Categories
Fréttir

10 staðreyndir um leiðréttinguna

Deila grein

16/10/2014

10 staðreyndir um leiðréttinguna

leidrettingin-sigmundurHér eru 10 staðreyndir um leiðréttinguna:

  1. Leiðréttingin snýst um sanngirni og réttlæti, að lántakendur sem urðu fyrir forsendubresti í kjölfar hrunsins fái stökkbreytt lán sín leiðrétt.
  2. Leiðréttingin mun bæta hag heimilanna, minnka greiðslubyrði og auka ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar.
  3. Heildarumfang leiðréttingarinnar og séreignarsparnaðarleiðarinnar eru um 150 milljarðar fyrir heimilin í landinu.
  4. Yfir 90% heimila með verðtryggð húsnæðislán sóttu um leiðréttingu. Þessi mikla þátttaka staðfestir að landsmenn voru sammála því að leiðrétta þyrfti verðtryggð húsnæðislán í kjölfar þess fjármálaáfalls sem dundi yfir.
  5. Framkvæmd leiðréttingarinnar er á áætlun og landsmenn munu sjá endurútreikning sinna lána á haustmánuðum.
  6. Tæplega helmingur fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 6 milljónir á ári. Það er t.d. heimili þar sem tveir aðilar eru hvor um sig með undir 250 þúsund krónur í mánaðarlaun.
  7. Um 60% fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 8 milljónir á ári. Það er t.d. heimili þar sem tveir aðilar eru hvor um sig með undir 335 þúsund í mánaðarlaun.
  8. Bankaskatturinn, sem nemur upphæð leiðréttingarinnar, var margfaldaður og undanþága þrotabúa var afnumin. Þar með er í fyrsta skipti lagður skattur á þrotabú föllnu bankanna. Vissulega fer skatturinn inní ríkissjóð og leiðréttingin útúr ríkissjóð á móti, það er eðlilegt ferli.
  9. Leiðréttingin er almenn aðgerð og dreifist jafnar á tekjuhópa en fyrri úrræði gerðu.
  10. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tilkynnt að fylgst verði með framkvæmd leiðréttingarinnar og hvort í henni felist ríkisaðstoð til banka. Það er af og frá að svo sé. Miðað er að því að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðilum vegna greiðslu leiðréttingarhluta láns.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda“

Deila grein

09/10/2014

„Brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda“

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna (LFK) telur afar mikilvægt að lýðheilsusjónarmið séu umfram allt höfð að leiðarljósi við afgreiðslu frumvarps sem lagt hefur verið fram um breytingar á lögum um verslun með áfengi. Frumvarpið brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda frá því í janúar sl. í áfengis og vímuvörnum þar sem markmiðin eru, m.a:

  • Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.
  • Að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.
  • Að draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum.

Framkvæmdastjórn LFK bendir á, í þessu sambandi, að alþjóðlegum rannsóknum ber saman um að afnám einkasölu á áfengi leiði til aukinnar neyslu þess og að samhliða aukinni áfengisneyslu mun samfélagslegur kostnaður aukast vegna neyslutengdra vandamála þeirra sem neyta áfengis.
Framkvæmdastjórn LFK skorar því á alþingismenn, alla sem einn, að huga að fyrrnefndum atriðum við afgreiðslu frumvarpsins.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum

Deila grein

08/10/2014

Gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum, því hann bætti við sig embættum forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. En Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra voru erlendis á ráðstefnum. Og þá var Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, einnig staddur erlendis og var því Sigurður Ingi staðgengill forsætisráðherra einnig einn af þremur handhöfum forsetavalds um stundarsakir.
Sigurður Ingi hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga og eru hér að neðan slóðir á ýmis viðtöl við hann sem gott er að deila áfram á flokksmenn og aðra stuðningsmenn flokksins.
eyjan.is – Sigurður Ingi hjólar í Kastljós: „Talið við kartöflubændur, talið um hver hefur ráðið markaðnum þar“
Í bítið – “Kerfið er í endurskoðun”, landbúnaðarráðherra ræddi MS málið
Kastljós – Vissi ekki um tengsl Ólafs
Fréttir RÚV – Flutningi Fiskistofu ekki breytt
Sprengisandur – Fór með rangt mál
Sprengisandur – Ver ekki samkeppnisbrot
 
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Ályktun frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna

Deila grein

07/10/2014

Ályktun frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna

logo-suf-forsidaStjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir yfir fullum stuðningi við ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og gerir alvarlegar athugasemdir við rangfærslur Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Athugasemdir við stjórnarsamstarfið byggja á rangfærslum
Athugasemdir SUS við stjórnarsamstarfið virðast ýmist byggðar á rangfærslum eða pólitískum öfgum. Svo dæmi sé tekið hafa Framsóknarmenn ekki lagst gegn komu verslunarkeðjunnar Costco, til landsins, þeir hafa þvert á móti fagnað möguleikanum á aukinni samkeppni í matvöruverslun. Framsóknarmenn hafa hins vegar hafnað því að landslögum sé breytt að kröfu eins fyrirtækis án frekari skoðunar. Ungir sjálfstæðismenn virðast hins vegar tilbúnir til að láta kröfur stórfyrirtækja ráða því hvernig lög landsins líta út.
Framsóknarmenn hafa heldur ekki lagst gegn skattalækkunum. Þvert á móti hafa þeir lýst efasemdum um hækkun neðra þreps virðisaukaskatts og viljað fá staðfestingu á því að heildarálögur á almenning, sérstaklega þá tekjulægri, komi til með að lækka með breytingum á skattkerfinu eins og forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lagt áherslu á.
Þá lýsir Samband ungra framsóknarmanna yfir mikilli ánægju með skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar sem er til þess fallin að létta byrðar þeirra sem urðu fyrir forsendubresti með verðtryggð húsnæðislán sín eftir hrunið 2008 og þannig koma til móts við þann hóp sem setið hefur eftir.
Það er dapurlegt að sjá andstöðu ungra sjálfstæðismanna við að heimili landsins fái í einhverjum mæli að njóta þeirra afskrifta sem þegar hafa farið fram á lánum til heimilanna þegar þau voru færð milli fjármálastofnanna m.a. undir handleiðslu ríkisins. Samband ungra framsóknarmanna sér ástæðu til að benda á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins var ósammála SUS um þetta eins og margt annað, enda er það undarlegt viðhorf að fjármálakerfið eigi að hafa heimili landsins að féþúfu og innheimta að fullu lán sem þegar hafa verið færð niður.
Ungir sjálfstæðismenn hverfi frá öfgafullri hugmyndafræði
Samband ungra framsóknarmanna lýsir áhyggjum af þeirri öfgakenndu hugmyndafræði sem fram kemur í nýsamþykktri stefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna sem virðist gegnsýrð af óheftri nýfrjálshyggju.
SUF fordæmir þær hugmyndir sem þar koma fram um einkavæðingu mennta- og heilbrigðiskerfisins og bendir á að sagan hefur fyrir löngu afsannað þá bábilju að frjálshyggjan sé besta jafnréttisstefnan. Óheft nýfrjálshyggja og einkavæðingarstefna í þeim anda sem fram kemur í stefnu SUS hefur aldrei leitt til samfélagslegra framfara eða bættra kjara fyrir almenning.
Skammt er að minnast þess að SUS lagði fram fjárlagatillögur byggðar á svipuðum grundvelli undir yfirskriftinni „Sýnum ráðdeild“.
Í tillögunum lýsa ungir sjálfstæðismenn vilja sínum til að leggja niður jafnréttissjóð, Jafnréttisstofu, Raunvísindastofnun Háskólans,Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Launasjóð listamanna, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Rannsóknarsjóð, Rannsóknarmiðstöð Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Fornleifavernd ríkisins, Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnun, Verkefnasjóð sjávarútvegsins, Siglingastofnun og Flugmálastjórn, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga svo dæmi séu tekin.
Þá leggur SUS til að greiðslum til sérframlaga í fæðingarorlofssjóð, mæðra- og feðralauna, mannréttindamála, skógræktar, landgræðslu og þjóðgarðsins á Þingvöllum verði hætt og að Ísland leggi niður Þróunarsamvinnustofnun, hætti allri þróunaraðstoð og reyni þess í stað að auka velmegun í þróunarríkjum með því að ýta undir alþjóðaviðskipti.
Samband ungra framsóknarmanna telur ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af því að ungliðahreyfing stærsta stjórnmálaflokks landsins sé föst í viðjum svo öfgakenndrar hugmyndafræði og skorar á SUS að hverfa frá henni.

Categories
Fréttir

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

Deila grein

06/10/2014

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október lýsir ánægju með góðan árangur sem náðst hefur í stjórn landsmála á því rúma ári sem liðið er frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum undir forsæti Framsóknarflokksins. Flestir mælikvarðar sem stuðst er við, til að vega og meta hagsæld þjóða, stefna upp á við. Það er ekki tilviljun. Þeirri stöðu hefur verið náð með forystu Framsóknarflokksins sem hefur haldið fast í gildi sín sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur almenna flokksmenn og sveitarstjórnarmenn til að halda á lofti þessum góða árangri, sérstaklega núna þegar hillir undir að leiðrétting húsnæðislána nái fram að ganga. Höfuðstólsleiðréttingin og skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar mun lækka greiðslubyrði og hækka ráðstöfunartekjur. Hraða verður vinnu við afnámi verðtryggingar á neytendalánum og afnámi hafta.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur ríkisstjórnina til að gera betur í málefnum hinna dreifðu byggða. Hraða skal uppbyggingu háhraðanets og annarar grunnþjónustu sem krafist er í nútímasamfélagi, þar með talin þriggja fasa rafmagns.
Þá fagnar kjördæmisþingið áformum ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Mjög hefur hallað á hana í þeim efnum á undanförum árum og fáir hreyft mótmælum þegar opinber störf hafa verið lögð niður á landsbyggðinni. Því kemur hin mikli órói, vegna áforma um flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu, á óvart. Þar er um jákvætt skref að ræða og eru stjórnvöld eindregið hvött til að halda áfram á þessari braut.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október  leggur þunga áherslu á umferðaöryggi, styttingu vegalengda og viðhald vega svo að allir komist um landið með öruggum og greiðum hætti. Viðhaldi og uppbyggingu hafna er ábótavant og nauðsynlegar úrbætur eru brýnar, s.s. á Suðurnesjum og uppbygging Þorlákshafnar sem inn- og útflutningshafnar. Brýnt er að halda áfram rannsóknum við Landeyjarhöfn og Hornafjörð.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Mikilvægt er að samráð sé haft við heimamenn þegar ráðist er í breytingar á heilbrigðisþjónustunni. Standa þarf vörð um grunnþjónustu í heilbrigðismálum kjördæmisins, s.s. uppbyggingu hjúkrunarheimila.
Þingið leggur áherslu á að fundnar verði leiðir til að efla næringarvitund í átt að bættri lýðheilsu, með því að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttum. Góð lýðheilsa er beinn sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á að menntasetur í kjördæminu verði efld og þeim tryggður rekstrargrundvöllur. Það er nauðsynlegt að gera fólki kleift að stunda nám heima í héraði.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur stjórnvöld til að stuðla að aukinni matvælaframleiðslu. Hagræðing innan greinarinnar hefur skilað neytendum miklu á undanförnum árum, en hún má ekki verða á kostnað eðlilegri samkeppni.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október fagnar áformum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að leggja fram frumvarp um stjórn fiskveiða. Slíkar breytingar mega þó ekki þrengja að samkeppnis- og rekstrarhæfni greinarinnar. Tryggja verður fyrirsjáanleika í greininni, slíkt eykur byggðafestu og treystir stöðu sjávarútvegsfyrirtækja á erlendum mörkuðum. Þá hvetur kjördæmisþingið stjórnvöld til að tryggja hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindum hafsins er renni aftur heim í hérað, s.s. í uppbyggingu hafnarmannvirkja.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á að hlúð verði að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í kjördæminu, einkum þó á Suðurnesjum og Skaftafellssýslum. Þingið hvetur til að vandað verði til uppbyggingar í ferðaþjónustu og lýsir yfir stuðningi við fyrirhugaða gjaldtöku af ferðamönnum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október minnir á að standa beri vörð um náttúru Íslands. Um leið er rétturinn tryggður til að njóta hennar. Mikilvægt er að huga að sjálfbærri nýtingu til heilla fyrir samfélagið allt og komandi kynslóðir.
Þingið fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um aukna kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu og hvetur til þess að sem fyrst verði hafist handa við að vinna eftir þeim áformum.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Jafnréttisráðstefna karla í New York

Deila grein

01/10/2014

Jafnréttisráðstefna karla í New York

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn Landssamband framsóknarkvenna hefur fylgst náið með þróun kynjajafnréttisumræðunnar sem helst hefur birst undanfarið í átakinu HeforShe og vill þess vegna vekja athygli á frumkvæði utanríkisráðherra Íslands, Gunnars Braga Sveinssonar, þar sem hann boðaði í ræðu sinni á Alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, í vikunni, að Ísland og Súrínam muni halda málþing um kynjajafnréttismál í New York í janúar á næsta ári.
Framkvæmdastjórnin hefur því sent frá sér eftirfarandi ályktun:
„Framkvæmdarstjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir ánægju sinni með frumkvæði utanríkisráðherra á sviði kynjajafnréttis. Jafnréttisráðstefna karla, sem utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hefur boðað, verður haldin í janúar á næsta ári á vettvangi sameinuðu þjóðanna. Ráðstefnan mun án efa vekja heimsathygli. Framkvæmdastjórnin fagnar því einnig að ráðstefnunni sé sérstaklega ætlað að beina kastljósinu að ofbeldi gegn konum sem birtist sem dagleg ógn margra kvenna í heiminum. Það er ennfremur fagnaðarefni að nú fái karlar tækifæri til þess að tala saman og láta sig þetta mikilvæga málefni varða. Að lokum vill framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna benda á að það er afar jákvætt að íslenskir karlar séu í fararbroddi í undirskriftum vegna HeForSe átaksins í heiminum.“
Framkvæmdastjórn LFK vill hvetja alla karla til þess að skrifa undir á slóðinni: www.heforshe.org
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Undirritaður samningur við Rauða krossinn vegna móttöku flóttafólks

Deila grein

24/09/2014

Undirritaður samningur við Rauða krossinn vegna móttöku flóttafólks

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, hafa undirritað samning um þau verkefni sem Rauði krossinn mun annast vegna móttöku flóttafólks á þessu ári.
Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Íslands verður tekið á móti þremur hópum flóttafólks á þessu ári. Hafnarfjarðarbær tók að sér móttöku sex manna fjölskyldu frá Afganistan sem þegar er komin til landsins. Einnig verður tekið á móti hópi hinsegin flóttafólks frá fjórum löndum og sýrlenskum flóttamönnum sem koma hingað frá Tyrklandi. Reykjavíkurborg mun annast móttöku þessarra hópa. Í hópunum þremur eru samtals 24 einstaklingar; þrettán fullorðnir og ellefu börn.
Þegar tekið er á móti hópum flóttafólks gerir velferðarráðuneytið annars vegar samning við sveitarfélagið þar sem fólkið mun setjast að um ýmsa aðstoð og stuðning því til handa og hins vegar við Rauða krossinn á Íslandi sem einnig kemur að því að veita fólkinu liðsinni. Stærsta verkefni Rauða krossins er að skipuleggja störf þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að málum, þ. á m. eru stuðningsfjölskyldur sem hafa reynst flóttafólki sem kemur hingað til lands afar mikilvægar.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á leiðtogafundi um loftslagsmál

Deila grein

24/09/2014

Sigmundur Davíð á leiðtogafundi um loftslagsmál

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í New York í gær. Í ræðu sinni fór ráðherra yfir áherslur Íslands í loftslagsmálum, m.a. á sviði jarðhita og landgræðslu.
Hvatti forsætisráðherra þjóðir heims til að ganga til liðs við alheimsbandalag á sviði jarðhitanýtingar og tilkynnti um stuðning íslenskra stjórnvalda til sérstakrar jarðhitaáætlunar sem unnin er í samvinnu við Alþjóðabankann.
Ennfremur tilkynnti ráðherra um stuðning Íslands við átakið „Endurnýjanleg orka fyrir alla“ sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur beitt sér fyrir, sem og að metnaðarfullur og bindandi loftslagssamningur náist í París á næsta ári.
Ráðherra áréttaði ennfremur mikilvægi þess að sporna gegn súrnun sjávar og minnti á þróun mála á norðurslóðum sökum hlýnunar loftslags.
Þá fjallaði ráðherra um mikilvægi þess að kraftar ólíkra hópa fólks og beggja kynja  séu nýttir í baráttunni gegn neikvæðum loftslagsbreytingum.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Deila grein

11/09/2014

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína á Alþingi í gær, 10. september. Forsætisráðherra sagði að bjartsýni, kjarkur og þor væru forsendur framfara og árangurs.
„Náttúra Íslands minnir stöðugt á hve krefjandi það er að búa í landi elds og íss. Þeir kraftar sem takast nú á í iðrum jarðar og brjótast fram á hálendinu eru í senn stórfenglegir og ógnvekjandi. Hugur margra leitar þá til þeirra tíma þegar forfeður okkar þurftu að kljást við afleiðingar slíkra náttúruhamfara með mun minni bjargir en við þekkjum í dag. Það er því mjög ánægjulegt að sjá hve framúrskarandi vísindamönnum Ísland hefur á að skipa og hve mikið og gott starf hefur verið unnið á sviði almannavarna. Allt þeirra starf eykur mjög öryggi okkar í því ófyrirsjáanlega umhverfi sem náttúra landsins býr okkur.
En þrátt fyrir þessar hættur náttúrunnar erum við Íslendingar svo heppnir að búa í landi sem er í senn ægifagurt og gjöfult með gnægð auðlinda. Hvort sem litið er til jarðnæðis, vatns, hreinleika eða möguleika til matvælaframleiðslu eru fáar þjóðir í heiminum sem búa við jafn rík tækifæri frá náttúrunnar hendi og við. Landið sér okkur fyrir nægri umhverfisvænni orku og úr fegurð og aðdráttarafli náttúrunnar og auðlindum sjávar verða til gríðarleg verðmæti. Mannauður okkar og hugvit bætir sífellt við þau verðmæti enda vinnur nú stærri hluti þjóðarinnar að rannsóknum en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu.
Sé litið til alþjóðlegs samanburðar er Ísland í efsta sæti við mat á öryggi og friði og jafnrétti kynjanna. Raunar hefur það sýnt sig að í alþjóðlegum samanburði á þeim kostum sem lönd búa yfir er Ísland gjarnan í hópi þeirra efstu, hvort sem spurt er hvar best sé að búa í heiminum, um stöðu lýðræðis, um réttindi ólíkra hópa, frelsi fjölmiðla, árangur af heilbrigðisstefnu eða um stöðugustu ríki heims. Slíkur samanburður er ekki algildur en veitir þó mikilvæga vísbendingu um það hversu góð lífsskilyrði við búum við“, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í stefnuræðu sinni sem flutt var á Alþingi í gær.

vigdishauksdottirVigdís Hauksdóttir, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, var með ræðu í annarri umferð stefnuræðu forsetisráðherra.
„Eftir 15 mánaða setu ríkisstjórnarinnar hefur orðið algjör viðsnúningur hér á landi. Það er hlutverk stjórnvalda að forgangsraða í ríkisrekstri og ráðstafa skattfé í grunnstoðir samfélagsins. Samtímis og ráðist var í sparnaðaraðgerðir og forgangsröðun fyrir fjárlagaárið 2014 var stefnan sett á hallalaus fjárlög í fyrsta sinn um langa hríð og í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2015 er gert ráð fyrir afgangi.
Vinnan gengur afar vel.
Þessi agi eykur traust á landi og þjóð – innan lands sem utan – og er sérstaklega mikilvægt að sýna þetta aðhald fyrir lánardrottna ríkisins því að eitt af forgangsmálunum er að greiða niður skuldir til að ná himinháum vaxtagjöldum ríkisins niður. Stóra málið er, eins og minnst hefur verið á hér í kvöld, losun gjaldeyrishafta og samningar við kröfuhafa og áríðandi er að vel takist til því að allt er undir í því máli. Því eru afar mikilvægir tímar fram undan fyrir okkur öll og áríðandi að standa saman þjóðinni til heilla.
Þessi vinna er langhlaup og krefst aga, festu og framsýni. Víða má spara, sameina og hagræða. Það krefst kjarks og dugs að leggja til og fylgja eftir breytingum á kerfi sem hefur byggst upp í áratugi. Almenni vinnumarkaðurinn fæst við slíka endurskoðun á hverjum degi og því er brýnt að sækja fordæmi og þekkingu þangað. Einnig er nauðsynlegt að auka og auðvelda streymi vinnuafls frá hinu opinbera inn á almenna vinnumarkaðinn því að þar verða hinar raunverulegu skatttekjur til með verðmætasköpun.
Bjartsýni, von og trú á íslenskt samfélag hefur náð rótum á ný, þ.e. fyrir utan það sem framtíðarsýn hv. þm. Árna Páls Árnasonar hefur að segja. Hann kom hér fram og sá allt svart í kvöld en það verður að bíða betri tíma að útskýra fyrir hv. þingmanni í hverju þetta felst. Staðfesta og skýr framtíðarsýn skiptir sköpum. Segja má að fjárlög hvers árs séu takmörkuð auðlind. Ofnýting hennar, stöðug framúrkeyrsla kemur niður á komandi kynslóðum. Sviðið allt verður að skoða með heildarsýn að leiðarljósi en ekki einblína á einstaka, afmarkaða þætti. Ef bætt er í fjármagni á einum stað verður að færa það frá öðrum minna mikilvægum málaflokkum til að vera innan fjárlagaramma með forgangsröðun að leiðarljósi“, sagði Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra sem flutt var á Alþingi í gær.

Gunnar Bragi SveinssonGunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, var með ræðu í þriðju umferð stefnuræðu forsetisráðherra.
„Samfélagið er þeir sem byggja það, lifa í því og trúa á það. Viljinn til breytinga lá í hjarta þessa samfélags fyrir ári þegar gengið var til kosninga. Langlundargeð þjóðar eftir réttri forgangsröðun var búið. Breytinga var þörf og að taka á vandamálum sem lá fólki næst. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafði unnið að því ötullega síðastliðið ár og nokkrum vikum betur. Það var þreytt þjóð árið 2013 sem fór í kjörklefann, þreytt á hruni, þreytt á bið, þreytt á rifrildi meðal stjórnarflokka, skorti á lausnum og hún var orðin óþolinmóð. Ríkisstjórnin átti erfitt verk fram undan en tók strax til við uppbygginguna. Það er þó ekki hægt að laga hlutina á einu ári eða einni nóttu. Unnið hefur verið mikið og vel á einu ári og er ég þess fullviss að lausnirnar eru góðar.
Góðir landsmenn. Það er viðurkennt að sú ákvörðun að taka ekki skuldir fallinna einkabanka var grunnurinn að því að við stöndum svo framarlega í dag. Mistökin voru þau að lán heimilanna sátu eftir, en nú erum við að leiðrétta það. Leiðréttingin er komin til framkvæmda eftir umsóknatímabil þar sem gríðarlegur áhugi var hjá þjóðinni þrátt fyrir úrtöluraddir og almenna neikvæðni stjórnarandstöðunnar. Leiðrétting á skuldum heimilanna er mun áhrifaríkari leið til þess að bæta hag þeirra en þær fálmkenndu aðferðir sem gripið var til á síðasta kjörtímabili. En saman sköpum við jákvæða hvata, aukið traust og trú á samfélag okkar, traust til þess að framkvæma það sem þarf til að tryggja framtíðaríbúum eyjunnar okkar velmegun og farsæld.
Sérstakir fjármunir hafa verið veittir í verkefni sem voru einna mest aðkallandi í heilbrigðis- og löggæslumálum og störfum hefur verið skilað til landsbyggðarinnar. Breytingarnar eru sjáanlegar, munu koma áfram í ljós á næstu mánuðum og árum. Þá gefa hallalaus fjárlög fyrirheit um betri tíma í framtíðinni“, sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra sem flutt var á Alþingi í gær.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Sumarlokun flokksskrifstofu Framsóknar

Deila grein

16/07/2014

Sumarlokun flokksskrifstofu Framsóknar

framsoknarhusidSkrifstofa Framsóknarflokksins verður lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks frá og með 21. júlí til og með 13. ágúst. Hægt er að fylgjast með fréttum á vefsíðunni, www.framsokn.is og senda póst á netfangið framsokn@framsokn.is.
Framsóknarflokkurinn
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.