Categories
Fréttir

Skrifstofa Framsóknar lokuð í dag, föstudag

Deila grein

21/11/2014

Skrifstofa Framsóknar lokuð í dag, föstudag

logo-framsokn-gluggiSkrifstofa Framsóknar verður lokuð í dag, föstudag, vegna fundar miðstjórnar flokksins á Hornafirði. Vöfflukaffi skrifstofu mun því falla niður í dag.

*****

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

haldinn 21.-22. nóvember 2014 í Nýheimun á Hornafirði

Drög að dagskrá:

Föstudagur 21. nóvember 2014
18.30  Setning
18.35  Kosning embættismanna
18.40   Skýrsla landsstjórnar, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður landsstjórnar
18.55  Skýrsla málefnanefndar
19:05  Skýrsla fræðslu- og kynningarnefndar
19.15  Kynning á hópastarfi – málefnaundirbúningur fyrir flokksþing
20.15  Fundi frestað til næsta dags
20.30  Kvöldverður
 
Laugardagur 22. nóvember 2014
09.15  Hópastarf, framhald
11.30  Hópar ljúka starfi
11.45  Matarhlé
13.00   Ræða formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra
13.45  Almennar umræður
16.00  Boðun reglulegs flokksþings, sbr. gr. 9.1 í lögum flokksins
16.15  Kosið í fastanefndir miðstjórnar:
a)    Fjóra fulltrúa í málefnanefnd og tvo til vara
b)    Fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd og tvo til vara
16.30  Niðurstöður hópastarfs kynntar
17.00  Önnur mál – fundarslit
20:30  Kvöldverðarhóf
*****
Samkvæmt lögum flokksins skal á haustfundi taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu.
Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.
Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið: framsokn@framsokn.is.
*****
Gisting og málsverðir á Hótel Höfn:
HÓTEL HÖFN – sími: 478 1240 – netfang: info@hotelhofn.is

  • Eins manns með morgunverði kr. 15.200,-
  • Tveggjamanna með morgunverði kr. 20.300,-

Sértilboð – tvær nætur fyrir eina.
Föstudagskvöld tvær tegundir af pottréttum kr. 2.200,-
Laugardagur hádegi, saltfiskur að spænskum hætti kr. 1.950,-
Laugardagskvöld, í forrétt er humarsúpa, í aðalrétt er lambafille með soðsósu og rótargrænmeti og í eftirrétt frönsk súkkulaðikaka, kr. 6.500,-
Það verður langferðabílar frá Reykjavík, en verðið pr./mann er ekki enn ljóst.
*****
Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.
Nánari tilhögun verður kynnt síðar en miðstjórnarfulltrúar eru beðnir að taka dagana frá.
Frekari upplýsingar um miðstjórn flokksins má nálgast hér.
*****
Staðsetning Hótels Hafnar og Nýheima:
NyheimaraHofn
*****
Framsóknarflokkurinn
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Fréttir

B – hliðin

Deila grein

19/11/2014

B – hliðin

Líneik Anna SævarsdóttirLíneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður í Norðausturkjördæmi sýnir okkur B – hliðina að þessu sinni: „Það stekkur enginn hærra en hann hugsar“.
Fullt nafn: Líneik Anna Sævarsdóttir.
Gælunafn: Líkar best þegar ég er kölluð Líneik Anna – sumir í fjölskyldunni hafa þó leyfi til að kalla mig Issu en það er gælunafn sem varð til þegar Helga litla systir mín reyndi að segja systir.
Aldur: Ný orðin 50 ára.
Hjúskaparstaða?  Hef verið gift Magnúsi Ásgrímssyni í næstum aldarfjórðung.
Börn? Fjögur snjöll börn – hvert á sinn hátt.
Hvernig síma áttu? Samsung eitthvað … .
Uppáhaldssjónvarpsefni? Hef aldrei horft mikið á sjónvarp og það er langt síðan ég hef fylgst með framhaldsþætti en horfi á oft á fréttaþætti og vandaða náttúrulífsþætti og hef gaman af íslensku efni eins og orðbragði og útsvari og þá finnst mér þjóðfélagsgagnrýnin í áramótaskaupinu algjörlega nauðsynleg.
Uppáhalds vefsíður: Austurfrétt og Baggalútur.
Besta bíómyndin? Finnst bókin oftast betri, hef samt alltaf gaman að því að fara í bíó og besta myndin er sú sem hæfir skapi mínu þann daginn.
Hvernig tónlist hlustar þú á? Hef gaman af allaveg tónlist en ég vel sjaldan tónlist sjálf, hlusta frekar á það sem aðrir velja.
Uppáhaldsdrykkur: Vatn.
Hvað finnst þér best að borða? Allt of margt, skötuselur og lambakjöt klikka aldrei.
Hvaða lag kemur þér í gírinn? Eitthvað með Queen.
Ertu hjátrúarfull? Held ekki.
Hverslags viðfangsefni myndirðu ekki leggja nafn þitt við? Hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum.
Hver var fyrirmyndin þín á yngri árum? Foreldrar mínir og kennarar.
Hver er fyrirmyndin þín í dag? Ýmsar snjallar konur og menn, út um allt – finnst mikilvægt að reyna að læra af sem fjölbreyttumst hópi fólks.
Hverjir eru sessunautar þínir á Alþingi? Valgerður Gunnarsdóttir og Haraldur Einarsson.
Hver eru helstu áhugamálin? Lestur og allskonar útivist, gönguferðir, fjallgöngur og smalamennskur.
Besti vinurinn í vinnunni? Engin spurning að það er Þórunn hinn Austfirðingurinn á þingi, þekktumst ekki nema af afspurn þar til í nóvember 2012 en eftir að hafa ferðast fleiri km saman í vinnunni er vináttan orðin býsna þétt.
Helsta afrekið hingað til? Að ganga með tvíbura og koma þeim í heiminn.
Uppáhalds manneskjan? Maggi minn.
Besti skyndibitinn? Sushi.
Það sem þú borðar alls ekki? Fiskbúðingur úr dós.
Lífsmottóið? Reyna að hlusta fyrst.
Þetta að lokum: „Það stekkur enginn hærra en hann hugsar“.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Fjárlagafrumvarpið 2015 á Alþingi: Vinnubrögðin betri og umræðan opnari

Deila grein

19/11/2014

Fjárlagafrumvarpið 2015 á Alþingi: Vinnubrögðin betri og umræðan opnari

sigrunmagnusdottir-vefmyndÞað gerðist í fyrsta sinn við síðustu kosningar til Alþingis að kona á eftirlaunaaldri náði kjöri.  Sú heitir Sigrún Magnúsdóttir og er formaður þingflokks Framsóknarflokksins.   Hún varð sjötug í sumar og fór í fyrsta sinn í framboð til sveitarstjórnar árið 1970, þá á Bíldudal eða fyrir 44 árum.  Hún var lengi formaður borgarráðs í Reykjavík og m.a. fyrsti oddviti R-listans þegar hann bauð fram í borginni.  Þegar síðast var kosið til Alþingis var Sigrún í öðru sæti á lista Framsóknar í Reykjavík norður.   „Það segir sig sjálft að maður þarf að hafa brennandi áhuga á félagsmálum til að nenna þessu svona lengi og hafa drifkraft til að vilja ná fram breytingum og vera ekki bara áhorfandi“, segir Sigrún aðspurð um hvað valdi þessari elju í stjórnmálastarfi.
Það vakti athygli þegar fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið á blaðamannafundi í haust að hann nefndi sérstaklega að eitt af stærri verkefnum ríkisvaldsins á næstunni væri að mæta fjölgun eldri borgara á næstu árum.  Þessi fjölgun kallar á að meiri peningum verði varið í heilbrigðiskerfið, bæði í þjónustu og nýbyggingar og þá er einnig horft til þess að reynt verði að nýta velferðartækni og heimaþjónstu til að gera öldruðum kleift að búa heima hjá sér eins lengi og kostur er.  Enn eitt sem rætt er um að þurfi að gerast, er að hækka lífeyristökualdurinn og Sigrún segir að um það hafi m.a. verið rætt innan þingflokksins.  „Við höfum rætt það óformlega og þá einkum í tengslum við vinnu nefndar um endurskoðun almannatryggingakerfisins.   Ég lít á það sem okkar okkar helsta verkefni að gæta að því að öryggisnet sé til staðar fyrir alla.  Sem betur fer eru margir eldri borgarar sem hafa það ágætt. En við þurfum að gæta þess að enginn verði útundan, það er okkar hlutverk“ segir Sigrún.  Hún vill líka að fólk átti sig á þeirri breytingu sem orðið hefur á vinnubrögðum í þinginu.  „Hér áður fyrr var fjárlagafrumvarpið lagt fram í október og tekjuhlið þess, svokallaður bandormur, kom ekki fram fyrr en í desember.  Þá voru stjórnarflokkar gjarnan að takast á um tekjuhliðina sín á milli á bak við tjöldin þar til tekjuhliðin var lögð fram.  Nú er þessi umræða fyrir opnum tjöldum og aldrei fyrr hefur fjárlagafrumvarpið ásamt tekjuhlið þess verið lagt svona snemma fram.  Nú getur farið fram almenn umræða í samfélaginu um hvernig eigi t.d. að afla tekna  og hvað séu brýn mál og hvað ekki.  Samtök eins og LEB hafa meira tækifæri til að rýna í frumvarpið og gera við það athugasemdir og koma með ábendingar.  Þetta er af hinu góða.  Sem stjórnarþingmanni finnst manni samt ókostur að hafa ekki lengri tíma en raunin er til að skoða frumvarpið áður en það fer í opinbera umfjöllun.  Núna verðum við að gera það á sama tíma og aðrir.  Nú er unnið á fullu hér í þinginu í fjárlagafrumvarpinu og margt að gerast sem haft getur áhrif á endanlega niðurstöðu, eins og ný hagvaxtarspá, atvinnuleysistölur og fleira.  Ég vona að LEB og aðrir trúi því að við vinnum hér af heilindum og reynum að grannskoða hvaða svigrúm við höfum og í hvað eigi að setja peningana sem til eru.  Við ætlum hins vegar ekki að hvika frá meginmarkmiðinu sem er að ríkissjóður skuli rekinn með afgangi.“
Sigrún segir að nú liggi fyrir tillaga að enn breyttari vinnulagi við fjárlagagerðina.  Nái hún fram að ganga, muni Alþingi strax á vori fari yfir og ákveða  hver verði áherslumálin við næstu fjárlagagerð.
Hún minnir líka á að stjórnvöld hafi gert vel fyrir ári síðan að afturkalla skerðinguna sem sett var á örorku- og ellilífeyri árið 2009 og auka við fjármagn til málefna eldri borgara.  Það hafi verið algjört forgangsatriði nýrrar ríkisstjórnar að ganga í það sem allra fyrst.
Eigum að nýta sérstöðu Íslands
Sigrún hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rannsóknarklasa á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma, svo sem á sviði ALS/MND-sjúkdómsins.  Í tillögunni segir að Alþingi feli ríkisstjórninni að hlutast til um að vísindasamfélagið á Íslandi fái nauðsynlega aðstoð við að afla styrkja til að fjármagna rannsóknir á taugasjúkdómum, einnig frá alþjóðasamfélaginu.  „Þetta er mikið áhugamál mitt.  Ég held við Íslendingar gætum nýtt sérstöðu okkar í þessum málum og svona klasi gæti orðið árangursríkur rétt eins og við höfum séð í öðrum greinum eins og varðandi nýtingu jarðvarma og í sjávarútvegi.  Um leið og þjóðin eldist þá verður æ mikilvægara að efla þessar rannsóknir.  Eldri borgurum er að fjölga gríðarlega um heim allan og eitt stærsta vandamálið er heilahrörnun.  Við sjáum að þetta er víða í umræðunni erlendis og nýverið voru nóbelsverðlaun í læknavísindum veitt þeim sem höfðu náð merkum árangri í rannsóknum á heilanum.“  Í greinargerð með tillögu Sigrúnar segi m.a. að  Ísland henti sérstaklega vel sem miðstöð rannsókna á sviði taugavísinda þar sem þjóðin er fámenn, ættartengsl ljósari en hjá flestum öðrum þjóðum og veruleg vísindaþekking er til staðar.
Eldri borgarar mættu vera virkari í stjórnmálum
Sigrún segist hafa gert sína áætlanir um ellina.  Hún skellti sér í háskólanám og nam þjóðfræði og borgarfræði.  Námið hyggst hún nýta sér til ritstarfa einshvers konar, að skrifa sögur eða bækur þegar tími vinnst til.  Hún er samt enn afar virk félagslega eins og hún segir sjálf og gæti ekki hugsað sér annað en að hafa nóg fyrir stafni.  „Við eldri borgarar þurfum ekkert að verða löt þótt árin verði 60 eða 70.  Viðhorfið finnst mér stundum vera þannig að fólk ætlist til að aðrir sinni störfunum sem þarf að vinna og vilji heldur vera þiggjendur.  En það þarf að berjast fyrir öllu í þessu lífi og það er líka gefandi og skemmtilegt.  Þessi fjölmenni og stækkandi hópur þarf að gera sig meira gildandi.  Lífaldur fólks hækkar stöðugt og heilsan er mun betri en áður var.  Þetta veldur því að samfélagið einfaldlega þarfnast krafta eldra fólks í ríkara mæli.“
Viðtalið birtist í Tímariti Landssambands eldri borgara 2014
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Glaðar þingkonur Framsóknar á Alþingi í dag!

Deila grein

18/11/2014

Glaðar þingkonur Framsóknar á Alþingi í dag!

Það voru glaðar Framsóknarkonur á Alþingi er móðir Þórunnar Egilsdóttur kom færandi hendi með trefla handa þingkonum flokksins.
photo
Á myndinni eru frá vinstri: Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Eygló Harðardóttir.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

B – hliðin

Deila grein

13/11/2014

B – hliðin

Þórunn EgilsdóttirÍ þessari viku sýnir varaformaður þingflokks Framsóknarmanna, Þórunn Egilsdóttir, B – hliðina. Lífsmottóið hennar er: „Glötum ekki gleðinni”.
Fullt nafn: Þórunn Egilsdóttir.
Gælunafn: Afar fáir sem reyna að ávarpa mig með gælunafni.
Aldur: 49.
Hjúskaparstaða? Gift.
Börn? 3.
Hvernig síma áttu? Iphone.
Uppáhaldssjónvarpsefni? Veðurfréttir og Castle.
Uppáhalds vefsíður: www.vegagerdin.is, www.vedur.is,
Besta bíómyndin? Margar góðar.
Hvernig tónlist hlustar þú á? Gott rokk er alltaf hressandi.
Uppáhaldsdrykkur: Kaffi.
Hvað finnst þér best að borða? Lambakjöt, steikta bleikju og súrt slátur.
Hvaða lag kemur þér í gírinn? Don´t stop me now með Queen.
Ertu hjátrúarfull? Já.
Hverslags viðfangsefni myndirðu ekki leggja nafn þitt við? Hvar á ég að byrja.
Hver var fyrirmyndin þín á yngri árum? Foreldrar mínir og Ingemar Stenmark.
Hver er fyrirmyndin þín í dag? Foreldrar mínir, Gústa á Refsstað, Valla og Sveinn í Brekku og fleira gott fólk.
Hverjir eru sessunautar þínir á Alþingi? Katrín Júlíusdóttir og Páll Valur Björnsson.
Hver eru helstu áhugamálin? Skíði, smalamennska, rjúpna- og silungsveiði.
Besti vinurinn í vinnunni? Við stöllurnar að austan erum góðar saman. Stöllurnar að austan eru Líneik Anna og Þórunn. Svo er það hún Sigrún mín og náttúrulega margir fleiri.
Helsta afrekið hingað til? Að koma 2 börnum stóráfallalaust til manns.
Uppáhalds manneskjan? Barnabarnið, því líkt og aðrar ömmur á ég náttúrulega það flottasta.
Besti skyndibitinn? Epli og harðfiskur.
Það sem þú borðar alls ekki? Ekki fundið það enn.
Lífsmottóið? Glötum ekki gleðinni.
Þetta að lokum: Hvað skiptir nú máli í eilífðinni?
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

Deila grein

11/11/2014

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi, haldið í Harðarbóli í Mosfellsbæ 8. nóvember 2014, fagnar þeim árangri sem náðst hefur frá síðustu alþingiskosningum. Þar má nefna:

  • Leiðréttingu húsnæðislána.
  • Fjölgun starfa og minnkandi atvinnuleysi
  • Aukinn kaupmátt heimilanna og auknar ráðstöfunartekjr fjölskyldna.
  • Leiðréttingar á skerðingum fyrri ríkisstjórnar vegna lífeyrisbóta.
  • Hallalaus fjárlög.
  • Aukinn stöðugleika og lága verðbólgu.
  • Umfangsmikla vinnu við að bæta húsnæðismarkaðinn.
  • Hækkun barnabóta.
  • Aukin framlög til félags- og heilbrigðismála.
  • Aukin framlög til rannsókna og nýsköpunar.

Kjördæmisþingið hvetur stjórnvöld til að leggja áherslu á eftirtalin mál á næstu misserum:

  • Að við vinnslu fjárlaga verði horft til þess að auka kaupmátt og bæta stöðu lág- og millitekjuhópa.
  • Við gerð kjarasamninga verði komist sem mest á móts við óskir um bætt kjör, án þess þó að fórna þeim efnahagsstöðugleika sem náðst hefur.
  • Hugað verði að bættri þjónustu fyrir börn og ungmenni í fíknivanda.
  • Hafist verði handa við að byggja upp nýjan Landsspítala, nýtt þjóðarsjúkrahús.
  • Horft verði til umhverfisverndarsjónarmiða og hagsmuna ferðaþjónustunnar við ákvarðanatöku vegna vegalagninga á hálendinu.
  • Gert verði átak í að efla lestrarkennslu í skólum landsins.
  • Að lýðheilsusjónarmið verði höfð að leiðarljósi í allri stefnumótum er varðar neyslu áfengis-, tóbaks og annara vímugjafa.
  • Að nýjum ferðamannastöðum verði komið á farmfæri til að draga úr álagi á þeim stöðum sem fjölsóttastir eru.
  • Að stöðugt verði veittar aðgengilegar og greinagóðar upplýsingar til almennings um loftmengun vegna eldgossins í Holuhrauni.
  • Að á næsta ári minnist Framsóknarflokkurinn þess, með öflugri umræðu um kynjajafnrétti í stjórnmálum, að 100 ár eru þá liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi.

Þrátt fyrir að mjög góður árangur hafi náðst á mörgun sviðum á þeim tíma sem liðinn er af kjörtímabilinu leggur kjördæmisþingið áherslu á að áfram verði unnið að því að bæta hag heimilanna. Leiðarljósið í þeirri vinnu verði að auka jöfnuð og samheldni í samfélaginu í anda grunngilda Framsóknarflokksins. Þau eru byggð á frjálslyndri félagshyggjustefnu þar sem leitast er við að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt unnið að hugmyndum og lausnum sem miða að því að koma til móts við heimilin, standa vörð um velferðarkerfið og skapa jákvætt umhverfi fyrir atvinnulíf og fjárfestingar. Með slík grunngildi að leiðarljósi eru bjartari tíma framundan í íslensku samfélagi.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Aðgerðin muni hafa áhrif áratugi fram í tímann

Deila grein

10/11/2014

Aðgerðin muni hafa áhrif áratugi fram í tímann

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknar, sagði á blaðamannafundi í Hörpu í dag að það væri mikið ánægjuefni að þessi dagur væri runnin upp. Það væri raunar fátítt að jafn stórt og flókið verkefni og þetta væri leyst á jafn skömmum tíma og raun ber vitni.

Sigmundur Davíð hrósaði starfsfólki Leiðréttingarinnar og sagði þetta aldrei hafa tekist ef ekki væri fyrir þeirra störf. Forsætisráðherrann sagði að niðurstöðurnar myndu uppfylla fyrirheit og eru um margt betri en ráð var fyrir gert.  Þeir sem nýta sér úrræðin fái leiðréttingu á allri verðbólgu umfram 4% en ekki 4,8% eins og gert var ráð fyrir.
Ekki sé hægt að segja annað en að leiðrétt sé fyrir öllu sem geti talist umfram eðlilegar verðbólguvæntingar. Hann segir að þetta sé almenn aðgerð sem leysi ekki vanda allra en hugað að öðrum með öðrum aðgerðum. Hann segir að sjá megi hvernig aðgerðin muni hafa áhrif áratugi fram í tímann, minni greiðslubyrði og aukinn kaupmáttur.
Hér fyrir neðan má nálgast fréttir af fundinum:
RÚV: Þetta sögðu ráðherrarnir í dag
RÚV: 100 milljarðar í höfuðstólslækkun
vb.is: Sigmundur: Leiðrétt fyrir allri verðbólgu umfram 4%
mbl.is: Sigmundur fór spenntur að sofa
eyjan.is: Leiðréttingin: Ríkissjóður afsalar sér 20 milljörðum í skatttekjur
eyjan.is: Skuldaleiðréttingu flýtt: Mun hafa áhrif áratugi fram í tímann, segir Sigmundur Davíð
kjarninn.is: Meðalfjárhæð leiðréttingarinnar er 1.350 þúsund krónur
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
Categories
Fréttir

Aðgerðin vegur þyngst fyrir fólk undir meðaltekjum – við fullnýtingu leiðréttingar lækkar höfuðstóll íbúðalána um allt að 20%

Deila grein

10/11/2014

Aðgerðin vegur þyngst fyrir fólk undir meðaltekjum – við fullnýtingu leiðréttingar lækkar höfuðstóll íbúðalána um allt að 20%

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, og fjármála- og efnahagsráðherra, ásamt verkefnisstjórn um höfuðstólsleiðréttingu, kynntu í dag niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar á fundi í Hörpu.

  • Hér má nálgast glærur frá fundinum í dag.

Aðgerðin vegur þyngst fyrir fólk undir meðaltekjum, sem var innan við fertugt við hrun, á lítið eigið fé í húsnæði sínu og skuldar á bilinu 15 til 30 milljónir króna.
Verður lánum skipt upp í tvo hluta, frum- og leiðréttingarlán, og mun skuldari einungis greiða af frumláni frá og með uppskiptingu lánsins.
Leiðréttingin lækkar höfuðstól íbúðalána um 150 milljarða króna á næstu 3 árum og við fullnýtingu leiðréttingar lækkar höfuðstóll íbúðalána um allt að 20%.
Með beinu og óbeinu framlagi ríkisins er öll verðbólga umfram 4% á árunum 2008-2009 leiðrétt til fulls. Eiginfjárstaða 56.000 heimila styrkist með beinum hætti og um 2500 heimili færast úr því að eiga ekkert eigið fé í fasteign sinni yfir í jákvæða eiginfjárstöðu.
Fjármögnunartími aðgerðanna verður styttur úr þremur árum í eitt. Það tryggir betri nýtingu fjármuna sem ella hefðu farið í vaxtagreiðslur til fjármálastofnana og gerir stjórnvöldum kleift að greiða hærri fjárhæðir inn á höfuðstól lána. Verða 40 milljarðar greiddir inn á leiðréttingarlánin á þessu ári, 20 milljarðar í upphafi næsta árs og 20 milljarðar í byrjun árs 2016.
Leiðréttingin styrkir þannig forsendur frekari hagvaxtar og og léttir skuldabyrði heimilanna. Öflugur hagvöxtur og lítil verðbólga getur stutt frekar við eiginfjárstöðu íslenskra heimila á næstu misserum.
Inngreiðslur séreignarsparnaðar á höfuðstól hefjast um næstu mánaðamót og höfuðstólslækkun með leiðréttingarleið eftir staðfestingu skuldara í desember. Hver og einn getur kynnt sér niðurstöðu höfuðstólslækkunar lána sinna á leidretting.is frá og með 11. nóvember.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Leiðréttingin – kynningarmyndbönd

Deila grein

10/11/2014

Leiðréttingin – kynningarmyndbönd

Útreikningur og samþykkt leiðréttingar

Rafræn skilríki á farsíma

Umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli

Deila grein

06/11/2014

Frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli

144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 478  —  361. mál.

Frumvarp til laga

um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir,
Frosti Sigurjónsson, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir,
Karl Garðarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson,
Sigrún Magnúsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir.

 
1. gr.
Gildissvið og markmið.
Lög þessi gilda um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.
Að öðru leyti en mælt er fyrir um í lögum þessum gilda ákvæði skipulagslaga, nr. 123/ 2010, og laga um mannvirki, nr. 160/2010, um framkvæmd laga þessara eftir því sem við getur átt.
Markmið laga þessara er að tryggja ábyrgð Alþingis á gerð skipulagsáætlana og þátttöku í veitingu framkvæmdaleyfa og byggingarleyfa á Reykjavíkurflugvelli.
2. gr.
Reykjavíkurflugvöllur.
Með Reykjavíkurflugvelli í lögum þessum er átt við svæði í Reykjavík sem er afmarkað í uppdrætti sem ráðherra birtir í B-deild Stjórnartíðinda.
3. gr.
Stjórn skipulags- og mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli.
Ráðherra fer með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli.
Alþingi skipar fimm menn í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu ráðherra, tveir samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
Ráðherra setur skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar starfsreglur.
4. gr.
Framkvæmd skipulagsmála á Reykjavíkurflugvelli.
Alþingi ber ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll. Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar annast í umboði Alþingis vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags. Alþingi ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og leggur fyrir nefndina til afgreiðslu. Samþykkt Alþingis á deili- eða aðalskipulagstillögu fyrir Reykjavíkurflugvöll telst fullnaðarafgreiðsla málsins.
Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar fjallar um leyfisumsóknir og veitir framkvæmdaleyfi.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar starfar með skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar. Hann hefur umsjón með skipulagsgerð, eftirlit með framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum og annast að öðru leyti þau verkefni sem honum eru falin af nefndinni og mælt er fyrir um í skipulagslögum, nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúi situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt.
5. gr.
Framkvæmd mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli.
Byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar annast eftirlit með mannvirkjagerð á Reykjavíkurflugvelli í samræmi við ákvæði laga um mannvirki, nr. 160/2010. Skilyrði fyrir útgáfu byggingarfulltrúa á byggingarleyfi vegna hvers kyns mannvirkja á Reykjavíkurflugvelli er að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar hafi fjallað um byggingarleyfisumsókn og samþykkt byggingarleyfi.
Leiki vafi á hvort framkvæmd eða mannvirki samræmist skipulagsáætlunum Reykjavíkurflugvallar skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurflugvallar.
6. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
7. gr.
Breyting á öðrum lögum.
1.     Skipulagslög, nr. 123/2010: Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar fer með skipulagsmál á Reykjavíkurflugvelli í samræmi við ákvæði laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.
2.     Lög um mannvirki, nr. 160/2010: Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Um stjórn mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli fer eftir ákvæðum laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.
Ákvæði til bráðabirgða.
Gildandi skipulagsáætlanir vegna þess svæðis sem heyrir undir Reykjavíkurflugvöll halda gildi sínu þar til nýjar skipulagsáætlanir taka gildi í samræmi við ákvæði 4. gr., sbr. 2. mgr. 1. gr.
Greinargerð.
Reykjavíkurflugvöllur er sameign allrar þjóðarinnar. Hinn 6. júlí 1946 afhentu Bretar Íslendingum flugvöllinn í Vatnsmýri til eignar en Bretar lögðu völlinn og notuðu hann sem herflugvöll í seinni heimsstyrjöldinni. Það er lýsandi fyrir mikilvægi flugvallarins fyrir þjóðina alla að það var forsætisráðherra Íslands, Ólafur Thors, sem tók formlega við flugvellinum í júlí 1946 úr höndum Breta. Reykjavíkurflugvöllur hefur æ síðan leikið stórt hlutverk í sögu þjóðarinnar sem miðstöð flugsamgangna á Íslandi. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að standa vörð um það fjölþætta og þýðingarmikla hlutverk sem Reykjavíkurflugvöllur hefur með því að festa staðsetningu hans í sessi á tryggan hátt til hagsbóta fyrir landsmenn alla.
Í hinni þéttbýlu miðborg Reykjavíkur hafa á liðnum árum risið álitamál um fyrirkomulag skipulags og mannvirkjagerðar á Reykjavíkurflugvelli. Við úrlausn slíkra mála er ljóst að ekki fara alltaf saman hagsmunir Alþingis, Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Þótt Reykjavíkurflugvöllur sé staðsettur í miðborg Reykjavíkur er hann eftir sem áður flugvöllur þjóðarinnar allrar. Til þess stendur pólitískur vilji að Alþingi hafi áhrif á skipulag og mannvirkjagerð á Reykjavíkurflugvelli. Með frumvarpi þessu er að því stefnt að slík áhrif verði virk en um leið sé gætt að því að Reykjavíkurborg, sem fer með hið lögbundna skipulagsvald Reykjavíkur, sé jafnsett þinginu við mótun og gerð skipulags á svæðinu.
Skipulagsvald ríkis og sveitarfélaga.
Skipulags- og mannvirkjamál eru almennt í höndum sveitarfélaganna, líkt og rakið er hér að aftan. Skv. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, skulu sveitarfélög ráða málefnum sínum sjálf eftir því sem lög ákveða. Það fer eftir almennum lögum hvaða verkefni eru á hendi sveitarfélaga og er það því í verkahring löggjafans að ákveða það. Með almennum lögum er þannig bæði hægt að láta sveitarfélögunum ný verkefni í té sem og að færa ákveðin verkefni frá sveitarfélögunum til annarra stjórnvalda. Fyrrgreint ákvæði stjórnarskrárinnar gerir þá kröfu hins vegar að slíkt sé gert með lögum.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, fer ráðherra með yfirstjórn skipulagsmála og Skipulagsstofnun er ráðherra til aðstoðar, sbr. 4. gr. laganna. Sveitarstjórnir annast hins vegar gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana, sbr. 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Þannig bera sveitarstjórnir ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, sbr. 2. mgr. 29. gr., og þær bera jafnframt ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 38. gr. Í tilviki deiliskipulags heyrir það undir sveitarstjórnir að samþykkja það endanlega og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 40.–43. gr. skipulagslaga. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga verða að vera í innbyrðis samræmi og mega ekki vera í andstöðu við skipulagslög.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. mannvirkjalaga, nr. 160/2010, fer ráðherra með yfirstjórn mannvirkjamála samkvæmt lögunum og Mannvirkjastofnun er ráðherra til aðstoðar, sbr. 5. gr. laganna. Sveitarstjórnir bera hins vegar ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og annast byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð sem fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Það er almennt í höndum byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi, sbr. III. kafla mannvirkjalaga. Þó veitir Mannvirkjastofnun byggingarleyfi vegna mannvirkja á hafi utan sveitarfélagamarka og á varnar- og öryggissvæðum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Þá getur sveitarstjórn sett á fót byggingarnefnd sem fjallar um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Í slíkum tilvikum er sveitarstjórn heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna.
Skipulags- og mannvirkjavald sveitarstjórna er hins vegar ekki takmarkalaust þar sem löggjafinn getur með almennum lögum fært verkefni til sveitarfélaga eða fækkað verkefnum á þeirra hendi. Gera verður þó ákveðnar kröfur til slíkrar lagasetningar enda almennt litið svo á að 78. gr. stjórnarskrárinnar tryggi sveitarfélögum ákveðið sjálfstæði sem takmarka má á almennan hátt með lögum. Þannig verða að liggja að baki slíkri lagasetningu ríkir almannahagsmunir, verkefni þau sem færð eru frá sveitarfélögum þurfa að vera skýrt afmörkuð og lagasetningin má ekki vera víðtækari en þarf í hvert sinn með hliðsjón af tilgangi viðkomandi laga. Slíkar takmarkanir er að finna nokkuð víða í lögum og hér eru reifuð dæmi um slíka lagasetningu sem snýr að skipulagsvaldi sveitarfélaganna.. Þannig er kveðið á um það í 2. mgr. 3. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 62. gr. mannvirkjalaga að ráðherra er fer með málefni varnar- og öryggissvæða fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á varnar- og öryggissvæðum eins og þau eru skilgreind í varnarmálalögum, nr. 34/2008, sbr. og lög nr. 110/1951 og lög nr. 176/2006. Í 8. gr. laga nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., er mælt fyrir um að ráðherra skipi sex menn í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og sér sú nefnd um að afgreiða aðal- og deiliskipulag fyrir flugvallarsvæðið. Þá er í 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga mælt fyrir um að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar vegna mannvirkja á flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar. Samkvæmt þessu er ljóst að skipulagsvald flugvallarsvæðisins er í höndum skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar sem er einnig umsagnaraðili í þeim tilvikum þegar reisa á mannvirki á svæðinu. Þá má nefna að óheimilt er að gera nokkurt jarðrask eða reisa mannvirki innan þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að fengnu samþykki Þingvallanefndar, sbr. 5. gr. laga nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þingvallanefnd fer því með mannvirkjavald innan marka þjóðgarðsins. Þá má einnig nefna að í samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun, nr. 33/2008, er mörkuð stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna til 12 ára og í samgönguáætlun til fjögurra ára er gerð áætlun um einstakar framkvæmdir, t.d. í vegamálum, fyrir hvert fjögurra ára tímabil. Með samþykkt samgönguáætlunar hefur Alþingi óbeint áhrif á skipulagsvald sveitarfélaganna. Þá má einnig nefna sérlög sem sett hafa verið um einstakar framkvæmdir, líkt og lög um Landeyjahöfn, nr. 66/ 2008, og lög um heimild til handa ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, nr. 48/2012. Með samþykkt sérlaga sem þessara hefur Alþingi með almennum lögum tekið ákvörðun um einstakar framkvæmdir innan marka viðkomandi sveitarfélaga. Af framangreindu má ráða að skipulagsvald sveitarfélaga er háð þeim takmörkunum sem lög gera ráð fyrir að uppfylltum þeim skilyrðum sem slík löggjöf þarf að standast.
Í frumvarpi þessu er lagt til að Reykjavíkurflugvöllur verði skýrt afmarkaður og þar fari ráðherra með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála. Gerð aðal- og deiliskipulags verði hins vegar í höndum skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurflugvallar, eftir atvikum í samstarfi við skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að starfsemi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurflugvallar verði með svipuðu sniði og skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar, að breyttu breytanda. Þó eru í frumvarpinu nokkuð ítarlegri ákvæði um framkvæmd skipulagsmála, auk þess sem lagt er til að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar fari með sambærilegt mannvirkjavald og byggingarnefndir sveitarstjórna skv. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga. Þannig sé nefndin ekki einungis umsagnaraðili um byggingarleyfi, eins og skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar á flugvallarsvæðinu, heldur sé það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis á Reykjavíkurflugvelli að nefndin hafi samþykkt útgáfu þess.
Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar.
Reykjavíkurflugvöllur gegnir fjölþættu og mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Völlurinn er miðstöð innanlandsflugs og gegnir í því sambandi mikilvægu hlutverki í samgöngum höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Um flugvöllinn fara að jafnaði um 400 þúsund farþegar á ári og af þeim er tilgangur um 4% almennra ferða að sækja læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Er þá ekki verið að vísa til sjúkraflugs en árlega fara um 600 sjúkraflug um völlinn. Flugvöllurinn er þannig helsta tenging landsbyggðarinnar utan Suðvesturhornsins við Landspítalann. Flugvöllurinn gegnir einnig lykilhlutverki í tengingu landsbyggðarinnar við kjarnaþjónustu opinberrar þjónustu, sem er að mestu á höfuðborgarsvæðinu, við heilbrigðiskerfið, menntakerfið og almenna verslun og þjónustu. Þá gegnir flugvöllurinn æ stærra hlutverki í tengslum við ferðaþjónustu og þar eru sóknarfæri fyrir hendi. Flugvöllurinn er einnig mikilvæg miðstöð kennsluflugs, eftirlits, leitar- og björgunarflugs og mikilvægur varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Öll framangreind atriði eru afar mikilvæg og þess eðlis að nauðsynlegt er að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni svo að hann geti með sóma sinnt sínu hlutverki þannig að landsmenn allir hafi greiðan aðgang að höfuðborginni.
Í nýlegri skýrslu innanríkisráðuneytisins um félagshagfræðilega greiningu á framtíð innanlandsflugs kemur fram að innanlandsflug muni að öllum líkindum dragast mikið saman og verði jafnvel ekki fýsilegt verði innanlandsflugið flutt til Keflavíkurflugvallar. Það er því forsenda fyrir virku innanlandsflugi á Íslandi að miðstöð innanlandsflugs sé í Reykjavík og þannig í nánum tengslum við þá þjónustu sem landsmenn sækja til höfuðborgarinnar. Í skýrslunni kemur einnig fram að innanlandsflugið sé þjóðhagslega arðbært og að þjóðhagslegur ávinningur af því til næstu 40 ára séu um 70 milljarðar á verðlagi dagsins í dag. Öll skynsamleg rök hníga því í þá átt að halda flugstarfsemi í Vatnsmýrinni en verði þar einhver breyting á er nauðsynlegt að öll þjóðin fái að koma að þeim ákvörðunum á lýðræðislegan hátt í gegnum lagasetningu á Alþingi.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Í þessari grein er að finna gildissvið og markmið frumvarpsins. Í 1. mgr. er mælt fyrir um að lögin gildi um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli. Lögin verða því sérlög gagnvart skipulagslögum, nr. 123/2010, og mannvirkjalögum, nr. 160/2010, að því marki sem mælt er fyrir um í frumvarpinu.
Í 2. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði skipulagslaga og mannvirkjalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim eigi að öðru leyti við um framkvæmd laganna eftir því sem við getur átt. Þannig gilda t.d. ákvæði VII. og VIII. kafla skipulagslaga, nr. 123/2010, um afgreiðslu á aðal- og deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar.
Í 3. mgr. er kveðið á um markmið laganna, sem er að mæla fyrir um þátttöku og ábyrgð Alþingis á gerð skipulagsáætlana og veitingu framkvæmdaleyfa og byggingarleyfa á Reykjavíkurflugvelli í samræmi við skipulagslög, nr. 123/2010, og mannvirkjalög, nr. 160/2010.
Um 2. gr.
Í þessari grein er kveðið á um afmörkun Reykjavíkurflugvallarsvæðisins sem hefur grundvallarþýðingu við framkvæmd laganna. Til þess að taka af allan vafa um afmörkun svæðisins er lagt til að ráðherra sem fer með skipulagsmál birti í B-deild Stjórnartíðinda auglýsingu þar sem svæðið er afmarkað í uppdrætti.
Um 3. gr.
Grein þessi mælir fyrir um það hvernig stjórnsýslu skipulags- og mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli verður háttað. Í 1. mgr. er tilgreint að ráðherra sem fer með skipulagsmál fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli.
Í 2. mgr. er kveðið á um fimm manna skipulags- og byggingarnefnd fyrir Reykjavíkurflugvöll sem skipuð er af Alþingi. Samkvæmt greininni skipar Alþingi tvo nefndarmenn samkvæmt tilnefningu ráðherra, tvo samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einn án tilnefningar.
Í 3. mgr. er ráðherra gert að setja nefndinni starfsreglur.
Um 4. gr.
Grein þessi mælir fyrir um framkvæmd skipulagsmála á Reykjavíkurflugvelli.
Í 1. mgr. er mælt fyrir um að Alþingi beri ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll og að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar annist í umboði Alþingis vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags. Þetta fyrirkomulag er að mestu leyti sambærilegt 2. mgr. 29. gr. skipulagslaga þar sem mælt er fyrir um að sveitarstjórn beri ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélag og skipulagsnefnd sveitarfélagsins annist í umboði sveitarstjórnar vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags. Í 2. mgr. 29. gr. skipulagslaga er hins vegar gert ráð fyrir því að sveitarstjórn þurfi að samþykkja aðalskipulag áður en það er sent Skipulagsstofnun til staðfestingar, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurflugvallar sé endanleg á sveitarstjórnarstigi.
Í 1. mgr. er einnig mælt fyrir um að Alþingi beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Endanleg afgreiðsla deiliskipulags er í höndum Alþingis. Af þessu leiðir að leggja þarf tillögurnar fyrir Alþingi til samþykktar. Í tilviki aðalskipulags er það þó háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag, sbr. 3. mgr. 29. gr. og 3.–5. mgr. 32. gr. skipulagslaga.
Í 2. mgr. er mælt fyrir um að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar fjalli um leyfisumsóknir og veiti framkvæmdaleyfi. Í þessu felst sambærilegt hlutverk og sveitarstjórnum er ætlað skv. 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga.
Í 3. mgr. er mælt fyrir um að skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar starfi með skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar og að hann hafi umsjón með skipulagsgerð, eftirlit með framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum og annist að öðru leyti þau verkefni sem honum eru falin af nefndinni og mælt er fyrir um í skipulagslögum, nr. 123/2010. Þá situr skipulagsfulltrúi fundi nefndarinnar og er með málfrelsi og tillögurétt. Ákvæði þetta er sambærilegt 1., 3. og 4. mgr. 7. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Að því marki sem frumvarpið mælir ekki fyrir um starfsemi og skyldur skipulagsfulltrúa gagnvart nefndinni er gert ráð fyrir að skipulagslög gildi.
Um 5. gr.
Grein þessi mælir fyrir um framkvæmd mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli.
Í 1. mgr. er lagt til að byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar hafi eftirlit með mannvirkjagerð á Reykjavíkurflugvelli í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga, nr. 160/2010, sbr. 2. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 9. gr. og 10.-14. gr. laganna. Þannig þarf að sækja um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar vegna allra byggingarleyfisskyldra framkvæmda á svæðinu. Aftur á móti er í ákvæðinu mælt fyrir um að það sé skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis hvers kyns mannvirkja á Reykjavíkurflugvelli af hálfu byggingarfulltrúa að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar hafi fjallað um byggingarleyfisumsókn og samþykkt byggingarleyfi. Nefndin hefur því svipað vald og byggingarnefndir sveitarfélaga og/eða sveitarstjórnir geta haft skv. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga.
Í 2. mgr. er mælt fyrir um að leiki vafi á hvort framkvæmd eða mannvirki samræmist skipulagsáætlunum Reykjavíkurflugvallar þurfi byggingarfulltrúi að leita umsagnar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurflugvallar. Ákvæðið svipar til 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga, þar sem kemur fram að byggingarfulltrúi þurfi að leita umsagnar skipulagsfulltrúa í slíkum tilvikum.
Um 6. gr.
Greinin þarfnast ekki skýringa.
Um 7. gr.
Í greininni er mælt fyrir um breytingar á skipulagslögum og mannvirkjalögum, en talið er nauðsynlegt að í skipulagslögum og mannvirkjalögum sé vísað með beinum hætti til ákvæða laga þessara svo að ekki fari á milli mála að þessi lög eru sérlög gagnvart þeim.
Um ákvæði til bráðabirgða.
Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að núgildandi skipulagsáætlanir Reykjavíkurborgar vegna þess svæðis sem heyrir undir Reykjavíkurflugvöll haldi gildi sínu þar til skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar hefur látið útbúa nýjar skipulagsáætlanir, þ.e. aðal- og deiliskipulag, í samræmi við ákvæði laganna.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.