Jóhanna María Sigmundsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins í dag, að enn og ný komi fram skoðanakönnun um viðhorf til aðildar Íslands að ESB. Að sögn Jóhönnu Maríu þá skiptir ekki máli hvaða samtök leggi spurninguna fram, meiri hlutinn sé á móti.
„Í morgun voru birtar niðurstöður úr nýjustu könnun þess efnis. Þar kemur fram að tæplega helmingur landsmanna er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. 49,1% svarenda sagðist andvígt inngöngu landsins í ESB. 32,8% sögðust hlynnt inngöngu en 18,1% svarenda var hvorki hlynnt né andvígt inngöngu,“ sagði Jóhanna María.
„Í könnuninni kemur einnig vel í ljós að það er enginn reginmunur á íbúum höfuðborgarsvæðisins og úti á landsbyggðinni, en þar sögðust 42% Reykvíkinga vera andsnúin inngöngu, í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar eru 45% andvíg aðild og munurinn er svo enn meiri í öðrum sveitarfélögum landsins en þar eru 59% íbúanna andvíg aðild að ESB en 21% hlynnt,“ sagði Jóhanna María.
„Virðulegi forseti. Ég tel orðið tímabært að við klárum þetta mál,“ sagði Jóhanna María að lokum.
Könnunin var gerð fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, og tók til 1.450 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Capacent Gallup.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
17/02/2015
Meiri hlutinn á móti ESB aðild – enginn reginmunur á íbúum höfuðborgarsvæðisins og úti á landsbyggðinni