Categories
Fréttir

Jafnréttisráðstefna karla í New York

Deila grein

01/10/2014

Jafnréttisráðstefna karla í New York

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn Landssamband framsóknarkvenna hefur fylgst náið með þróun kynjajafnréttisumræðunnar sem helst hefur birst undanfarið í átakinu HeforShe og vill þess vegna vekja athygli á frumkvæði utanríkisráðherra Íslands, Gunnars Braga Sveinssonar, þar sem hann boðaði í ræðu sinni á Alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, í vikunni, að Ísland og Súrínam muni halda málþing um kynjajafnréttismál í New York í janúar á næsta ári.
Framkvæmdastjórnin hefur því sent frá sér eftirfarandi ályktun:
„Framkvæmdarstjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir ánægju sinni með frumkvæði utanríkisráðherra á sviði kynjajafnréttis. Jafnréttisráðstefna karla, sem utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hefur boðað, verður haldin í janúar á næsta ári á vettvangi sameinuðu þjóðanna. Ráðstefnan mun án efa vekja heimsathygli. Framkvæmdastjórnin fagnar því einnig að ráðstefnunni sé sérstaklega ætlað að beina kastljósinu að ofbeldi gegn konum sem birtist sem dagleg ógn margra kvenna í heiminum. Það er ennfremur fagnaðarefni að nú fái karlar tækifæri til þess að tala saman og láta sig þetta mikilvæga málefni varða. Að lokum vill framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna benda á að það er afar jákvætt að íslenskir karlar séu í fararbroddi í undirskriftum vegna HeForSe átaksins í heiminum.“
Framkvæmdastjórn LFK vill hvetja alla karla til þess að skrifa undir á slóðinni: www.heforshe.org
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Útverðir Íslands

Deila grein

01/10/2014

Útverðir Íslands

Gunnar Bragi SveinssonÍslendingar hafa ávallt verið víðförul þjóð og er vandfundinn sá kimi jarðar þar sem við höfum ekki stungið niður fæti við leik, nám eða störf. Smávaxin utanríkisþjónusta eins og okkar, sem hefur það að forgangsmáli að gæta öryggis og hagsmuna Íslendinga erlendis, mætti sín lítils ef við nytum ekki liðsinnis þéttriðins nets ræðismanna okkar víða um veröld.

Á hverjum einasta degi, allan ársins hring getur utanríkisþjónustan reitt sig á þá 243 ræðismenn Íslands sem nú eru starfandi í 89 þjóðlöndum. Sinna þeir störfum í þágu lands og þjóðar án þess að þiggja fyrir það laun og í flestum tilvikum eru ræðismenn Íslands erlendir ríkisborgarar sem eru boðnir og búnir að leggja á sig ómælt erfiði í sjálfboðavinnu við að rétta Íslendingum hjálparhönd ef þess er óskað.

Í hverri viku koma upp mál þar sem reynir á útsjónarsemi utanríkisþjónustunnar við að koma fólki til aðstoðar og oftar en ekki reiðum við okkur á þessa frábæru menn og konur sem skirrast ekki við að leggja á sig margra daga ferðalög til að heimsækja þá samborgara okkar sem villst hafa af lífsins leið eða veita þeim aðstoð sem um sárt eiga að binda. Eðli málsins samkvæmt fara þessi mál hljótt en úrlausn þeirra er eitt mikilvægasta viðfangsefnið sem okkur er falið.

Ræðismennirnir eru þannig hinn framlengdi armur Íslands á staðnum og er það ómetanlegt að geta reitt okkur á aðstoð ræðismannanetsins þegar þörfin er brýn. Þá má fullyrða að ræðismenn okkar og tengsl þeirra í heimaríkjum sínum hafi reynst ákaflega vel fyrir íslenskan útflutningsiðnað og viðskipti í gegnum tíðina og mýmörg dæmi um opnun markaðstækifæra fyrir tilstuðlan þeirra.

Á morgun býð ég velkomna hingað til lands 136 ræðismenn Íslands sem lagt hafa undir sig langt ferðalag á eigin kostnað til að kynnast betur landi og þjóð á sjöundu ræðismannastefnunni sem haldin er í Hörpu nú í vikunni. Síðast var slík ráðstefna haldin árið 2006 og er hefð fyrir því að halda ræðismannaráðstefnu á fimm ára fresti. Það hefur dregist um þrjú ár af skiljanlegum ástæðum. Er það ríkisstjórninni sérstakt fagnaðarefni að taka vel á móti þessum útvörðum Íslands og sýna þakklæti okkar í verki.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Vaxandi tölur

Deila grein

29/09/2014

Vaxandi tölur

Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefÞar kemur fram greinileg aukning á tilkynningum til yfirvalda á milli áranna eða 8%. Tilkynningarnar vörðuðu 4.880 börn árið 2013 og voru þar drengir í meirihluta tilfella. Þá fjölgar tilkynningum í Reykjavík um 12% og á landsbyggðinni um 10%, en fækkar aðeins í nágrenni við Reykjavík. Mál 69% barna sem tilkynnt var um á árinu 2013 fóru í könnun eða voru opin barnaverndarmál. Þetta hlutfall hefur farið vaxandi á síðustu árum, en t.d. var það 60% árið 2011.

Það þarf að líta það alvarlegum augum að ekki sé vitað hvort þessi aukning stafi nákvæmlega af meira svigrúmi barnaverndarnefndar til þess að kanna mál og/eða hvort málin séu nú alvarlegri en fyrr, sér í lagi þegar um er að ræða eins alvarlegan málaflokk og raun er.

Samvinna þings og þjóða

Á Norðurlöndum hefur Ísland vakið athygli fyrir vinnu sína í félags- og barnaverndarþjónustu, árangur þeirra verkefna hefur sýnt okkur fram á hve mikilvægt er að vinna forvarnarstarf og grípa strax í taumana þegar að eitthvað fer miður. Margir fagaðilar hafa komið til landsins til að kynna sér þá vinnu. Þarna er gott dæmi um styrkleika eins lands á sérstöku sviði sem vel er hægt að miða áfram til annarra landa og þau geti nýtt sér í sinni vinnu.

Þingmenn eiga stóran þátt í velferð barna, það er okkar hlutverk að búa til umhverfi þar sem forvarnir, inngrip sem fyrst og góð úrræði eigi sem greiðasta leið. Í skýrslu Barnaverndarstofu kemur fram að börnum á Stuðlum og öðrum meðferðarheimilum hefur fækkað í kjölfar aukinnar meðferðar barna í nærumhverfi þeirra. Hluti af skyldu okkar alþingismanna er að vernd barna nái virkilega til þeirra og utan um þau en endi ekki við þröskuld heimilanna. 

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. september 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

„Ríka fólkið“

Deila grein

26/09/2014

„Ríka fólkið“

Willum Þór ÞórssonÍ fréttatilkynningu ASÍ sl. föstudag, undir fyrirsögn „Ríkisstjórn ríka fólksins“, er því haldið fram að stjórnvöld leggi kapp á að auka ráðstöfunartekjur best stæðu heimila landsins langt umfram þau tekjulægri.

Finna má í haggögnum upplýsingar um að vel yfir 90% félagsmanna ASÍ á almennum vinnumarkaði eru í efsta þrepi eða miðþrepi tekjuskatts. Meðalheildarlaun ASÍ-félaga á almennum vinnumarkaði voru 425 þúsund í maí 2013. Einungis um 3% af fullvinnandi launamönnum á Íslandi voru með heildarlaun undir 250 þúsund krónum á árinu 2013. Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru að meðaltali 526 þúsund á því ári. Þetta er sem sagt „ríka fólkið“ sem ríkisstjórnin eflir með skattalækkunum í því skyni að auka verðmætasköpun og bæta hag allra. „Ríka fólkið“ sem ASÍ nefnir svo í slagorðaskyni eru félagsmenn ASÍ í þessum skilningi.

Ríkisstjórnin byggir stefnu sína á að öflugt atvinnulíf sé undirstaða vaxtar og velferðar. Í stefnuyfirlýsingu hennar segir að ríkisstjórnin muni leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa. Þetta hefur gengið eftir eins og hagtölur sýna glöggt. Aukin verðmætasköpun og minni skuldir heimila leiða til bættrar stöðu allra tekjuhópa. ASÍ ber enda ekki brigður á það í fréttatilkynningu sinni að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni skila heimilunum 40 milljörðum í auknar ráðstöfunartekjur á þessu ári og næsta, eða sem svarar um 5% aukningu ráðstöfunartekna. Þetta er gríðarleg aukning ráðstöfunartekna á stuttum tíma.

Auknar ráðstöfunartekjur vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar koma til vegna leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna, lægri skatta og afnáms vörugjalda. Lægri skattar og minni skuldir koma þeim til góða með beinum hætti sem greiða skatta og skulda húsnæðislán. Meiri verðmætasköpun sem leiðir af lægri sköttum, einfaldara skattkerfi og minni skuldum kemur hins vegar öðrum hópum til góða og gefur færi á frekari aðgerðum til að bæta hag þeirra.

Bæta kjör alls launafólks
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar bæta kjör alls launafólks. Leiðrétting húsnæðislána kemur þeim skuldurum best sem minnstar hafa tekjurnar. Leiðréttingin nemur að meðaltali ríflega þriðjungi árstekna heimila með undir 330 þúsund í mánaðartekjur á meðan hún nemur um 8% af árstekjum tekjuhæstu heimila. Tæplega tveir þriðju hlutar leiðréttingarinnar fara til heimila með mánaðartekjur undir 670 þúsund. Leiðréttingin mun því gagnast félagsmönnum ASÍ afar vel.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að framlög til almannatrygginga, (þ.e. lífeyristryggingar og félagsleg aðstoð) aukast um 2,4 milljarða, að frátöldum bótahækkunum en þær nema um 3 milljörðum til viðbótar. Hér er um að ræða hækkun á frítekjumarki lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega og framlengingu á hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna öryrkja. Ósanngjarn auðlegðarskattur, sem settur var á tímabundið af síðustu ríkisstjórn, var ekki framlengdur. Að auki má nefna aðrar skattabreytingar í tíð ríkisstjórnarinnar, svo sem nýtingu séreignarsparnaðar sem ráðstafað er til íbúðakaupa og til lækkunar á höfuðstól, aukna tekjutengingu barnabóta, stimpilgjöld felld niður af lánsskjölum við fasteignakaup, tryggingagjald lækkað og virðisaukaskattur lækkaður af bleium.

Því fer fjarri að ríkisstjórnin þjóni hagsmunum best stæðu heimila landsins. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar nýtast öllum launamönnum. Sú staðreynd að tekjufrumvarp fjárlaganna hefur aldrei komið jafn snemma fram gefur aukið svigrúm til samvinnu stjórnvalda og samtaka launþega til að tryggja áframhaldandi stöðugleika og aukinn kaupmátt.

Willum Þór Þórsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Undirritaður samningur við Rauða krossinn vegna móttöku flóttafólks

Deila grein

24/09/2014

Undirritaður samningur við Rauða krossinn vegna móttöku flóttafólks

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, hafa undirritað samning um þau verkefni sem Rauði krossinn mun annast vegna móttöku flóttafólks á þessu ári.
Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Íslands verður tekið á móti þremur hópum flóttafólks á þessu ári. Hafnarfjarðarbær tók að sér móttöku sex manna fjölskyldu frá Afganistan sem þegar er komin til landsins. Einnig verður tekið á móti hópi hinsegin flóttafólks frá fjórum löndum og sýrlenskum flóttamönnum sem koma hingað frá Tyrklandi. Reykjavíkurborg mun annast móttöku þessarra hópa. Í hópunum þremur eru samtals 24 einstaklingar; þrettán fullorðnir og ellefu börn.
Þegar tekið er á móti hópum flóttafólks gerir velferðarráðuneytið annars vegar samning við sveitarfélagið þar sem fólkið mun setjast að um ýmsa aðstoð og stuðning því til handa og hins vegar við Rauða krossinn á Íslandi sem einnig kemur að því að veita fólkinu liðsinni. Stærsta verkefni Rauða krossins er að skipuleggja störf þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að málum, þ. á m. eru stuðningsfjölskyldur sem hafa reynst flóttafólki sem kemur hingað til lands afar mikilvægar.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á leiðtogafundi um loftslagsmál

Deila grein

24/09/2014

Sigmundur Davíð á leiðtogafundi um loftslagsmál

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í New York í gær. Í ræðu sinni fór ráðherra yfir áherslur Íslands í loftslagsmálum, m.a. á sviði jarðhita og landgræðslu.
Hvatti forsætisráðherra þjóðir heims til að ganga til liðs við alheimsbandalag á sviði jarðhitanýtingar og tilkynnti um stuðning íslenskra stjórnvalda til sérstakrar jarðhitaáætlunar sem unnin er í samvinnu við Alþjóðabankann.
Ennfremur tilkynnti ráðherra um stuðning Íslands við átakið „Endurnýjanleg orka fyrir alla“ sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur beitt sér fyrir, sem og að metnaðarfullur og bindandi loftslagssamningur náist í París á næsta ári.
Ráðherra áréttaði ennfremur mikilvægi þess að sporna gegn súrnun sjávar og minnti á þróun mála á norðurslóðum sökum hlýnunar loftslags.
Þá fjallaði ráðherra um mikilvægi þess að kraftar ólíkra hópa fólks og beggja kynja  séu nýttir í baráttunni gegn neikvæðum loftslagsbreytingum.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Endurútreikninga vantar

Deila grein

22/09/2014

Endurútreikninga vantar

Elsa-Lara-mynd01-vefurÍ sumar hef ég unnið að ýmsum málum er tengjast gengistryggðum lánum og lögmæti þeirra. Til mín hafa leitað einstaklingar sem voru með gengistryggð lán hjá fjármálastofnunum. Þessir einstaklingar eiga það allir sameiginlegt, að þeir eru að reyna leita réttar síns vegna lánanna en baráttan gengur því miður illa, svo vægt sé til orða tekið. Í öllum tilfellum er um að ræða lán sem kom þeim í þrot. Þess ber að geta að samskonar lán, sem inniheldur sömu lánaskilmála hefur verið dæmt ólöglegt fyrir hæstarétti. Þrátt fyrir það þá neita fjármálastofnanirnar að endurreikna lánin nema að þessir einstaklingar fari í mál við bankann.

Ég ætla hér að segja ykkur stutta sögu sem er einmitt lýsandi dæmi fyrir þá einstaklinga sem til mín hafa leitað.

Raunverulegt dæmi
Þessi raunverulega saga, segir frá einstaklingi sem var með gengistryggt lán frá fjármálastofnun. Í kjölfar af hruninu, á haustmánuðum 2008, þá hækkaði lánið upp úr öllu valdi. Samningsviðræður um afborganir voru í fullum gangi við viðskiptabanka viðkomandi, en skiluðu engum árangri. Þetta endar með því að einstaklingurinn fer í þrot. Þetta gerist aðeins örfáum dögum eftir að samskonar lán, með sömu lánaskilmála voru dæmd ólögleg fyrir Hæstarétti.

Neita að leiðrétta
Þessi einstaklingur sem sagan fjallar um, hefur reynt að leita réttar síns. Hann hefur óskað eftir endurútreikningum hjá viðskiptabankanum en þar er því neitað, nema hann fari í mál við bankann. Gerum okkur grein fyrir að lítill hluti í þessari umræddu stöðu, hefur fjárhagslegt bolmagn til að fara á móti fjármálastofnunum. Að vísu er hægt að sækja um gjafsókn í þessum málum, en skilyrðin eru mjög þröng.

Leitað hefur verið til hagfræðings hjá virtri stofnun sem komst að því að endurreikna þurfi lánin þar sem það væri ólögmætt og að einstaklingurinn ætti inni hjá fjármálastofnuninni í kringum 40 milljónir króna. Matsmaður hefur verið ráðinn til að fara yfir lánin, en hann var samþykktur bæði af báðum aðilum, þ.e. bankanum og einstaklingnum. Matsmaðurinn komst að sömu niðurstöðu og hagfræðingurinn. Þrátt fyrir þetta þá neitar fjármálastofnunin enn að endurreikna lánin.

Gengið á veggi
Leitað hefur verið til ýmissa stofnanna sem eiga að tryggja hag neytenda og hafa aðhald og eftirlitsskyldu með fjármálastofnunum. Það hefur ekki gengið vel því það virðist sem enginn geti tekið á þessu máli og allir sem leitað hefur verið til, benda á aðra í þessu máli.

Að lokum
Mikilvægt er að fundin verði leið til að þrýsta á fjármálastofnanir til að klára þau mál sem enn eru eftir í endurútreikningi gengistryggðra lána. Við sem sitjum á Alþingi verðum að skoða þessi mál og reyna eftir fremsta megni að tryggja, að einstaklingar geti sótt rétt sinn í hinum ýmsu neytendamálum.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 19. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Flugið heillar – en hverjir hafa ráð á því?

Deila grein

22/09/2014

Flugið heillar – en hverjir hafa ráð á því?

Silja-Dogg-mynd01-vefInnanríkisráðherra lét gera félagshagfræðilega greiningu á framtíð áætlunarflugs innanlands og sú úttekt var kynnt í febrúar sl. Í úttektinni kemur m.a. fram að rannsóknir sýni að hreyfanleiki og aðgengi skipti sköpum við val á búsetu, atvinnu, menntun og afþreyingu. Þetta eigi ekki hvað síst við í byggðum fjærst höfuðborgarsvæðinu. Þar gegni innanlandsflug iðulega mikilvægu hlutverki og sé oft einn grundvöllur búsetugæða, þ.e. grunnþáttur sem verði að vera til staðar til að svæði teljist hæft til búsetu og jafnvel eftirsóknarvert.

Óhófleg gjaldtaka
Í bókun flugráðs frá 5. desember 2012 kemur meðal annars fram að sívaxandi hækkanir á opinberum gjöldum á innanlandsflugið eru komnar yfir þolmörk og munu óhjákvæmilega bitna á farþegum í hækkun fargjalda og samdrætti í þjónustu. Flugráð varar við að sjálfbærni í flugrekstri innanlands sé ógnað og samkeppnisskilyrði verulega veikt með óhóflegri gjaldtöku. Þess vegna sé brýnt að endurskoða rekstrarumhverfi innanlandsflugs og tryggja þar með eðlilega þjónustu við íbúa í landinu.

Almenningssamgöngur fyrir almenning
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefna stjórnarflokkanna sé að bæta samgöngur í landinu og tryggja tengingu á milli byggða. Öflugar almenningssamgöngur eru mikilvægar til að tryggja tengingu byggða og innanlandsflug er skilgreint sem almenningssamgöngur. Það ætti því einnig að vera grundvallaratriði að »almenningur« hafi ráð á að notfæra sér »almenningssamgöngur«.

Breytingar snúast um ákvörðun
Undirrituð lagði fram skriflega fyrirspurn um fargjöld innanlandsflugs til innanríkisráðherra í febrúar sl. Ein spurningin var á þann veg hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir lækkun flugfargjalda innanlands. Það er ánægjulegt að segja frá því að ráðherra sagðist myndi beita sér fyrir því að opinber gjöld á innanlandsflugi yrðu lækkuð. Nú er starfshópur að störfum á vegum ráðherra sem mun skila niðurstöðum sínum í lok október. Það verður áhugavert að sjá hver niðurstaða hópsins verður því það er afar brýnt að flugfargjöld innanlands lækki, almenningi til hagsbóta.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ný neysluviðmið mikilvæg

Deila grein

18/09/2014

Ný neysluviðmið mikilvæg

Elsa-Lara-mynd01-vefurMikilvægt er að endurskoða útreikning neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Tilgangur neysluviðmiða er að veita heimilum í landinu upplýsingar um viðmiðin til að bera saman við áætlun eigin útgjalda. Þau koma að notum við ýmsa fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga og geta verið til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Litið hefur verið svo á að neysluviðmið séu ekki endanlegur mælikvarði á hvað telst nægjanleg neysla einstakra heimila, né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfæris.

Húsnæðiskostnað inn í ný neysluviðmið
Sníða þarf vankanta af núverandi neysluviðmiðum til þess að þau verði nákvæmari mælikvarði á hvað telst nægjanlegt til framfærslu fjölskyldu. Í núverandi neysluviðmiðum er húsnæðiskostnaður ekki innifalinn og helsti rökstuðningurinn fyrir því er að kostnaður við húsnæði sé svo breytilegur að ekki sé rétt að gefa út viðmið í þeim efnum. Talið hefur verið betra fyrir fjölskyldur að bæta raungjöldum við hin opinberu viðmið.

Athugasemdum hefur verið komið á framfæri varðandi þetta fyrirkomulag og óskað hefur verið eftir nýjum útreikningum, þar sem tekið er tillit til húsnæðiskostnaðar. Í þessu samhengi þarf að horfa til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis eða leiguhúsnæðis.

Opinbert reiknilíkan
Það er morgunljóst að ýmsir fastir útgjaldaliðir hafa hækkað mikið undanfarin ár og hefur það haft áhrif á útgjöld heimilanna. Það er staðreynd að róðurinn hefur þyngst. Þess vegna er afar mikilvægt að hefja sem allra fyrst útreikning á nýjum neysluviðmiðum og vinna það í samstarfi við hlutaðeigandi aðila. Jafnframt þarf að gera könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna. Raunframfærslukostnaðurinn verði síðan nýttur til að finna út lágmarks neysluviðmið. Nauðsynlegt er að reiknilíkan útreikninganna verði opinbert, eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Má í því samhengi nefna Svíþjóð, Danmörk og Noreg.

Þingsályktunartillaga lögð fram
Þingmenn Framsóknarflokksins gera sér grein fyrir mikilvægi þess að útreikningur nýrra neysluviðmiða fari fram. Þess vegna hafa nokkrir úr þingmannahópnum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Samkvæmt tillögunni skulu útreikningarnir liggja fyrir á 144. þingi.

Elsa Lára Árnadóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hugleiðingar á degi íslenskrar náttúru

Deila grein

17/09/2014

Hugleiðingar á degi íslenskrar náttúru

Sigurður Ingi JóhannssonOkkur Íslendingum finnst landið okkar fagurt og merkilegt. Vissulega er fegurð afstætt hugtak, en við getum þó með nokkru rökstutt þessa skoðun okkar.

Hér er fjölbreytt landslag og stórbrotin náttúra, frá brimsorfnum ströndum til óbyggðra víðerna, þar sem spúandi eldgígar gjósa nú við jökulsporð. Við erum heldur ekki ein um þessa skoðun, því sérstök náttúra Íslands dregur æ fleiri erlenda ferðamenn til sín. Á sama tíma fjölgar stöðugt þeim Íslendingum sem sækjast eftir því að njóta náttúrunnar til útivistar og ferðalaga.

Um leið hafa menn áhyggjur af því að íslenskir ferðamannastaðir séu ekki í stakk búnir til að taka við þeim fjölda ferðamanna sem sækja þá heim. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps sem tekur til þess með hvaða hætti best verði að byggja upp og jafnframt að viðhalda ferðamannastöðum til lengri tíma í formi framkvæmdaáætlunar. Gert er ráð fyrir að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi til tólf ára, þar sem fram kemur hvernig uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum verður háttað.

Þá er unnið að því því í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu að útfæra leiðir til að fjármagna uppbyggingu og viðhald á ferðamannastöðum. Mikilvægt er að hafa víðtækt samráð svo ekki myndist gjá á milli ferðaþjónustunnar og almennings í landinu.

Nauðsynlegt er að tryggja, eins og áður, sanngjarnan rétt almennings til frjálsrar farar svo hann geti notið náttúru landsins, án þess að gengið sé á hagsmuni sem þar kunna að liggja fyrir. Spyrja má hvort ekki þurfi að skilja betur að almannaréttinn, þ.e. rétt einstaklinga til frjálsrar farar um landið og svo þeirra sem taka gjald fyrir að fara með ferðamenn um land í eigu annarra.

Þá þurfum við að huga að fagurri ásýnd náttúrunnar og skilja ekkert eftir sem ekki á þar heima. Með samstilltu átaki getum við í sameiningu gætt þess að halda landinu hreinu og umgangast náttúruna af virðingu. Þar þurfum við að byrja á okkur sjálfum og brýna fyrir börnum okkar þá hugsun að henda ekki rusli á almannafæri.

Megi dagur íslenskrar náttúru verða okkur öllum ánægjulegur.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.