Categories
Fréttir

Uppstilling í Norðurþingi

Deila grein

04/12/2013

Uppstilling í Norðurþingi

Toggi-formadurÁ félagsfundi hjá Framsóknarfélagi Þingeyinga s.l. laugardag var samþykkt að stilla upp á B-lista Framsóknarflokks í Norðurþingi. Jafnframt var samþykkt tillaga þess efnis að stjórn félagsins skuli skipa uppstillingarnefnd sem síðan leggur tillögu sína fyrir félagsfund.

Þorgrímur Sigmundsson er formaður Framsóknarfélags Þingeyinga. FRÉTTABRÉFI FRAMSÓKNAR lék forvitni á að vita meira um Þorgrím og fengum hann til að segja okkur eitt og annað af sér og flokksstarfinu.

Hvar ertu fæddur og hvenær?  Ég er fæddur á sjúkrahúsinu á Húsavík 18. apríl 1976. Í logni og glampandi sól.

Við hvað starfar þú?  Ég er verktaki hjá Íslandspósti (landpóstur) og þar áður var ég forvarnarfulltrúi og ráðgjafi hjá félagsþjónustu Norðurþings.

Hvers vegna framsóknarmaður?  Félagshyggju og samvinnuhugsjónin hefur fallið vel að þeim gildum sem ég vil standa fyrir. Hún er laus við öfgar hvort heldur sem er til hægri eða vinstri og felur í sér bæði áherslu á frelsi til athafna sem og sameiginlega ábyrgð á því að allir eigi að geta notið grunnréttinda. Sem endurspeglast t.d. í þeim skilningi að ríkisvaldið getur þurft að koma með afgerandi hætti að uppbyggingu atvinnutækifæra án þess þó að hefta einstaklingsframtakið.

Hvernig hefur vetrarstarfið farið í gang hjá félaginu?  Við hittumst alla laugardagsmorgna í Kiwanishúsinu og ræðum það sem ber hæst hverju sinni hvort heldur sem er í bæjarmálunum eða landsmálunum. Þessir fundir eru alla jafna vel sóttir og oft mikið fjör í umræðunni. Einnig höldum við með reglubundnum hætti sérstaka bæjarmálafundi og erum þá örlítið formlegri, kjörnir fulltrúar gera okkur þá betur grein fyrir gangi mála í sveitarstjórnarmálunum en á hefðbundnum laugardagsfundum. Þessir fundir eru mjög mikilvægir fyrir okkur og gegna lykilhlutverki þegar kemur að því sem nú er svo mjög kallað eftir, þ.e. opnari stjórnsýslu.

HPIM0539Framundan hjá okkur núna er hinn geisivinsæli jólagrautur og verður hann laugardaginn 14. desember í Kiwanishúsinu og þangað eru allir velkomnir. Í framhaldi af samþykkt félagsfundar okkar er uppstillingarnefndin nú að hefja vinnu við að setja saman framboðslista og reikna ég með því að fulltrúaráðið verði kallað saman, nefndinni til stuðnings, til að nýta krafta sem flestra, en í því felst mikill styrkur.

Framsóknarflokkurinn í Norðurþingi hefur alloft staðið sig vel í kosningum, fengið nær 40% atkvæða, hvað eruð þið að gera sem skilar svo góðum árangri?  Þar er margt sem spilar saman og ekkert eitt sem hægt er að draga út fyrir sviga. En nefna má í þessu samhengi öflugt grasrótarstarf, laugardagsfundirnir, bæjarmálafundirnir og almennt góða samfellu í flokksstarfinu. Þá hefur málefnastaða flokksins verið traust og við höfum borið gæfu til að stilla upp öflugum frambjóðendum af báðum kynjum á mismunandi aldri og með ólíka reynslu. Allt þetta hefur skapað góðan grunn fyrir hverjar kosningar.

FRÉTTABRÉF FRAMSÓKNAR óskar Framsóknarfélagi Þingeyinga velfarnaðar í starfi.

 

Categories
Fréttir

Tillögur kynntar í ríkisstjórn

Deila grein

29/11/2013

Tillögur kynntar í ríkisstjórn

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSérfræðingahópur um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána skilaði ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna niðurstöðum sínum á fundi klukkan níu í morgun. Að því búnu kynnti forsætisráðherra tillögurnar í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin samþykkti að halda áfram vinnu við undirbúning að framkvæmd tillagnanna, m.a. smíði lagafrumvarpa á grundvelli þeirra.
Útfærsla tillagnanna felur í sér viðamestu efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar til þessa.
Tillögurnar og aðgerðaráætlunin verða kynntar á sérstökum fréttamannafundi á morgun eftir að þær hafa fengið umfjöllun hjá þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Tillögurnar verða síðan kynntar á vef ráðuneytisins í framhaldinu.
Sérfræðingahópurinn var skipaður 16. ágúst sl. undir formennsku Sigurðar Hannessonar. Hópurinn hefur síðan unnið að tillögum um útfærslu og framkvæmd höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána. Hópurinn byggði vinnu sína á þeim forsendum sem fram komu í þingsályktun sem samþykkt var í júní sl., þ.e. að leiðrétta skyldi þann forsendubrest sem heimili urðu fyrir vegna verðbólguskots áranna 2007-2010. Skipaðir voru fjórir undirhópar sérfræðinganefndarinnar sem unnið hafa samhliða henni að útfærslu einstakra þátta. Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar verið fengnir til að vinna afmarkaða hluta t.d. mat á efnahagslegum áhrifum. Samhliða vinnu sérfræðingahópsins hefur verið unnið að gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar sem ríkisstjórnin væntir að geta lagt fram á yfirstandandi þingi.

Categories
Fréttir

Ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundi

Deila grein

28/11/2013

Ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, ávarpaði miðstjórn flokksins á Selfossi. Hlýða má á ræðu hans hér.
Raeda Sigmundar
Miðstjórnarfundurinn var mjög fjölsóttur og mikill hugur í mönnum. Á fundinum var sérstaklega til umræðu félagsstarf flokksins á komandi starfsári. Kosið var í fastanefndir miðstjórnar þ.e. í fræðslu- og kynningarnefnd og í málefnanefnd.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi brást skjótt við

Deila grein

25/11/2013

Sigurður Ingi brást skjótt við

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur heimilað í ljósi þess að síld er gengin inn á Kolgrafafjörð síldveiðar séu frjálsar innan brúar í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi.Vonast er til þess að veiðar þessar geti hvoru tveggja bjargað verðmætum og haft mögulegan fælingarmátt þannig að síldin gangi fyrr út úr firðinum en ella. Þá mun Hafrannsóknarstofnun hefja tilraunir með að fæla síldina burt með sérstökum útbúnaði sem gefur frá sér háhyrningahljóð, sem vitað er að síldin forðast undir venjulegum kringumstæðum.
roskur-radherraÞað er rétt sem segir í leiðara Fréttablaðsins í dag að “á svona dögum er mikilvægt að stjórnvöld séu ekki föst í viðjum þunglamalegs kerfis. Yfirvöld verða að vera í stakk búin til að geta tekið skjótar ákvarðanir. Því miður gerist það of sjaldan að það er eins afdráttarlaust tekið af skarið og á föstudaginn. Lílega verður af nógu að taka í stórum ákvörðunum næstu daga.”
Tengill:
https://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=0a74c363-05ac-41d4-8eac-b197996210e1

Categories
Fréttir

Öll fyrirheit uppfyllt

Deila grein

23/11/2013

Öll fyrirheit uppfyllt

sdg-midstjorn-selfossi“Munum uppfylla öll þau fyrirheit sem við höfum gefið. Við ætlum að leiðrétta fyrir sérstökum verðbólguáhrifum sem bankarnir bjuggu til. Við blöndum leiðum í samræmi við stjórnarsáttmálann og þingsályktunartillögu og úr því kemur besta niðurstaðan. Það verður ekki vandamál fyrir okkur vegna þess að við lögðum sjálf til að skattaleiðin yrði farin. Hún hefur ýmsa kosti og spilar vel saman við hitt”, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar á Selfossi.
“Athuganir sérfræðinganna hafa staðfest hversu öfugir hvatar hafa verið á síðasta kjörtímabili. Ótal raunveruleg dæmi sýna hvernig þeir sem ákváðu að borga ekki af lánum sínum fengu mun meiri leiðréttingu en þeir sem höfðu verið í sömu stöðu en stóðu í skilum. Höfum ótal dæmi sem sýna að það munar milljónum á því hvort fólk stóð í skilum eða ekki. Auk þess er þekkt að minnst hefur verið komið til móts við þá sem fóru varlega fyrir efnahagshrunið. Við munum ekki leysa skuldavanda allra. Þetta er réttlætisaðgerð; þetta er jafnræðisaðgerð; þetta er er efnahagsleg aðgerð. Þetta er aðgerð sem mun marka efnahagslegan og samfélagslegan viðsnúning”, sagði Sigmundur Davíð jafnframt.
sdg-midstjorn-selfossi-03Sigmundur Davíð fagnaði því mjög hve þingflokkur Framsóknarmanna hafi staðið sig vel, það væri ekki sjálfgefið þegar svo stór hluti þingflokks væri nýtt fólk og allir reyndari þingmenn störfum hlaðnir sem formenn nefnda og ráðherrar.
Unnið er skipulega að framgangi allra mála sem fjallað er um í stjórnarsáttmála. Staðan var erfið er ríkisstjórnin tók við, enda einkenndu frestunaraðgerðir allt síðasta kjörtímabil. Nú er komið að viðsnúningi og skapa raunverulegan vöxt en ekki lántöku.

Categories
Fréttir

Reykjavík fyrir alla – efstu sjö sætin ákveðin

Deila grein

20/11/2013

Reykjavík fyrir alla – efstu sjö sætin ákveðin

Kjördæmaþing framsóknarfélaganna í Reykjavík hefur samþykkt tillögu kjörstjórnar um skipan í efstu sjö sæti framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík gengur til kosninga undir kjörorðunum Reykjavík fyrir alla.
FRAMSOKN-Reykjavik-efstu-4-saetin
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Efstu sjö sætin skipa:

  1. Óskar Bergsson, rekstrarfræðingur og húsasmíðameistari
  2. Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sjúkraliði og verkfræðingur
  3. Valgerður Sveinsdóttir, lyfjafræðingur
  4. Guðlaugur Gylfi Sverrisson, vélfræðingur
  5. Hafsteinn Ágústsson, kerfisstjóri
  6. Hallveig Björk Höskuldsdóttir, öryggisstjóri
  7. Trausti Harðarson, viðskiptafræðingur

Fjölmörg mál bíða úrlausnar í Reykjavík sem munu gera borgina að betri stað til að búa á.  Það er ekki nóg að hlusta á borgarbúa, en heyra  ekki hvað þeir segja. Ekki síst á það við skipulagsmál, en stórar ákvarðanir þarf að taka á næstunni svo þróun borgarinnar verði til hagsbóta fyrir alla Reykvíkinga, ekki bara suma. Liður í því er staðsetning flugvallarins í Reykjavík, en að mati Framsóknarflokksins  verður að tryggja núverandi staðsetningu hans, ekki síst ef borgin á að þjóna hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.
Skipulagsmál eru umhverfismál og þau verður að nálgast með umræðu við þá sem í borginni búa. Skipuleggja þarf borgina þannig að búseta nærri vinnustað sé raunhæfur möguleiki. Sem dæmi má nefna að tæp 80% af öllum störfum í Reykjavík eru í vestur hluta hennar, þessu þarf að breyta.

Categories
Fréttir

Nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju með sanngirni og heildarsýn að leiðarljósi

Deila grein

15/11/2013

Nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju með sanngirni og heildarsýn að leiðarljósi

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir frumvarpi á Alþingi í vikunni um að settar verði nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju. Er það gert vegna þeirrar ákvörðunar þáverandi ráðherra sjávarútvegsmála, Jóns Bjarnasonar, að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar frá og með fiskveiðiárinu 2010–2011. Sigurður Ingi fór yfir að það sé engin launung að styr stóð um þá ákvörðun á sínum tíma að gefa veiðarnar frjálsar. Því var haldið fram að aðrir kostir hefðu verið nærtækari til að bregðast við þeim aðstæðum eða þeirri gagnrýni sem á þeim tíma lá fyrir um veiðarnar. Sagði hann jafnframt að því hafi einnig verið haldið fram að ákvörðunin hafi verið á gráu svæði lagalega.
Sigurður Ingi sagði Alþingi verði að líta með sanngirni og af heildarsýn á þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi við veiðarnar og leysa úr þeim veruleika sem þarna skapaðist. Hér er um algjörlega einstaka stöðu að ræða innan fiskveiðistjórnarkerfisins og einangrað úrlausnarefni.
Endurtökum ekki fyrri mistök
„Frjálsar veiðar hafa leitt til of mikils sóknarþunga, offjárfestinga nýrra aðila í ótryggu umhverfi og er þá ekki tekið tillit til þeirra fjárfestinga sem um leið standa vannýttar hjá þeim útgerðum sem fyrr höfðu lagt í þær fjármuni. … Þeirri staðreynd verður þó ekki breytt að eins og staðan er núna mun rækjustofninn, sem því miður er í lægð, ekki standa undir fjölbreyttri atvinnu víðs vegar um landið, sama hvaða leið væri farin. Við þurfum að leita annarra leiða í þeim efnum og er það verðugt og mikilvægt verkefni.“
Með frumvarpinu er lagt til að „með hliðsjón af markmiðum laga um stjórn fiskveiða þykir eðlilegt að taka annars vegar ríkt tillit til þeirra sem ráða yfir fyrri hlutdeildum í úthafsrækju, ekki síst í því ljósi að ella væri grafið mjög undan þeirra langtímahugsun sem er aðalsmerki hlutdeildarkerfisins. Hins vegar þykir rétt að horfa til þess að það umhverfi sem varð til með frjálsum veiðum á úthafsrækju hefur laðað nýja aðila til veiðanna sem gefið hafa kröftum sínum viðnám við að byggja upp framleiðslutæki og aðstöðu,“ sagði Sigurður Ingi ennfremur.
Laugarvatnsyfirlýsingin kveður á um að grundvöllur fiskveiðistjórnar verði aflamarkskerfið
Í frumvarpinu er málamiðlun um hvernig verði náð því marki að tryggja að veiðarnar komi aftur undir aflamarksstýringu samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Það er í samræmi við Laugarvatnsyfirlýsinguna, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að grundvöllur fiskveiðistjórnar verði aflamarkskerfið. Það horfir til farsældar að þetta frumvarp verði afgreitt af Alþingi áður en við tökumst á við næsta skref í þeirri vinnu að efla sátt um framtíðarskipulag greinarinnar með boðuðu frumvarpi um innleiðingu svonefndrar samningaleiðar í sjávarútvegi sem nú er unnið að í ráðuneyti sjávarútvegsmála.
Rækjustofninn við Snæfellsnes verði sjálfstæður veiðistofn
Mikilvægt er að horfa til þess að með frumvarpinu er lagt til að rækjustofninn við Snæfellsnes, þ.e. í Kolluál, Jökuldjúpi og sunnanverðum Breiðafirði, verði hlutdeildarsettur sérstaklega og þannig meðhöndlaður sem sjálfstæður veiðistofn samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Er það að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem um árabil hefur veitt sérstaka ráðgjöf um þennan stofn sem þó hefur verið veiddur undir aflamarki úthafsrækju. Það er mikilvægt vegna þess að þótt Kolluáll og Jökuldjúp heyri til úthafsrækjuveiðisvæða telst rækjan þar ekki líffræðilega til úthafsrækju heldur er hún af sama stofni og rækjan í sunnanverðum Breiðafirði. Af þeim ástæðum er eðlilegt að hún verði meðhöndluð sem sjálfstæður veiðistofn samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi

Deila grein

11/11/2013

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi

framsóknKjördæmisþing framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, haldið í Hafnarfirði 9. nóvember 2013, fagnar þeim góða árangri sem náðist í síðustu alþingiskosningum um allt land. Í fjölmennasta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi, nær tvöfaldaði Framsóknarflokkurinn fylgi sitt og náði inn þremur öflugum þingmönnum; hefur Framsóknarflokkurinn aldrei fengið fleiri greidd atkvæði í neinum kosningum en í Suðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum. Árangur náðist vegna sterkra frambjóðenda, einbeitts málflutnings þeirra og mikils sjálfboðaliðastarfs fjölmargra í baklandinu. Fyrir það ber að þakka. Mikilvægt er að hefja sem fyrst undirbúning fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og byggja á þeim góða árangri sem náðist í síðustu alþingiskosningum. Þingið hvetur því almenna flokksmenn til að huga í tíma að kosningum á vori komanda.

Þingið bindur miklar vonir við nýja ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Afar mikilvæg hagsmunamál s. s. skuldamál heimilanna, efling atvinnulífs og að standa vörð um velferðarkerfið eru stærstu verkefnin framundan. Eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. maí í vor eru heimilin undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins. Þingið fagnar því  áherslu stefnuyfirlýsingarinnar um að farið verði í markvissar aðgerðir til að taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Þar er tiltekið að um verði að ræða almennar aðgerðir með áherslu á jafnræði og skilvirkni. Ljóst er að forsendubrestur er verulegur og nauðsynlegt að leiðrétta hann til að koma íslenskum heimilum til hjálpar. Heimilin eru undirstaða samfélagsins og er bætt staða heimilana forsenda þess að hagvöxtur aukist og hjól atvinnulífsins fari að snúast. Þingið telur eðlilegt að þeir sem bjuggu til forsendubrestinn greiði fyrir leiðréttingu á lánum heimilanna.
Þingið fagnar þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í sumar um framtíðarskipan húsnæðismála. Þar er félags- og húsnæðismálaráðherra falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, meðal annars með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda.
Oft var þörf en nú er brýn nauðsyn á aðgerðum til að bæta aðstæður á húsnæðismarkaði þannig að öllum verði gert kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið og skapa sér og sínum öruggt heimili. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi núna, sérstaklega þarf að huga að eflingu leigumarkaðarins. Mikilvægt er að tryggja ólík búsetuform þar sem öryggi er lykilatriði.
Aðkoma hagsmunaaðila s.s. sveitarfélaganna skiptir einnig miklu máli. Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélagana og þar með ráða þau áherslum við uppbyggingu húsnæðis, hvar skuli byggt og hvernig, samsetningu og fjölbreytni íbúðarhúsnæðis.

Þingið telur mikilvægt að standa vörð um velferðar og heilbrigðiskerfið. Áfram skal stefnt að því að árangur íslenska heilbrigðiskerfisins verði í fremstu röð. Áfram verði lögð áhersla á að bjóða þá bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.

Breytingar og niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni á síðustu árum hafa sett allt heilbrigðiskerfið í uppnám.  Því er nauðsynlegt að snúið verði af þeirri braut og leitað allra leiða til að hlúa að og efla heilbrigðisþjónustuna og forvarnir almennt.

Þingið hvetur forsætisráðherra, ráðherra flokksins og þinglið til að hafa forystu um mótun heildarstefnu um bætta lýðheilsu íslensku þjóðarinnar, sbr. stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Þingið fagnar að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja sem tók gildi 1. júlí 2009 sé afturkölluð. Einnig telur þingið mikilvægt að almannatryggingarkerfið verði endurskoðað þar sem sérstök áhersla verði lögð á sveigjanleg starfslok og starfsgetumat.
Fjölskyldan í fjölbreyttri mynd er meginstoð og hornsteinn íslensks samfélags.  Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að styðja við heimili landsins í þeim erfiðleikum sem á hafa dunið. Gott samspil fjölskyldu og samfélags er forsenda heilbrigðrar samfélagsþróunar.
Þingið áréttar einnig mikilvægi þess að virkja þann kraft sem býr í mannauði Íslendinga. Gamalkunna stef okkar framsóknarmanna vinna-vöxtur-velferð, lýsir í hnotskurn samhengi hlutanna. Án vinnu verður vöxtur takmarkaður og erfitt að standa undir velferð. Þingið hvetur því nýja ríkisstjórn til að leggja allt kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Þingið fagnar því að sú pólitíska óvissa sem einkenndi síðasta kjörtímabil, sérlega undir lokin, er á undanhaldi. Mikilvægt er að skapa ró um þau verkefni sem leysa þarf á næstu misserum og ná sem mestri samvinnu og sátt um þau úrræði sem gripið verður til. Þingið treystir nýrri ríkisstjórn og nýju Alþingi til að vinna í þeim anda.

Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi leggja áherslu á mikilvægi umhverfismála. Ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála þarf að efla og skilgreina þarf betur verkefni þess. Mikilvægt er að ekki sé gengið á hina einstöku náttúru Íslands og að náttúruvernd og náttúrunýting fari vel saman. Um þetta er nauðsynlegt að sátt ríki í þjóðfélaginu og því styðja framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi heils hugar þá vinnu sem er að fara í gang við endurskoðun náttúruverndarlaga. Nauðsynlegt er að atvinnuuppbygging, þar á meðal í ferðaþjónustu, taki mið af jafnvægi náttúruverndar og náttúrunýtingar.

Íslendingar eru leiðandi í heiminum í nýtingu endurnýjanlegrar orku og til þess að svo verði áfram er mikilvægt að styðja við innlenda tækniþróun og nýsköpun tengdri nýtingu á grænni orku. Íslenskir vísindamenn og fyrirtæki eru í fremstu röð á sviði endurnýjanlegrar orku og vilja framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi kappkosta við að svo verði áfram.

Það var mikil afturför í umhverfismálum þegar rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða var dregin í pólitískar deilur af síðustu ríkisstjórn. Þess vegna er mikilvægt að rammaáætlun verði endurskoðuð á grundvelli niðurstaðna faghópa sérfræðinga, út frá því sjónarmiði að náttúruvernd og náttúrunýting fari vel saman.

Framsóknarmenn í suðvesturkjördæmi telja það brýnt að draga úr losun allra mengandi efna, þar með talið gróðurhúsalofttegunda.  Með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka notkun innlendra og vistvænna orkugjafa, eins og t.d metans, raforku eða metanóls, getum við Íslendingar verið fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir í þessari vegferð. Í þeim tilgangi er mikilvægt að smám saman auka kröfur til innihalds vistvænna orkugjafa í eldsneyti og styðja við innlenda framleiðslu á vistvænum orkugjöfum. Íslendingar eru háðir því að lífríki hafsins sé heilbrigt, og því er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að það hljóti skaða af vegna mengandi efna. Einnig er mikilvægt að efla landgræðslu og skógrækt hér á landi.

Þingið telur að hefja beri endurskoðun á lífeyriskerfi landsmanna með það í huga að einfalda það til muna og jafna kjör. Skoða þarf kosti og galla þess að einn sjóður haldi utan um grunnlífeyrisréttindi allra landsmanna. Áfram verði tryggð réttindi til söfnunar séreignarlífeyris.
Lögð verði meiri áhersla á tækni-, iðn- og verkmenntun til að tryggja öflugt atvinnulíf í landinu. Gera verður slíkt nám eftirsóknarverðara en verið hefur með kynningarstarfi í grunnskólum. Fyrirtækjum verði auðveldað að taka nemendur á samning í slíkum greinum.

Þingið telur að endurskoðað verði nám á öllum skólastigum þannig að nemendur komist fyrr í sérnám og út á vinnumarkað.

Categories
Fréttir

Mikilvægt að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið

Deila grein

08/11/2013

Mikilvægt að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið

Sigurður Ingi JóhannssonMeginumræðuefni VIII. Umhverfisþings var skipulag lands og hafs, sjálfbær þróun og samþætting verndar og nýtingar.
Þingið hófst með ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem fjallaði m.a. um skipulag sem mikilvægt stjórntæki til að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið, meðal annars um auðlindanýtingu, atvinnuþróun og umhverfisvernd. Ríkulegar auðlindir landsins þurfi að nýta af skynsemi ef takast eigi að tryggja velferð og hagsæld í landinu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Benti ráðherra á að brýnt sé orðið að hefjast handa við að ná á heildstæðan hátt yfir einstaka þætti landnotkunar, s.s. landgræðslu, ferðaþjónustu og afþreyingu, friðlýst svæði og náttúruvernd, orlofshúsabyggð, sauðfjár- og hrossabeit, túnrækt, kornrækt, repjurækt, skógrækt og endurheimt votlendis. Því sé stefnt að því að gerði verði landnýtingaráætlun sem verði hluti Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Ráðherra kom einnig inn á skipulagsmál hafsins, vernd og nýtingu sem einnig eru til umfjöllunar á þinginu.
Aðalræðumaður Umhverfisþings var Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sem fjallaði um skipulag í víðu samhengi og sjálfbærar lausnir í því sambandi. Unnið var í tveimur málstofum, þar sem annars vegar verður rætt um sjálfbæra landnýtingu og hins vegar skipulag haf- og strandsvæða.
OSystkynin Birta María og Ágúst Jónsbörn úr Grenivíkurskóla kynntu starf barnanna í Grænfánaverkefninu en Grenivíkurskóli hefur nú hlotið Grænfánann fjórum sinnum. Umhverfissáttmálinn sem börnin í Grenivíkurskóla sömdu fólu í sér samtal við sveitarfélagið og íbúa þess sem skilað hefur miklum árangri.
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands flutti framsögu um framtíðarsýn og skipulag varðandi vernd og nýtingu lands og Hafdís Hafliðadóttir, sviðsstjóri á Skipulagsstofnun, fór með framsögu um ný tækifæri í skipulagi hafs og stranda. Þessi tvö málefni voru svo meginþemu málstofa eftir hádegi þar sem fjölmörg sjónarmið komu fram í stuttum erindum og umræðum þinggesta.
Erindi og innlegg þinggesta verður mikilvægt veganesti fyrir áframhaldandi vinnu og stefnumótun í þessum málaflokkum.
Vel á fjórða hundrað manns sátu þingið.
Tenglar:
https://www.umhverfisraduneyti.is/umhverfisthing-2013/

Categories
Fréttir

Skuldavandi íslenskra heimila – skýrsla

Deila grein

07/11/2013

Skuldavandi íslenskra heimila – skýrsla

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti í dag á Alþingi skýrslu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. Fram kom að þegar væri hafin vinna í forsætisráðuneytinu við nýtt frumvarp um höfuðstólslækkun. Jafnfram kom fram að viðskiptabankarnir þrír myndu ljúka endurútreikningi sínum á gengistryggðum lánum um áramót. Meiri óvissa væri um áætlanir Dróma og Lýsingar. Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar myndi skila af sér tillögum í desember. Sigmundur Davíð sagði þingsályktun er var samþykkt á sumarþingi Alþingis ganga samkvæmt áætlun.
Hér að neðan má lesa skýrsluna.
***
Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
Virðulegur forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það í sal Alþingis hvaða áhrif hin ófyrirsjáanlega höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána hafði á heimilin í landinu. Alþingi bar gæfu til þess í júní síðastliðnum að samþykkja aðgerðir vegna þessa skuldavanda íslenskra heimila, vanda sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Í þingsályktuninni kemur fram að forsætisráðherra muni flytja Alþingi skýrslu um stöðu mála á haustþingi 2013 og á vorþingi 2014.
Það er gleðilegt að geta sagt Alþingi frá því nú að framgangur þingsályktunarinnar er með ágætum og samkvæmt áætlun. Sumum liðum þingsályktunarinnar er lokið og vinna við aðra liði í fullum gangi í mörgum ráðuneytum í samræmi við ákvæði ályktunarinnar. Þingsályktunin er í tíu liðum. Ég mun hér á eftir fara í gegnum stöðu mála við einstaka liði ályktunarinnar.

1. liður er að settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi.

Sérfræðingahópur var skipaður í sumar undir formennsku Sigurðar Hannessonar og hefur hópurinn unnið að tillögum að útfærslu á höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Hópurinn byggir vinnu sína á þeim forsendum sem fram komu í þingsályktuninni, þ.e. að leiðrétta eigi þann forsendubrest sem heimili urðu fyrir vegna verðbólguskots áranna 2007–2010. Leiðréttingin skal vera almenn en meta á hvort setja skuli þak á þá fjárhæð sem hvert heimili getur fengið. Einnig verður metinn fýsileiki þess að ná fram lækkun höfuðstóls með skattafslætti. Hópurinn hefur fengið til sín gesti úr ýmsum áttum, m.a. frá lánveitendum, Seðlabanka, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna og umboðsmanni skuldara. Skipaðir hafa verið fjórir undirhópar sérfræðingahópsins. Einn hópurinn undirbýr tillögur um framkvæmd leiðréttingarinnar, annar um stofnun leiðréttingarsjóðs, þriðji um notkun skattkerfisins til að ná fram skuldalækkun og sá fjórði um hvata til að skuldbreyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð.
Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar verið fengnir til að vinna afmarkaða hluta, t.d. mat á efnahagslegum áhrifum. Gerður var samningur við Analyticu ehf. um greiningu á áhrifum leiðréttingarinnar og fleiri þáttum er snerta hagræna þætti verkefnisins. Þá er rétt að upplýsa Alþingi um að í forsætisráðuneytinu er að hefjast vinna við gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar. Eins og kunnugt er mun hópurinn skila tillögum sínum fyrir lok þessa mánaðar.

2. liður er að gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána.

Undirhópur sérfræðingahópsins um höfuðstólslækkun vinnur að því að meta kosti og galla þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð í tengslum við þetta verkefni. Markmið slíks sjóðs er að flýta fyrir framkvæmd leiðréttingar en sem kunnugt er stendur til að nýta í leiðréttinguna hluta þess svigrúms sem myndast við skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja.

3. liður er að kannað verði hvernig gera megi yfirskuldsettum íbúðareigendum kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir.

Um er að ræða tímabundna aðgerð sem miðar að því að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Vinnuhópur skipaður sérfræðingum innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis hefur farið yfir verkefnið og tekið til skoðunar þau úrræði sem nú eru til staðar til lausnar á vanda skuldsettra heimila og jafnframt til hvaða viðbótarúrræða væri unnt að grípa til að takast á við vandamálið. Hópurinn hefur sett fram tillögur að úrræðum sem eru til nánari skoðunar. Meðal þeirra aðgerða sem hafa verið teknar til nánari skoðunar eru breytingar á lögum um samningsveð, stofnun félags sem leysir til sín yfirveðsettar eignir, samningar við kröfuhafa um niðurfellingu skulda og sérstakan fyrningartíma á kröfum sem eftir standa við nauðungarsölu.

4. liður er að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála.

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skipað sjö manna verkefnisstjórn sem hefur það hlutverk að leggja fram tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum en Samband íslenskra sveitarfélaga á áheyrnarfulltrúa sem situr fundi verkefnisstjórnarinnar. Verkefnisstjórnin mun hafa forustu í verkefninu, safna gögnum og greina þau í samvinnu við óháða sérfræðinga, framkvæma stöðumat og móta stefnu um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórnin hélt fyrsta fund sinn í september 2013 og hefur fundað reglulega síðan.
Jafnframt hefur ráðherra skipað 32 manna samvinnuhóp um framtíðarskipan húsnæðismála sem hefur það hlutverk að starfa náið með verkefnisstjórninni að mótun framtíðarskipulags húsnæðismála á Íslandi.
Í þessu viðamikla verkefni verður kannað hvaða fyrirkomulag og fjármögnun almennra húsnæðislána sé hagkvæmast hér á landi og hvernig slíku fyrirkomulagi verði komið á. Jafnframt verður skoðað hvernig unnt sé að tryggja virkan leigumarkað sem og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á slíku þurfa að halda. Í því sambandi verður kannað með hvaða hætti stjórnvöld geti sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðismarkaði. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að sem breiðust sátt og samstaða náist um framtíðarskipan húsnæðismála hér á landi og því mikilvægt að sem flestir sem láta sig málið varða fái tækifæri til að hafa áhrif á vinnuna.
Á vefsíðu verkefnisins gefst almenningi því kostur á að fylgjast með þróun og mótun tillagna hvers teymis og koma á framfæri frekari hugmyndum og athugasemdum um framtíðarskipan húsnæðismála.
Verkefnisstjórnin mun taka tillögurnar til frekari úrvinnslu í nánu samstarfi við Íbúðalánasjóð, Samtök fjármálafyrirtækja og Samband íslenskra sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili að verkefninu loknu skýrslu með ítarlega útfærðum tillögum að framtíðarstefnu í húsnæðismálum til félags- og húsnæðismálaráðherra.

5. liður er að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu.

Um þennan lið er það að segja að frumvarp hefur þegar verið lagt fram á Alþingi og samþykkt.

6. liður er að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum.

Í samræmi við þennan lið var skipaður sérfræðingahópur í ágúst undir formennsku Ingibjargar Ingvadóttur. Hópurinn hefur kynnt sér helstu gögn og fundað með hagsmunaaðilum og sérfræðingum, svo sem Seðlabanka Íslands, umboðsmanni skuldara, Fjármálaeftirlitinu, Íbúðalánasjóði, Hagsmunasamtökum heimilanna, Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssamtökum lífeyrissjóða, Félagi fasteignasala, bönkum og ýmsum hagfræðingum.
Efnisyfirlit, verkáætlun og verkaskipting liggur fyrir. Skoðuð verða áhrif afnáms verðtryggingar á neytendur, lánveitendur, fasteignamarkað og efnahagslíf og lagðar fram tillögur að útfærslu og tímasettri áætlun ásamt mótvægisaðgerðum. Áætluð skil eru upp úr miðjum desember.

Í 7. lið segir að kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu.

Unnið er að frumvarpi til laga um veitingu fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar á kostnaði vegna gjaldþrotaskipta til þeirra sem eiga engan kost annan en að fara fram á gjaldþrotaskipti á eignum sínum. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í lok nóvember 2013.

8. liður fjallar um að sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána.

Þessari gjaldtöku er ætlað að styrkja stöðu skuldara gagnvart fjármálafyrirtækjum sem sjá um endurútreikning lána þeirra.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið greinargerð um málið og hefur hún fengið umfjöllun í starfshópi sem falið hefur verið það verkefni að endurskoða bann við gengistryggingu fjárskuldbindinga í lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Ályktanir starfshópsins koma fram í niðurlagi greinargerðarinnar, en þar er meðal annars vísað til afstöðu réttarfarsnefndar sem telur umrædda gjaldtöku ekki framkvæmanlega að teknu tilliti til ákvæða stjórnarskrár vegna vandkvæða við að afmarka skilyrði gjaldtökunnar nægilega skýrt.
Fjármálaeftirlitið sem er sjálfstætt stjórnvald getur í skjóli valdheimilda sinna aflað upplýsinga um eðli vandans og umfang. Í ályktun starfshópsins kemur fram að til greina komi að beita viðurlaga- og úrbótaheimildum stofnunarinnar ef tafir á endurútreikningi eru að hennar mati umtalsverðar og óréttlætanlegar. Svör viðskiptabankanna þriggja benda til þess að endurútreikningi gengistryggðra lána eigi að verða lokið fyrir næstu áramót en áætlanir Dróma og Lýsingar virðast vera meiri óvissu háðar.
Það er einnig mat starfshópsins að úrlausn ágreinings um gengistryggð lán gefi ásamt öðru tilefni til að endurskoða starfshætti úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki í því skyni að tryggja betri eftirfylgni með úrskurðum hennar. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hafið vinnu við endurskoðun á samþykktum nefndarinnar.

9. liður fjallar um að stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota.

Um þennan lið er það að segja að frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um afnám stimpilgjalda af lánsskjölum í samræmi við þingsályktunina. Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald af lánsskjölum verði afnumið en stimpilgjald vegna eignayfirfærslna fasteigna hækkað um 0,4% í tilviki einstaklinga. Einnig er með frumvarpinu lögð til mikil einföldun á framkvæmd og innheimtu gjaldsins. Með afnámi stimpilgjalda af lánsskjölum dregur úr kostnaði við lántöku og einnig mun sú aðgerð auka hreyfanleika viðskiptavina milli banka og stuðla þannig að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.

Í 10. lið segir að Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Frumvarp um þetta efni var samþykkt á Alþingi í september. Undirbúningur Hagstofunnar eftir samþykkt laga nr. 104/2013 hefur falist í tvenns konar aðgerðum. Í fyrsta lagi er tæknilegur undirbúningur, einkum um þætti sem varða gagnasendingar og gagnaöryggi. Má þar nefna tæknilega útfærslu á afnámi persónuauðkenna í gagnasendingum og aðferðum við að skipta út kennitölum í þeim gögnum sem unnið verður með. Samið hefur verið við utanaðkomandi sérfræðing um yfirferð öryggismála og gerð tillagna um aðgerðir vegna öryggisvottunar hjá Hagstofunni. Í öðru lagi er undirbúningur að afhendingu gagna. Hefur verið rætt við Íbúðalánasjóð vegna málsins og á næstu dögum verða fundir haldnir með stærstu fjármálafyrirtækjunum.
Herra forseti. Eins og sést á þessari upptalningu gengur framkvæmd þingsályktunarinnar samkvæmt áætlun. Það er mjög gleðilegt enda hafa skuldsett heimili marga fjöruna sopið á undanförnum árum. Það er von mín að góð samstaða myndist á Alþingi um þau mál sem enn eiga eftir að koma til kasta þingsins vegna þessarar þingsályktunar. Íslensk heimili eiga það skilið.
Tenglarhttps://www.althingi.is/altext/143/11/l07111222.sgml