Fyrr í mánuðinum fór í loftið við frábæra dóma fjórða serían af sjónvarpsþáttunum True Detective sem framleiddir eru af amerísku sjónvarpsstöðinni HBO max, en stöðin er ein af dótturfyrirtækjum einnar stærstu afþreyingarsamsteypu heims, Warner Bros Discovery. Þar með opinberaðist árangur þrotlausrar vinnu hér á landi en þáttaröðin, með Jodie Foster í broddi fylkingar, var að langstærstum hluta framleidd hér á landi af íslenska framleiðslufyrirtækinu True North. Aðstandendur verkefnisins hafa hlaðið Ísland og íslenska kvikmyndagerð miklu lofi í bandarískum fjölmiðlum.
Um er að ræða stærsta kvikmynda- og sjónvarpsverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi og um hreina erlenda fjárfestingu að ræða, en heildarkostnaður verkefnisins nam um 11,5 milljörðum króna. Að meðaltali voru um 600 manns að vinna að verkefninu á degi hverjum en á stærstu dögunum vorum um 1.000 manns á setti. Í heildina fengu um 1.200 manns greitt fyrir aðkomu sína að verkefninu og átti verkefnið í viðskiptum við 2.000 fyrirtæki og einstaklinga á tökutímanum, en tökutímabilið varði í rúmlega hálft ár og fóru tökur fram í kvikmyndaverum í Reykjavík ásamt útitökum á Akureyri, Keflavík, Vogunum, Dalvík, við Stíflisdalsvatn og í Bláfjöllum.
Stærstur hluti þeirra sem störfuðu beint við verkefnið voru Íslendingar í hinum ýmsu störfum. Má þarf nefna kvikmyndatöku- og tæknifólk ýmiskonar, framleiðslustjóra, förðunar-, búninga- og leikmyndarsérfræðinga, aukaleikara og svo lengi mætti áfram telja.
Það er mikil viðurkenning fyrir Ísland sem tökustað að fá verkefni af þessari stærðargráðu hingað og er það bersýnileg staðfesting þess að stefna stjórnvalda í málefnum skapandi greina virkar, en til að mynda hefur kvikmyndastefnu frá árinu 2020 verið hrint skipulega í framkvæmd með fjölmörgum aðgerðum. Einni slíkri var hrint í framkvæmt árið 2022 sem fólst í að hlutfall endurgreiðslu af framleiðslukostnaði í kvikmyndagerð sem til fellur hér á landi var hækkað úr 25% í 35% fyrir verkefni sem uppfylla ákveðin skilyrði hvað varðar stærð, fjölda tökudaga og fjölda starfsfólks. Árangur þeirra breytinga fór strax að skila sér líkt og ofangreint verkefni sannar.
Það er hins vegar mikilvægt að hafa hugfast að grunnurinn að hinum mikla árangri í kvikmyndagerð hér á landi er allt hið magnaða innlenda kvikmyndagerðarfólk sem hefur rutt brautina í gegnum áratugina. Án þess væri Ísland lítilfjörlegur tökustaður í dag, en hróður íslensks kvikmyndagerðarfólks fer víða enda er það þekkt fyrir framúrskarandi fagmennsku, vinnusemi, grænar áherslur og lausnamiðað hugarfar. Ég mun halda áfram að beita mér af fullum krafti til að efla kvikmyndaiðnaðinn hér á landi í góðu samstarfi við greinina. Það er til mikils að vinna að auka verðmætasköpun í hinum skapandi greinum enn frekar og ég er þess fullviss að framtíðin sé björt á þeim vettvangi. Ég óska öllum þeim sem komu að verkefninu True Detective til hamingju með áfangann og hvet ykkur áfram til góðra verka.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.
„Við erum að færa þjónustuna til, til þess að dreifa álagi innan kerfisins, til þess að nýta allt kerfið, til aðila sem hafa þekkinguna og svigrúmið til að sinna þjónustunni hverju sinni og af viðunandi öryggi og gæðum,“ sagði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, í sérstakri umræðu á Alþingi um útvistun heilbrigðisþjónustu.
Fyrst vildi Willum Þór ítreka að þingsályktun Alþingis um „Heilbrigðisstefnu til ársins 2030“ væri hryggjarstykkið í allri ákvarðanatöku um forgangsröðun fjármuna, um aðgerðir, um útvistun eða annað í heilbrigðisþjónustu. Eins væri mikilvægt að sameiginlegur skilningur væri á hugtakanotkun í þjóðfélagsumræðunni um skipulag heilbrigðisþjónustu í blönduðu kerfi. Kerfi sem hafi þróast í áratugi, opinberlega fjármögnuð þjónusta og að sátt sé um í þjóðfélaginu. Síðan sé hægt að ræða aðgengið, stefnuna og aðgengi óháð efnahag.
Útvistun aðgerða getur verið innan opinbera kerfisins og styður við markmið að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað
„Útvistun getur verið beint á milli stofnana án nokkurrar aðkomu annarra eða yfirvalda ef því er að skipta. Hún getur líka verið frá opinberum aðila til einkaaðila út frá rekstrarformi, ef við erum að skilgreina það. En fyrst og síðast erum við alltaf að vinna eftir þessari stefnu: Við erum að auka aðgengi. Getur falist í því aukin skilvirkni? Já,“ sagði Willum Þór
Hver eru áform varðandi einkavæðingu hjúkrunarheimila?
„Það eru engin áform um einkavæðingu hjúkrunarheimila. Mikill meirihluti hjúkrunarrýma er rekinn af sjálfseignarstofnunum og alls ekki verið að drepa því á dreif, það er staðreynd,“ sagði Willum Þór og hélt svo áfram, „hafa orðið tafir á uppbyggingu hjúkrunarheimila? Já, og nýjustu viðbrögðin við því eru að auka skilvirknina og að mæta þessari þróun sem raunverulega hefur verið“.
Sveitarfélögin hafa dregið sig út úr þjónustu hjúkrunarheimila. Hafa því verið gerð þjónustukaup í gegnum Sjúkratryggingar af Sjómannadagsráði, af Grund, af Eir, af Heilsuvernd og af Sóltúni. Eins hafa heilbrigðisstofnanir fyrir austan, fyrir norðan og fyrir vestan meira og minna tekið til sín hjúkrunarheimilis þjónustu að öllu leyti.
„Það sem ég og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra erum raunverulega að gera er að skerpa á hlutverki og ábyrgð með breyttu fyrirkomulagi í þeim tilgangi að hraða uppbyggingunni,“ sagði Willum Þór.
Mun aukin skilvirkni fást með útvistun aðgerða?
„Við settum 700 milljónir á síðasta ári í það að leggja áherslu á lýðheilsutengdar aðgerðir eins og liðskipti. Hvað hefur gerst? Við erum búin að auka aðgerðir um 60%. Það þýðir aukið aðgengi, fleiri komast að og það er jafnræði. Aðgerðum í útlöndum hefur fækkað. Það er sparnaður. Það heitir skilvirkni og tölurnar liggja fyrir,“ sagði Willum Þór.
Hvaða gögn liggja að baki ákvörðunum um útvistun aðgerða í heilbrigðiskerfinu?
Það er verið að nýta kerfið og þetta er leið til þess. „Af hverju erum við að semja við sérgreinalækna? Það er til þess að það sé ekki hægt, eins og lögin eru í dag, að rukka aukalega. Það er til heil skýrsla frá Öryrkjabandalaginu um að tekjulægstu hóparnir hafi átt orðið í vandræðum með að borga aukareikninga. Annað hvort var þá að breyta stefnunni eða semja. Og það var samið. Reikningurinn fyrir þessa aukareikninga er 1,9 milljarðar, áætlaðir. Það er í samhengi við 350 milljarða. Ef þetta er einkavæðing eða markaðsvæðing er einhverju öfugt farið,“ sagði Willum Þór.
Fólk í fyrirrúmi
„Við höfum aukið afköst um 60%. Þeim hefur fækkað sem hafa farið erlendis, sem nýta það tækifæri. Markmiðið hlýtur að vera að nýta alla þekkinguna sem er hérlendis til að gera þessar aðgerðir. Við eigum hana til og eigum að geta það,“ sagði Willum Þór að lokum.
Þann 1. desember sl. lagði undirrituð fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs. Tillagan hefur það að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Þess er farið á leit í tillögunni að starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024. Tillagan er unnin í miklu samstarfi við embætti Landlæknis og vil ég sérstaklega þakka Guðrúnu Jónu Guðlaugsdóttur, verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna og Högna Óskarssyni, geðlækni og ráðgjafa fyrir þeirra þátt í vinnunni, sem var ómetanlegur.
Þörf á breytingum
Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Ef raunin er ekki sú, þá er almennt ekki aðhafst meira. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá. Það á m.a. við ef um sjálfsvíg er að ræða. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar.
Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna
Í gær kynnti Landlæknir aðgerðir gegn sjálfsvígum og nýja miðstöð sjálfsvígsforvarna. Miðstöðin, sem hlotið hefur nafnið Lífsbrú, varð að veruleika þegar föstu fjármagni frá Heilbrigðisráðuneytinu var veitt ótímabundið í sjálfsvígsforvarnir. Hér er verið að taka risastórt skref í átt að breytingum til hins betra og því ber sannarlega að fagna. Á heimasíðu verkefnisins, www.lifsbru.is segir:
„Markmið Lífsbrúar er að fækka sjálfsvígum á Íslandi í samræmi við áætlun stjórnvalda. Það verður gert með því að velja gagnreyndar aðferðir sem reynst hafa vel í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Einnig að þróa og innleiða verklag, fræðsluefni og leiðbeiningar til að nota á öllum stigum forvarna, ásamt því að stuðla að vitundarvakningu og símenntun.
Markmiðum verður náð með breiðri samvinnu fagfólks, notenda, stofnana og félagasamtaka en einnig með fjáröflun til sjálfsvígsforvarna. Í því skyni hefur verið stofnaður sjóður með sama nafni.“
Sem samfélag viljum við alltaf gera betur
Sjálfsvíg eru viðkvæmt samfélagslegt málefni. Þau hafa mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Samfélagið vill gera betur, grípa einstaklinga í áhættuhópum, ganga í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir bæði einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn, svo að komast megi að því hvað hafi gerst og finna alla annmarka sem eru á öryggisneti samfélagsins.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segist enn og aftur hafa fengið að kynnast þeim frábæra mannauði sem sé í íslensku menntakerfi.
„Í dagur er alþjóðlegur dagur menntunar. Tilgangur hans er að undirstrika mikilvægi menntunar og þau gífurlegu áhrif sem hún hefur í baráttunni fyrir betri heimi og auknum jöfnuði.“
Fátt hefur jafn mikil mótunaráhrif á líf barna og farsæld samfélaga eins og menntun
„Í embætti mínu sem mennta- og barnamálaráðherra hef ég ítrekað fengið að kynnast þeim frábæra mannauði sem við eigum í íslensku menntakerfi. Við eigum það til að taka menntakerfi okkar sem sjálfsögðum hlut og það er stundum ekki fyrr en hörmungar skella á að við gerum okkur grein fyrir mikilvægi hluta.
Það er ástæða til að nota þetta tækifæri og nefna sérstaklega hversu magnað það hefur verið að fylgjast með grindvískum stjórnvöldum, skólastjórnendum, kennurum og starfsfólki skóla Grindavíkur gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að börn úr Grindavík njóti menntunar og samveru þrátt fyrir ítrekuð áföll.
Kennsla í Grunnskóla Grindavíkur fer fram á fjórum stöðum í Reykjavík og kennarar fylgja börnum sínum sem eru komin í skóla víðsvegar um land eftir með margvíslegum hætti. Heimsótti skólann í dag, átti gott og milliliðalaust samtal við nemendur, kennara og annað starfsfólk um áskorunina sem samfélagið er að takast á við og hver næstu skref þurfi að vera. Eftir þessa heimsókn er ég sannfærðari en nokkru sinni um ótvírætt mikilvægi menntunar á mjög breiðum grunni.“
Í dagur er alþjóðlegur dagur menntunar. Tilgangur hans er að undirstrika mikilvægi menntunar og þau gífurlegu áhrif sem…
„Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni eða a.m.k. reikna með öðrum hætti en nú er gert. Fyrir mér er þetta sanngirnismál. Þetta er réttlætismál. Við þurfum að reikna þetta með réttum hætti þannig að það gagnist heimilum landsins eins og á að gera,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.
„Þetta er kannski ekki rót vandans en þetta er hluti af vandanum. Við sjáum það núna og það er erfitt, ég hef sagt það áður og segi það aftur, að setja sig í spor Grindvíkinga sem er nú gert að yfirgefa heimili sín, sem er griðastaður fjölskyldna og fólks í þessu samfélagi, en að öllum líkindum mun þessi atburðarás sem við sjáum á Reykjanesi núna auka enn frekar þrýsting á húsnæðismarkaðinn.
Við verðum að bera gæfu til þess að byggja meira en við höfum gert hingað til þannig að við náum að uppfylla þá þörf sem fram undan er,“ sagði Ágúst Bjarni.
Staðan á Reykjanesi hefur áhrif varðandi væntanlegt byggingarland á sveitarfélögin á svæðinu. Lausnin felst í að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög setjist niður og vinni að því hvernig við ætlum að byggja upp, byggja nægilegt magn íbúða.
„Nú hins vegar í tíð hæstv. innviðaráðherra er loks áætlun til staðar, en áætlun er ekki nóg. Umhverfið verður að vera með þeim hætti að hægt sé að byggja þannig að uppbygging sé raunverulega tryggð. Það gerist ekki, eins og ég segi, með óvissu á uppbyggingarsvæði, með háa vexti og hörðum lánþegaskilyrðum hjá Seðlabanka. Þetta er samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga og annarra hagaðila og þetta er vandamál og verkefni sem við þurfum að leysa í sameiningu,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni eða a.m.k. reikna með öðrum hætti en nú er gert. Fyrir mér er þetta sanngirnismál. Þetta er réttlætismál. Við þurfum að reikna þetta með réttum hætti þannig að það gagnist heimilum landsins eins og á að gera. Þetta er kannski ekki rót vandans en þetta er hluti af vandanum. Við sjáum það núna og það er erfitt, ég hef sagt það áður og segi það aftur, að setja sig í spor Grindvíkinga sem er nú gert að yfirgefa heimili sín, sem er griðastaður fjölskyldna og fólks í þessu samfélagi, en að öllum líkindum mun þessi atburðarás sem við sjáum á Reykjanesi núna auka enn frekar þrýsting á húsnæðismarkaðinn. Við verðum að bera gæfu til þess að byggja meira en við höfum gert hingað til þannig að við náum að uppfylla þá þörf sem fram undan er.
Að þessu sögðu þá gerir þetta líka annað, þessi staða sem er uppi á Reykjanesi hefur auðvitað áhrif á alla framtíðarsýn sem sveitarfélögin á þessu svæði hafa varðandi væntanlegt byggingarland. Það er vinna sem stjórnvöld, ríki og sveitarfélög þurfa nú að setjast niður við og huga að því hvernig við ætlum að byggja upp, byggja nægilegt magn íbúða til framtíðar á þessu svæði vegna þess að þetta breytir augljóslega stöðunni. Nú hins vegar í tíð hæstv. innviðaráðherra er loks áætlun til staðar, en áætlun er ekki nóg. Umhverfið verður að vera með þeim hætti að hægt sé að byggja þannig að uppbygging sé raunverulega tryggð. Það gerist ekki, eins og ég segi, með óvissu á uppbyggingarsvæði, með háa vexti og hörðum lánþegaskilyrðum hjá Seðlabanka. Þetta er samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga og annarra hagaðila og þetta er vandamál og verkefni sem við þurfum að leysa í sameiningu.“
„Mun það þýða að 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta?“
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, sagði í störfum þingsins aldur ekki vera hæfniviðmið og eins eigi það ekki að liggja til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Fór hún síðan yfir álitamál ef samþykkt yrði að fella á brott 35 ára aldurstakmarkið um kjörgengi til forseta. Hún hefur lagt til á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni að 35 ára aldurstakmarkið verði fellt á brott.
Sú breyting varðar ákvæði sem er svohljóðandi í dag: „Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.“
„Mun það þýða að 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta? Já. Mun það þýða að 18 ára einstaklingur verði forseti? Nei, þetta ákvæði eitt og sér myndi ekkert gera það. Til þess að verða forseti þurfa einstaklingar að fara í gegnum kosningabaráttu þar sem þau þurfa að sýna fram á hæfni, reynslu og jafnvel menntun til að geta sinnt þessu embætti og verið landi og þjóð til sóma,“ sagði Lilja Rannveig.
Sagði hún okkur sem kjósendur gera ríkar kröfur til forseta lýðveldsins, þó svo þær séu ekki endilega meitlaðar í stein. „Aldur er ekki hæfniviðmið og það á ekki að leggja það til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Með aldrinum kemur lífsreynsla og það er alveg eðlilegt að áætla að þeir sem eru eldri séu reynslumeiri.“
„En fjölbreytni samfélagsins er mikil og þar af leiðandi ætti það ekki að vera meginregla að hafa náð ákveðnum aldri til að öðlast ákveðin réttindi eða til að gegna ákveðnum skyldum eftir að einstaklingur er samkvæmt lögum og alþjóðasáttmálum orðinn fullorðinn.
Ég fæ ekki séð að nóttina sem einstaklingur verður 35 ára verði hann mun hæfari og lífsreyndari en þegar hann var 34 ára. En ég skal glöð láta ykkur vita 2031 þegar ég hef náð þeim aldri hvort ég skipti um skoðun,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
„Hæstv. forseti. Í gær lagði ég fram frumvarp ásamt fjórum öðrum þingmönnum Framsóknar um breytingu á stjórnarskránni. Sú breyting varðar ákvæði sem er svohljóðandi í dag, með leyfi forseta:
„Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.“
Í því frumvarpi sem við leggjum fram gerum við það að tillögu okkar að 35 ára aldurstakmarkið verði fellt á brott. Mun það þýða 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta? Já. Mun það þýða að 18 ára einstaklingur verði forseti? Nei, þetta ákvæði eitt og sér myndi ekkert gera það. Til þess að verða forseti þurfa einstaklingar að fara í gegnum kosningabaráttu þar sem þau þurfa að sýna fram á hæfni, reynslu og jafnvel menntun til að geta sinnt þessu embætti og verið landi og þjóð til sóma. Við sem kjósendur gerum kröfur til forseta þó að þær séu ekki endilega skrifaðar í stjórnarskrána. Aldur er ekki hæfniviðmið og það á ekki að leggja það til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Með aldrinum kemur lífsreynsla og það er alveg eðlilegt að áætla að þeir sem eru eldri séu reynslumeiri. En fjölbreytni samfélagsins er mikil og þar af leiðandi ætti það ekki að vera meginregla að hafa náð ákveðnum aldri til að öðlast ákveðin réttindi eða til að gegna ákveðnum skyldum eftir að einstaklingur er samkvæmt lögum og alþjóðasáttmálum orðinn fullorðinn. Ég fæ ekki séð að nóttina sem einstaklingur verður 35 ára verði hann mun hæfari og lífsreyndari en þegar hann var 34 ára. En ég skal glöð láta ykkur vita 2031 þegar ég hef náð þeim aldri hvort ég skipti um skoðun.“
Með vakningu þeirra náttúruafla sem búa í iðrum jarðar á Reykjanesi blasir við nýr veruleiki fyrir kynslóðir okkar tíma á suðvesturhorni landsins. Með eldgosinu í Geldingadölum við Fagradalsfjall hinn 19. mars 2021 hófst nýtt eldgosatímabil á Reykjanesskaganum sem átti sér undanfara með jarðskjálftahrinum allt frá árinu 2019. Líkt og við þekkjum er helsta verkefni samfélagsins að ná utan þá stöðu sem skapast hefur í Grindavík vegna eldgossins og styðja við Grindvíkinga. Síðustu áratugi hefur íslenska hagkerfið skapað mikil verðmæti og því er ljóst að við sem samfélag náum utan um þá áskorun sem blasir við. Hins vegar skiptir efnahagsstjórn miklu máli um hvort vel takist til!
Jarðhræringar
Að mati vísindamanna er á Reykjanesinu að finna sex eldstöðvakerfi sé Hengilskerfið talið með, en hin kerfin á Reykjanesinu eru frá vestri til austurs; Reykjaneskerfið, Eldvörp/Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvíkurkerfið og Brennisteinsfjallakerfið. Hafa þessi kerfi mótað hið ægifagra langslag sem birtist okkur á Reykjanesinu og setur einkennandi svip á landshornið. Samkvæmt gögnum og rannsóknum sem líta aftur til síðustu 3.500 ára hafa vísindamenn getið sér til um að gosskeið hafi staðið í um 400-500 ár, með 600-800 ára goshléum þar á milli, þó svo að goshlé í stöku eldstöðvakerfi vari að meðaltali í um 1.000 ár. Sem dæmi um hversu lifandi svæðið getur orðið hafa vísindamenn meðal annars bent á að gosvirkni geti flust milli eldstöðvakerfa með 30-150 ára millibili sé miðað við síðasta gosskeið á svæðinu. Að frátalinni þeirri goshrinu sem hófst árið 2021 hefur ein meiri háttar goshrina átt sér stað á Reykjanesi frá landnámi sem hófst með Bláfjallaeldum um árið 950 og lauk með Reykjaneseldum árið 1240, en þar á milli gaus í Krýsuvíkurkerfinu með Krýsuvíkureldum en einu hraunin sem hafa nálgast höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma runnu einmitt úr Krýsuvíkurkerfinu og standa sunnan við Hafnarfjörð.
Ljóst er að eldgosið í Grindavík hinn 14. janúar síðastliðinn gjörbreytti stöðu mála í bænum. Það var landsmönnum öllum mikið áfall að sjá seinni gossprungu opnast sunnan þeirra varnargarða sem risið höfðu ofan við bæinn og horfa á hraun renna yfir íbúðarhús í bænum. Í kjölfarið virtist staðfest að ekki yrði búið í bænum næstu mánuði og misseri og hófu því stjórnvöld að framlengja gildandi aðgerðir ásamt því að kynna nýjar aðgerðir sem ætlað er að tryggja öryggi Grindvíkinga þegar kemur að húsnæði, afkomu og verðmætum. Með þeim mun ríkið skapa forsendur fyrir Grindvíkinga til að koma sér upp öruggu heimili til lengri tíma á eigin forsendum. Samhliða þessu ætla stjórnvöld að tryggja framboð á varanlegu húsnæði með ýmsu móti, þar á meðal með uppbyggingu á húsnæði á tilteknum svæðum, með kaupum á samtals 260 íbúðum í gegnum íbúðafélögin Bríeti og Bjarg. Þá verður lagt fram frumvarp á næstu dögum sem unnið hefur verið að í menningar- og viðskiptaráðuneytinu og snýr að þrengingu skilyrða varðandi almenna skammtímaútleigu íbúða og er ætlað að stuðla að auknu framboði á íbúðarhúsnæði. Sérstakur húsnæðisstuðningur verður jafnframt framlengdur til loka júní ásamt því að verða útvíkkaður til að styðja betur fjárhagslega við fólk. Aldrei hefur verið jafnbrýnt að stórauka framboð af húsnæði á Íslandi.
Afkoma og verðmæti varin
Stjórnvöld hafa einnig lagt kapp á að tryggja afkomuöryggi Grindvíkinga og stuðla að verðmætabjörgun eigna. Launastuðningur til þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í bænum vegna ástandsins verður framlengdur til loka júní, og lengur ef þörf krefur. Þá hefur áhersla verið lögð á, eftir því sem aðstæður leyfa, að komast hjá verðmætatjóni. Það verður áfram unnið að því að gera Grindvíkingum kleift að bjarga verðmætum í samvinnu við helstu viðbragðsaðila. Í því samhengi er vert að nefna að unnið er að samstarfi við flutningafyrirtæki til að styðja við þá Grindvíkinga sem ekki hafa tök á að sækja verðmæti á eigin spýtur ásamt því að aðstoða fólk við að fá öruggt geymsluhúsnæði til að geyma innbú og önnur verðmæti eins og þarf. Atvinnulífið í Grindavík er merkilega fjölbreytt og viðamikið og skiptir máli í utanríkisviðskiptum landsins. Stærstu atvinnugreinarnar snúa að ferðaþjónustu og sjávarútvegi, en ýmsar tegundir greina hafa náð að koma sér vel fyrir, auk starfa á vegum sveitarfélagsins og hins opinbera. Það verður mikilvægt að tryggja að þau verðmæti sem sköpuð hafa verið í Grindavík verði áfram til að styðja við þjóðarbúið. Það hefur gengið betur en á horfðist varðandi sjávarútveginn, þar sem samstarf og samstaða í greininni hefur komið til góða við að bjarga verðmætum. Gengi ferðaþjónustunnar hefur verið misjafnt. Lokun Grindavíkur hefur komið þungt niður á minni fyrirtækjum. Eitt öflugasta fyrirtækið á svæðinu, Bláa lónið, hefur búið við mikla óvissu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Afar brýnt er að klára áhættumat almannavarna á svæðinu til að draga úr þeirri óvissu. Bláa lónið er sá ferðamannastaður sem hefur einna mest aðdráttarafl fyrir þá sem heimsækja landið. Tæplega 900 manns starfa hjá Bláa lóninu og afleidd eru störf afar mikilvæg fyrir Reykjanesið og alla ferðaþjónustuna.
Mótvægisaðgerðir skipta öllu um efnahagsframvinduna
Það er meira en að segja það að koma heilu byggðarlagi fyrir í nýju húsnæði, en það hefur ekki staðið á ríkisstjórninni að gera sitt besta í þeim efnum. Hins vegar er afar brýnt að gæta að þjóðhagslegum stærðum þegar horft er fram á veginn. Glíman við verðbólguna hefur verið ein helsta áskorunin frá því að heimsfaraldri lauk. Leikurinn í þeirri baráttu hefur verið að snúast í rétta átt á allra síðustu vikum og mánuðum. Húsnæðisliðurinn er afar þungur í verðbólgumælingum hér á landi. Á síðasta áratug hefur óvíða verið jafn mikill efnahagslegur uppgangur eins og á Íslandi. Vegna hins opna vinnumarkaðar hefur framboðsvandinn í hagkerfinu á síðustu misserum einna helst birst á vettvangi húsnæðismarkaðar. Það er því mikilvægt að öllum árum sé róið að því að styrkja framboðshliðina á húsnæðismarkaði, hvort sem það er á sviði framboðs lóða eða byggingargerðar. Húsnæðismarkaðnum verður þó ekki breytt á einni nóttu og má væntanlega búast við tímabundnum þrýstingi, en mikilvægt verður að taka á framboðshliðinni sem allra fyrst til hagsbóta fyrir framtíðina. Stjórnvöld þurfa jafnframt að horfa til húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs, t.d. með samanburði á fyrirkomulagi hans í nágrannalöndunum. Þessi umræða hefur verið uppi á borðum hér á landi í nær 20 ár og því tímabært að skoða það nánar með framtíðina í huga. Hér er ekki verið að tala um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs heldur að láta hann verða samanburðarhæfari. Vera kann að einnig þurfi að grípa til annarra þjóðhagsvarúðartækja til að draga úr spennu á húsnæðismarkaði, líkt og var gert á Nýja-Sjálandi eftir stóra jarðskjálftann í Christchurch árið 2011.
Á síðustu viku hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í daglegum samskiptum við íbúa í Grindavík. Það sem einkennir hópinn er dugnaður, samkennd, þrautseigja og viljinn til að ráða sínum örlögum sjálfur. Á þessari stundu er óljóst hver framtíð Grindavíkur verður og verður það í höndum okkar færasta vísindafólks að meta aðstæður af kostgæfni og taka svo upplýsta ákvörðun í samvinnu við íbúa og fyrirtækin. Þrátt fyrir alla þá óvissu sem einkennir stöðuna, þá er eitt ljóst, en það er að stjórnvöld standa með Grindvíkingum og munu málefni þeirra áfram njóta forgangs við ríkisstjórnarborðið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. janúar 2024.
Staðan á Íslandi er grafalvarleg – öryggi og orkuöflun er í húfi í nýjum raunveruleika
Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um orkumál á Alþingi og var umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til andsvara.
„Orkumál og orkuöryggi þjóðarinnar hefur fengið mikla umfjöllun undanfarnar vikur sem reyndar kemur ekki til af hinu góða. Staðan á Íslandi er grafalvarleg. Kyrrstaða hefur ríkt um árabil og niðurstaðan er sú að orkuöryggi okkar er ógnað. Sú sorglega staða að við sjáum okkur knúin til þess að leggja fram frumvarp til að tryggja heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum forgang að raforku og horfum á fyrirtæki neyðast til að brenna olíu vegna skerðingar raforku til að halda daglegri starfsemi sinni er með öllu óásættanleg,“ sagði Ingibjörg.
Fór hún í máli sínu yfir að skerðing raforku kosti ríkissjóð, atvinnulífið og alls samfélagið talsverðar fjárhæðir. Eins væri mögulega hægt að spyrja sig hvort að upp sé kominn forsendubrestur varðandi samninga fyrirtækja vegna ótryggrar orku. En slíkir samningar eru mikilvægir til að fullnýta kerfið. Á móti kemur að gera verði ráð fyrir skerðingum, hefur þeim fjölgað og vara í lengri tíma en áður. Fyrirséð er að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum.
„Orkuöflun undanfarin ár hefur ekki verið næg þrátt fyrir ábendingar sérfræðinga um yfirvofandi orkuskort og þrátt fyrir áskoranir í loftslagsmálum, fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna og aukna framleiðni fyrirtækja,“ sagði Ingibjörg.
Aflaukning í kerfinu hefur numið um 384 MW á 16 ára tímabili, það nemur um 24 MW á ári.
„Ljóst er að stórauka þarf orkuöflun ef við ætlum að tryggja orkuöryggi hér á landi og ná okkar markmiðum í loftslagsmálum.“
„Eldsumbrot á Reykjanesskaga sýna okkur hvað náttúruhamfarir geta haft alvarlegar afleiðingar. Þar var og er Svartsengi í raunverulegri hættu vegna nálægðar við eldsumbrotin. Þaðan fær Reykjanesið heitt vatn og orku eða um 30.000 manns og þá er ekki talin atvinnustarfsemin sem þetta getur haft áhrif á.
Orkuöryggi, orkuöflun og flutningskerfið er í húfi í nýjum raunveruleika.
„Ítrekað hefur verið bent á mikilvægi þess að koma upp hringtengingu hér á landi, m.a. svo hægt sé með góðum hætti að flytja orku á milli landsvæða, nýta virkjanir betur og minnka sóun. Það sem hefur tekið áratugi þarf núna að taka mánuði eða örfá ár án þess þó að gefa nokkurn afslátt af þeim umhverfisþáttum er tengjast leyfisveitingum. Við hugum vissulega að vernd náttúrunnar en sagan hefur sýnt sig að vernd og nýting getur farið saman,“ sagði Ingibjörg.
Nefndi Ingibjörg að Landsnet sé að ráðast í framkvæmdir við flutningslínu frá Akureyri til Grundartanga og hún sé í forgangi. En flókið ferli muni taka langan tíma.
„Það er grundvallaratriði að þessari framkvæmd verði flýtt eins og unnt er, enda um þjóðaröryggi að ræða. Í fyrra hefði línan komið í veg fyrir skerðingar sem kostuðu þjóðarbúið um 5 milljarða. Vatnsstaða lóna var með þeim hætti á þeim tíma að aflaukning hefði verið á við eina Hvammsvirkjun. Þarna er hægt að auka aflið í kerfinu án þess að ráðast í virkjunarframkvæmdir,“ sagði Ingibjörg.
„Rammaáætlun 3 var samþykkt í upphafi þessa kjörtímabils en í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar var bent á mikilvægi þess að endurskoða rammaáætlun og þar með verndun heilu vatnasviðanna. Það þarf að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast hér og alls ekki útiloka virkjunarmöguleika til framtíðar. Þegar kostur er settur í verndarflokk í rammaáætlun er allt vatnasviðið verndað. Það hefur í för með sér að fleiri kostir á sama svæði sem gætu komið til greina komast ekki inn í rammaáætlunarferlið. Þetta útilokar kosti sem geta verið hagkvæmir en við vitum öll að vatnsföll á Íslandi eru ekki óþrjótandi. Mögulega þarf að skoða fleiri þætti þegar ákvörðun er tekin varðandi orkukosti, þætti er varða orkuöryggi, köld svæði og markmið ríkisstjórnar hverju sinni.“
„En það er afar ánægjulegt að sjá kollega mína hér á þingi loksins kveikja á perunni og átta sig á þeirri stöðu sem við erum í. Ég bind vonir við að yfirlýsingar þingmanna og heilu þingflokkanna séu ekki orðin tóm enda er ljóst að margir þessara þingmanna þurfa að taka U-beygju á sinni afstöðu, t.d. hvað varðar friðun og regluverk. Við þurfum að setja okkur markmið um hve mikillar orku við ætlum að afla til framtíðar og aðgerðaáætlun er lýtur að því hvernig við ætlum að afla hennar.
Ég vil nýta hér tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hversu mikillar orku hann telur okkur þurfa að afla til framtíðar og hvort ráðherra hafi sett upp aðgerðaáætlun til að afla þeirrar orku. Eins vil ég spyrja ráðherra hvort hann telji að í ljósi yfirvofandi orkuskorts sé þörf á frekari aðgerðum ríkisstjórnarinnar umfram sameiningu stofnana og ef svo er, hverjar þær eru,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Sjaldnast ekki annar valkostur en að ferðast til og frá flugvelli á bíl
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi fyrirhuguð bílastæðagjöld á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í störfum þingsins. Áformin áttu að koma framkvæmda nú um næstu mánaðarmót, en hefur verið frestað. Telur hún mikilvægt að áformin verði skoðuð, m.a. í tengslum við byggðastefnu og loftslagsmál.
„Hvaða áhrif hafa bílastæðagjöld á þessum stöðum, t.d. á aðgengi og kostnað við heilbrigðisþjónustu og nám?,“ sagði Líneik Anna.
Ræddi Líneik Anna að það hafi fengist viðurkenning með tilkomu loftbrúarinnar að innanlandsflug sé liður í almenningssamgöngum. Þannig sé tryggður aðgangur þeirra sem búa fjarri höfuðborginni að ýmiss konar sérfræðiþjónustu og menningarviðburðum.
„Í flestum tilfellum hafa þeir sem þurfa að nota flugvöllinn ekki annan valkost en að ferðast til og frá flugvelli á bíl. Ef bílastæðagjöldum verður bætt ofan á kostnaðinn vakna spurningar um hvort Sjúkratryggingar muni endurgreiða viðbótina. Verður bætt í ferðasjóð ÍSÍ eða verður bætt í Loftbrúna?,“ sagði Línek Anna að lokum
Ræða Líneikar Önnur í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Þingfundir þessa árs hefjast við þær aðstæður að hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum vegna þeirra náttúruhamfara sem þar ganga yfir. Öll veltum við fyrir okkur leiðum til að styðja við samfélagið, fjölskyldur og einstaklinga í þeim miklu breytingum á daglegu lífi sem þau standa öll frammi fyrir og vil ég senda mínar bestu óskir til allra Grindvíkinga. Við þurfum þétta samvinnu um allt samfélagið næstu daga og mánuði við að útfæra leiðir sem draga úr óvissunni og gott er að finna þann mikla vilja til samvinnu sem er hér á þinginu og í samfélaginu öllu varðandi þau málefni sem við þurfum að greiða úr.
En nú langar mig að koma inn á fyrirhuguð bílastæðagjöld á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum, áform sem áttu að koma til framkvæmda 1. febrúar en hefur verið frestað. Ég legg mikla áherslu á að áformin verði þá skoðuð í víðara samhengi, m.a. í tengslum við byggðastefnu og loftslagsmál. Hvaða áhrif hafa bílastæðagjöld á þessum stöðum, t.d. á aðgengi og kostnað við heilbrigðisþjónustu og nám? Innanlandsflug er mikilvægur liður í samgöngukerfi landsins og í því felst aðgangur þeirra sem búa fjarri höfuðborginni að ýmiss konar sérfræðiþjónustu og menningarviðburðum. Innanlandsflug er liður í almenningssamgöngum og á því fékkst nokkur viðurkenning með tilkomu loftbrúarinnar. Í flestum tilfellum hafa þeir sem þurfa að nota flugvöllinn ekki annan valkost en að ferðast til og frá flugvelli á bíl. Ef bílastæðagjöldum verður bætt ofan á kostnaðinn vakna spurningar um hvort Sjúkratryggingar muni endurgreiða viðbótina. Verður bætt í ferðasjóð ÍSÍ eða verður bætt í loftbrúna?“
Ríkisstjórnin hefur í dag kynnt áform um aðgerðir sem miða að því að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga og eyða þeirri óvissu sem hefur verið vegna fordæmalausra aðstæðna. Aðgerðirnar snúa að því að gera Grindvíkingum kleift að koma sér upp öruggu heimili, tryggja örugga afkomu og aðstoð við að bjarga verðmætum.
Brúa bil fyrir íbúa án þess að slá samfélagið af
Sigurður Ingi Jóhannssoninnviðaráðherra sagði að hingað til hefðu stjórnvöld verið í skammtímaúrræðum meðan vonir stóðu til að um skammtímavanda væri að ræða. Þær leiðir sem var farið í fyrr í vetur verða framlengdar. Einnig verður unnið að því að fjölga þeim íbúðum og húsum sem standa Grindvíkingum til boða.
Hann sagði að með því að ríkið eyddi óvissu Grindvíkinga gæfist þeim færi á að kaupa sér eigin húsnæði ef þeir vildu. Enn sé stór áskorun fram undan hvað varði greiðsluskjól og húsaskjól.
„Annars vegar eru við þess vegna að bæta í þær íbúðir sem leigufélagið Bríet er að kaupa og stækka þann hluta. Við erum að skoða aðrar leiðir sem geta komið til álita til meðallangs tíma eins og koma upp bráðabirgðahúsnæði fyrir einstaklinga þar sem væri hægt að koma fyrir þó nokkuð mörgum húseiningum. Það er líka áfram til skoðunar að flytja hér inn húseiningar til að auka hér framboð á markaði.“
Sigurður Ingi segir að um leið og það sé hægt að eyða óvissunni hjá íbúum þá geti það fólk farið út á markaðinn og keypt sér hús með því eigið fé það sem það á. „Með þessum hætti erum við að brúa bil fyrir fólkið án þess að slá af heilt samfélag. Og samfélagið sjálft þarf svolítið að taka þessa umræðu.“
Hann segir að bæjarfulltrúar Grindavíkur hafi verið jákvæðir gagnvart þessari nálgun.
„Við segjum líka að það geti vel komið til álita, ef hamfararnar halda áfram eða stækka, þá hreinlega þurfi hreinlega að taka hina ákvörðunina seinna.“
Frá því að atburðarásin sem enn er í gangi í Grindavík hófst þann 10. nóvember sl. hefur ríkisstjórnin fylgst grannt með stöðu mála. Í ljósi umfangs verkefnisins og áhrifa þess á hagkerfið, hefur ríkisstjórnin fundað með fjölmörgum aðilum í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Auk þess að funda með íbúum bæjarins og bæjarstjórn hefur ríkisstjórnin fundað með Veðurstofu Íslands, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, Seðlabanka Íslands, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun auk fjölda jarðvísindafólks og sérfræðinga innan og utan Stjórnarráðsins. Fyrr í dag funduðu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórn Grindavíkur um þá ákvörðun sem nú er greint frá. Þá funduðu þau einnig með forystufólki allra flokka á Alþingi.
Liðin er rétt rúm vika frá því við sáum hraun flæða inn í byggðina í Grindavík. Það var hrikalegt að sjá. Sú leið sem…
Ríkið mun skapa forsendur fyrir Grindvíkinga til að koma sér upp öruggu heimili á eigin forsendum. Ríkið mun gefa Grindvíkingum kost á að leysa út þá fjármuni sem bundnir eru í íbúðarhúsnæði þeirra auk þess að grípa til aðgerða til að tryggja framboð á íbúðarhúsnæði fyrir Grindvíkinga.
Óvissu vegna íbúðarhúsnæðis eytt: Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í Grindavík og þeirrar óvissu sem ríkir um búsetu í bænum á næstunni hefur ríkisstjórnin ákveðið að bjóða upp á að einstaklingar geti nýtt fjármuni sem nú eru bundnir í húsnæði þar til fjármögnunar nýrra heimila, óski þeir eftir því.
Framboð á húsnæði: Unnið verður markvisst að því að tryggja framboð á varanlegu húsnæði fyrir Grindvíkinga. Í því felst meðal annars að ríkið mun ráðast í uppbyggingu á húsnæði á tilteknum svæðum auk þess að skapa forsendur sem tryggja Grindvíkingum forgang að húsnæði. Einnig er unnið að því að þrengja skilyrði varðandi skammtímaútleigu íbúða.
Skammtíma húsnæði: Áfram verður unnið að því að tryggja Grindvíkingum húsnæði þar til þeir geta komið sér fyrir í varanlegu húsnæði. Bríet mun kaupa 50 íbúðir til viðbótar við þær 80 sem keyptar voru í desember og þær 70 sem unnið er að kaupum að þessa dagana. Jafnframt vinnur Bjarg íbúðafélag að því að kaupa 60 íbúðir fyrir Grindvíkinga í samræmi við samstarfsyfirlýsingu frá 24. nóvember. Í heild hefur ríkið þannig keypt 260 íbúðir frá upphafi tímabilsins.
Húsnæðislán hjá lífeyrissjóðum: Ríkið mun taka á sig greiðslu vaxta og verðbóta af húsnæðislánum í Grindavík hjá þeim sem kjósa að selja ekki húsnæði sitt til samræmis við aðgerðir bankanna.
Örugg afkoma
Ríkið mun halda áfram að tryggja Grindvíkingum örugga afkomu með húsnæðisstuðningi.
Framfærsla: Afkoma þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í Grindavík vegna aðstæðna verður áfram tryggð með framlengingu á stuðningi við greiðslu launa frá ríkinu auk framlags í lífeyrissjóð. Þetta fyrirkomulag verður í gildi til loka júní og verður endurskoðað og framlengt eftir því sem þörf krefur.
Húsnæðisstuðningur: Sértækur húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga verður uppfærður og framlengdur til loka júní. Stuðningurinn mun nú miða við fjölda heimilisfólks og verður allt að 90% af kostnaði við leigu í stað 75% áður til að ná betur utan um allan kostnað sem fellur til vegna leigu á húsnæði.
Örugg verðmæti
Frá því í nóvember hafa viðbragðsaðilar nýtt öll tiltæk ráð við að bjarga eins miklum verðmætum og hægt er frá skemmdum. Unnið verður áfram að því að Grindvíkingar geti fengið aðgengi og aðstoð við að bjarga verðmætum og innbúi frá heimilum sínum og koma í örugga geymslu.
Aðgengi: Áfram verður unnið með almannavörnum, bæjaryfirvöldum og viðbragðsaðilum að gera Grindvíkingum kleift að nálgast heimili sín til þess að sækja innbú og verðmæti þegar aðstæður leyfa.
Flutningar: Stjórnvöld eru að undirbúa samstarf við fyrirtæki sem sérhæfa sig í flutningum sem geta veitt aðstoð til þeirra Grindvíkinga sem ekki hafa tök á að annast slíkt sjálf við sækja verðmæti.
Geymslur: Unnið er að því að veita Grindvíkingum aðstoð við að fá aðgang að öruggu geymsluhúsnæði þar sem hægt er að geyma verðmæti og innbú á meðan þörf krefur.
Framkvæmd aðgerða
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar miðast við að útfærsla aðgerða og nauðsynleg lagafrumvörp muni liggja fyrir eigi síðar en snemma í febrúar að afloknu samráði við Grindvíkinga og aðra hagaðila. Áfram verður unnið náið með bæjarstjórn Grindavíkur að öllum þessum viðfangsefnum og einnig stutt við starfsemi sveitarfélagsins við þessar erfiðu aðstæður. Undirbúningur, greiningarvinna og samtöl við hagaðila er þegar hafin.
Sett verður á laggirnar samráðsnefnd með fulltrúum allra flokka á Alþingi undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið verður yfir ólíkar leiðir og útfærslur til að ná þessum markmiðum.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.