örva samkeppni. Aðgerðirnar sem verslunin kallaði sjálf eftir skiluðu sér ekki að fullu til heimilanna en þess í stað virðist sem þær hafi fyrst og fremst skilað sér í hærri álagningu heildsala og verslunar.

Þá kemur of mikil samþjöppun niður á greininni sjálfri. Framleiðni minnkar, óhagræði eykst, vöruverð hækkar og hvatar til nýsköpunar minnka. Smærri smásalar eiga erfiðara um vik að hasla sér völl á markaðnum því þeir þurfa að borga mun hærra verð en stærri verslanakeðjur og er skýringin ekki alltaf rakin til magninnkaupa.

Það var á sínum tíma óskiljanlegt að Samkeppniseftirlitið heimilaði að til væri einn risi á smásölu- og heildsölumarkaði sem nú heitir Hagar. Launakjör stjórnenda og hagnaður risans síðustu ár benda til fákeppni og að neytendur hafi greitt óhóflega hátt verð. Það er vonandi að leikreglurnar séu að breytast.

Sú staðreynd liggur fyrir að fleiri heimili í landinu eru nú að upplifa lægra vöruverð. Komið hefur í ljós að hægt er að bjóða upp á sambærilegt verð hér á landi og í nágrannalöndum okkar, sé viljinn fyrir hendi. Hver vill ekki sanngjarna skiptingu á milli neytenda og seljanda sem styður við skilvirkni á markaðnum og betri lífskjör til lengri tíma?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Categories
Greinar

Í góðum félagsskap í dag – en hvað svo?

Deila grein

22/06/2017

Í góðum félagsskap í dag – en hvað svo?

Það er ánægjulegt að Ísland, ásamt Noregi, skipi þriðja til fjórða sæti yfir ríki heims í rannsókn sem mælir vísitölu félagslegra framfara. Þessi vísitala mælir hve vel hefur tekist að tryggja velferð og hvaða tækifæri eru til staðar fyrir íbúana. Árangur allra Norðurlandanna er tvímælalaust góður. Ísland er í fyrsta sæti þegar kemur að umburðarlyndi. Mismunun og ofbeldi gagnvart minnihlutahópum mælist einna minnst á heimsvísu. Hins vegar er tvennt sem kemur ekki vel út. Annars vegar reynist erfitt að eignast húsnæði á viðráðanlegu verði og hins vegar eru íslenskir háskólar ekki á meðal þeirra fremstu. Þetta eru slæmar fréttir inn í framtíðina.

Húsnæðisverð hefur hækkað mikið síðustu misseri, því eftirspurnin er langt umfram framboð. Sum sveitarfélög hafa ekki mætt lóðaeftirspurninni og því er mikill húsnæðisvandi í Reykjavík. Vaxtastigið á Íslandi hefur verið hærra en í mörgum samanburðarríkjum sökum þess að íslenska hagkerfið hefur verið þróttmeira en mörg önnur hagkerfi. Til þess að vinna gegn háu vaxtastigi þurfa peninga- og ríkisfjármálastefnan að ganga í takt. Hagstjórnin má ekki einungis hvíla á herðum Seðlabankans. Nauðsynlegt er að ráðast í skipulagsbreytingar á ríkisrekstrinum sem miða að því að nýta fjármagnið betur.

Háskólarnir á Íslandi hafa sett sér það markmið að komast í fremstu röð háskóla á heimvísu. Til að ná þeim árangri þarf að efla rannsóknir og bjóða upp á framúrskarandi kennslu. Að óbreyttu er ekki hægt að ná þeim árangri, ef litið er til ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára. Staðreyndin er sú að fjárframlögin til háskólastigsins eru ekki metnaðarfull.

Það er helsta verkefni stjórnvalda að hlúa að þeim kynslóðum sem eru að vaxa úr grasi og tryggja að kjör þeirra séu með þeim hætti að þær vilji búa á Íslandi. Af þeim sökum þurfa væntingar um lífskjör að vera sambærilegar því sem best gerist í heiminum. Það þarf tvennt að koma til; annars vegar þarf að tryggja það að fólk hafi góðar væntingar um það að geta komið upp þaki yfir höfuðið og hins vegar þarf fleiri vel launuð störf fyrir ungt fólk sem verða best tryggð með þekkingu og nýsköpun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. júní 2017