Categories
Fréttir

Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar til Akureyrar

Deila grein

18/03/2016

Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar til Akureyrar

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Mig langar að fagna því sérstaklega hér að Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin hafi samþykkt á fundi sínum þann 14. mars að skrifstofa nefndarinnar flytjist frá Þýskalandi til Akureyrar um næstu áramót. Þessa ákvörðun má meðal annars rekja til þess að ríkisstjórn Íslands ákvað um miðjan febrúar að tillögu forsætisráðherra að veita fjármagn til reksturs hennar næstu fimm árin.
Markmið Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni þeirra. Stofnunin leiðir saman opinberar rannsóknastofnanir og samtök frá 23 löndum og hefur skapað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum. Frá upphafi hefur Rannís átt aðild að nefndinni fyrir hönd Íslands.
Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til Norðurskautsráðsins um niðurstöður rannsókna á náttúru- og samfélagsbreytingum á norðurslóðum. Ég hef haft tækifæri til að fylgjast með þessu starfi og kynnast því í gegnum störf mín í Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál og veit að það skiptir máli.
Skrifstofan verður mikilvæg viðbót við það öfluga norðurslóðasamfélag eða norðurslóðaklasa sem nú er á Akureyri. Þar má nefna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og tvær af skrifstofum Norðurskautsráðsins og þar starfar einnig fyrirtæki sem er sérhæft við söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga um norðurslóðir, Arctic Portal, og Norðurslóðanet Íslands.
Því má vænta enn öflugra starfs að málefnum norðurslóða á Akureyri. Íslenskt vísindasamfélag fær aukinn aðgang að öflugu tengslaneti vísindamanna á norðurslóðum og líklegt er að áhugi erlendra vísindamanna á rannsóknasamstarfi við Íslendinga aukist.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 16. mars 2016.

Categories
Fréttir

Saman gegn sóun

Deila grein

18/03/2016

Saman gegn sóun

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á því að frábiðja mér málflutning eins og þann sem hv. þm. Björn Valur Gíslason býður okkur upp á. Þar held ég að botninum hafi verið náð og finnst ekki ólíklegt að menn sem komnir eru á þennan stað á botninum eigi erfitt með að finna viðspyrnu til að koma sér upp. Það er algjörlega óboðlegt að vera með svona málflutning. Öll málefni þeirra ágætu hjóna eru uppi á borðinu, allir skattar hafa verið greiddir og hér er ekki verið að fela neitt.
Ég krefst þess að hv. þingmaður biðjist afsökunar á orðum sínum.
Annars ætla ég að byrja á því að óska Akureyringum til hamingju með þá ákvörðun Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar að flytja aðalskrifstofu hennar til Akureyrar. Þar er enn eitt dæmið um niðurstöðu af góðum verkum ríkisstjórnarinnar sem skilar sér beint inn í samfélagið og nýtist til fjölbreyttrar innviðauppbyggingar. Tvö til þrjú störf munu fylgja skrifstofunni auk starfa í tengslum við alþjóðanefndir vinnuhópa.
Það mun styðja við þær stofnanir um málefni norðurslóða sem þegar eru á svæðinu og efla rannsóknir í háskólabænum Akureyri. Það er vel.
Það leiðir mig svo að öðru máli sem ríkisstjórnin hefur haft forgöngu um og varðar umhverfismál, því að nú hefur umhverfis- og auðlindaráðherra birt stefnu um úrgangsforvarnir. Ég hef vikið að því áður en vil benda á að kynning á stefnunni sem ber nafnið Saman gegn sóun verður í fyrramálið og er öllum opin. Matarsóun verður í forgangi fyrstu tvö ár stefnunnar og verða ýmsar aðgerðir á því sviði kynntar á fundinum. Mál sem varða úrgang fá stöðugt meira vægi vegna aukinna kvaða um meðhöndlun hans. Vissulega hafa íbúar margra sveitarfélaga náð miklum árangri á þessu sviði en þrátt fyrir það vantar enn þá nokkuð upp á að við Íslendingar stöndumst samanburð við þær þjóðir Evrópu sem lengst hafa náð.
Hæstv. forseti. Þarna er um að ræða mál sem við sem einstaklingar getum tekið ábyrgð á og lagt okkar af mörkum.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 16. mars 2016.

Categories
Fréttir

Hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf

Deila grein

18/03/2016

Hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að nefna hér tvö mál, fyrst dagskrárliðinn sérstakar umræður. Oftar en ekki á sér stað mjög gagnleg umræða undir þeim lið og mér finnst formið á þeirri umræðu afar skilvirkt. Einn galli sem ég upplifi þó þegar ég tek þátt í þeirri umræðu er að tvær mínútur eru helst til knappur tími og ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig um það og mælst til að hæstv. forseti taki það til athugunar, nú síðast hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson að lokinni umræðu um afglæpavæðingu fíkniefna sem var í gær.
Þá að öðru, virðulegi forseti. Ég ætla að ræða vexti og vaxtastig sem er hér hátt í öllum alþjóðlegum samanburði. Nú í morgun birti peningastefnunefnd yfirlýsingu sína og heldur sig við óbreytta stýrivexti, 5,75%, þar sem verið er að bregðast við innlendum verðbólguþrýstingi en innflutt verðhjöðnun talin vega á móti. Það má ráða af þeirri ákvörðun að ef ekki væri fyrir þessa innfluttu verðhjöðnun væri full ástæða til að hækka stýrivexti. Tilgangur peningastefnunefndar og peningastefnu er að viðhalda stöðugleika og hann er mikilvægur þegar kemur að kaupmætti og kjörum. Á móti vegur að hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf. Það er eitt meginviðfangsefni hagstjórnar til lengri tíma að við festumst ekki í þessu vaxtastigi, með þessa háu vexti, með hættu á tilheyrandi innstreymi fjármagns í formi vaxtamunarviðskipta. Það hefur áhrif á útflutningsatvinnugreinar og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna og getur að sama skapi haft áhrif á framþróun losunar hafta. Þetta er auðvitað viðvarandi en um leið aðkallandi viðfangsefni og þarf að leysa í stóru samhengi peningamála, ríkisfjármála, vinnumarkaðar og afnáms verðtryggingar á fasteignalánum til neytenda.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 16. mars 2016.

Categories
Fréttir

Landsbankinn á að leita réttar síns

Deila grein

16/03/2016

Landsbankinn á að leita réttar síns

þingmaður-hoskuldur„Virðulegi forseti. Mig langar, eins og aðrir hafa gert í þessum þingsal, að vekja athygli á einu atriði í Borgunarmálinu. Mig langar að taka það til umræðu hverjir hinir raunverulegu hagsmunir í málinu eru. Hinir raunverulegu hagsmunir eru þeir að almenningur tapaði ekki bara verulegum fjármunum heldur ótrúlega miklum fjármunum, svo að hleypur á milljörðum króna.
Í bréfi Bankasýslunnar til bankaráðs Landsbankans kemur fram að hafi Landsbankinn athugasemdir við upplýsingagjöf af hálfu annarra aðila í tengslum við sölumeðferð á eignarhlut í Borgun eigi bankinn að leita réttar síns, ef hann telur tilefni til. Ég held nefnilega að hér sé einmitt komið það tilefni.
Ég bendi á grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins eftir hæstaréttarlögmanninn Hauk Örn Birgisson. Þar bendir hann á ákvæði í samningalögum, nr. 7/1936, sem heimila í vissum tilvikum endurskoðun á viðskiptum aðila, jafnvel ógildingu; að það sé með öðrum orðum hægt að ógilda þennan samning og ná þessum fjármunum til baka. Hann vísar í dómafordæmi þar sem Hæstiréttur hefur bent á að sé verðmætið margfalt meira en endurgjaldið sé hægt að færa rök fyrir því að samningagerðin hafi verið byggð á brostnum eða röngum forsendum, og hægt sé að ógilda hana á grundvelli 36. gr. samningalaga.
Ég tel einboðið að Landsbankinn höfði mál, geri það hið allra fyrsta. Ég vil líka hvetja Bankasýsluna, vegna þess að hún fer með eignarhlut ríkisins, til að hafa forgöngu í málinu, að höfðað verði dómsmál og allra leiða leitað til að ná þessum fjármunum aftur. Þó að kostnaður við dómsmál geti hlaupið á einhverjum milljónum þá eru það smámunir miðað við þá gríðarlegu hagsmuni sem hér eru í húfi fyrir almenning í landinu.“
Höskuldur Þórhallsson í störfum þingsins 15. mars 2016.

Categories
Fréttir

Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við

Deila grein

15/03/2016

Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að við eigum ekki að tala illa um ferðaþjónustuna. „Þegar allir horfa í sömu átt standa líkur til að hætta sé á ferðum.“ Þessi orð eru tekin upp úr athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í morgun. Þar er viðtal við Gunnar Gunnarsson, forstöðumann áhættustýringar Creditinfo, sem bendir á hið augljósa, að margir séu að veðja á ferðaþjónustuna í dag. Hótel spretta upp eins og gorkúlur um land allt, þjónusta tengd ferðamennsku dreifir úr sér eins og lúpína.
Gunnar segir að slík hjarðhegðun geti kallað á áhættu sem menn verði að hafa í huga. Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við. Fyrir hrun var áhættan tengd lánum í erlendri mynt á meðan menn höfðu tekjur í íslenskum krónum. Núna er áhættan ekki síst tengd gríðarlegum vexti og uppbyggingu í ferðaþjónustu þó að það kunni að hljóma undarlega. Hér má til dæmis nefna gríðarlega mikla fjölgun hótela. Það þarf ekki annað en að fara í smágöngutúr um miðborgina til að sjá hvað er að gerast. Fjölgun ferðamanna er fagnaðarefni en hvað gerist og hver fær reikninginn að lokum ef illa fer í uppbyggingu?
Fyrir hrun var ekki nægilegur fókus á áhættuþættina. Það sama gildir núna. Forstöðumaður áhættustýringar Creditinfo segir að til dæmis verði að leggja mat á áhrif mögulegrar fækkunar ferðamanna á fasteignaverð hérlendis. Þar liggi áhætta, bæði hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Það er full ástæða til að taka undir þessi orð, þeir sem starfa í ferðaþjónustunni, bankar, lífeyrissjóðir og aðrir verða að staldra við. Rauðu ljósin fara brátt að blikka ef menn halda svona áfram. Vonandi hafa menn lært eitthvað af því sem gerðist hér árið 2008. Setjum ekki öll eggin í sömu körfuna.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 15. mars 2016.

Categories
Fréttir

Krafa að bankaráð Landsbankans bregðist við með viðeigandi hætti

Deila grein

15/03/2016

Krafa að bankaráð Landsbankans bregðist við með viðeigandi hætti

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Í gær kom Bankasýsla ríkisins fyrir hv. fjárlaganefnd og staðfesti það sem fram kemur í bréfi sem stílað er á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að forsvarsmönnum bankans hafi ekki tekist að svara gagnrýni og að fagleg ásýnd bankans hafi beðið hnekki. Bankasýslan gerir þá kröfu á bankaráð Landsbankans að bregðast við með viðeigandi hætti.
Ég ætla ekki að ráða í það hér hvaða ráðstafanir bankaráðs eru viðeigandi svo traust megi endurheimta. Það er sannarlega vandmeðfarið, eins og segir í grein í Kjarnanum um þetta verkefni, en þar segir jafnframt að við stjórnmálamenn verðum líka að líta í eigin barm þegar kemur að uppbyggingu fjármálamarkaðarins. Þar segir jafnframt að þrátt fyrir að margt hafi tekist mjög vel, meðal annars við uppbyggingu Landsbankans, verðum við stjórnmálamenn að taka til okkar þá ábyrgð sem við berum á traustari ramma, jafnræði og lagaskyldum og opnu og gagnsæju söluferli á eignum og afskriftum skulda. Höfum við gert nóg eða gætt nægjanlega að þeim sjónarmiðum? Um það verðum við að spyrja okkur. Svar Kjarnans við því er: Nei.
Því miður er Borgunarmálið staðfesting á því. Það er augljóst að við verðum að læra og gera betur. Nýlegt dæmi um slíkt viðfangsefni og ábyrgð er sú lagalega umgjörð sem nauðsynlegt er að búa umsýslu fjár og eigna sem komið er til vegna stöðugleikaframlags fjármálafyrirtækja. Þar hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagt sig í líma við að tryggja skýra lagalega umgjörð og áréttar að þar skuli stofnað fyrirhugað félag undir fjármála- og efnahagsráðuneyti við fullnustu og sölu verðmæta sem leggi áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni þar sem ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga liggja til grundvallar og í fullu samræmi við 45. gr. laga um opinber fjármál. Sýnir það dæmi að við erum meðvituð um þá ábyrgð og viljum gera betur.“
Willum Þór Þórsson  í störfum þingsins 15. mars 2016.

Categories
Fréttir

Umhverfisráðherra býður til morgunverðar á Hallveigarstöðum

Deila grein

15/03/2016

Umhverfisráðherra býður til morgunverðar á Hallveigarstöðum

sigrunmagnusdottir-vefmyndUmhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, býður til morgunarverðarfundar fimmtudaginn 17. mars undir yfirskriftinni „Saman gegn sóun“
Á fundinum verður stefna ráðherra um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun,  kynnt ásamt námsefni um úrgangforvarnir. 
Matarsóun verður í forgangi fyrstu tvö ár stefnunnar og verða ýmsar aðgerðir á því sviði kynntar á fundinum, m.a. ný vefgátt um matarsóun og nýtt kerfi strikamerkja sem stuðlað getur að minni sóun. 
Fundurinn verður haldinn á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, frá kl. 8.30-10:00 og verður boðið upp á morgunverð
Vinsamlegast skráið þátttöku með því að senda tölvupóst til thorunn.elfa@uar.is  

Categories
Fréttir

Hátíðarkvöldverður SUF og LFK á Akureyri

Deila grein

15/03/2016

Hátíðarkvöldverður SUF og LFK á Akureyri

logo-suf-forsidalogo-lfk-gluggiÍ tilefni Sambandsþings SUF og Landsstjórnarfundi LFK á Akureyri þann 19. mars nk verður hátíðarkvöldverður í Lionssalnum, Skipagötu 14.
Hátíðarkvöldverðurinn hefst kl. 19.00 með fordrykk. Í aðalrétt er lambalæri með kartöflugratíni, sósu og salati og í eftirrétt er marengsterta. Verðið fyrir kvöldverðinn er kr. 5.500,-
Hægt er að skrá sig í kvöldverðinn til kl. 17.00 þann 16. mars með því að senda tölvupóst á suf@suf.is eða hafa samband við skrifstofu flokksins í síma 540-4300.
Allir eru velkomnir!
Stjórn SUF

Categories
Fréttir

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Deila grein

02/03/2016

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Silja-Dogg-mynd01-vef„Virðulegi forseti. Umræðan um viðskiptabann Rússa gagnvart Íslendingum vakti upp háværar umræður hér á landi um utanríkismál. Tónninn var og er stundum sá að þátttaka okkar í viðskiptabanni vestrænna þjóða gegn Rússum sé hreinlega óþarfi. Við þurfum aukna almenna umræðu um utanríkismál og þá sérstaklega varnar- og öryggismál svo að við náum að átta okkur betur á samhengi hlutanna, að sameiginlegur skilningur sé til staðar á milli almennings og á milli stjórnmálamanna.
Ég tel að það sé til dæmis þörf á aukinni umræðu um NATO þar sem ég gæti best trúað að fjölmargir Íslendingar, þá helst kannski í yngri aldurshópunum, viti ekki hvað NATO stendur fyrir og hvers vegna við erum þátttakendur í því varnarsamstarfi. Við erum herlaus þjóð og friðelskandi og ætlum okkur að vera það áfram. Eigum við þá ekki bara að sleppa öllu varnarsamstarfi? Er NATO ekki eitthvað úrelt og óþarft kaldastríðsfyrirbæri? Nei, svo er ekki. Öryggisumhverfi í Evrópu er reyndar gjörbreytt frá því sem áður var þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949. En markmiðin eru þau sömu, þ.e að tryggja öryggi og frið í álfunni. Auk varnar- og öryggisþáttarins gegnir NATO lykilhlutverki sem pólitískt bandalag 28 lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. Og NATO á í margvíslegu samstarfi við ríki og ríkjabandalög utan NATO, t.d. bandalag Afríkuríkja.
Meginstoðir í stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum eru þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins, virkt samstarf við grannríki á sviði öryggismála og varnarsamningurinn við Bandaríkin.
Við hér uppi á hinu friðsæla og yndislega Íslandi getum ekki leyft okkur að sleppa því að taka umræðuna um varnar- og öryggismál. Við þurfum að vera meðvituð og upplýst vegna þessa að afstaða okkar Íslendinga skiptir máli. Við höfum hlutverki að gegna í samfélagi þjóðanna og eigum að axla okkar ábyrgð þar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Deila grein

02/03/2016

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að geta nú í hádeginu afhent hæstv. félags- og húsnæðisráðherra skýrslu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, svokallaðrar Pétursnefndar sem heitir í höfuðið á Pétri heitnum Blöndal, þeim mikla sómamanni sem gegndi lengi forustu í þeirri nefnd.
Fjölmargir hafa komið að þessari vinnu. Samvinna í nefndinni var yfir höfuð góð þó að nokkuð drægi úr henni á síðustu metrunum, því miður. En þó er ljóst að niðurstöður skýrslunnar eru ávísun á mestu breytingar sem gerðar hafa verið á almannatryggingakerfinu á Íslandi í áratugi ef af verður. Breytingarnar snúa að einföldun almannatryggingakerfisins, sveigjanlegum starfslokum og upptöku starfsorkumats í stað örorkumats.
Það er næsta víst að þó að tillögurnar séu flestar mjög góðar sem fram koma í skýrslunni er enn þá margt ógert. Enn skortir á að við höfum greint nægilega vel vandamál einstakra hópa innan þessara stóru hópa, aldraðra og öryrkja. Það er ekki hægt að tala um þessa hópa sem eitt mengi vegna þess að aðstaða þeirra er mjög mismunandi. Það er núna verk okkar í framhaldi af skýrslunni að vinna enn betur að því að kanna sérstaklega stöðu þeirra sem verst standa innan þessara hópa og grípa þá til sérstakra ráða til þess að þeir megi búa við betri lífskjör.
Heilt yfir er ekki laust við að maður geti verið ánægður með að skýrslan skuli nú loksins vera fram komin. Ég vona sannarlega að í framhaldinu muni fylgja frumvörp frá hendi ráðherra sem uppfylla það sem hér er sett fram.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 1. mars 2016.