Categories
Fréttir

Farið að snúast um allt annað og miklu meira en söluna

Deila grein

17/02/2016

Farið að snúast um allt annað og miklu meira en söluna

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Frá því að sá sem hér stendur talaði fyrstur manna hér 28. nóvember 2014 um sölu á hlut ríkisins í Borgun hefur margt komið í ljós sem styður þau orð sem þá voru töluð.
Í sjálfu sér má segja að þetta mál sé farið að snúast um allt annað og miklu meira en söluna sem slíka sem var nógu slæm, ógagnsæ og í sjálfu sér á móti öllum lögmálum um sölu á ríkiseignum þar sem nú eru aðilar málsins farnir í umkenningaleik og bera brigsl hver á annan og kenna hver öðrum um hvernig komið er.
Það kom fram í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið í síðustu viku að snemma árs 2014, sirka í mars, mátti sjá á erlendum fréttamiðlum að yfirtaka VISA Inc. í Ameríku á VISA Evrópu væri yfirvofandi. Í árshlutauppgjöri VISA Inc. í Ameríku kom einnig fram afkomuviðvörun vegna þessarar yfirtöku þar sem tekið var fram að það mundi kosta eina 13 milljarða bandaríkjadala að yfirtaka VISA Evrópu. Á erlendum fréttamiðlum í október 2014 kom fram um það bil hvaða upphæð kæmi í hlut þeirra sem ættu rétt til hvalreka af þessum ástæðum. Þá mátti mönnum sem fylgst höfðu með vera nákvæmlega ljóst, það mátti reikna út nákvæmlega, hver hluti Borgunar í þessu máli væri.
Nú bera menn af sér og segjast ekki hafa vitað þetta. Eins og ég hef sagt hér áður er fávísi ekki saknæm en hún er rándýr.
Málið er núna hins vegar farið að snúast um allt annað og meira en sölu Landsbankans á Borgun. Hún er farin að snúast um traust og trúverðugleika Landsbankans sjálfs. Það þarf að koma í veg fyrir að Landsbankinn verði fyrir tjóni og að virði hans rýrni út af þessu máli. Það þarf einfaldlega að taka þannig til hendi að Alþingi taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og að yfirstjórn Landsbankans víki.“
Þorsteinn Sæmundsson – í störfum þingsins 16. febrúar 2016.