LFK hvetur konur áfram!
21/02/2014
LFK hvetur konur áfram!21/02/2014
LFK hvetur konur áfram!19/02/2014
Fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðumGunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hafði framsögu á Alþingi í dag um skýrslu óháðs fagaðila, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á fræðilegu mati á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Gunnar Bragi sagðist „vonast til þess í dag að umræðan muni meira og minna beinast að skýrslunni sem hér liggur fyrir og efnisatriðum hennar og því mati sem þar er að finna á einstökum þáttum. Við eigum að horfa fram á veginn í þessu máli, sem og reyndar öllum öðrum ef við mögulega getum. Ég treysti því að með þessa úttekt í farteskinu farnist okkur það.“
Hann telur skýrsluna skýra vel „galla sem eru á því ferli sem viðhaft er í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er Evrópusambandið sem er við stjórnvölinn. Þannig er það. Sambandið stýrir ferlinu, m.a. með setningu skilyrða fyrir framvindu þess í formi opnunar- og lokunarviðmiða á einstaka samningskafla.“
„En það er annar stór galli á þessu ferli. Það er sú staðreynd að öll þessi skilyrðasetning fyrir framgangi viðræðna í formi viðmiða gefur einstökum aðildarríkjum enn ríkari tækifæri en fyrr til að láta sérhagsmuni sína ráða för. Þannig getur algerlega óskyld mál verið spyrt saman við bæði ferlið sjálft og framgang umsóknarríkja og þannig geta þeir sem fyrir liggja á fleti tekið varðstöðu um þrönga hagsmuni sína. Slíkt dregur auðvitað úr trúverðugleika ferlisins og trúverðugleika ESB almennt“, sagði Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi segir skýrsluna draga „upp mynd af ESB sem framfylgir stækkunarstefnu sem er föst á klafa viðmiða og skilyrða og gefur núverandi aðildarríkjum tæki til eigin hagsmunagæslu. Stækkunarstefnan er í eðli sínu óbilgjörn. Hún er ekki framkvæmd á jafningjagrundvelli. Þessi stækkunarstefna hentar ekki Íslandi. Það var ábyrgðarhluti að hrinda í framkvæmd aðildarviðræðum þegar þannig háttar til.
Að þessum forsendum gefnum er það að mínu mati fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum.”
„Ég er sannfærður um“, segir Gunnar Bragi, „að af gefnum þeim forsendum sem blasa við okkur í skýrslu Hagfræðistofnunar sé óábyrgt að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið um aðild. Þetta met ég með hliðsjón af þremur meginþáttum sem í skýrslunni eru dregnir fram og ég hef tæpt á.
„Við þurfum að taka í sameiningu á þeim atriðum sem snúa að okkur sjálfum en ekki úthýsa málinu til ESB til lausnar. Við erum að gera það nú þegar. Í níu mánuði hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs unnið í og tekið á stærri vandamálunum sem liggja fyrir þjóðinni, skuldaleiðréttingu, fjármálum ríkissjóðs, eflingu heilbrigðisstofnana og löggæslu svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Gunnar Bragi.
Hér er hægt að lesa ræðu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra í heild sinni.
13/02/2014
Afnám verðtryggingar – opinn fundurOpinn fundur um niðurstöður verðtryggingarnefndar í Framsóknar-salnum í Kópavogi Digranesvegi 12 laugardaginn 15. febrúar kl. 11.00. Frummælendur verða Ingibjörg Ingvadóttir og Vilhjálmur Birgisson. Auk þeirra verða þeir Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson alþingismenn í pallborði að loknum framsögum.
13/02/2014
„Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna 6,9 milljarðar – tæpar 7 þús. milljónir“Í störfum þingsins í gær, miðvikudag, tóku Jóhanna María, Willum og Vigdís til máls. Vigdís fór m.a. yfir hvað það eru orðnar „óheyrilegar upphæðir sem lífeyrissjóðirnir taka í rekstrarkostnað, sérstaklega í ljósi þess að launþegar eiga sjóðina“ og ekki eru þeir ofaldnir.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: ræddi framtíð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og áhyggjur fólks af framtíðarskipan hans. Ekki er hægt að skera meira niður innan stofnunarinnar án þess að það komi niður á náminu eða komi til algjörrar uppstokkunar á starfsemi skólans. „Við sem sinnum hlutverki stjórnvalda þurfum að svara kalli starfsmanna og nemenda skólans, byggðarinnar á Hvanneyri og fólksins í Borgarfirði. Við þurfum að taka af vafann með hag Landbúnaðarháskólans fyrir brjósti og sækja fram.“
Willum Þór Þórsson: ræddi fyrirhugað afnám verðtryggingar á neytendalánum. „Verðtryggð neytendalán eru hluti af tilbúnu kerfi þar sem neytendur taka langvarandi kostnað á sig tengdan almennum verðlagsbreytingum í skiptum fyrir lægri greiðslubyrði en borga á endanum fasteignir sínar of dýru verði.“ Og síðar sagði hann: „Tækifærið er núna. Það er einsýnt þessu samkvæmt að fara verður í skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar samhliða.“
Vigdís Hauksdóttir: fór yfir ævintýralegar fréttir af lífeyrissjóðum landsmanna. Á fundi þingmanna með stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða „kom fram að 0,26% af heildareignum lífeyrissjóðanna eru rekstrarkostnaður. Heildareignir lífeyrissjóðanna er 2.656 milljarðar og gerir því rekstrarkostnaðurinn 6,9 milljarða, tæpar 7 þús. milljónir.“ Síðar sagði hún: „Vilhjálmur Birgisson, sem minnst var á hér áðan, verkalýðsforingi af Akranesi, hefur sett fram á bloggsíðu sinni að þetta sé samanlögð sú upphæð sem fer í lögreglu og landhelgisgæslu samkvæmt fjárlögum 2014.“
13/02/2014
Formaður Framsóknar tekur á móti háskólanemum frá AkureyriSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tók á móti yfir 100 nemendum frá Háskólanum á Akureyri (HA) í vísindaferð s.l. laugardag. Móttakan fór fram í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu og eru myndir frá móttökunni hér.
12/02/2014
„Leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er“Þingmenn Framsóknar slógu ekki slöku við í ræðustól Alþingis í gær þriðjudag og tóku upp hin ýmsu mál til umfjöllunar líkt og sjá má hér að neðan. Flutti m.a. Fjóla Hrund Björnsdóttir jómfrúarræðu sína og ræddi hugmynd um að leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er, enda hafi það reynst vel í þeim löndum þar sem það sé leyfilegt.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: „Síðustu vikur hefur verið mikið rætt um sýklalyf og áhrif þess á menn og dýr. Þetta er þörf umræða og ég hef lengi haft áhyggjur af því í hvað stefnir í þessum málum. Í Bændablaðinu fyrir um þremur vikum var góð samantekt á samspili sýklalyfja og matvæla. Það er áhugavert að skoða þessa umfjöllun um notkun sýklalyfja í samhengi við vaxandi kröfur hagsmunaaðila í verslunum á Íslandi sem eru að stórauka innflutning og losa um skilyrði er varða bæði frosið og ferskt kjöt frá Evrópu.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir: „Atvinnuleysisdraugurinn hefur gert Suðurnesjamönnum lífið leitt um langa hríð. Nú hillir undir jákvæðar breytingar í þeim efnum. Ýmis atvinnuverkefni eru í undirbúningi og önnur eru nú þegar farin af stað. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði til dæmis fyrir skömmu fjárfestingarsamning við forsvarsmenn líftæknifyrirtækisins Algalíf. Algalíf er staðsett í Reykjanesbæ og framleiðir örþörunga. Úr þeim er unnið virka efnið astaxanthin. Það er sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur auk þess að vera neytt sérstaklega í hylkjaformi.“
Willum Þór Þórsson: „Samtökin Regnbogabörn hafa verið lögð niður. Það hefur ekki farið fram hjá okkur. Það hefur verið greint frá því í flestum miðlum undanfarna daga. Ástæðan er hefðbundin: Peningaskortur og enginn opinber stuðningur. Viðbrögðin eru sterk. Fólk tjáir sig meðal annars á fésbókarsíðu samtakanna og finnst fréttirnar hræðilegar og sorglegar. Viðbrögðin eru kannski ekki víðtæk en þau eru sterk. Einstaklingar þakka samtökunum bætt líf, hjálp við að komast út úr sálrænni áþján þunglyndis og hryllilegum afleiðingum eineltis.“
Þorsteinn Sæmundsson: „Fyrir um það bil þremur vikum fór fram hér í þingsal mjög góð umræða, sérstök umræða, um verslun og viðskipti í landinu og vöruverð og þar á meðal þá staðreynd að þrátt fyrir verulega styrkingu krónunnar undanfarin ár hefur verð á innfluttum vörum ekki lækkað. Umræðan var mjög góð og þörf en svo vill til að hennar var hvergi getið í nokkrum einasta fjölmiðli á Íslandi, það heyrðist ekki tíst um þessa umræðu. Ég velti fyrir mér af hverju. Meira að segja á RÚV, sem kallar sig fjölmiðil í almannaþágu, var ekki bofs um þetta mál. Ég velti fyrir mér hvort Ríkisútvarpið telji að umræða um hátt verð á innfluttum vörum, og það að þær lækki ekki þegar krónan styrkist, sé ekki frétt sem eigi erindi við almenning.“
Karl Garðarsson: „Flokksráðsfundur vinstri grænna um helgina sendi frá sér merkilega ályktun sem ég held að eigi erindi við alla. Með leyfi forseta, langar mig að lesa hana og er þetta ekki löng lesning.“
Fjóla Hrund Björnsdóttir: „Mikilvægt er að halda umferðinni gangandi og að umferðarmannvirki standist tímans tönn. Nú til dags þegar aukning á bílum á götum borgarinnar fer sífellt vaxandi og umferðin verður sífellt þyngri er rétt að leita leiða til að láta umferðina ganga betur en hún gerir.“
Haraldur Einarsson: „Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Fjólu Hrund Björnsdóttur sem sagði í jómfrúrræðu sinni áðan að leyfa ætti hægri beygjur á rauðu ljósi. Ég hef velt þessu fyrir mér í talsverðan tíma og komist að sömu niðurstöðu og hv. þingmaður. Efasemdaraddir geta að sjálfsögðu vaknað og eru skiljanlegar.“
11/02/2014
Aðalfundur Framsóknarfélags ReykjavíkurAðalfundur Framsóknarfélags Reykjavíkur verður haldinn miðvikudaginn 19. febrúar í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu 33, 3. hæð, í Reykjavík, kl. 19.30.
Dagskrá:
1. Fundarsetning.
2. Tilnefning eða kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Formaður gefur skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.
4. Gjaldkeri flytur skýrslu um fjárhag félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
6. Reikningar bornir upp til samþykktar.
7. Lagabreytingar, löglega fram bornar.
8. Kosin stjórn félagsins:
8.1. Formaður.
8.2. Varaformaður.
8.3. 5 (fimm) meðstjórnendur.
8.4. 2 (tveir) menn í varastjórn.
8.5. Kosnir 2 (tveir) skoðunarmenn reikninga.
8.6. Kosnir 2 (tveir) skoðunarmenn reikninga til vara
8.7. Kosnir fulltrúar á kjördæmisþing KFR.
9. Önnur mál.
10. Fundarslit.
Framboð til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið er um á aðalfundi skulu berast stjórn eigi síðar en 3 sólarhringum fyrir aðalfund. Framboð síðar fram komin skulu einungis tekin gild sé ekki neitt framboð í umrædda ábyrgðarstöðu, sbr. 5.4 í lögum félagsins.
Flokksfélagar eru hvattir til að fjölmenna á aðalfundinn.
*****
Úr lögum Framsóknarfélags Reykjavíkur:
5. gr. Boðun, lögmæti og seturéttur.
5.1. Boða skal til aðalfundar með minnst viku fyrirvara á sannanlegan hátt. Í fundarboði skal getið dagskrár.
5.2. Aðalfundur er löglegur sé löglega boðað til hans.
5.3. Seturétt á aðalfundi með fullum atkvæðisrétti hafa þeir félagar, sem skráðir eru í félagið a.m.k. þrjátíu dögum fyrir aðalfund samkvæmt félagatali á skrifstofu flokksins og hafa lögheimili í Reykjavík. Allir félagar í Framsóknarfélagi Reykjavíkur hafa seturétt á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt.
5.4. Framboð til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið er um á aðalfundi skulu berast stjórn eigi síðar en 3 sólarhringum fyrir aðalfund. Framboð síðar fram komin skulu einungis tekin gild sé ekki neitt framboð í umrædda ábyrgðarstöðu.
5.5. Fulltrúar á kjördæmisþing KFR skulu hafa greitt félagsgjöld FR fyrir yfirstandandi ár og vera með lögheimili í Reykjavík.
*****
STJÓRN FRAMSÓKNARFÉLAGS REYKJAVÍKUR
05/02/2014
Bætt kjör námsmanna á oddinnÁ 39. Sambandsþingi Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) sem haldið er um helgina á Hótel Selfossi var Helgi Haukur Hauksson kjörinn nýr formaður sambandsins. Helgi tekur við af Hafþóri Eide Hafþórssyni sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Helgi Haukur er 29 ára gamall nemi við Háskólann á Bifröst.
Jafnframt var kjörin ný 12 manna stjórn SUF, hana skipa:
Alex Björn Bülow
Kjartan Þór Ingason
Davíð Freyr Jónsson
Ásta Hlín Magnúsdóttir
Kristjana Louise
Páll Maris Pálsson
Ágúst Bjarni Garðarsson
Sóley Þrastardóttir
Fjóla Hrund Björnsdóttir
Einar Freyr Elínarson
Jónína Berta Stefánsdóttir
Heiðrún Sandra Grettisdóttir
Varastjórn skipa:
Sandra Rán Ásgrímsdóttir
Sigurjón Nordberg Kjærnested
Marteinn Eyjólfur Sigurbjörnsson
Steinunn Anna Baldvinsdóttir
Gissur Kolbeinsson
Diljá Helgadóttir
Ísak Traustason
Elka Hrólfsdóttir
Magnús Arnar Sigurðsson
Tanja Kristmannsdóttir
Hafþór Eide Hafþórsson
Hulda Margrét Birkisdóttir
Ungir Framsóknarmenn vilja bæta kjör námsmanna
Á þinginu voru lagðar línur og áherslur fyrir komandi starfsár. Mikil umræða var um kjör námsmanna á þinginu og stóð vilji fundarmanna til að forysta sambandsins myndi leggja mikla áherslu á að bæta kjör námsmanna hið fyrsta. Umræða um hækkun frítekjumarks námslána var hávær og ljóst að ungir framsóknarmenn telja að það geti verið ein skilvirkasta leiðin til að bæta kjör námsmanna.
Hér eru ályktanir frá þinginu.
05/02/2014
Auglýst eftir frambjóðendum í HafnarfirðFramsóknarfélögin í Hafnarfirði auglýsa eftir áhugasömum frambjóðendum eða ábendingum um frambærilega frambjóðendur.
Fulltrúaráðsfundur í Framsóknarfélögunum í Hafnarfirði hefur falið uppstillingarnefnd að gera tillögu að framboðslista Framsóknarflokksins fyrir kosningar til bæjarstjórnar í Hafnarfirði í vor.
Uppstillingarnefnd auglýsir því hér með eftir framboðum eða ábendingum um frambærilega frambjóðendur til að taka sæti á lista Framsóknarflokksins. Frambjóðendur þurfa að uppfylla ákvæði laga um kjörgengi skv. 3. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Frambjóðandi skal hafa lögheimili í Hafnarfirði og hafa náð 18 ára aldri þegar kosning fer fram. Konur jafnt sem karlar, ungir sem aldnir, eru hvattir til að gefa kost á sér.
Uppstillingarnefnd lýsir einnig eftir áhugasömum aðilum sem hafa áhuga á að starfa með okkur fram að kosningum og vinna að ákveðnum málaflokkum eftir kosningar þó þeir gefi ekki kost á sér á framboðslistann. Þegar í bæjarstjórn er komið þarf að manna hinar ýmsu nefndir og ráð Hafnarfjarðarbæjar og má sjá lista um slíkt á vef bæjarins, www.hafnarfjordur.is
Framboðsfrestur er til kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 12. febrúar 2014.
Framboðum eða tilnefningum skal skila á netfangið 220framsokn@gmail.com eða til uppstillingarnefndar. Framsókn í Hafnarfirði er á Facebook og er hægt að koma ábendingum á framfæri þar með skilaboðum.
Uppstillinganefnd skipa:
Ingvar Kristinsson
Þórey Matthíasdóttir
Hildur Helga Gísladóttir
Guðmundur Fylkisson
Þórarinn Þórhallsson