Categories
Fréttir

Getum við lagað það?

Deila grein

17/02/2016

Getum við lagað það?

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Við getum öll verið sammála um að laga þurfi það sem er brotið. Traust Alþingis er eitt af því sem er brotið. Getum við lagað það? Já, við getum það. En ef það á að takast verður þingheimur að vera sammála um að þörf sé á úrbótum. Þetta á ekki að snúast um einstaklinga eða flokka og þau rök að þetta hafi alltaf verið svona. Það dugar heldur ekki til. Vinnubrögðin á Alþingi verða að breytast sem og umgjörð þingsins, þ.e. þingsköpin og þær hefðir sem skapast hafa í áranna rás. Hegðun þingmanna verður að batna, hvernig fólk hagar sér hér í þingsal, hvernig það talar um og við hvert annað. Sífelld frammíköll eru til dæmis hlutur sem setja oft blett á störf þingsins. Nefndastörfin eru hjarta þingstarfanna en þau eru almenningi ekki sýnileg. Þar er unnið faglega og markvisst að úrlausn mála.
Herra forseti. Málþóf er atriði sem við verðum með einhverjum hætti að ná tökum á. Það er skilningur fyrir því innan þingsins að slíkt sé í sumum tilfellum nauðsynlegt tæki fyrir stjórnarandstöðu hverju sinni til að skapa sér samningsstöðu. En almenningur hefur ekki skilning á þessu sérstaka tæki þingmanna. Ég hef því með tímanum hallast að þeirri leið að þegar mál stoppa í þinginu verði að vera einhver útgönguleið, eins og t.d. þjóðaratkvæðagreiðsla.
Að síðustu vil ég nefna reglur um líftíma þingmála. Ég tel að þingmál eigi að fá að lifa kjörtímabilið til þess að hægt sé að auka skilvirkni þingsins. Þingmannamál fái til að mynda meira rými, en þar er oft um þverpólitísk þjóðþrifamál að ræða. Þau þurfa umræðu og helst afgreiðslu. Ef við breyttum því gæti verið að almenningur mundi upplifa okkur þingmenn sem afkastameiri og jafnvel traustari starfskrafta.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir – í störfum þingsins 16. febrúar 2016.