Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

25/06/2024

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Kæru félagar! 154 löggjafarþingi lauk rétt eftir miðnætti sl. laugardag og þingfundum frestað til 10. september. Þessi þingvetur var afkastamikill og fjölmörg frumvörp voru samþykkt á lokasprettinum. Við höfum tekið saman yfirlit yfir samþykkt stjórnarmál frá ráðherrum okkar sem má nálgast hér.  

Í fyrsta sinn er mörkuð langtímastefna í húsnæðismálum, þar sem jafnframt er stuðlað að skilvirkari og bættri stjórnsýslu. Öllum á að vera tryggt aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins.  

Alþingi samþykkti breytingu á listamannalaunum, fjölgun launasjóða sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða. Starfslaunamánuðum verður fjölgað úr 1.600 í 2.490 á 4 árum. Einnig verða til tveir nýir sjóðir; Launasjóði kvikmyndahöfunda og Vegsemd, sjóður listamanna 67 ára og eldri. „Ég er ákaflega glöð með að samstarfsfólk mitt í þinginu hafi séð tækifærin sem felast í því að fjárfesta í listafólkinu okkar. Það gleymist oft í þessari umræðu að listir auðga ekki bara andann heldur eru þær líka tekjulind,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.  

Eins voru á  Alþingi samþykkt viðamikil mál s.s. um sölu ríkiseigna, breytt lög um örorkulífeyri, auknar heimildir lögreglu til rannsókna og mannréttindamál. Lögum um örorkulífeyri var breytt með áherslu á sérstaka hvata fyrir lífeyrisþega til atvinnuþátttöku, aukinn stuðningur við fólk í endurhæfingu og hærri lífeyrisgreiðslur. Mannréttindastofnun Íslands verður sett á fót sem sjálfstæð stofnun beint undir Alþingi. Samþykkt voru lög um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum með framlagi úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hertar reglur vegna notkunar rafhlaupahjóla m.a. varðandi aldurstakmark á notkun þeirra.  

Það er að mörgu að taka og til þess að fara enn betur yfir málin og svara spurningum sem eflaust brenna á ykkur varðandi hin ýmsu mál boðum við í þingflokknum til fundar með flokksfólki á Teams nk. fimmtudag, 27. júní, kl. 20.00. Á fundinum förum við yfir þinglokin og hvað stendur út af borðinu.  

Þeir sem hafa ekki áður tekið þátt í STÖRFUM ÞINGSINS – Samtal þingflokksins við grasrótina verða nauðsynlega að skrá sig hér:

Störf þingsins – Rafrænn fundur

Hlekkur á fundinn verður sendur skömmu fyrir fund.  

Eldhúsdagsumræður á Alþingi fóru fram 12. júní og voru ræðumenn Framsóknar Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson. Ræður þeirra mæltust mjög vel fyrir og sagði Lilja Rannveig m.a.: „Með Framsókn í fararbroddi í íslenskum stjórnmálum hefur samfélagið okkar náð að blómstra. Við trónum nálægt toppum á listum sem mæla jafnrétti kynjanna eða stöðu hinsegin fólks. En við sjáum bakslag í jafnréttisbaráttunni á heimsvísu og við þurfum stöðugt að vera á verðinum til að tryggja mannréttindi. Við búum á landi þar sem er einna öruggast að vera kona og þar sem eru mestu tækifærin fyrir ungt fólk. Það er vegna þeirra aðstæðna sem við sem samfélag höfum skapað, en það má þó alltaf gera betur.“ Ágúst Bjarni minnti á hversu vel hefur verið haldið utan um heilbrigðismálin: „Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Eftir áralangt samningsleysi hefur nú m.a. verið samið við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Með þessum samningum lækkar greiðsluþátttaka einstaklinga sem hefur hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu.“  

Vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta fyrir framan skjáinn nk. fimmtudagskvöld og hvet ykkur til að hnippa í aðra félaga okkar í Framsókn og minna á fundinn.  

Með kveðju,  
Ingibjörg Isaksen
Categories
Fréttir Greinar

Fjár­fest í menningu

Deila grein

24/06/2024

Fjár­fest í menningu

Í dag er stór dagur þegar samþykktar voru breytingar á frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra á listamannalaunum í fyrsta skipti í 15 ár. Listamannalaun eða starfslaun listamanna eru þungamiðjan í kjörum listamannsins og markmið þeirra er að efla listsköpun í landinu. Listamenn eru mikilvægustu sendiherrar lands og þjóðar og halda merki Íslands á lofti dag hvern í alþjóðasamfélaginu.

Tímabærar breytingar

Listsköpun er afar mikilvæg hverri þjóð og nauðsynlegt að kjör listamanna haldist í horfi við kjör annarra í hagkerfinu. Fjöldi starfslauna hefur haldist óbreyttur í 15 ár eða frá því að gildandi lög tóku gildi árið 2009 auk þess sem umfang listamannalauna hefur staðið í stað frá árinu 2012, utan tímabundinnar aukningar á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Með þessum breytingum er verið að fjölga launasjóðum sem starfslaun eru veitt úr og fjölga árlegum úthlutunarmánuðum. Starfslaunamánuðum verður fjölgað úr 1.600 í 2.490 á fjórum árum. Mikilvægt er að umfang og fyrirkomulag listmannalauna sé endurmetið reglulega. Síðustu ár hefur fólki í landinu fjölgað, áherslur á listsköpun tekið breytingum og eftirspurn eftir listamannalaunum og árangurshlutfall umsækjenda í mismunandi sérgreinda sjóði vaxið.

Vegsemd

Þær breytingar sem hér eru komnar fram eru veigamiklar. Fyrst má nefna nýjan sjóð – Vegsemd sem er þverfaglegur sjóður fyrir listamenn 67 ára og eldri sem hafa varið starfsævi sinni til listsköpunar. Ekki er gert ráð fyrir að listamenn sæki beint um framlög úr sjóðnum heldur að listamenn 67 ára og eldri sæki um úthlutun úr hinum sérgreindu sjóðum í samræmi við sína listgrein. Lagt er til að starfslaun úr Vegsemd megi veita til allt að fimm ára í senn auk þess sem fallið er frá því að starfslaunaþegum beri að skila skýrslu um störf sín á starfslaunatíma.

Nýr kvikmyndasjóður

Þá kemur inn nýr sjóður fyrir kvikmyndahöfunda og er sjóðurinn í samræmi við kvikmyndastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Með kvikmyndahöfundum er átt við bæði leikstjóra og handritshöfunda auk þess sem aðrir aðalhöfundar kvikmynda geta fallið þar undir, þar á meðal höfundar heimildarmynda. Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega, mun úthluta fé úr launasjóðnum sem Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag leikskálda og handritshöfunda skulu hvort um sig tilnefna þrjá nefndarmenn í.

Mikilvægi stuðnings við listamenn

Stuðningur í formi listamannalauna gríðarlega mikilvægur fyrir bæði listamennina sjálfa og samfélagið í heild, hér er um að ræða fjárfestingu sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Listamannalaun veita listamönnum öryggi og svigrúm til að einbeita sér að sköpun sinni án þess að þurfa að hafa áhyggjur af fjárhagslegum vandamálum. Með þessu fá þeir tækifæri til að þróa hæfileika sína, vinna að nýjum og krefjandi verkefnum og skapa verk sem geta haft djúpstæð áhrif á menningu okkar og samfélag. Listamenn gegna lykilhlutverki í að móta og spegla menninguna. Listamannalaun stuðla þannig að því að tryggja fjölbreytileika og nýsköpun í listum, sem er nauðsynlegt fyrir heilbrigt og þróttmikið menningarlíf.

Það er ljóst að með því að veita listamönnum listamannalaun erum við ekki aðeins að styðja við einstaklingana sjálfa, heldur einnig að efla menningu okkar, auðga samfélagið og styrkja efnahagslífið. Ég fagna þessum breytingum sem munu ævinlega stuðla að því að skapa umhverfi þar sem listir og menning geta blómstrað til hagsbóta fyrir alla.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. júní 2024.

Categories
Fréttir

Ferðamálastefna samþykkt á Alþingi: Áhersla á sjálfbærni og samkeppnishæfni

Deila grein

21/06/2024

Ferðamálastefna samþykkt á Alþingi: Áhersla á sjálfbærni og samkeppnishæfni

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi. 

Með samþykkt þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 er um ákveðin tímamót að ræða sem birtist í heildstæðri stefnumótun á sviði ferðaþjónustu með víðtækri þátttöku haghafa og almennings. 

,,Vönduð og yfirgripsmikil vinna fjölda sérfræðinga og hagaðila skilar sér í metnaðarfullri framtíðarsýn sem ég bind miklar vonir við að muni auka stöðugleika og sjálfbærni ferðaþjónustunnar. Það er mikið gleðiefni inn í ferðasumarið að sjá hversu samstíga þingið er í að styðja við stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnuveg þjóðarinnar og um leið að skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að varðveita og virða landið okkar. Ég óska okkur öllum gleðilegs ferðasumar og hlakka til þess að fylgjast með metnaðarfullri aðgerðaáætlun raungerast á næstu árum,” segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Vinna við ferðamálaáætlunina hefur staðið yfir í um tvö ár með þátttöku fjölda aðila. Um mitt ár 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 og lauk henni í byrjun árs 2023. Í uppfærðum stefnuramma, sem myndar grunn að ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030, er að finna 12 áherslur sem deilast á fjórar lykilstoðir ferðaþjónustu; þ.e. efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. 

Samkvæmt þingsályktuninni er framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Í því felst að hér sé arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun.  

Í maí 2023 skipaði ferðamálaráðherra sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu til 2030. Var þar miðað við að stefnan og aðgerðaáætlunin yrði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024 og gekk sú tímaáætlun eftir. Verkefnið í heild sinni hefur verið leitt af stýrihóp á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis, með helstu haghöfum, og er nánari upplýsingar að finna um verkefnið á www.ferdamalastefna.is

Starfshóparnir sjö náðu utan um helstu þætti ferðaþjónustu, þ.e. sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og menningartengda ferðaþjónustu. 

Viðamikið samráð var haft við haghafa við gerð aðgerðaáætlunar frá maí 2023 til mars 2024, m.a. með fjölda vinnustofa og funda. Beint að þessari vinnu komu yfir 100 manns, og óbeint talsvert fleiri. Fyrstu drög að aðgerðum voru sett í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember 2023 og var unnið úr þeim athugasemdum sem þar bárust. 

Frá 14. febrúar til 6. mars 2024 stóðu yfir opnir umræðu- og kynningarfundir ráðherra í öllum landshlutum um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Drög að þingsályktunartillögunni voru sett í samráðsgátt stjórnvalda frá 28. febrúar til 12. mars og í framhaldinu var farið yfir umsagnir og ábendingar, bæði af opnu fundunum og úr samráðsgátt, og vinnu við gerð draganna lokið af hálfu stýrihópsins. 

Á grunni framangreindrar vinnu var gengið frá tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 og hún lögð fyrir Alþingi 15. apríl. Í þingskjalinu koma fram 43 skilgreindar aðgerðir sem ætlað er að fylgja eftir áherslum ferðamálastefnu og þeim markmiðum sem þar koma fram. Dreifast þær á lykilstoðir ferðaþjónustu. 

Meðal aðgerða má nefna: 

  • Markviss og viðvarandi markaðssetning á Íslandi sem áfangastað 
  • Innleiðing álagsstýringar á ferðamannastöðum 
  • Breytt fyrirkomulagi á gjaldtöku af ferðamönnum 
  • Aukið eftirlit með heimagistingu og hert skilyrði 
  • Grunninnviðir fyrir rannsóknir, greiningu og stefnumótun í ferðaþjónustu 
  • Uppbygging millilandaflugvalla styðji við dreifingu ferðamanna 
  • Endurskoðun á regluverki fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skilvirkara eftirlit 
  • Fjölgun fyrirtækja með umhverfis- og/eða sjálfbærnivottanir 
  • Efling náms í ferðaþjónustu þvert á skólastig 

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Það er ekkert í störfum lögreglu gert af geðþótta“

Deila grein

21/06/2024

„Það er ekkert í störfum lögreglu gert af geðþótta“

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, ræddi málefni lögreglu í störfum þingsins og sagði okkur vera með löggæslu sem sé virkilega fagleg í sínum störfum og hafi yfirgripsmikla þekkingu.

„Í öllu því sem við gerum eigum við að styrkja stöðu lögreglunnar því að það skiptir máli fyrir öryggi lögreglumanna, fyrir okkar öryggi og við skulum ekki gleyma því að þessir lögreglumenn eiga líka fjölskyldur sem treysta á það að einstaklingarnir sem leggja líf sitt og heilsu að veði á hverjum degi til að tryggja okkar öryggi komi heilir heim,“ sagði Hafdís Hrönn.

Lögreglan sé að gera sitt besta í samræmi við heimildir og verkfæri og bera verði virðingu fyrir því.

„Það er svo magnað að hlusta á fólk tjá sig um störf lögreglu af þekkingarleysi og með sleggjudómum, eins og við höfum séð á undanförnum vikum þar sem lögreglan er gagnrýnd fyrir að tryggja bæði öryggi einstaklinganna sem höfð eru afskipti af, sitt öryggi og öryggi borgaranna,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Það er ekkert í störfum lögreglu gert af geðþótta og þegar það þarf að hafa afskipti af borgurunum, hvað þá einstaklingum sem eru að mæta lögreglunni á sínum viðkvæmustu og erfiðustu tímapunktum í lífinu, þá er ekkert fallegt við valdbeitingu, þurfi að grípa til hennar. En hún getur verið nauðsynleg og við þurfum að átta okkur á því að það er forsaga í öllum málum.“

Sagði hún lögreglu verða geta brugðist örugglega við sé þjóðaröryggi í hættu og koma í veg fyrir að skipulögð brotastarfsemi nái að skjóta hér rótum enn frekar. Löggjafinn verði að gefa lögreglu þær heimildir sem þarf til.

„Við þurfum að valdefla lögregluna í sínum verkefnum því að ef við gerum það ekki þá er það á okkar ábyrgð ef það gerist eitthvað stórt hér á landi og lögreglan hefur ekki þær heimildir sem þarf til að koma í veg fyrir afbrot á stærri skala.

Ég hvet okkur öll til að sameinast um þær breytingar sem liggja fyrir þinginu, lögreglu og þjóðinni allri til heilla“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Við erum með löggæslu í þessu landi sem er virkilega fagleg í sínum störfum og hefur yfirgripsmikla þekkingu. Í öllu því sem við gerum eigum við að styrkja stöðu lögreglunnar því að það skiptir máli fyrir öryggi lögreglumanna, fyrir okkar öryggi og við skulum ekki gleyma því að þessir lögreglumenn eiga líka fjölskyldur sem treysta á það að einstaklingarnir sem leggja líf sitt og heilsu að veði á hverjum degi til að tryggja okkar öryggi komi heilir heim. Lögreglan er að gera sitt allra besta með þær heimildir sem og þau verkfæri sem hún hefur yfir að ráða og við eigum og þurfum að bera virðingu fyrir því. Það er svo magnað að hlusta á fólk tjá sig um störf lögreglu af þekkingarleysi og með sleggjudómum, eins og við höfum séð á undanförnum vikum þar sem lögreglan er gagnrýnd fyrir að tryggja bæði öryggi einstaklinganna sem höfð eru afskipti af, sitt öryggi og öryggi borgaranna. Það er ekkert í störfum lögreglu gert af geðþótta og þegar það þarf að hafa afskipti af borgurunum, hvað þá einstaklingum sem eru að mæta lögreglunni á sínum viðkvæmustu og erfiðustu tímapunktum í lífinu, þá er ekkert fallegt við valdbeitingu, þurfi að grípa til hennar. En hún getur verið nauðsynleg og við þurfum að átta okkur á því að það er forsaga í öllum málum.

Tryggjum að lögreglan geti brugðist örugglega við og gefum henni þær heimildir sem þörf er á til að tryggja megi þjóðaröryggi og koma í veg fyrir að skipulögð brotastarfsemi nái að skjóta enn frekar rótum hér á landi. Við þurfum að valdefla lögregluna í sínum verkefnum því að ef við gerum það ekki þá er það á okkar ábyrgð ef það gerist eitthvað stórt hér á landi og lögreglan hefur ekki þær heimildir sem þarf til að koma í veg fyrir afbrot á stærri skala. Ég hvet okkur öll til að sameinast um þær breytingar sem liggja fyrir þinginu, lögreglu og þjóðinni allri til heilla.“

Categories
Fréttir

Er þetta eitthvert grín?

Deila grein

21/06/2024

Er þetta eitthvert grín?

Iða Marsibil Jónsdóttir, varaþingmaður, telur það afar slæmar fréttir, eftir að ljóst varð í gær, að lagareldisfrumvarp næði ekki fram að ganga á þessu þingi.

„Ég kem frá sunnanverðum Vestfjörðum og starfaði við fiskeldi um árabil. Til að setja hlutina í eitthvert samhengi þá var það fyrst árið 2014 sem fyrstu seiðin voru sett í sjó hjá því fyrirtæki. Eftir tíu ár er staðan orðin sú að á síðasta ári framleiddi það fyrirtæki tæplega 18.000 tonn af laxi og hjá því vinna um 200 manns, að mestu leyti á svæðinu, en íbúar þar telja 1.400,“ sagði Iða Marsibil.

„Í stuttu máli sagt, virðulegur forseti, skiptir þessi atvinnuvegur öllu máli fyrir þorpin fyrir vestan núorðið.“

„Ég leyfi mér að fullyrða það hér að árið 2014 var ekki sérlega bjart fram undan í þessum þorpum fyrir vestan og máttu þau muna sinn fífil fegri. Á síðasta kjörtímabili sat ég í bæjarstjórn í Vesturbyggð. Þá og allar götur síðan hafa bæjaryfirvöld þar og atvinnugreinin sjálf kallað eftir skýrari lagaramma um þessa atvinnugrein. Gjaldtökuheimildir verða að vera skýrar og starfsemin með þeim hætti að umhverfissjónarmið séu höfð að leiðarljósi. Starfsgreinin er umdeild, á því leikur enginn vafi, en hún hefur fest sig í sessi og því brýnt að horfa fram á við og vil ég nota tækifærið hér til þess að brýna þingmenn til að klára málið ákveðið og með sóma á haustþingi,“ sagði Iða Marsibil að lokum.


Ræða Iðu Marsibil í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í gær varð ljóst að svokallað lagareldisfrumvarp næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Það þóttu mér afar slæmar fréttir og ég spyr: Er þetta eitthvert grín? Ég vil taka undir með hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur. Ég kem frá sunnanverðum Vestfjörðum og starfaði við fiskeldi um árabil. Til að setja hlutina í eitthvert samhengi þá var það fyrst árið 2014 sem fyrstu seiðin voru sett í sjó hjá því fyrirtæki. Eftir tíu ár er staðan orðin sú að á síðasta ári framleiddi það fyrirtæki tæplega 18.000 tonn af laxi og hjá því vinna um 200 manns, að mestu leyti á svæðinu, en íbúar þar telja 1.400.

Í stuttu máli sagt, virðulegur forseti, skiptir þessi atvinnuvegur öllu máli fyrir þorpin fyrir vestan núorðið. Ég leyfi mér að fullyrða það hér að árið 2014 var ekki sérlega bjart fram undan í þessum þorpum fyrir vestan og máttu þau muna sinn fífil fegri. Á síðasta kjörtímabili sat ég í bæjarstjórn í Vesturbyggð. Þá og allar götur síðan hafa bæjaryfirvöld þar og atvinnugreinin sjálf kallað eftir skýrari lagaramma um þessa atvinnugrein. Gjaldtökuheimildir verða að vera skýrar og starfsemin með þeim hætti að umhverfissjónarmið séu höfð að leiðarljósi. Starfsgreinin er umdeild, á því leikur enginn vafi, en hún hefur fest sig í sessi og því brýnt að horfa fram á við og vil ég nota tækifærið hér til þess að brýna þingmenn til að klára málið ákveðið og með sóma á haustþingi.“

Categories
Fréttir

„Við erum að tefja fyrir þróun og samkeppnishæfni lagareldis á alþjóðamarkaði“

Deila grein

21/06/2024

„Við erum að tefja fyrir þróun og samkeppnishæfni lagareldis á alþjóðamarkaði“

„Í dag vil ég deila vonbrigðum mínum yfir því að lagareldisfrumvarpið náði ekki fram að ganga hér á Alþingi í vor eftir mikla og góða vinnu í atvinnuveganefnd. Framsókn var sérstaklega í mun að klára þetta. Þessu frumvarpi var ætlað að stuðla að betri stjórnun og umhverfisvernd í lagareldi og er afar mikilvægt fyrir samfélög sem búa við sjókvíaeldi, atvinnugreinina sjálfa og umhverfi okkar,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Sagði hún að í samfélögum þar sem er sjókvíaeldi að það sé rekið á ábyrgan hátt enda hefur það veruleg áhrif á lífsviðurværi þeirra. „Við erum að tala um fólkið og þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað í kringum atvinnugreinina.“

„Frumvarpið átti að tryggja að rekstur sjókvíaeldis væri í sátt við þessi samfélög og stuðla að því að þau gætu blómstrað í heilbrigðu umhverfi. Atvinnugreinin sjálf, sjókvíaeldi, stendur einnig frammi fyrir áskorunum sem þarf að takast á við. Til að tryggja framtíðarvöxt og sjálfbærni er nauðsynlegt að hafa skýrar reglur og eftirlit,“ sagði Halla Signý.

„Frumvarpið var hannað til að skapa sanngjarnan og stöðugan ramma fyrir þessar mikilvægu atvinnugrein sem á að geta stækkað án þess að skaða náttúruna eða samfélögin sem hún hefur áhrif á. Frumvarpið er til þess gert að setja sterka stefnu um framtíðina. Við erum að tefja fyrir þróun og samkeppnishæfni lagareldis á alþjóðamarkaði.“

„Það er algjör firra að hafa ekki kjark til að klára þessa mikilvægu stefnu um lagareldi og við verðum að taka upp þráðinn í haust og klára þetta. Annars er allt tal um ábyrga uppbyggingu, eftirlit og sjálfbærni tómið eitt og þýðir ekki að flagga því framan í mig a.m.k.,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í dag vil ég deila vonbrigðum mínum yfir því að lagareldisfrumvarpið náði ekki fram að ganga hér á Alþingi í vor eftir mikla og góða vinnu í atvinnuveganefnd. Framsókn var sérstaklega í mun að klára þetta. Þessu frumvarpi var ætlað að stuðla að betri stjórnun og umhverfisvernd í lagareldi og er afar mikilvægt fyrir samfélög sem búa við sjókvíaeldi, atvinnugreinina sjálfa og umhverfi okkar.

Fyrst vil ég nefna samfélögin sem búa við sjókvíaeldið. Fyrir þessi samfélög skiptir miklu máli að lagareldið sé rekið á ábyrgan hátt þar sem það hefur veruleg áhrif á lífsviðurværi þeirra. Við erum að tala um fólkið og þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað í kringum atvinnugreinina. Frumvarpið átti að tryggja að rekstur sjókvíaeldis væri í sátt við þessi samfélög og stuðla að því að þau gætu blómstrað í heilbrigðu umhverfi. Atvinnugreinin sjálf, sjókvíaeldi, stendur einnig frammi fyrir áskorunum sem þarf að takast á við. Til að tryggja framtíðarvöxt og sjálfbærni er nauðsynlegt að hafa skýrar reglur og eftirlit. Frumvarpið var hannað til að skapa sanngjarnan og stöðugan ramma fyrir þessar mikilvægu atvinnugrein sem á að geta stækkað án þess að skaða náttúruna eða samfélögin sem hún hefur áhrif á. Frumvarpið er til þess gert að setja sterka stefnu um framtíðina. Við erum að tefja fyrir þróun og samkeppnishæfni lagareldis á alþjóðamarkaði.

Virðulegi forseti. Það er algjör firra að hafa ekki kjark til að klára þessa mikilvægu stefnu um lagareldi og við verðum að taka upp þráðinn í haust og klára þetta. Annars er allt tal um ábyrga uppbyggingu, eftirlit og sjálfbærni tómið eitt og þýðir ekki að flagga því framan í mig a.m.k.“

Categories
Fréttir

„Þingfundir eru ekki nema örlítið brot af starfi Alþingis“

Deila grein

19/06/2024

„Þingfundir eru ekki nema örlítið brot af starfi Alþingis“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfunum vinnuna er fer fram í fastanefndum Alþingis og að birtingarmynd þeirri komi ekki augljóslega fram í gegnum þingfundi og sýni ekki nema örlítið brot af starfi Alþingis.

„Í fastanefndum þingsins er unnið allan starfstíma þingsins og raunar einnig utan hans. Síðustu vikur hafa margar nefndir nýtt hverja einustu mínútu sem þeim er úthlutað til starfa og þess má geta að þær nefndir sem ég starfa í, allsherjar- og menntamálanefnd og velferðarnefnd, hafa hvor um sig haldið nálægt 80 fundi í vetur og þar er samvinnan góð.“

„Framsögumenn mála funda líka formlega og óformlega við vinnslu mála, enda er hlutverk þeirra að vinna að og stýra athugun máls fyrir hönd nefndarinnar, gera tillögu um afgreiðslu þess og drög að nefndaráliti þegar athugun er lokið. Þar reynir á alls vega samvinnu,“ sagði Líneik Anna.

„Ég vil nota tækifærið hér og þakka öllu því fólki sem sendir nefndum þingsins umsagnir varðandi þingmál og er tilbúið að koma fyrir nefndir og aðstoða þar með þingmenn við að upplýsa og dýpka þekkingu á þeim málum sem þingmenn og ráðherrar leggja fyrir þingið og öðrum málum sem til umfjöllunar eru hverju sinni. Þá vil ég þakka nefndarriturum og öðrum starfsmönnum nefndasviðs sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig þegar verið er að draga saman sjónarmið í nefndarálit og breytingartillögur eftir margra vikna og mánaða vinnu við að afla upplýsinga og jafnvel umfjöllun á fleiri en einu þingi,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Til hamingju með daginn. 19. júní er merkisdagur og þá er þarft að rifja upp að vinnan að jafnrétti er viðvarandi verkefni og aldrei má sofna á verðinum og tek ég undir orð fyrri ræðumanna um þennan merkisdag.

En hér ætla ég að ræða störf þingsins og einkum störf nefndanna. Myndin sem birtist af þingstörfunum í gegnum þingfundi sýnir ekki nema örlítið brot af starfi Alþingis. Í fastanefndum þingsins er unnið allan starfstíma þingsins og raunar einnig utan hans. Síðustu vikur hafa margar nefndir nýtt hverja einustu mínútu sem þeim er úthlutað til starfa og þess má geta að þær nefndir sem ég starfa í, allsherjar- og menntamálanefnd og velferðarnefnd, hafa hvor um sig haldið nálægt 80 fundi í vetur og þar er samvinnan góð. Framsögumenn mála funda líka formlega og óformlega við vinnslu mála, enda er hlutverk þeirra að vinna að og stýra athugun máls fyrir hönd nefndarinnar, gera tillögu um afgreiðslu þess og drög að nefndaráliti þegar athugun er lokið. Þar reynir á alls vega samvinnu.

Ég vil nota tækifærið hér og þakka öllu því fólki sem sendir nefndum þingsins umsagnir varðandi þingmál og er tilbúið að koma fyrir nefndir og aðstoða þar með þingmenn við að upplýsa og dýpka þekkingu á þeim málum sem þingmenn og ráðherrar leggja fyrir þingið og öðrum málum sem til umfjöllunar eru hverju sinni. Þá vil ég þakka nefndariturum og öðrum starfsmönnum nefndasviðs sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig þegar verið er að draga saman sjónarmið í nefndarálit og breytingartillögur eftir margra vikna og mánaða vinnu við að afla upplýsinga og jafnvel umfjöllun á fleiri en einu þingi.“

Categories
Fréttir

Kynjajafnrétti er réttlætismál – nauðsyn fyrir farsæld og velferð samfélagsins

Deila grein

19/06/2024

Kynjajafnrétti er réttlætismál – nauðsyn fyrir farsæld og velferð samfélagsins

„Í dag fögnum við merkilegum degi í sögu okkar þjóðar, 19. júní. Á þessum degi árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis sem markaði tímamót í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Í rúmlega öld höfum við tekið stór skref í átt að jafnræði. Við höfum unnið að því að tryggja að konur hafi jafna stöðu og tækifæri á öllum sviðum samfélagsins. Við höfum séð framfarir á sviði menntunar, vinnumarkaðar og stjórnmála.“

Sagði hún konur í dag í forystuhlutverkum í atvinnulífi, vísindum, menningu og stjórnmálum, en þrátt fyrir miklar framfarir sé verk að vinna. Kynbundinn launamunur sé enn til staðar og ofbeldi gegn konum sé alvarlegt samfélagsvandamál.

„Við verðum að halda áfram að berjast fyrir því að allar konur og stúlkur njóti mannréttinda og öryggis. Við verðum einnig að huga að jafnrétti í hvívetna. Jafnrétti kynjanna, jafnrétti þjóðfélagshópa og jafnrétti allra einstaklinga óháð uppruna eða bakgrunni er grundvallaratriði fyrir samfélagið sem við viljum byggja. Við skulum fagna fjölbreytileikanum og þeim krafti sem býr í fólkinu okkar. Þetta er ekki einungis verkefni kvenna heldur samfélagsins alls,“ sagði Halla Signý.

„Kynjajafnrétti er ekki bara réttlætismál heldur nauðsyn fyrir farsæld og velferð samfélagsins. Við verðum að vinna saman til að tryggja að réttindum, virðingu og tækifærum sé jafnt skipt. Það er staðreynd að þrátt fyrir áratugabaráttu og miklar framfarir á ýmsum sviðum stöndum við nú frammi fyrir því og sjáum bakslag í jafnréttisbaráttu og baráttu hinsegin fólks sem er í hættu víða um heim.“

„Á þessum degi skulum við skuldbinda okkur til að halda áfram á þessari braut. Við skulum vinna saman að því að byggja samfélag þar sem allir fá að blómstra óháð kyni. Jafnrétti er verkefni sem við vinnum öll að og það er sameiginleg ábyrgð okkar að tryggja að framtíðin verði betri fyrir komandi kynslóðir,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í dag fögnum við merkilegum degi í sögu okkar þjóðar, 19. júní. Á þessum degi árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis sem markaði tímamót í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna. Í rúmlega öld höfum við tekið stór skref í átt að jafnræði. Við höfum unnið að því að tryggja að konur hafi jafna stöðu og tækifæri á öllum sviðum samfélagsins. Við höfum séð framfarir á sviði menntunar, vinnumarkaðar og stjórnmála. Í dag sjáum við konur í forystuhlutverkum í atvinnulífi, vísindum, menningu og stjórnmálum. Þrátt fyrir miklar framfarir er verk að vinna. Enn er kynbundinn launamunur og ofbeldi gegn konum er alvarlegt samfélagsvandamál. Við verðum að halda áfram að berjast fyrir því að allar konur og stúlkur njóti mannréttinda og öryggis. Við verðum einnig að huga að jafnrétti í hvívetna. Jafnrétti kynjanna, jafnrétti þjóðfélagshópa og jafnrétti allra einstaklinga óháð uppruna eða bakgrunni er grundvallaratriði fyrir samfélagið sem við viljum byggja. Við skulum fagna fjölbreytileikanum og þeim krafti sem býr í fólkinu okkar. Þetta er ekki einungis verkefni kvenna heldur samfélagsins alls. Kynjajafnrétti er ekki bara réttlætismál heldur nauðsyn fyrir farsæld og velferð samfélagsins. Við verðum að vinna saman til að tryggja að réttindum, virðingu og tækifærum sé jafnt skipt. Það er staðreynd að þrátt fyrir áratugabaráttu og miklar framfarir á ýmsum sviðum stöndum við nú frammi fyrir því og sjáum bakslag í jafnréttisbaráttu og baráttu hinsegin fólks sem er í hættu víða um heim.

Virðulegi forseti. Á þessum degi skulum við skuldbinda okkur til að halda áfram á þessari braut. Við skulum vinna saman að því að byggja samfélag þar sem allir fá að blómstra óháð kyni. Jafnrétti er verkefni sem við vinnum öll að og það er sameiginleg ábyrgð okkar að tryggja að framtíðin verði betri fyrir komandi kynslóðir.“

Categories
Fréttir

„Gleðilegan kvenréttindadag“

Deila grein

19/06/2024

„Gleðilegan kvenréttindadag“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, minnti á í störfum þingsins að í dag sé kvenréttindadagurinn, 19. júní, mikilvægur áfangi í sögu þjóðarinnar. Konur á Íslandi, 40 ára og eldri, fengu árið 1915 kosningarrétt og kjörgengi og máttu því bjóða sig fram til valda í samfélaginu.

„Þetta er dagur sem minnir okkur á mikilvægi jafnréttis og þá baráttu sem konur hafa staðið í til að tryggja réttindi sín og möguleika í samfélaginu. Í dag á líka móðir mín afmæli. Henni á ég mikið að þakka en hún hefur ávallt hvatt mig áfram til að láta alla mína drauma verða að veruleika,“ sagði Ingibjörg.

„Þetta var stórt skref í átt að jafnrétti og jafnræði. Þremur árum síðar, árið 1918, var þetta 40 ára viðmið afnumið.“

Sagði hún þetta hafa verið upphafið að lengri og enn ólokinni baráttu.

„Jafnrétti kynjanna er ekki aðeins spurning um lagaleg réttindi heldur einnig hvernig við skiptum ábyrgð og verkefnum í daglegu lífi. Konur hafa lengi þurft að bera svokallaða þriðju vaktina, þótt vissulega sé það misjafnt á milli einstaklinga, en hún felst í heimilisstörfum og umönnun fjölskyldunnar, oftar en ekki samhliða vinnu utan heimilisins.“

Lagði hún áherslu á að horfa verði lengra en aðeins til lagalegra réttinda þegar rætt er um jafnrétti kynjanna.

„Við þurfum að tryggja að ábyrgð á heimilisstörfum og umönnun sé skipt jafnt milli kynjanna, jafnrétti verður nefnilega ekki að fullu náð fyrr en bæði karlar og konur deila þessari ábyrgð á jöfnum grundvelli. Við þurfum að skapa samfélag þar sem allir hafa sömu möguleika til að taka þátt í atvinnulífi, stjórnmálum og heimilislífi án þess að það bitni á heilsu eða velferð.“

„Á þessum degi skulum við því ekki aðeins minnast þeirra merkilegu áfanga sem hafa náðst í baráttu fyrir kvenréttindum heldur einnig endurnýja okkar skuldbindingu til að halda áfram að vinna í átt að fullu jafnrétti. Við eigum að vinna saman, konur og karlar, til að tryggja að framtíðin verði björt og réttlát fyrir öll kyn. — Gleðilegan kvenréttindadag,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í dag fögnum við mikilvægum áfanga í sögu okkar þjóðar því að í dag er kvenréttindadagurinn. Þetta er dagur sem minnir okkur á mikilvægi jafnréttis og þá baráttu sem konur hafa staðið í til að tryggja réttindi sín og möguleika í samfélaginu. Í dag á líka móðir mín afmæli. Henni á ég mikið að þakka en hún hefur ávallt hvatt mig áfram til að láta alla mína drauma verða að veruleika.

Árið 1915 var merkilegt ár fyrir konur á Íslandi. Það ár fengu konur 40 ára og eldri loks kosningarrétt og sömuleiðis kjörgengi sem þýðir að þær fengu að bjóða sig fram til valda í samfélaginu. Þetta var stórt skref í átt að jafnrétti og jafnræði. Þremur árum síðar, árið 1918, var þetta 40 ára viðmið afnumið. Þetta var aðeins upphafið að lengri og enn ólokinni baráttu. Jafnrétti kynjanna er ekki aðeins spurning um lagaleg réttindi heldur einnig hvernig við skiptum ábyrgð og verkefnum í daglegu lífi. Konur hafa lengi þurft að bera svokallaða þriðju vaktina, þótt vissulega sé það misjafnt á milli einstaklinga, en hún felst í heimilisstörfum og umönnun fjölskyldunnar, oftar en ekki samhliða vinnu utan heimilisins. Þegar við tölum um jafnrétti kynjanna þurfum við að horfa lengra en aðeins til lagalegra réttinda. Við þurfum að tryggja að ábyrgð á heimilisstörfum og umönnun sé skipt jafnt milli kynjanna, jafnrétti verður nefnilega ekki að fullu náð fyrr en bæði karlar og konur deila þessari ábyrgð á jöfnum grundvelli. Við þurfum að skapa samfélag þar sem allir hafa sömu möguleika til að taka þátt í atvinnulífi, stjórnmálum og heimilislífi án þess að það bitni á heilsu eða velferð. Á þessum degi skulum við því ekki aðeins minnast þeirra merkilegu áfanga sem hafa náðst í baráttu fyrir kvenréttindum heldur einnig endurnýja okkar skuldbindingu til að halda áfram að vinna í átt að fullu jafnrétti. Við eigum að vinna saman, konur og karlar, til að tryggja að framtíðin verði björt og réttlát fyrir öll kyn. — Gleðilegan kvenréttindadag.“

Categories
Fréttir Greinar

Sjálfsmynd þjóðarinnar endurspeglast í tungumálinu

Deila grein

19/06/2024

Sjálfsmynd þjóðarinnar endurspeglast í tungumálinu

Ný­af­staðið 80 ára lýðveldisaf­mæli mark­ar ákveðin tíma­mót í sögu þjóðar­inn­ar sem veit­ir til­efni til að líta yfir far­inn veg og horfa fram á við. Íslensk tunga er samof­in þjóðarsál­inni og lék lyk­il­hlut­verk í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar. Þá jafnt sem nú voru mál­efni tungu­máls­ins fólki hug­leik­in. Á tím­um sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar stóð ís­lensk­an frammi fyr­ir áskor­un­um vegna auk­inn­ar dönsku­notk­un­ar, sér­stak­lega í stjórn­kerf­inu og mennta­kerf­inu. Þannig komu til að mynda lög Íslands út bæði á dönsku og ís­lensku, en danska út­gáf­an ein var und­ir­rituð af kon­ung­in­um og hafði þannig meira vægi í stjórn­skip­an lands­ins. Þessu var harðlega mót­mælt af sjálf­stæðis­sinn­um lands­ins, þ.m.t. Jóni Sig­urðssyni for­seta. Með þessu fyr­ir­komu­lagi væri verið að taka af Íslend­ing­um þeirra nátt­úru­lega rétt, sem lif­andi þjóðtunga eins og ís­lensk­an hefði, og ættu lög­in því ein­göngu að vera á ís­lensku. Án ís­lensk­unn­ar byggi um sig í land­inu önn­ur þjóð og ókunn­ug eins og Jón for­seti hélt fram.

Líkt og á tím­um Jóns, þá stend­ur tungu­málið okk­ar í dag frammi fyr­ir um­fangs­mikl­um áskor­un­um af áður óþekkt­um toga. Í fyrsta lagi, þá er ensk­an mál tækn­inn­ar og hún er alls staðar. Börn eru kom­in í ná­vígi við ensku strax við mál­töku og sér mál­vís­inda­fólkið okk­ar breyt­ing­ar á mál­töku barna vegna þessa. Í öðru lagi hef­ur Ísland breyst mikið sem sam­fé­lag á síðasta ald­ar­fjórðungn­um en inn­flytj­end­ur voru um 1% fyr­ir 30 árum en eru í dag um 16%. Flest­ir hafa komið hingað í leit að betra lífi og jafn­vel ýms­ir sem hafa elt maka sinn hingað til lands og stofnað fjöl­skyldu. Meg­inþorri þessa fólks hef­ur eflt landið með nýrri þekk­ingu og straum­um. Í þriðja lagi, þá reiðir ein stærsta út­flutn­ings­grein­in okk­ar sig á enska tungu í viðskipt­um sín­um en það á reynd­ar líka við um hluta sjáv­ar­út­vegs og bygg­inga­starf­semi.

Til að ná utan um þess­ar áskor­an­ir þýðir ekk­ert annað en að sýna dugnað og metnað! Við get­um sótt fram en á sama tíma varið tungu­málið okk­ar, og náð ár­angri í þágu þess. Við höf­um náð ákveðnum ár­angri, þannig hef­ur ís­lensk­an sótt veru­lega í sig veðrið í heimi tækn­inn­ar. Stærstu tæknifyr­ir­tæki heims hafa tekið mál­tækni­lausn­um Íslands opn­um örm­um og ákveðið að inn­leiða ís­lensk­una í viðmót sín. Frum­kvæði okk­ar í þess­um mál­um hef­ur vakið at­hygli víða. Þá samþykkti Alþingi í vor nýja aðgerðaáætl­un í þágu ís­lensk­unn­ar – þar eru tutt­ugu og tvær aðgerðir sem all­ar miða að því að styrkja tungu­málið. Þá hef­ur umræða um tungu­málið og þróun þess verið lif­andi og al­menn á und­an­förn­um miss­er­um, sem er vel og sýn­ir fram á að okk­ur sem þjóð er virki­lega um­hugað um stöðu Íslensk­unn­ar – rétt eins og kann­an­ir sýna. Við vilj­um að hér verði töluð ís­lenska um ókomna framtíð, og því skipt­ir máli að við vinn­um heima­vinn­una okk­ar vel og höld­um áfram að hlúa að tungu­mál­inu okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. júní 2024.