Categories
Fréttir Greinar

Tals­maður nýrra skatta, eða sann­girni?

Deila grein

20/01/2024

Tals­maður nýrra skatta, eða sann­girni?

Undanfarið hefur mér verið tíðrætt um svokallaðan hvalrekaskatt. Að setja á tímabundinn skatt, við þær óvenjulegar aðstæður sem nú eru uppi, á hagnað fjármálafyrirtækja sem sömuleiðis er tilkominn vegna óvenjulegra aðstæðna. Fyrir þetta hef ég fengið hvatningu, en líka gagnrýni þar sem ég er hluti af stjórnarmeirihluta og stjórnarþingmaður og þannig hafi ég þetta á mínu valdi. Ég hef líka verið kallaður popúlisti. Ég skil þetta allt saman, þrátt fyrir að vera einlægt ósammála því síðasta.

Ég ætla mér ekki að fara í vörn enda stend ég staðfastur með því sem ég segi. Hins vegar held ég að flestir þeir sem til mín þekkja viti vel að ég er ekki talsmaður óþarflega hárra skatta eða óþarfa skatta almennt. Aðrir hafa séð um það. Þetta geta allir séð sem skoða fyrri verk mín og okkar. Ég get sérstaklega bent á tíma minn sem formaður bæjarráðs í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili þar sem við vorum í góðu meirihlutasamstarfi. Það tímabil lækkuðum við til að mynda skatta á fyrirtæki umtalsvert og héldum sköttum á fólki hóflegum. Það sést vel þegar litið er til þess að lítil sem engin eftirspurn hafði verið eftir atvinnulóðum í bænum, en eftir 17 punkta lækkun á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði, þar sem við fórum úr 1,57 í 1,40, sóttu í Hafnarfjörð öflug fyrirtæki með tilheyrandi auknum umsvifum í bæjarfélaginu. Ég hef gagnrýnt sveitarfélög fyrir of miklar gjaldskrárhækkanir um áramótin við núverandi aðstæður. Hafa þau efni á því að „afsala“ sér þeim tekjum? Nei, í rauninni ekki þar sem hér hafa verið gerðar auknar kröfur um þjónustu án þess að tekjustofnar sveitarfélaga hafi breikkað. Hafa þau efni á því að vera með háa vexti á sínum lánum? Nei, það hafa þau svo sannarlega ekki, þar sem sveitarfélög eru mörg hver þegar of skuldug og hver prósenta í hærri vöxtum hefur þar umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélaga.

Það sem ég er hér að segja er þetta; það er verkefni allra að ná niður verðbólgu og vöxtum og styðja viðkvæma hópa. Geta bankar létt undir með fólki, já. Geta sveitarfélög og ríki lagt hönd á plóg, já. Geta önnur fyrirtæki tekið þátt með því að sleppa því að setja allar hækkanir beint út í verðlag – svarið hér er líka já og þar skiptir engu hvort um sé að ræða fyrirtæki á almennum eða opinberum markaði. Þetta gerum við einungis öll saman ef vel á að takast til og ná markmiðinu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

1,7 milljarða tekjur ferðaþjónustunnar á dag

Deila grein

18/01/2024

1,7 milljarða tekjur ferðaþjónustunnar á dag

Ferðaþjón­ustu­vik­an stend­ur yfir þessa dag­ana en mark­mið henn­ar er að auka vit­und um mik­il­vægi ferðaþjón­ustu og efla sam­starf og fag­mennsku í grein­inni með fróðlegri og skemmti­legri dag­skrá. Íslenskri ferðaþjón­ustu hef­ur vaxið fisk­ur um hrygg frá upp­hafi síðasta ára­tug­ar. Þannig hef­ur fjöldi er­lendra ferðamanna vaxið úr tæp­um 460 þúsund árið 2010 í rúm­ar 2,2 millj­ón­ir á síðasta ári. Ferðaþjón­ust­an hef­ur verið að ná aft­ur styrk sín­um, eft­ir áföll síðustu ára. Síðasta ár var næst­stærsta árið í ferðaþjón­ustu hér á landi, en stærsta árið var 2018 þegar rúm­ar 2,3 millj­ón­ir heim­sóttu landið. Sam­hliða hef­ur ferðaþjón­ust­an orðið að þeim burðarási í ís­lensku efna­hags­lífi sem skap­ar mest­ar gjald­eyris­tekj­ur. Þannig skapaði grein­in 448 millj­arða í gjald­eyris­tekj­ur árið 2022 en heild­ar­neysla inn­lendra og er­lendra ferðamanna hér á landi sama ár nam 635 millj­örðum kr., sem ger­ir um 1,7 millj­arða í tekj­ur á dag, en hlut­ur beggja hópa hef­ur vaxið mikið.

Sá mikli gjald­eyr­is­straum­ur sem ferðaþjón­ust­an skap­ar skipt­ir lítið, opið hag­kerfi eins og okk­ar gríðarlegu máli. Hann styður við gengi krón­unn­ar og stuðlar þannig að lægri verðbólgu en ella ásamt því að þjóna sem ör­ygg­is­sjóður ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem haft geta nei­kvæð áhrif á gjald­eyrisöfl­un. Um­turn­un varð á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins með til­komu og vexti ferðaþjón­ust­unn­ar, sem skap­ar stöðugan straum gjald­eyristekna, vel á ann­an millj­arð króna á degi hverj­um. Það má meðal ann­ars greina í stöðu gjald­eyr­is­varðaforða Seðlabank­ans og vax­andi eign­um líf­eyr­is­sjóða á er­lendri grundu.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur að sama skapi bætt bú­setu­skil­yrði í land­inu öllu, en um er að ræða stærstu sjálfsprottnu byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar. Hærra at­vinnu­stig hring­inn um landið sem og stór­aukið fram­boð af þjón­ustu í afþrey­ingu, gist­ingu, mat og drykk eða aðgengi að nátt­úruperl­um er eitt­hvað sem íbú­ar lands­ins jafnt sem er­lend­ir gest­ir njóta góðs af. Vissu­lega hafa fylgt vaxt­ar­verk­ir þeim öra vexti sem var á fyrri árum í komu er­lendra ferðamanna til lands­ins. Hins veg­ar hef­ur mjög margt áunn­ist á síðustu árum í að byggja upp nauðsyn­lega innviði til að taka á móti þess­um aukna fjölda.

Fjöl­mörg sókn­ar­tæki­færi eru til staðar til þess að gera enn bet­ur í þess­um efn­um til að stuðla að sjálf­bær­um vexti. Í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu er unnið af full­um krafti að gerð nýrr­ar ferðaþjón­ustu­stefnu til árs­ins 2030 ásamt aðgerðaáætl­un. Meg­in­stefið í henni er að ís­lensk ferðaþjón­usta verði leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf í sátt við land og þjóð. Við vilj­um styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar og skapa henni betri skil­yrði til að vaxa og dafna í takt við fyrr­nefnda framtíðar­sýn. Ferðaþjón­ustu­vik­an er ein­mitt góður vitn­is­b­urður um þann ár­ang­ur, kraft og viðnámsþrótt sem ein­kenn­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu. Ég óska grein­inni til ham­ingju með vik­una og hlakka til að kynna mér alla þá fjöl­breytni sem ferðaþjón­ust­an hef­ur að geyma á Manna­móti ferðaþjón­ust­unn­ar sem fram fer í Kórn­um í Kópa­vogi í dag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. janúar 2024.

Categories
Fréttir

Einar Þorsteinsson nýr borgarstjóri Reykjavíkur

Deila grein

16/01/2024

Einar Þorsteinsson nýr borgarstjóri Reykjavíkur

16. janúar 2024 markar stór tímamót í sögu Framsóknar í Reykjavík. Í dag fóru fram stólaskipti í Ráðhúsinu þegar Einar Þorsteinsson tók við embætti borgarstjóra fyrstur Framsóknarmanna. Til gamans má geta að fyrir 100 árum var Framsóknarfélag Reykjavíkur stofnað, það er því vel við hæfi að Framsóknarfélag Reykjavíkur fagni stórafmælinu með þessum hætti.

Einar leiddi lista Framsóknar í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum 14. maí 2022. Þar vann Framsókn stóran kosningasigur með tæp 19% atkvæða og fóru úr engum í fjóra borgarfulltrúa. Framsókn myndaði meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn eftir kosningarnar. Þá var einnig gert samkomulag að þáverandi borgarstjóri Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson myndu skipta milli sín embætti borgarstjóra á kjörtímabilinu.

Björg Magnúsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður borgarstjóra. Hún starfaði áður hjá Ríkisútvarpinu og gerði garðinn frægan í þáttunum Kappsmál. Björg brennur fyrir fjölskyldumálum og borgarmálum. Hana langar að leggja sitt af mörkum til að styðja við blómlegt stjórnmálastarf Framsóknar í Reykjavík.

Þá hefur Unnur Þöll Benediktsdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Framsóknar. Unnur Þöll var kosningastjóri í borgarstjórnarkosningum 2022 auk þess er hún varaborgarfulltrúi og fyrrum formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Hún starfaði einnig sem starfsmaður þingflokks Framsóknar um tíma. Unnur Þöll hefur lengi verið virk í starfi flokksins og því reynslumikil tenging inn í grasrótina.

Framsókn óskar Einari velgengni í nýju embætti og hvetur hans lið í Reykjavíkurborg til áframhaldandi góðra verka.

Hér að neðan má finna ræðu Einars sem hann flutti við borgarstjóraskiptin:

Forseti, ágæta borgarstjórn.

Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka fráfarandi borgarstjóra fyrir vel unnin störf í þágu borgarbúa. Fáir hafa sýnt Reykjavík jafn mikla ræktarsemi og Dagur B Eggertsson sem setið hefur í borgarstjórn frá árinu 2002 og sem borgarstjóri í rúman áratug.

Ég vil þakka borgarstjórn fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt með þessari atkvæðagreiðslu í dag. Ég finn sannarlega til þeirrar miklu ábyrgðar sem mér er falin með þessu starfi og ég hlakka til þess að þjóna borgarbúum úr stóli borgarstjóra Reykjavíkur.

Þegar ég tók þá ákvörðun í febrúar 2022 að bjóða mig fram til borgarstjórnar þá gerði ég mér kannski ekki alveg grein fyrir því út í hvað ég var að fara. Að stíga inn á vettvang stjórnmálanna er enda alltaf óvissuferð – en hún getur leitt mann á fallegar slóðir. Að fara í kosningabaráttu, ræða við íbúana, finna hvernig hjörtun slá og heyra hvað brennur á fólki er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert og ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem kjósendur sýndu Framsókn í síðustu kosningum. Sá stuðningur við Framsókn birtist hér í dag.

Nú eru 18 mánuðir liðnir frá því að við hófum þetta kjörtímabil. Og ég ætla ekki að halda því fram að það hafi allt verið dans á rósum. Áskoranirnar eru margar og þannig verður það áfram. Við höfum verið í stanslausri hagræðingu frá því að þessi meirihluti tók við og við verðum í henni áfram enda er markmiðið að skila afgangi á næsta ári – en það gerist ekki nema við höldum áfram þétt um budduna.

En hagræðing er ekki bara hagræðingarinnar vegna. Við erum hér öll inni með það sameiginlega markmið að vilja bæta þjónustuna við íbúa. En við munum ekki ná almennilegum árangri í því að bæta þjónustuna nema að reksturinn sé sjálfbær.

Forseti – Ég vil nefna aðeins samstarfið hér í borginni. Ég held að á þessu kjörtímabili hafi verið meiri sátt og meiri samvinna þvert á flokka í ráðum og nefndum borgarinnar en á síðasta kjörtímabili og ég tel að borgarbúum þætti ánægjulegt að sjá þá breytingu endurspeglast með enn sterkari hætti hér í borgarstjórnarsalnum. 

Hér eru reynslumiklir borgarfulltrúar í bland við nýtt fólk, öll með ólíkan bakgrunn, þekkingu og reynslu og í þessum hópi býr mikill mannauður – og öll höfum við umboð frá kjósendum.  Ég held að borgarbúar vilji að við vinnum saman og ég mun sem borgarstjóri leitast við að ná sátt um mál.  

Ég ætla ekki að fara að rekja öll þau áherslumál sem ég vil setja á oddinn á þessum tveimur og hálfu ári sem eftir eru af þessu kjörtímabili enda er þessi fundur ekki til þess ætlaður. En mig langar að nefna nokkur mál sem ég held að við getum öll, þvert á flokka, unnið saman að.

Við getum hjálpast að við að greiða fyrir húsnæðisuppbyggingu – sem er eitt mikilvægasta hagsmunamál Reykvíkinga og reyndar þjóðarinnar allrar í dag. Þar þurfum við að stíga með ákveðnari hætti inn í málaflokkinn, leita nýrra leiða til þess að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkt hefur undanfarin misseri aðallega vegna vaxtastigs og mikillar verðbólgu.

En svo vil ég minnast á börnin og framtíð þeirra. Leik- og grunnskólastarf borgarinnar er eitt okkar allra mikilvægasta verkefni. Við þurfum að styðja við skólastarfið með ákvörðunum okkar, en ég held að það skipti líka miklu máli að tala fallega um það metnaðarfulla starf sem er unnið á hverjum einasta degi.

Við getum verið sanngjörn við börnin og foreldrana í borginni þegar við ræðum um PISA, og við þurfum að sýna kennurum og skólafólki virðingu og þakklæti fyrir þeirra krefjandi starf – því ég held að kennarastarfið hafi aldrei verið meira krefjandi en nú um stundir þegar bakgrunnur nemenda verður sífellt fjölbreyttari.

Munum líka að Reykjavík er dásamleg borg. Hún er höfuðborg Íslands og við getum verið stolt af öllu því góða sem við eigum saman, Reykvíkingar. Okkar dásamlega menningar og íþróttastarfsemi, grænu svæðin, samfélag eldri borgara, lifandi næturlíf, öflug fyrirtæki, háskólasamfélag og blómlegt mannlíf í öllum hverfum.

Og vinnustaðurinn Reykjavík er afar mikilvægur – og þegar við ræðum um starfsmannafjölda og vinnandi hendur í samhengi við rekstur borgainnar, þá er rétt að hafa vakandi auga fyrir aðhaldi – en höfum þá í huga að langflestar eru þessar vinnandi hendur að veita þjónustu. Þær eru að leiða lítil börn á leikskólum, skrifa með tússpenna á töflu í kennslustofu, aðstoða fatlaðan einstakling við daglegt líf, moka snjó eða hirða sorp. Verum ánægð með það sem við erum að gera um leið og við erum metnaðarfull í að gera enn betur.

Beinum sjónum okkar að málefnum dagsins í dag. Það er vissulega afar mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn – en munum að framtíðin er ekki bara eftir 10-20 eða 30 ár. Framtíðin er líka á morgun.

Forseti, aftur. Ég þakka borgarstjórn fyrir traustið og hlakka til samstarfsins við borgarstjórn.

Ljósmynd: Róbert Reynisson

Categories
Fréttir

„Það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd“

Deila grein

15/01/2024

„Það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

Markmið tillögunnar er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna og aukinn hvata til þess. Tillagan er í samræmi við íþróttastefnu stjórnvalda sem var lögð fram árið 2019.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.“

„Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða sinni íþróttaþátttöku vegna þess — og það þekki ég ágætlega þrátt fyrir að hafa ekki verið afreksmaður sjálfur, en hafandi verið sveitarstjórnarfulltrúi og þurft að taka á málum sem þessum — að fyrirtæki veigra sér við því að ráða starfsmenn sem þurfa að vera mikið frá vinnu vegna tíðra æfinga og keppnisferða,“ sagði Ágúst Bjarni.

Keppnisíþróttafólk er þá í þeirri stöðu að velja hvort það eigi halda áfram æfingum og keppni, með óvissa framfærslu sína eða hreinlega að hætta keppni, enda þurfa einhverjir mögulega að sjá fyrir fjölskyldu.

„Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk auk þess ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur, rétt til þess eða fæðingarorlofs,“ sagði Ágúst Bjarni

Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur sett af stað ákveðna vinnu í gang til að styrkja alla umgjörð í kringum afreksíþróttastarf.

„En það breytir því ekki að við erum með aðra hlið á peningnum sem þessi tillagan gengur aðallega út á, að það sé hvati hjá fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og öðrum að ráða til liðs við sig þessa einstaklinga. Það skiptir mjög miklu máli að mínu mati að þessi hvati sé til staðar,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Ég myndi halda að það væri mjög jákvætt fyrir flest fyrirtæki að fá slíka einstaklinga til liðs við sig. Það er alveg sama hvert er litið, hvernig þessir einstaklingar borða, æfa og slíkt, það er ákveðin einbeiting og fókus sem kemur með slíku fólki sem ég myndi halda að væri til bóta eins og ég hef áður sagt,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Það er nú þannig að ef einhvern tíma næst samstaða í samfélaginu okkar þá er það þegar okkar fólki gengur vel á alþjóðavettvangi og það er í raun sama í hvaða íþróttagrein það er, það myndast einhvern veginn alltaf ákveðið stolt, alveg sama hver á í hlut, af fólkinu okkar og við erum mjög glöð öll sem eitt að taka á móti fólki og fagna því og lyfta því upp þegar vel gengur. En það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd. Það verður að tryggja þessu fólki nauðsynlega og góða umgjörð til að styrkja það í því verkefni sínu að ná árangri á alþjóðavettvangi og það hafi getu og burði til þess að standa til jafns við mótaðilann, ef svo má segja, fólk annars staðar í heiminum sem er að keppa í sömu greinum, það geti staðið þeim einstaklingum jafnfætis,“ sagði Ágúst Bjarni.


Categories
Fréttir

„Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum“

Deila grein

11/01/2024

„Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf.

Markmið tillögunnar er að eiga áhrifaríka aðferð svo að leggja megi mat á bein og óbein áhrif ákvarðana og lagasetningar af hálfu stjórnvalda í þágu lýðheilsu samfélagsins. Ákvarðanir löggjafarvaldsins eru þá teknar með aukinni þekkingu á mögulegum áhrifum löggjafar á lýðheilsu fólks. Tillagan er og í góðu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en í sáttmálanum er kveðið á um aukna áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál.

TILLÖGUGREININ HLJÓÐAR SVO:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að ljúka vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags, sveitarfélaga og embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar. Hópurinn skal skila stöðuskýrslu sem kynnt verði Alþingi eigi síðar en 1. maí 2024.“

„Á síðustu áratugum hafa lífslíkur aukist verulega hér á landi og aldurssamsetning þjóðarinnar hefur tekið breytingum í kjölfarið. Þannig gerir mannfjöldaspá Hagstofunnar ráð fyrir því að 65 ára og eldri verði 20% mannfjöldans árið 2037 og yfir 25% árið 2064. Þetta þýðir að sífellt færri verða á vinnufærum aldri á bak við hverja 65 ára og eldri, byrði langvinnra sjúkdóma aukast ásamt því að ýmsar áskoranir munu herja á samfélagið m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ef ekki er brugðist við þessari stöðu með markvissum hætti er ljóst að kostnaður og þjónustuþörf mun aukast umtalsvert innan heilbrigðiskerfisins sem og öðrum þáttum stjórnsýslunnar,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Skipta má áhrifum á heilsu niður í fimm meginþætti og greinast þeir frá víðum áhrifum niður í sértæk áhrif. Fyrst má nefna áhrif löggjafar af hálfu stjórnvalda, áhrif samfélagsins, áhrif stofnana, áhrif ýmissa hópa í samfélaginu og síðast en ekki síst persónulega þætti sem telja má til sértækra áhrifa. Ef horft er til arðsemissjónarmiða og sannreyndra fyrirbyggjandi aðgerða, skilar löggjöf mestum heilsufarslegum ábata fyrir heildina. Því er talið mikilvægt að stjórnvöld meti áhrif löggjafar út frá lýðheilsusjónarmiðum á sama hátt og mat er lagt á löggjöf út frá til að mynda jafnréttissjónarmiðum, umhverfisáhrifum, kostnaði og fleiri þáttum.“

„Lengi hafa ríki verið hvött til að innleiða lýðheilsumat í löggjöf í sínu landi. Hér á landi hefur embætti landlæknis kallað eftir slíkri innleiðingu. Hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ásamt Sameinuðu þjóðunum gert slíkt hið sama. Ef marka má umræðu og aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum má ætla að breið samstaða sé um að Ísland taki sér Finnland til fyrirmyndar og innleiði lýðheilsumat. Hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson hefur lagt mikla áherslu á málaflokkinn og helgaði heilbrigðisþing í fyrra lýðheilsu, heilsueflingu, forvörnum og heilsulæsi. Í drögum að aðgerðaáætlun um lýðheilsustefnu sem kynnt var hér á Alþingi var innleiðing á lýðheilsumati ein af aðaláherslum.

Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum,“ sagði Jóhann Friðrik.


Categories
Fréttir Greinar

Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Deila grein

11/01/2024

Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Verðbólga og háir vextir hafa áhrif á samfélagið allt þar sem byrðar fólks og fyrirtækja þyngjast með hverjum deginum. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum að stjórnmálin um heim allan eru með vindinn í fangið þessi misserin. Hækkanir á hækkanir ofan dynja á almenningi víða um heim og við hér á Íslandi erum ekki undanskilin og finnum fyrir þeim. Þá gildir einu hvort við séum að horfa á húsnæðislánin okkar, matarkörfuna, tryggingarnar eða hvað eina annað. Afleiðingar af þessum hækkunum eru að almenningur í landinu fær minna fyrir krónurnar sínar.

Við höfum oft og tíðum rætt um „venjulegt“ fólk og hina „venjulegu“ fjölskyldu; fólkið sem af einhverjum ástæðum fellur oft á milli skips og bryggju í hinni daglegu umræðu. Hér er um að ræða hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli, hver sem ástæðan er fyrir því, hvort sem það er vegna þess að sá hópur telst ekki vera í viðkvæmri stöðu eða til minnihlutahóps. Hann hefur ekki hátt og er í raun nokkuð ósýnilegur ef svo má segja. Hann mætir til vinnu, hugsar um fjölskylduna, eldar matinn og borgar reikninga. Þessa hversdagslegu hluti og lífið gengur sinn vanagang dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Líkt og hamstur í hjóli.

Við teljum að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta haft hátt um stöðuna eða telja sig jafnvel ekki eiga rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki meðal þeirra tekjulægstu, en eru ólík og bera oft mikið álag. Þetta er hópurinn sem heldur samfélaginu á gangandi og það er því til mikils að vinna að grípa inn í og létta undir þeim sem þyngstar bera byrðarnar í því árferði sem nú geisar.

Hvalrekaskattur – „við og þið“ eða „við og hinir“

Okkur hefur verið það tíðrætt síðustu mánuði að ef við ætlum okkur að ná tökum á ástandinu þurfa allir að taka þátt í því verkefni. Að taka þátt þýðir m.a. að stíga ölduna með fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Við erum að sjá mikinn hagnað viðskiptabankanna þriggja þar sem bæði þjónustutekjur og vaxtatekjur þeirra eru að hækka umtalsvert. Þetta er tilkomið vegna þess að vaxtabyrði „venjulegs“ fólks er að aukast. Það er ekki annað að skynja á umræðunni að upplifun fólks sé sú að hér á landi sé að skapast samfélag sem megi kalla „við og þið“ eða „við og hinir“. Við fréttir sem þessar verður það upplifun fólks, sem alls ekki má vanmeta, að hér séu ekki allir að taka þátt og leggja sitt að mörkum til að rétta skútuna og það er vont að finna fyrir þeirri tilfinningu. Almenningur er að taka á sig auknar byrðar með ýmsum hætti og það gengur ekki að hér séu aðilar, stórfyrirtæki og aðrir, sem halda að þeir séu eyland í þessu samfélagi sem við byggjum saman. Við erum í tímabundnu ástandi, sem kallar á óvenjulegar tímabundnar aðgerðir. Af þessari ástæðu teljum við það koma vel til greina að skattleggja hagnað og arðgreiðslur alveg sérstaklega og styðja enn markvissari hætti við þá hópa sem nú standa í miðjum ólgusjó. Annað er hreinlega ósanngjarnt.

Gerð langtíma kjarasamninga

Jákvæður tónn var sleginn í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði þegar sameiginleg yfirlýsing var send út nú rétt fyrir áramót. Í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið mikilvægi þess að semja til lengri tíma svo auka megi fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi yfirlýsing er skynsamlegt innlegg í okkar mikilvægasta verkefni sem er að ná niður verðbólgu og háum vöxtum og hefur hvarvetna fengið jákvæð viðbrögð. Mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu til lengri tíma er óumdeilanlega að ná niður vöxtum.

Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum. Þó svo að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni hafa aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Þar teljum við meðal annars nauðsynlegt að rýna í stöðu barnafjölskyldna á Íslandi með það að markmið að skoða með hvaða hætti og hvaða aðgerðum er hægt að beita til að koma enn betur til móts við þann þunga róður sem margar fjölskyldur standa frammi fyrir þessa stundina. Það er staðreynd að við þurfum að einbeita okkur betur að barnafjölskyldum. Það er hreinlega lýðheilsumál, því ekki viljum við sjá þennan aldurshóp brenna upp í báða enda fyrir fimmtugt sem yrði samfélagslega mjög dýrt.

Húsnæðismarkaður í jafnvægi

Líkt og fyrr segir þá heldur enginn hér á fríspili; ekki ríkið, ekki sveitarfélög, ekki Seðlabankinn og ekki fyrirtækin í landinu. Ábyrgðin er okkar allra. Rörsýn Seðlabankans hefur verið of mikil og of mikill skortur er á sýn á stóru myndina, heildarsamhengi hlutanna til framtíðar, og hvert við erum raunverulega að stefna. Við þurfum framtíðarsýn og þora að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina eftir 2, 3, 5 eða 10 ár. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa haft verulega neikvæð áhrif á framboðshlið húsnæðis og hert lánþegaskilyrði hafa það einnig, en gera það á öðrum enda. Annars vegar er dýrt að byggja íbúðir vegna hárra vaxta og hins vegar er erfitt að selja íbúðir vegna hertra lánþegaskilyrða Seðlabankans. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp og hefur letjandi áhrif á uppbyggingaraðila og þar með fasteignamarkaðinn sem er alls ekki það sem við þurfum núna. Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

Snjóhengja kynslóða er að myndast sem mun svo á einhverjum tímapunkti ryðjast út á markaðinn, stíflan mun bresta og þá, ef ekki verður gefið vel í með annars vegar opinberum aðgerðum líkt og innviðaráðherra hefur ráðist í með aðgerðum í almenna íbúðakerfinu, þar sem stofnframlög voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin, og hins vegar á almennum byggingamarkaði. Þurfum að þora að taka ákvarðanir sem byggja á framtíðarsýn því ef við stígum ekki þessi nauðsynlegu skref þá munum við sjá skarpari sveiflu með tilheyrandi neikvæðum áhrif á landsmenn en þær sem við þegar þekkjum og erum að reyna að komast út úr.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar  
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 10. janúar 2024.

Categories
Fréttir

Ný þjóðarhöll

Deila grein

10/01/2024

Ný þjóðarhöll

Stofnað hefur verið félag sem mun standa að byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal, Þjóðarhöll ehf.

„Í dag áttu sér stað mikil tímamót þegar formlega var stofnað til félags sem mun standa að byggingu nýrrar þjóðarhallar. Með byggingu nýrrar þjóðarhallar stórbætum við aðstöðu fyrir afreksíþróttafólk okkar og notendur auk þess sem við aukum samkeppnishæfni borgar og þjóðar á alþjóðavísu,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Fyrsta verk Þjóðarhallar ehf. er að efna til forvals og  samkeppni um hönnun og byggingu þjóðarhallarinnar. Auk þess  tekur félagið við verkefnum framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í Laugardal sem lætur af störfum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu samning milli ríkis og Reykjavíkurborgar um stofnun félagsins í dag.

Stórbætt aðstaða fyrir alþjóðlega keppnisviðburði, íþróttafélög og skólabörn

Í samningnum er byggt á tillögum starfshóps um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga í íþróttum. Höllin mun rísa sunnan við Laugardalshöll upp að Suðurlandsbraut og verður 19.000m2 að stærð. Samkvæmt frumathugun framkvæmdanefndar er miðað við að byggingin muni taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 á tónleika. Til samanburðar rúmar Laugardalshöll 5.500 gesti hið mesta.

Einhugur ríkir um að mannvirkið muni nýtast vel sem þjóðarhöll í íþróttum og uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra keppnisviðburða. Þjóðarhöllin mun stórbæta aðstöðu fyrir íþróttafélög og skóla í nágrenni Laugardals fyrir kennslu, skólaíþróttir, æfingar og keppni. Þá verður þjóðarhöllin mikilvæg miðstöð fyrir afreks- og almenningsíþróttir og mun nýtast fyrir viðburði tengdum menningu og atvinnulífi.

Kostnaður í samræmi við notkun

Eignarhlutur ríkisins við stofnun félagsins er 55% og eignarhlutur Reykjavíkurborgar er 45%. Kostnaðarskiptingin byggist á úttekt á þörfum hvors aðila fyrir sig á notkun þjóðarhallarinnar.

Stofnun félagsins um byggingu þjóðarhallar byggist á viljayfirlýsingu milli ríkis og Reykjavíkurborgar frá 6. maí 2022, stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar. Hann byggist einnig á heimild í fjárlögum fyrir 2024 um stofnun félags um þjóðarhöll og upplýsingum úr frumathugun framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í Laugardal sem kynnt var þann 16. janúar 2023.  

Mikilvæg uppbygging til framtíðar

Laugardalshöll hefur þjónað þjóðinni vel en uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðakeppni í dag. Tímabært er að ráðast í hönnun á nýju mannvirki, uppbyggingu til framtíðar sem eykur samkeppnishæfni borgar og þjóðar á alþjóðavísu. Hjarta íþróttastarfs á Íslandi verður áfram í Laugardalnum með stórbættri aðstöðu fyrir alla notendur og almenning og samnýtingu á þeim mannvirkjum sem fyrir eru.

Ný þjóðarhöll Tímamót í sögu íþrótta á Íslandi áttu sér stað í dag þegar við Katrín Jakobsdóttir, Þórdís Kolbrún…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Miðvikudagur, 10. janúar 2024
Categories
Fréttir

Börn búi við öryggi án ofbeldis og ógnar

Deila grein

10/01/2024

Börn búi við öryggi án ofbeldis og ógnar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldi.

Markmið tillögunnar er að ganga enn frekar í miðlun upplýsinga. Að „núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda barnaverndaryfirvöldum, félagsmálayfirvöldum og heilbrigðisyfirvöldum sem og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu, ávallt með það að leiðarljósi að tryggja persónuverndarsjónarmið hvað miðlunina varðar“.

Tillögugreinin hljóðar svo:

    „Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í desember 2023.

Tilkynningar þolenda til lögreglu um heimilisofbeldi koma síður fram enda gerandinn oft nákominn. Eins á það við í smærri samfélögum þar sem allir þekkja alla og verið þungbært fyrir þolenda að tilkynna um heimilisofbeldi. Mikilvægt er að stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð.

„Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. Til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi þarf skýrari lagaheimildir til upplýsingamiðlunar,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Það er breið pólitísk samstaða um málið og við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að við grípum styrkum höndum utan um þennan viðkvæma hóp og brjótum upp ákveðinn vítahring sem myndast hefur í þessum málum. Við höfum verið að stíga stór og stöndug skref í áttina að því að bæta verkferla hjá lögreglu og þá hefur einnig verið gripið til mikilvægra réttarúrbóta fyrir þolendur ofbeldis. Baráttunni er þó ekki lokið og við erum enn að sjá allt of háar tölur um tíðni heimilisofbeldis,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Ég bind miklar vonir við að við getum tryggt þessu máli framgang og auðveldað þá upplýsingamiðlun sem hér um ræðir því að við verðum að skapa þær forsendur í okkar samfélagi fyrir fjölskyldur og fyrir börnin okkar að þau búi við öryggi. Þau eiga að njóta þeirra grundvallarréttinda að búa við öryggi án ofbeldis og ógnar á þeim stað sem á að vera friðhelgur griðastaður. Við eigum öll þann skilyrðislausa rétt skilið,“ sagði Hafdís Hrönn.


Categories
Fréttir Greinar

Dreifingu fjölpósts hætt

Deila grein

09/01/2024

Dreifingu fjölpósts hætt

Íslandspóstur ákvað að hætta alfarið að dreifa fjölpósti við upphaf árs 2024. Fyrir fjórum árum var hætt að dreifa fjölpósti á suðvesturhorni landsins. Íbúar á því svæði urðu þó ekki varir við það enda er þar virk samkeppni um verkefnið og önnur fyrirtæki tóku að sér að dreifa fjölpósti. Það má hins vegar ætla að víða í dreifbýli og á minni þéttbýlisstöðum muni enginn grípa boltann. Því muni íbúum ekki lengur berast fjölbreytt efni sem hingað til hefur verið dreift með fjölpósti.

Pósturinn segir í tilkynningu að þessi ákvörðun sé í takt við umhverfisstefnu Póstsins og þar með sé verið að draga úr sóun og losun koltvísýrings. Vissulega er það þannig að þeim fækkar sem senda frá sér fjölpóst en nýta þess í stað rafræna miðla til að koma upplýsingum á framfæri. Það er þó erfitt að koma auga á umhverfisábata þar sem landpóstar munu eftir sem áður keyra um dreifbýlið tvisvar í viku.

Sparnaður á kostnað íbúa í dreifbýli eða tekjutap póstsins?

Það er ekki nóg að vísa til umhverfisstefnu þegar kemur að slíkri þjónustuskerðingu á landsbyggðinni. Í nóvember fóru fulltrúar Framsóknar í umhverfis og samgöngunefnd Alþings fram á að nefndin óskaði eftir frekari upplýsingum um forsendur ákvörðunar Íslandspóst, um að hætta alfarið dreifingu fjölpósts þann 1. janúar 2024. Nefndin óskaði í framhaldi eftir upplýsingum um hvað þessi ákvörðum myndi spara félaginu, annars vegar við að hætta dreifingu fjölpósts í dreifbýli og hins vegar í þéttbýli með 1000 eða færri íbúum. Svarið sem barst var að fyrirtækið sjái ekki ástæðu til að taka saman þær upplýsingar sem beðið var um og vísar til þess að um sé að ræða upplýsingar sem Alþingi eigi ekki rétt á þar sem fyrirtækið væri nú opinbert hlutafélag.

Í tengslum við fyrirspurnina bendir Íslandpóstur á að dreifing fjölpósts fellur ekki undir alþjónustu, sem Íslandspósti er skylt að veita um land allt skv. lögum. Ákvörðun um hvort dreifa eigi fjölpósti eða ekki, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu, þéttbýli eða dreifbýli á landsbyggðinni er því í öllum tilvikum rekstrarleg ákvörðun sem tekin er af stjórn og stjórnendum félagsins. Þessi ákvörðun félagsins sætir því engri sérstakri ytri skoðun, og gildir þá einu hvort um er að ræða Byggðastofnun eða Alþingi.

Dreifum gleðinni

Eitt að slagorðum Íslandspósts er „Dreifum gleðinni“ og hlutverk hans er að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög. Samkvæmt lögum veitir Íslandspóstur viðskiptavinum alhliða póstþjónustu, óháð staðsetningu og framtíðarsýnin er að vera fyrsta val viðskiptavina með því að veita framúrskarandi þjónustu. Íslandspóstur er opinbert fyrirtæki og starfar undir lögum um póstþjónustu. Skylda Póstsins er að veita alþjónustu sem nær til bréfa allt að 2 kg og pakka allt að 10 kg innan lands. Þannig að dreifing fjölpósts fellur ekki þar undir. Eftir breytingarnar verður eftir sem áður hægt að senda markpóst, t.d. bæklinga og auglýsingarefni, sem almennt bréf en hann mun þá lúta skilmálum bréfa varðandi verðskrá, dreifingarplan og nafnamerkingu og kostar því bæði meira að undirbúa sendingar og dreifa þeim. Íslandspóstur dreifir því „fjölpósti“ en gjaldskráin hefur hækkað að því marki að það borgar sig varla að nýta sér þá þjónustu þar sem kostnaðurinn eykst um allt að 600%.

Gleðin daprast þegar ákvörðunin kemur sannarlega niður á þeirri þjónustu sem Pósturinn hefur veitt s.s. við dreifingu héraðsfréttamiðla og Bændablaðsins. Það fer að þrengjast um rekstur slíkra miðla þegar það svarar engan veginn kostnaði að dreifa þeim til lesenda og ólíklegt að þeir nýti póstinn til þess áfram. Hvort skyldi ríkisjóður nú þurfa að greiða minna eða meira með rekstri Íslandspósts eftir þessa ákvörðun?

Dreifum menningu og upplýsingum

Það er staðreynd að bréfapósti hefur fækkað mikið en það má ekki koma niður á þeirri þjónustu sem er þó enn nýtt. Það er mikilvægt hlutverk póstsins að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög og veita þjónustu óháð staðsetningu. Að tengja saman fólk og samfélög er að miðla upplýsingum og fréttum það er m.a. gert með svæðisbundnum miðlum. Félagssamtök gefa einnig út blöð og bæklinga og svo ekki sé talað um blöðunga sem er dreift fyrir kosningar. Þar eru mikilvægar upplýsingar sem þurfa að komast til fólks.

Það er mikilvæg að dreifa gleðinni, upplýsingum og fréttum. Pósturinn hefur staðið sig vel í því hlutverki í aldir og það er mikilvægt að missa ekki sjónar af því. Pósturinn þarf líka að svara því hvað þessi ákvörðun skiptir miklu í rekstrarlegu tilliti og hvað sparast í útblæstri við ákvörðunina. Við hin getum alveg reiknað út hvað þetta þýðir í þjónustuskerðingu fyrir hinar dreifðu byggðir.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Deila grein

09/01/2024

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Það hef­ur ekki dulist nein­um að há verðbólga og vext­ir hafa komið illa við fólk og fyr­ir­tæki á síðustu miss­er­um. Það er því til mik­ils að vinna að ná verðbólg­unni niður og skapa þannig skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta. Há verðbólga gerði vart við sig í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins í fjöl­mörg­um ríkj­um með til­heyr­andi áskor­un­um fyr­ir hag­stjórn. Ísland fór ekki var­hluta af þeirri þróun í heims­bú­skapn­um þar sem hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa fram­kallað mikl­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn sér ekki fyr­ir end­ann á þeim.

Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu.

Það er göm­ul saga en ekki ný að há verðbólga bitn­ar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnam­inni. Helsta keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar hér­lend­is er að ná tök­um á verðbólg­unni. Hún hef­ur vissu­lega lækkað frá því að hún mæld­ist hæst 10,2% í fe­brú­ar­mánuði 2023, en í dag mæl­ist hún 7,7%. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að háir stýri­vext­ir Seðlabank­ans séu farn­ir að bíta en á ár­inu 2023 slógu þeir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama tíma og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Þá var sam­drátt­ur í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Hag­kerfið kom af mikl­um krafti út úr far­aldr­in­um og mæld­ist hag­vöxt­ur ríf­lega 7% á ár­inu 2022 og fór viðskipta­jöfnuður úr skorðum. Á þessu ári er spáð meira jafn­vægi í þess­um efn­um með tæp­lega 3% hag­vexti og já­kvæðum viðskipta­jöfnuði.

Næstu vik­ur skipta höfuðmáli í glím­unni við verðbólg­una en ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar eru nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar er stóra breyt­an kom­andi kjara­samn­ing­ar sem nú er unnið að. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um. Rík­is­stjórn­in stóð fyr­ir aðhalds­söm­um fjár­lög­um, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir taka­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Það hef­ur einnig verið já­kvætt að sjá fleiri sveit­ar­fé­lög draga úr boðuðum gjald­skrár­hækk­un­um, nú síðast Hvera­gerðis­bær sem mun hækka gjald­skrár um 2,5% í stað 8% eins og boðað hafði verið.

Í þessu verk­efni verða all­ir að leggja sitt af mörk­um enda mikið í húfi. Það er samt sem áður til­efni til bjart­sýni í ljósi þess já­kvæða tóns sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins. Það er mik­il­vægt að vinna áfram í þeim anda og stuðla að því að skrifað verði und­ir lang­tíma­kjara­samn­inga sem skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta, en í því felst stærsta kjara­bót­in fyr­ir okk­ur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2024.