Categories
Fréttir

Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður

Deila grein

23/08/2016

Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Íslenskur landbúnaður hefur verið stoð íslensks samfélags gegnum tíðina og verið grunnur byggða um allt land. Hann hefur farið í gegnum miklar breytingar og þróun síðastliðna áratugi, en nú stöndum við frammi fyrir að ná sáttum um nýjan samning um greinina sem tekur utan um nauðsynlegar breytingar með nýjum áherslum. Við erum að fara inn í nýja tíma sem krefjast róttækra breytinga á landbúnaði á Íslandi.

Landbúnaður líkt og aðrar atvinnugreinar þarf að búa við ákveðið öryggi og fyrirsjáanleika til framtíðar. Það er því mikilvægt að rammi samningsins sem hér um ræðir er til tíu ára. Aftur á móti er mikilvægt að vinna markvisst og þétt að endurskoðun og mati á áhrifum samningsins og virkni hans. Þess vegna vona ég að við berum gæfu til að hnykkja á þeim atriðum samningsins sem lúta að endurskoðun, kalla fleiri aðila að því borði og hafa samráð og samvinnu sem eykur sátt um íslenskan landbúnað. Þar þurfa hagsmunir íslenskra bænda og neytenda að fara saman í sátt við umhverfið og náttúruna.

Hæstv. forseti. Íslenskir bændur eru metnaðarfullir framleiðendur gæðavöru sem neytendur geta treyst að framleidd er á þann hátt að miklar kröfur eru gerðar til aðbúnaðar og meðferðar skepna og lyfjagjöf er með því lægsta sem gerist í heiminum. Mikilvægt er að reglugerð um upprunamerkingar á matvælum verði framfylgt þannig að tryggt sé að neytendur fái réttar upplýsingar um uppruna þeirrar vöru sem er til sölu í matvöruverslunum.

Hæstv. forseti. Bændur hafa verið virkir þátttakendur í uppgræðslu landsins og mikilvægt að áfram verði lögð áhersla á samspil landbúnaðar og umhverfisverndar með áherslu á sjálfbæra nýtingu. Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður sem nýtist til styrkingar byggða um allt land. Tækifærin eru mýmörg og mikilvægt að leggja áherslu á sérstöðu íslensks landbúnaðar þegar kemur að hreinleika og lítilli lyfjanotkun svo dæmi sé tekið. Matvælalandið Ísland getur líka verið ferðamannaland sem við viljum búa í.“

Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Nýir kaflar í ólánssögu Borgunar

Deila grein

23/08/2016

Nýir kaflar í ólánssögu Borgunar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Nær daglega eru skrifaðir nýir kaflar í þá ólánssögu sem kennd er við fyrirtækið Borgun og sölu á hlut ríkisins í því í nóvember 2014. Nýlega var frá því skýrt í fjölmiðlum, sem hafði svo sem reyndar legið fyrir síðan sumarið 2013 og fram á haustið 2013, að vegna samruna Visa í Ameríku og Visa í Evrópu mundi fyrirtækið Borgun fá í sinn hlut 6,5 milljarða kr. Það þýðir að þeir sem voru hinir heppnu kaupendur að hlut ríkisins í því fyrirtæki í nóvember 2014 fengu núna á einu bretti kaupverðið endurgreitt, þ.e. um 2,1 milljarð kr. Það er í sjálfu sér alveg ótrúlegt, eins og hér hefur margoft komið fram í máli þess sem hér stendur, að Landsbanki Íslands skyldi haga sölunni á þessum hlut ríkisins með þeim hætti sem gert var. Nú hefur Landsbankinn gripið til þess ráðs að höfða mál á hendur fulltrúum Borgunar sem keyptu af Landsbankanum og er sá málatilbúnaður farinn að líkjast allmikið sögunni af Heródesi og Pílatusi, svo það sé sagt. Það er hins vegar sérstakt áhyggjuefni að meðan á öllu þessu stendur heyrist ekki múkk í Fjármálaeftirlitinu. Ég hef talað um það áður úr þessum ræðustól að það var fyrst í mars á þessu ári sem Fjármálaeftirlitið lét eitthvað frá sér fara um söluna á Borgun og tók þá nokkuð upp í sig en hefur ekki fylgt því bréfi eftir á neinn hátt. Það tók sem sagt Fjármálaeftirlitið um 18 mánuði að komast að því að það var eitthvað varhugavert við þessa sölu, en þeir hafa ekki gert neitt utan að skrifa eitt bréf. Það er sérstakt rannsóknarefni.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 17. ágúst 2016.

 

Categories
Fréttir

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd hefur gert ráð fyrir!

Deila grein

23/08/2016

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd hefur gert ráð fyrir!

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að vitna í athyglisverða grein hagfræðings VR sem birtist á vefmiðli Kjarnans þar sem tilteknar eru þrjár meginástæður fyrir lágri verðbólgu, í fyrsta lagi lágt olíuverð, í öðru lagi gengisstyrking krónunnar og í þriðja lagi lágt verð á öðrum hrávörum en olíu.

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd Seðlabankans hefur gert ráð fyrir. Þeirri spurningu er velt upp í annarri grein á vefmiðli Kjarnans hvað peningastefnunefndin geri þegar kemur að næstu ákvörðun stýrivaxta. Meginstýrivextir nú eru 5,75% og verðbólgan 1,1% sem þýðir að raunvextir hér á landi eru hvergi hærri í heiminum og fátt sem bendir til þess að verðbólgan fari af stað eða að sú staða breytist í náinni framtíð ef marka má forsendurnar sem ég fór yfir. Því verður fróðlegt að sjá hvernig peningastefnunefndin bregst við þessari stöðu.

Ég nefni þetta hér vegna þess að vissulega skipta vextir almenning og atvinnulíf gríðarlegu miklu máli. Ekki má gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í að viðhalda hér verðstöðugleika og gera má ráð fyrir að peningastefnunefnd stígi varlega til jarðar en staðreyndin er sú varðandi hið háa verð á peningum, og endurspeglast í þessum háu raunvöxtum, að almenningur og atvinnulíf fjármagnar stöðugleikann með háu verði. Þetta gagnast auðvitað vel þeim sem eiga laust og meðfærilegt fé til ávöxtunar.

Hvað mun peningastefnunefndin gera? Mun hún einblína áfram á að halda neyslu og lántöku niðri með háum stýrivöxtum, sem reyndar bíta fyrst og fremst á lán sem lúta því fyrirkomulagi að fylgja nafnvöxtum Seðlabankans, þ.e. óverðtryggðum lánum, eða mun hún meta verðbólguvæntingar í takt við forsendur, líkt og ég fór yfir í upphafi máls míns?“

Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 17. ágúst 2016

Categories
Fréttir

Aukin samvinna með Færeyjum og Grænlandi

Deila grein

22/08/2016

Aukin samvinna með Færeyjum og Grænlandi

LDALilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu í dag yfirlýsingu um að kannaðir verði kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna. Skipaður verður vinnuhópur með fulltrúum þjóðanna og mun hann koma saman í fyrsta skipti í Nuuk í Grænlandi í október.
Stjórnvöld í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi leggja ríka áherslu á aukið samstarf vest norrænu þjóðanna. Þingsályktanir þess efnis hafa verið samþykktar í öllum löndunum og tekur yfirlýsingin í dag mið af því. Í henni segir að aukið og nánara samstarf sé ekki síst mikilvægt í ljósi alþjóðlegrar vakningar um mikilvægi norðurslóða. Hagsmunir þjóðanna fléttist saman á margvíslegan og brýnt sé að skilgreina sameiginlega viðskiptahagsmuni þeirra.
Lilja Alfreðsdóttir undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands, Poul Michelsen fyrir hönd Færeyja og Vittus Qujaukitsoq fyrir Grænland.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is 

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi fundar með sjávarútvegsráðherra Noregs

Deila grein

19/08/2016

Gunnar Bragi fundar með sjávarútvegsráðherra Noregs

Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Per Sandberg  sjávarútvegsráðherra Noregs funduðu á þriðjudaginn í Þrándheimi. Ræddu ráðherrarnir meðal annars stöðu sjávarútvegs í ríkjunum, ástand fiskveiðistofna  og samvinnu ríkjanna í sjávarútvegi þar með talið á alþjóðavettvangi.

Gunnar bragi og Naustmarine

Gunnar Bragi heimsótti af þessu tilefni einnig Nor-Fishing sýninguna í Noregi sem haldin hefur verið annað hvert ár frá því á sjöunda áratug síðustu aldar. Meðal sýnenda 2016 frá Íslandi voru fyrirtækin Egersund Island, Naust Marine, Skaginn 3X og Trefjar LTD.

Gunnar Bragi: „Það er augljóst að málefni sjávarútvegs eru að verða fyrirferðarmeiri á dagskrá Evrópuþjóða. Sjávarútvegur flokkast sem blár efnahagur og horfa menn til þeirra fjölmörgu tækifæra sem felast í samspili sjávarútvegs og hinnar fjölbreyttu flóru sjávartengds iðnaðar. Íslensk fyrirtæki eru í fremstu röð á þessu sviði enda hafa þau lagt ríka áherslu á nýsköpun m.a. á sviði vinnslutækni og líftækni.“
Gunnar Bragi og Per Sandberg funda

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is

 

Categories
Fréttir

Kjörstjórn óskar eftir framboðum frá konum

Deila grein

17/08/2016

Kjörstjórn óskar eftir framboðum frá konum

logo-framsokn-gluggiVegna tvöfalds kjördæmisþings framsóknarmanna hinn 27. ágúst 2016 þar sem fram fer val á lista vegna komandi alþingiskosninga.
Samkvæmt reglum Framsóknarflokksins, þarf að lágmarki ein kona að skipa eitt af fjórum efstu sætum og þrjú af sjö efstu sætum í hverju kjördæmi. Kjörstjórn óskar eftir framboðum frá konum. Vinsamlega hafið samband við formann kjörstjórnar fyrir 25. ágúst nk.
Kjörstjórn KFR.

Categories
Fréttir

Ég hlakka til alþingiskosninga – verið stigin risastór skref

Deila grein

17/08/2016

Ég hlakka til alþingiskosninga – verið stigin risastór skref

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Senn líður að kjördegi og viðburðaríkt þing líður undir lok. Ég taldi það ekki góða leið að flýta kosningum á sínum tíma, en þegar menn gefa loforð þá þarf að standa við þau. Við sem hér störfum þurftum að fá að vita hvernig dagskrá haustsins liti út. Nú liggur hún fyrir og það er vel. Ég hlakka til alþingiskosninga og ég er bjartsýn á gengi Framsóknarflokksins þar sem við erum afar vel mönnuð framsæknu fólki vítt og breitt um landið. Það er hugur í fólki enda er málefnastaða flokksins afar góð. Við leiðréttum stökkbreytt húsnæðislán sem náðu til tuga þúsunda heimila. Hlutfall fjárhæða niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri.

Fyrir örfáum árum, 2012, skulduðu heimilin í landinu 125% af vergri landsframleiðslu og voru með skuldsettustu heimilum í hinum vestræna heimi. Á síðasta ári voru skuldir heimilanna komnar niður í 84% af vergri landsframleiðslu og komnar niður fyrir það skuldahlutfall sem verið hefur hér á landi síðan fyrir aldamót. Þessi lækkun er að stærstum hluta til komin vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar með leiðréttingunni sem greidd var af kröfuhöfum bankanna.

Vík ég nú aftur að störfum þingsins. Þingstörfin gengu mjög vel í vor. Fjöldinn allur af málum var afgreiddur í breiðri sátt, t.d. stór mál eins og húsnæðisfrumvörpin fjögur. Ég á því ekki von á öðru en að þingstörfin munu einnig ganga vel nú og við náum að klára þau mál sem ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar hefur lagt til.

Í gær voru kynnt tvö frumvörp frá ríkisstjórn. Við fyrstu sýn líta þessi frumvörp ágætlega út þó að þau séu auðvitað ekki gallalaus, en ég á von á því að þeir gallar verði lagfærðir í þinglegri meðferð. Niðurstaða mín er því sú að með þessum aðgerðum hafi verið stigin risastór skref, þ.e. þeim aðgerðum sem kynntar voru í gær, undir forustu Framsóknarflokksins í átt að bættu fjármálakerfi.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 16. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Árangur ríkisstjórnarinnar

Deila grein

17/08/2016

Árangur ríkisstjórnarinnar

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Síðustu tvo daga hefur landsmönnum verið boðið upp á furðulegan og hreint ótrúlegan málflutning í þingsölum. Það er látið að því liggja að núverandi ríkisstjórn hafi ekkert gert þau rúmu þrjú ár sem hún hefur starfað. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur gjörbreytt stöðu þjóðarbúsins og gjörbreytt stöðu heimilanna. Hæstv. fjármálaráðherra benti á í gær að á þessu ári stefnir í að afgangur á ríkisfjármálum verði meiri en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009–2013. Að öllum líkindum verður meiri afgangur á þessu ári en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar. Í fimm ára áætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir 10% raunaukningu frumútgjalda ríkisins. Er það lítið? Nei, það er mikið, ekki síst þegar litið er til þess hvað hefur þegar verið gert á kjörtímabilinu. Og hvað er það? Farið var í skuldaleiðréttingu sem hefur gjörbreytt stöðu heimilanna. Bættur hagur heimila hefur leitt til aukins kaupmáttar og minni vanskila. Hagvöxtur er einn sá mesti sem þekkist á Vesturlöndum, ársverðbólga er komin undir 1% og um 6.000 ný störf urðu til á síðasta ári. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki og framlög til heilbrigðismála hafa verið stóraukin.

Þessi ríkisstjórn hafði þann kjark sem þurfti til að taka á kröfuhöfunum. Endapunktur þeirra mála verður væntanlega settur í dag eða á næstu dögum þegar síðasta haftafrumvarpið lítur dagsins ljós.

Það er vinsælt að þylja þá möntru að stjórnvöld séu alltaf að forgangsraða í þágu hinna ríku. Það er fjarri sanni, tekjuskattur lækkar og miðþrep tekjuskatts fellur niður um áramótin. Miðþrepið tekur við í um 240.000 kr. Nú fellur það út og búið er að lækka lægsta þrepið. Allir undir 800.000 kr. hafa fengið verulega lækkun tekjuskatts frá þessari ríkisstjórn. Þetta er fólkið sem vinstri stjórnin hækkaði skatta á.“

Karl Garðarsson í störfum þingsins 16. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Fyrsta fasteign

Deila grein

17/08/2016

Fyrsta fasteign

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Nú í gær kynnti hæstv. ríkisstjórn tvö frumvörp til laga um kaup á fyrstu íbúð, þar sem sannarlega er hugað að fasteignakaupum ungs fólks, og svo frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Þar horfum við til breytingar á lánafyrirkomulagi, sér í lagi sem snýr að 40 ára Íslandslánum svokölluðum, sem hafa þann eiginleika að bera vaxtavexti og mjög háan heildarkostnað þegar litið er til 40 ára. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar létu eðlilega ekki á sér standa en hún benti sannarlega á að hér er ekki um afnám að ræða, enda er miklu frekar mikilvægt að við breytum því lánafyrirkomulagi sem verið hefur. Ég held að allflestir viðurkenni að sá heildarkostnaður er hár sem fólk þarf að greiða allan þann tíma sem 40 árin eru á þessum Íslandslánum, sem ég held að flestir viðurkenni að eru erfið viðureignar, sérstaklega þegar efnahagurinn sveiflast, og þá stöndum við frammi fyrir því að ná fram skrefum í að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er það sem verið er að gera hér. Þess vegna má sannarlega kalla þetta áfangasigur, hæstv. forseti. Þetta er í eðli sínu þjóðþrifamál. Hvatinn til þess að taka óverðtryggð lán er sannarlega að finna í séreignarsparnaðarleiðinni og þar er jafnframt skattalegur hvati fyrir unga fólkið. Hér er verið að leita leiða til að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 16. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr – árangur síðustu missera varðar veginn

Deila grein

17/08/2016

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr – árangur síðustu missera varðar veginn

Sigurður Ingi Jóhannsson„Virðulegi forseti. Bjartsýni landsmanna um þessar mundir á sér góðar og gildar skýringar. Hagur heimilanna hefur vænkast verulega undanfarin missiri. Skuldir hafa minnkað, fasteignir hækkað í verði og starfandi Íslendingum fjölgað jafnt og þétt. Síðast en ekki síst hafa laun hækkað hratt á sama tíma og verðbólga hefur verið afar hófleg, m.a. vegna styrkingar krónu og hagfelldrar verðþróunar á hrávörum og eldsneyti erlendis frá. Aukning kaupmáttar launa hefur því verið mun meiri undanfarið en á sambærilegum tímabilum mikilla launahækkana á undanförnum áratugum þegar verðbólga var veruleg á sama tíma. Ekkert bendir til annars á þessari stundu en að þessi þróun geti haldið áfram ef við Íslendingar berum gæfu til að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Nýlegar tölur Hagstofunnar um launa- og kaupmáttarþróun draga þetta skýrt fram. Í júní hækkaði launavísitala Hagstofunnar verulega frá mánuðinum á undan. Frá sama mánuði í fyrra nemur hækkunin 12,5%. Á sama tímabili mældist verðbólga hverfandi og kaupmáttur launa jókst því umtalsvert á tímabilinu, þ.e. yfir tíu af hundraði. Slík kaupmáttaraukning er vafalítið afar fátíð.

Ársverðbólga nú í ágúst er reiknuð undir 1%. Verðbólgan hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tvö og hálft ár, í 30 mánuði. Gangi spáin eftir fer verðbólgan undir neðri fráviksmörk Seðlabankans sem er óhætt að segja að sé alveg ný staða fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans. Útlit er fyrir litla verðbólgu næstu mánuði og að hún haldist undir verðbólgumarkmiði vel inn á næsta ár hið minnsta. Að því leyti má segja að við Íslendingar njótum nú einstaks tímabils verðstöðugleika og, eins og áður sagði, umtalsverðrar kaupmáttaraukningar.

Á síðasta ári urðu til 6.000 ný störf hér á landi. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða hefur ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2009. Hlutfall starfandi er nú jafn hátt og í janúar 2006 og atvinnuleysi komið á svipaðar slóðir og í upphafi árs 2003. Hlutfall þeirra sem hafa vinnu hefur hækkað nær stanslaust frá upphafi árs 2013 og fátt sem bendir til þess að það breytist á næstunni.

Þá hefur atvinnuþátttaka farið ört vaxandi og nálgast nú það sem best hefur verið. Nýjar tölur sýna að Íslendingar erlendis eru aftur farnir að sjá tækifæri á Íslandi og séu að koma heim. Sjaldgæft er að aðfluttir Íslendingar séu fleiri en brottfluttir, en nú er útlit fyrir að þetta ár verði það þriðja af síðustu 17 árum þar sem fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja til landsins en frá því.

Flestar spár eru Íslendingum hagfelldar nú um stundir. Gangi spár um hagvöxt eftir verður landsframleiðsla á mann árið 2016 hærri en árið 2007. Það sem skiptir þó mestu er að hagvöxtur nú er mun heilbrigðari en árið 2007 þegar hann var að miklu leyti byggður á aukinni skuldsetningu. Hagvöxtur nú er knúinn áfram af fjárfestingu og einkaneyslu. Því má búast við að einkaneysla aukist samhliða auknum kaupmætti en ríkisstjórnin mun halda áfram að styðja við heimilin svo þau geti haldið áfram að grynnka á skuldum eða auka sparnað. Þar skiptir miklu að samhliða bættri eignastöðu fyrirtækja og heimila eru vanskil að dragast saman. Ný skýrsla Íbúðalánasjóðs sýnir að vanskil einstaklinga dragast hratt saman, þ.e. um tæplega helming frá því í júní í fyrra. Það er því ekki að ástæðulausu að matsfyrirtækið Moody’s hefur tilkynnt að lánshæfismat Íbúðalánasjóðs verði endurmetið með mögulega hækkun í huga.

Þessi bætti hagur heimila og fyrirtækja skilar sér einnig í bættum ríkisrekstri, en núverandi ríkisstjórn hefur náð einstökum árangri í ríkisfjármálum eins og lesa má úr skýrslum lánshæfisfyrirtækja. Ef sömu stefnu er fylgt er þess ekki langt að bíða að Ísland færist aftur upp í A-flokk á hinum alþjóðlega lánamarkaði. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum missirum? Um leið mun vaxtakostnaður ríkissjóðs lækka mikið eins og hann hefur reyndar gert allt þetta kjörtímabil.

Skattstofnar hafa styrkst þrátt fyrri lægri skattálagningu og gjaldendum fjölgar. Þegar horft er til útgjalda er ríkissjóður nú kominn aftur til tímans fyrir efnahagskrísu og bankahrun. Þar munar mestu að útgjöld til velferðarmála hafa hækkað gríðarlega í tíð þessarar ríkisstjórnar og eru nú tæplega 12 milljörðum kr. hærri að raunvirði en 2007.

Ríkisstjórnin hefur undanfarið kynnt margvíslegar tillögur um aðrar umbætur í velferðarmálum, svo sem stórátak í þágu þeirra sem kaupa sína fyrstu fasteign eins og greint var frá fyrr í dag.

Stundum er rætt um punktstöðu til að árétta að staðan sé svona núna en óvíst sé með framhaldið. Punktstaðan fyrir íslenska hagkerfið hefur verið ansi góð lengi og ekkert lát virðist á, eins og hér hefur verið rakið. Meira að segja hin þekkta væntingavísitala Gallups nálgast hratt hámarkið fyrir bankahrunið 2008 en vísitalan mælir tiltrú á væntingar fólks til efnahagslífsins, atvinnuástandsins og heildartekna heimilisins. Bjartsýni hefur aukist á sama tíma og störfum hefur fjölgað mikið og kaupmáttur fólks aukist. Sömu sögu er að segja um viðhorf stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins og telja þeir stöðu atvinnulífsins góða, en vísitala efnahagslífsins hefur aðeins í tvö skipti mælst hærri af síðustu 49 skiptum. Því má með nokkrum sanni leyfa sér að fullyrða að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar núna sé óvenjugott, jafnvel einstakt um margt. Þessi ríkisstjórn hefur unnið að því að breyta, bæta og lagfæra það sem þarf að gera síður en að bylta. Við getum því verið stolt af stöðu mála núna í hagkerfinu. Því má halda fram að endurreisn efnahagslífsins og aðgerðum eftir efnahagskrísu og bankahrun sé lokið. Nú þurfum við að fara að horfa fram á veginn til langrar framtíðar.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin setti sér markmið í upphafi kjörtímabils. Þau hafa verið að nást eitt af öðru, skuldaleiðréttingin sem tókst afburðavel og hefur skilað tilætluðum árangri, hvernig tekið var á slitabúum bankanna og kröfuhöfum sem hefur skilað því að næsta verkefni er afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki.

Í dag voru kynnt og sett fram úrræði fyrir þá sem hyggjast kaupa sína fyrstu fasteign. Þótt á ýmsu hafi gengið hefur ríkisstjórnin aldrei misst sjónar af markmiðum sínum. Til þess þarf staðfestu og áræðni.

Við Íslendingar eigum mikil tækifæri í því árferði sem nú ríkir. Ytri og innri skilyrði eru og hafa verið hagstæð. Það skiptir þó máli hvað menn gera úr þeim tækifærum sem á vegi þeirra verða. Það skiptir máli að allir fái að njóta, ekki bara sumir. Sagan segir okkur að það sé engin trygging fyrir því að ástandið verði svona áfram. Höfum í huga að það skiptir máli hverjir sitja við stjórnvölinn. Veldur hver á heldur.

Við erum nú að hefja síðsumarsþing þar sem fyrir liggja mörg mikilvæg mál fyrir landsmenn sem mikilvægt er að ljúka áður en gengið er til kosninga í haust. Ég vænti þess að með skipulagðri vinnu á þinginu næstu vikur muni það ganga eftir, sérstaklega ef horft er til þess vinnulags og þeirrar skilvirkni sem við sáum á síðustu mánuðum vorþingsins.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir hina sönnu stöðu efnahagsmála landsins með vísan til staðreynda og hagvísa. Mikilvægt er fyrir okkur öll að staðan nú sé ljós. Við getum síðan haft mismunandi skoðanir á því hvert við eigum að stefna héðan.

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr. Árangur síðustu missira varðar veginn.“

Munnleg skýrsla Sigurður Inga Jóhannssonar forsætisráðherra á Alþingi um stöðu þjóðmála 15. ágúst 2016.