Categories
Greinar

Bjartar vonir veikjast

Deila grein

30/05/2017

Bjartar vonir veikjast

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður

Bjartar vonir vöknuðu hjá Eyjamönnum og öðrum fyrir nokkrum árum síðan þegar ákvörðun var tekin um að byggja nýja höfn í Landeyjum og smíða nýja ferju. Í áratugi höfðu Eyjamenn búið við brotakenndar samgöngur. Fréttin af höfninni og ferjunni breiddist út og fólk sem hafði flutt frá Vestmannaeyjum, m.a. vegna slæmra samgangna, flutti nú heim aftur. Aðrir stofnuðu fyrirtæki til að geta tekið á móti ferðamönnum og fóru í því skyni út í umtalsverðar fjárfestingar.

Ferðaþjónustan í uppnámi
Nú, mörgum árum síðar, er staðan enn slæm og ekki fyrirséð að hún batni í bráð af fjölmörgum ástæðum. Íbúar í Vestmannaeyjum, sem hafa haldið í vonina um úrbætur, eru sumir við það að gefast upp á biðinni eftir bættum samgöngum. Ferðaþjónustan er í uppnámi en nú þegar hefur einn aðalmánuðinn af vertíðinni, af fjórum, nánast fallið niður. Skaði samfélagsins er gríðarlegur en hann er þó ekki eingöngu mældur í krónum og aurum, því miður.

Svarleysi
Nýlega var haldinn fjölsóttur fundur í Höllinni þar sem íbúar komu saman og ræddu samgöngumál, fóru yfir stöðuna og hver yrðu næstu skref. Þar kom fram að smíði nýrrar ferju er hafin en óvíst er með hvað eigi að gera til að gera varðandi nauðsynlegar úrbætur á Landeyjahöfn. Hvar er t.d. sanddælubúnaðurinn fyrir höfnina sem lofað var? Verður gamli Herjólfur látinn sigla áfram til Þorlákshafnar þegar nýja ferjan kemur til að tryggja flutninga á milli lands og Eyja? Hvers vegna þurfa Eyjamenn t.d. að borga háa vegatolla af sínum þjóðvegi þegar aðrir landsmenn þurfa ekki að gera það? Engin svör fengust við þessum spurningum á fundinum.

Óánægja með verð og tímatöflu
Rekstraraðili Eimskips í Eyjum fékk fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar varðandi bætta þjónustu og aðbúnað um borð. Fólk gagnrýndi tímatöfluna, bókunarkerfið og vildi fá nánari upplýsingar um samning Eimskips í þeim tilgangi að átta sig betur á verðlagningu farmiða. Fátt var um svör en ljóst að útboð verður á rekstrinum í haust og Eimskip hyggst sækjast eftir að fá umboðið. Sumir töldu að rekstrinum verði betur fyrirkomið hjá sveitarfélaginu og þá hugmynd ber að skoða vandlega. Að fundi loknum hafði undirrituð orðið örlítið vísari um sögu Herjólfs en vissi litlu meir en áður um næstu skref málsins. Ljós er að íbúar eru langþreyttir og hundóánægðir með ástandið.

Ferðin með Baldri
Heimferðin frá Vestmannaeyjum var svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar sem flugið féll niður vegna veðurs stökk undirrituð um borð í Baldur. Eftir þá viðbjóðslegu sjóferð spyr maður sig óhjákvæmilega að því, hvaða snillingi datt í hug að taka bátinn af Vestfirðingum og skerða þeirra samgöngur enn frekar niður og senda hann suður til siglinga á milli lands og Eyja? Báturinn er alls ekki gerður fyrir úthafssiglingar og skoppaði um í umtalsverðri ölduhæð eins og korktappi. Eftir klukkustund náðum við til lands og martröðinni var lokið. Ég mun jafna mig á sjóveikinni og hef heitið því að stíga ekki um borð í dallinn aftur. Íbúar í Vestmannaeyjum hafa hins vegar ekkert val þar sem kerfið okkar er þannig að ákveðin grunnþjónusta er staðsett uppá landi, svo sem fæðingarþjónusta en sú umræða er efni í aðra grein.

Planið
Þingmenn kjördæmisins munu án efa halda áfram að beita sér fyrir bættum samgöngum til Vestmannaeyja enda er ekki um flokkspólitískt mál að ræða heldur samfélagslegt réttlætismál. Opinn fundur bæjaryfirvalda með ráðherra samgöngumála og yfirmönnum Vegagerðarinnar sem halda á í kvöld er löngu tímabær. Þar á að krefjast svara um verkáætlun og tímalínu. Við þingmenn getum spurt og talað en samband við framkvæmdavaldið er nauðsynlegt ef árangur á að nást.
Ég mæti, ef það verður fært…

Grein eftir Silju Dögg Gunnarsdóttur sem birtist 30. maí 2017 í Eyjafréttum.

Categories
Greinar

Iceland er okkar!

Deila grein

26/05/2017

Iceland er okkar!

Yfirgangur bresku verslanakeðjunnar Iceland skal stöðvaður. Nýlega var mál stjórnvalda gegn bresku verslanakeðjunni Iceland kynnt af fulltrúum Íslands á fundi nefndar Alþjóðahugverkastofnunarinnar um vörumerki, hönnun og landfræðilegar tilvísanir. Verslanakeðjan hefur um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópu á vörum sínum og þjónustu.

Forsaga málsins er sú að í nóvember sl. greip utanríkisráðuneytið til lagalegra aðgerða gegn bresku verslanakeðjunni Iceland vegna óbilgirni fyrirtækisins.

Breska fyrirtækið hefur einkarétt á nafninu Iceland í öllum löndum Evrópusambandsins. Íslensk stjórnvöld krefjast þess að einkaleyfið verði ógilt þar sem það þykir of víðtækt og kemur í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns.

Þetta mál snýst um grundvallaratriði, það er ólíðandi að einkafyrirtæki eigi einkarétt á orðmerkinu „Iceland“ í öllum löndum Evrópusambandsins. Það kemur í veg fyrir að íslensk fyrirtæki og stofnanir geti skráð vöru sína með tilvísun í upprunalandið Ísland. Málið hefur alþjóðlega skírskotun vegna áhrifa á vöru- og þjónustuviðskipti og miklir hagsmunir eru í húfi.

Verslanakeðjan hefur ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem nota orðið Iceland sem hluta af vörumerki sínu. Aðgerðir verslanakeðjunnar hafa m.a. bitnað á markaðsátakinu Inspired by Iceland, en undir þeim hatti hefur Ísland verið markaðssett sem spennandi áfangastaður fyrir ferðamenn. Þannig hefur verslanakeðjan beitt sér gegn íslenskum stjórnvöldum og fyrirtækjum.

Það er sanngjarnt að íslenskir aðilar geti vísað til upprunalandsins ef þeir kjósa svo í markaðsstarfi sínu erlendis. Ísland hefur jákvæða ímynd í hugum neytenda. Tilraunir og viðleitni stjórnvalda á sínum tíma til að semja um sanngjarna lausn á vandanum skiluðu engu. Nýlegum aðgerðum stjórnvalda ber að fagna. Brýnt er að íslensk stjórnvöld gefi hvergi eftir, þannig að erlendir aðilar á borð við verslanakeðjuna Iceland geti ekki einokað nafnið Iceland eða aðrar erlendar tilvísanir til Íslands.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist á Vísi 26. maí 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Hvert skal stefna í heilbrigðismálum?

Deila grein

16/05/2017

Hvert skal stefna í heilbrigðismálum?

Undanfarið hefur samfélagið kallað á bætt heilbrigðiskerfi og var það mjög áberandi í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Ákall samfélagsins sýnir fram á mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fé til málaflokksins með markvissum hætti.

Þingflokkur Framsóknarflokksins tekur undir þetta ákall og því var þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun forgangsmál þingflokksins á yfirstandandi þingi. Tillagan gekk til velferðarnefndar Alþingis og hefur nú verið afgreidd þaðan í þverpólitískri sátt og bíður nú seinni umræðu. Vegna þeirrar umræðu sem uppi hefur verið í samfélaginu um mikilvægu stefnumótunar í heilbrigðismálum þá er nauðsynlegt að tillagan komist sem fyrst á dagskrá og verði afgreidd frá Alþingi.

Framsóknarmenn lögðu fram umrædda heilbrigðisáætlun þar sem enga áætlun í heilbrigðismálum var að finna á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra á þessu þingi, þó að talsverð vinna hafi farið fram í þeim efnum á síðasta kjörtímabili.

Eftir afgreiðslu málsins frá velferðarnefnd þingsins þá fjallar tillaga okkar Framsóknarmanna um að heilbrigðisráðherra haldi áfram vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar og leggi hana fyrir á Alþingi eins fljótt og mögulegt er. Í áætluninni verði verkferlar innan heilbrigðiskerfisins skýrðir og þar komi fram hvaða aðilar eigi að veita þjónustu innan kerfisins. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt.

Áætlunin skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Einnig skal tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu með utanspítalaþjónustu. Jafnframt skal taka tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða.

Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur.

Auk þessa verði Velferðarnefnd Alþingis reglubundið upplýst um framgang málsins, eigi síðar en í upphafi haustþings 2017 og síðan með reglulegu millibili þar til verkinu er lokið. Að lokum er skýrt kveðið á um að fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið komi að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.

Hér er nefndarálitið sem bíður seinni umræðu.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður

Tanja Rún Kristmannsdóttir, varaformaður SUF

Categories
Greinar

Áskoranir í utanríkismálum Íslands

Deila grein

15/05/2017

Áskoranir í utanríkismálum Íslands

Utanríkisráðherra kynnti greinargóða skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál á Alþingi nú á dögunum. Mesta athygli vakti í umræðunum voru orðaskipti sem áttu sér stað á milli utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar um ólíka nálgun og sýn þeirra á stöðu mála í Evrópu og framtíð Íslands þar. Utanríkisráðherrann og flokkur hans virðast vera ráðandi í þeirri för. Hins vegar er afar mikilvægt að ríkisstjórn hverrar þjóðar sé samstillt í verkum sínum og komi sameiginlegri stefnu þjóðarinnar á framfæri. Á þessu hefur verið misbrestur hjá núverandi ríkisstjórn.

Tryggja þarf áframhaldandi festu og stöðugleika í samskiptum við Bretland
Hinn 29. mars sl. var 50. grein Lissabonsáttmálans virkjuð og því er útganga Bretlands úr Evrópusambandinu formlega hafin. Bretar hafa tvö ár til að ljúka við útgöngusamninginn og ferlinu mun ljúka með formlegri úrsögn Bretlands úr Evrópusambandsins. Þegar útgöngusamningurinn tekur gildi verður Bretland ekki lengur aðili að samningum Evrópusambandsins við önnur ríki, eins og t.d. EES-samningnum. Samskipti við Bretland grundvallast að miklu leyti á EES-samningnum. Löndin vinna náið saman á mörgum mikilvægum sviðum, t.d. á sviði löggæslu-, samgöngu-, öryggis- og varnarmála. Stjórnvöld þurfa að vinna markvisst að því að tryggja að góðir samningar náist fyrir Íslands hönd á öllum sviðum. Náið samstarf við EFTA-ríkin skiptir sköpum um framhaldið. Framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands eru stærsta hagsmunamálið sem íslensk utanríkismálastefna stendur frammi fyrir. Ekki er ljóst á þessum tímapunkti hver niðurstaðan verður en í því felast tækifæri og áskoranir.

Hagsmunir Íslands á norðurslóðum
Málefni norðurslóða fá sífellt meira vægi í utanríkismálum. Stefna Íslands í málefnum norðurslóða á sér stoð í ályktun Alþingis sem samþykkt var samhljóða 28. mars 2011. Síðastliðið haust var gert hagsmunamat fyrir ráðherranefnd um norðurslóðir til að kortleggja helstu hagsmuni Íslands í margslungnu umhverfi norðurslóða. Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki, þar sem stór hluti landhelgi okkar er innan norðurslóða. Hagmunir Íslands felast í að nýta tækifærin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Auknum siglingum og annarri starfsemi fylgja tækifæri en líka áskoranir gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans. Mikilvægt skref í þá veru var stigið í aðdraganda Parísarsamningsins um loftslagsmál. Ísland mun gegna formennsku í Norðurskautsráðinu 2019-2021 og gefst okkur þá tækifæri til að móta áherslur í starfi ráðsins.

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland
Ályktun Alþingis frá 13. apríl 2016 um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var samþykkt mótatkvæðalaust og markar hún heildstæða stefnu í þessum málaflokki. Eitt af lykilmarkmiðum þjóðaröryggistefnunnar er að tryggja að á Íslandi séu trúverðugar og sýnilegar varnir sem byggja á alþjóðasamstarfi. Þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru meginstoðir í stefnu Íslands um öryggi og varnarmál landsins, ásamt virku samstarfi við grannríki á sviði öryggismála. Tryggja þarf að til staðar sé fullnægjandi viðbúnaðargeta og öryggi til þess að taka á móti liðsauka á hættu- eða ófriðartímum. Í samstarfinu felst m.a. loftrýmisgæsla og varnaræfingar. Ennfremur ábyrgjast íslensk stjórnvöld rekstur íslenska loftvarnarkerfisins og annarra mannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi. Ljósleiðarakerfi Atlantshafsbandalagsins, sem er hringtengt umhverfis landið, er einnig grunnstoð í öryggisfjarskiptum landsins. Allir þessir þættir skipta okkur máli er varðar öryggi landsins og brýnt að stefnumótun taki áfram mið af þingsályktunartillögunni sem samþykkt var mótatkvæðalaust á vordögum síðasta þings eftir mikla vinnu þingsins í gegnum árin.

Mannréttindi og þróunarsamvinna
Skýr og réttlát alþjóðleg viðmið um mannréttindi er lykillinn að öryggi og hagsæld. Á Íslandi eru mannréttindi á borð við trú-, kyn- og tjáningarfrelsi bundin í stjórnarskrá en það er langt frá því að vera sá veruleiki sem margar þjóðir búa við. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að víðsvegar um heim eru daglega framin gróf mannréttindabrot. Aldrei er hægt að réttlæta að almennir borgarar séu gerðir að skotmarki. Ábyrgð stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins í því sambandi er mikil. Vernd, mannréttindi og efling þeirra er nauðsynlegt að flétta inn í utanríkisstefnu Íslands. Íslensk stjórnvöld styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Framlag til þróunarsamvinnu nam hæst 0,36% af VÞT árið 2008 en var skorið niður í 0,20% árið 2011. Fram kemur í skýrslu utanríkisráðherra að framlög til þróunarsamvinnu sem hlutfall af VÞT árið 2016 var 0,29%. Sökum þess að hagsæld hefur verið að aukast á síðustu árum eru það vonbrigði að framlög til þróunarmála standa í stað í fimm ára ríkisfjármálaáætlun. Við getum gert betur og okkur ber að gera betur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2017.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Categories
Greinar

Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Deila grein

12/05/2017

Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF

Það er óumdeilt að fjárfesting í menntun og rannsóknum skilar sér til baka með beinum áhrifum á framleiðni og hagvöxt þjóða. Umræður hafa verið um að þau störf sem nýfædd börn í dag muni starfa við í framtíðinni sé ekki enn búið að finna upp. Nýsköpun og þekkingarþróun munu verða grunnurinn að farsæld og samkeppnishæfni þjóða á komandi árum. Sterkir háskólar sem stunda öflugar rannsóknir munu því verða kjarninn í því að tryggja samkeppnishæfni Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Staða háskóla og vísindasamfélagsins á Íslandi er hins vegar grafalvarleg þar sem háskólar landsins hafa verið fjársveltir í lengri tíma. Fyrir kosningar ríkti pólitísk samstaða meðal allra stjórnmálaflokka og ungliðahreyfinga þeirra, að opinber fjárframlög á hvern háskólanema skyldu ná meðaltali OECD-ríkjanna á komandi kjörtímabili. Þó gert sé ráð fyrir einhverri hækkun í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þá er hún engan veginn í takt við þá þörf sem hefur skapast meðal háskólanna. Það er velmegun í landinu og bjart fram undan en til að tryggja velferð landsins til framtíðar þarf að fjárfesta í framtíðinni.

Við búum við þá hættu að Ísland dragist aftur úr þegar kemur að menntun, rannsóknum og nýsköpun. Við þurfum að skapa okkur framtíðarsýn um háskólastig landsins, hvert viljum við stefna og hvernig við ætlum að komast þangað? Ungt Framsóknarfólk telur að grunnurinn að því að geta tryggt gæði háskólanáms í landinu sé að fjárframlög nái meðaltali OECD-ríkjanna en það er of seint að ná því árið 2030. Þróunin er að gerast núna og hún gerist mun hraðar en áður – við þurfum að bregðast við áður en það er of seint.

Fækkun háskólanema eða háskólamenntaðra er ekki lausnin, við viljum búa í fjölbreyttu samfélagi þar sem fólk hefur fjölbreytta menntun og fjölbreytt atvinnutækifæri. Því verður ekki neitað að háskólarnir spila stóran þátt í þessu markmiði þar sem þeir bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir. Við viljum ekki sníða alla í sama formið, sterkt iðnnám er gríðarlega mikilvægt en sama gildir um háskólanám og rannsóknir. Hættan er sú að ef við bætum ekki úr og tryggjum gæði háskólanna til framtíðar missum við allt okkar hæfileikaríkasta fólk til landa þar sem gæði náms og rannsókna eru tryggð. Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Sandra Rán Ásgrímsdóttir

Categories
Forsíðuborði Greinar

Fjármálaráðherra bregður fæti fyrir ferðaþjónustu

Deila grein

29/04/2017

Fjármálaráðherra bregður fæti fyrir ferðaþjónustu

Í umræðunni um fjölgun ferðamanna gleymist iðulega að landið nýtur ekki allt sama ferðamannastraumsins. Það er öðru nær. Á meðan umræða um ferðamenn á suðvesturhorninu snýst um álag og erfiðleika vegna mikils fjölda og jafnvel aðgangsstýringu veitir stórum hlutum landsins ekki af umtalsverðri fjölgun.

Í Norðausturkjördæmi leita menn allra leiða til að fá fleiri ferðamenn á Norður- og Austurland, alls ekki færri. Á því byggist rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna sem og atvinna og lífsviðurværi þeirra sem þar starfa. Sömu sögu er að segja víðar af landinu.

Á þessu virðist vera lítill skilningur hjá stjórnvöldum, meðal annars hjá fjármálaráðherra og þingmanni kjördæmisins. Reglulega er minnt á mikilvægi þess að ferðamenn dreifist betur um landið. Allir hafa hag af því að dreifa álaginu og uppbyggingunni betur og nýta auðlindina sem í landinu liggur. Áform ríkisstjórnarinnar um að stórhækka skatta á ferðaþjónustu ganga hins vegar þvert á þessi markmið.

Ljóst er að ferðaþjónusta getur skilað enn meiri tekjum en nú er. Sú aðferð sem ríkisstjórnin boðar myndi hins vegar bitna verst á greininni á þeim svæðum þar sem hún á erfiðast uppdráttar og þörfin fyrir fjölgun ferðamanna er mest. Það á til dæmis við um þá fjölmörgu aðila sem reka litlar einingar en hafa lagt mikið undir til að bjóða upp á gistingu eða aðra þjónustu fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Uppbygging á landsbyggðinni er öllum í hag

Uppbygging ferðaþjónustu á landsbyggðinni snýst ekki bara um að veita ferðafólki gistingu eða aðra þjónustu. Slík uppbygging, eins og öll önnur atvinnuuppbygging utan höfuðborgarsvæðisins, snýst líka um að styrkja byggðir landsins, jafna kjör og aðstæður fólks til búsetu á landinu öllu og treysta í sessi samfélög í hinum dreifðu byggðum. Landsmenn allir njóta góðs af því.

Sú uppbygging sem ferðaþjónustan hefur fært fjölmörgum stöðum um allt land hefur haft mjög margt gott í för með sér. En því miður virðist skilningur á mikilvægi og eðli þessarar vaxandi starfsgreinar vera takmarkaður þegar kemur að ákvörðunum um starfsumhverfi hennar.

Það gerist ekki á hverjum degi að ég vitni í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn máli mínu til stuðnings. En hvað varðar starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hefur AGS gert góða grein fyrir mikilvægi þess að atvinnugreinin njóti stöðugleika og »sjálfbærs vaxtar«. Sérstaklega hefur verið minnt á mikilvægi þess að varðveita samkeppnishæfni greinarinnar.

Það vekur manni því ugg að heyra forsætisráðherrann lýsa því yfir í viðtali að það síðasta sem hann hafi áhyggjur af sé samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu. Fjármálaráðherrann skákar í þessu skjóli og virðist líta á greinina sem ótæmandi gullkistu sem hægt sé að ausa úr til að fylla í götin á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Traðkað á ferðaþjónustu í Norðausturkjördæmi

Það er áhyggjuefni að fjármálaráðherra, sem er þingmaður Norðausturkjördæmis, skuli skorta skilning á aðstæðum greinarinnar í kjördæminu. Norður- og Austurland geta sannarlega tekið við miklu fleiri ferðamönnum en nú er og gert það vel. Tækifærin til uppbyggingar áningarstaða og afþreyingar eru óteljandi. Samkeppnin við suðvesturhorn landsins og restina af heiminum er hins vegar erfið, nýtingarhlutföll lægri en þau þyrftu að vera og framlegðin of lítil, minni en svo að menn ráði við skyndilega tvöföldun virðisaukaskatts og rúmlega það. Á sama tíma er greinin að takast á við verulega styrkingu krónunnar.

Áform fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu munu hafa mjög neikvæð áhrif á greinina á stórum hluta landsins og þar með á byggðaþróun, atvinnuþróun og lífskjör. Nefna má Breiðdalsvík sem dæmi. Eftir langvarandi öfugþróun í atvinnumálum hafa íbúar og aðkomufólk náð árangri í að snúa þróuninni við. Þeir bundu miklar vonir við að stærsta útflutningsgrein landsins myndi renna stoðum undir vöxt og viðgang byggðarlagsins. Verði sú leið sem ríkisstjórnin boðar við gjaldtöku af ferðaþjónustunni farin munu brothættustu byggðirnar líða mest fyrir það. Það er staðreynd sem meira að segja er hægt að sannreyna í töflureikni.

Á mörgum stöðum í Norðausturkjördæmi hefur harðduglegt fólk lagt eigur sínar og lánsfé í að byggja upp ferðaþjónustu á undanförnum árum. Aðstandendur flestra þessara verkefna munu nú horfa nú fram á fullkomna óvissu verði virðisaukaskattshækkunin að veruleika.
Ferðaþjónustufyrirtæki í Norðausturkjördæmi þurfa ekki óljós tilboð um bitlinga eins og fjármálaráðherra otaði að þeim á fundi á Austurlandi nýverið. Ferðaþjónustan og fólkið sem treystir á hana sem lífsviðurværi þarf stöðugt starfsumhverfi sem tryggir samkeppnishæfni og styður við uppbyggingu og fjárfestingu. Á því byggir sjálfbær atvinnustarfsemi.

Flöt hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna gengur þvert gegn öllum þessum markmiðum og mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar á landsbyggðinni til framtíðar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl 2017.

Categories
Greinar

Stöðugleikasjóður auðlindahagkerfisins

Deila grein

28/04/2017

Stöðugleikasjóður auðlindahagkerfisins

Verkefni okkar er að draga úr sveiflum og auka stöðugleika. Vegna smæðar hagkerfisins og tiltölulega fábreytts útflutnings, þá mun íslenska hagkerfið alltaf búa við einhverjar sveiflur. Ísland er útflutningsdrifið auðlindahagkerfi. Hagsaga okkar hefur einkennst af miklum hagsveiflum en þær gera almenningi og fyrirtækjum í landinu erfiðara fyrir að gera áætlanir um framtíðina.

Stofnun Stöðugleikasjóðs Íslands mun draga úr sveiflum og auka þar með stöðugleika. Slíkur sjóður kæmi í veg fyrir að uppgangur í einni útflutningsgrein skerði ekki sam­keppnis­hæfni annarra. Þjóðir sem eru ríkar af auðlindum, líkt og Ísland, hafa sett upp svipaða sjóði í sama tilgangi. Norski olíusjóðurinn er eitt besta dæmið um slíkan sjóð.

Fjármála- og efnahagsráðherra sagði á ársfundi Landsvirkjunar á miðvikudaginn að nýr vinnuhópur hefði verið skipaður til að leggja drög að þjóðarsjóði. Ráðherrann talar fyrir því að arðgreiðslur frá Landsvirkjun muni fjármagna sjóðinn og sem gætu verið á bilinu 10-20 ma.kr. á ári. Þetta dugar ekki til. Slíkur sjóður mun ekki auka stöðugleika eins og við öll sækjumst eftir því of langan tíma tekur að byggja upp myndarlegan höfuðstól.

Stöðugleikasjóðinn á frekar að fjármagna með nokkrum leiðum. Í fyrsta lagi með stofnframlagi, til dæmis hluta af stöðugleikaframlögum slitabúanna sem nýttur er til kaupa á gjaldeyri af Seðlabankanum. Það myndi minnka tugmilljarða kostnað á hverju ári sem hlýst af gjaldeyrisforða þjóðarbúsins. Í öðru lagi ættu tekjur ríkissjóðs af nýtingu auðlinda landsins, þ.e. sjávarútvegi, orkuiðnaði og ferðaþjónustu, að fara í sjóðinn. Í þriðja lagi ætti ríkissjóður að nýta tekjuafgang sinn þegar vel árar og setja í sjóðinn. Þar með myndi ríkissjóður ganga í takt við Seðlabankann og vextir gætu lækkað.

Stöðugleikasjóðurinn getur gegnt lykilhlutverki í hagstjórn landsins og orðið til þess að vextir lækki með minni sveiflum og því að ríkissjóður og Seðlabanki gangi í takt. Að sama skapi á að nýta stöðugleikasjóðinn til innviðauppbyggingu þegar skórinn kreppir. Það væri til mikils að vinna ef hægt væri að auka stöðugleika í íslensku hagkerfi og nú eru kjöraðstæður til þess.

Lilja D. Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. apríl 2017.

Categories
Greinar

Orðspor ferðaþjónustunnar í húfi

Deila grein

22/04/2017

Orðspor ferðaþjónustunnar í húfi

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur verið í örum vexti sl. ár. Hún hefur skapað verðmæti fyrir þjóðarbúið og leikið stórt hlutverk í endurreisn efnahagslífsins. Alþjóðleg samkeppni er hörð og því mikilvægt að menn séu samkeppnisfærir hvað varðar verð og gæði. Illa ígrundaðar skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar munu skaða þessa mikilvægu atvinnugrein.

Sú hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem nú liggur fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun án efa hafa neikvæð áhrif á framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustunnar. Ríkisstjórnin telur að þessar skattabreytingar séu tímabærar en engar greiningar liggja fyrir um hvaða áhrif þær muni hafa á atvinnugreinina. Þolir ferðaþjónustan þessar skattahækkanir á sama tíma og krónan hefur styrkst verulega, laun hækkað og gistináttagjald þrefaldast? Ég tel að verðteygnin sé það takmörkuð að ferðaþjónustuaðilar geti ekki velt skattahækkuninni út í verðlagið. Slík hækkun myndi rýra samkeppnisstöðu okkar.

Reynsla nágrannaþjóða sýnir að breytingar á sköttum og gjöldum hafa ekki aðeins áhrif til skamms tíma heldur geta stjórnað aðsókn og afkomu mörg ár fram í tímann. Það hefur til að mynda tekið danska ferðaþjónustu meira en tuttugu ár að ná aftur upp fjölda gistinátta erlendra ferðamanna sem hrundi eftir hækkun á virðisaukaskatti þar í landi árið 1992.
Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun mun virðisaukaskattur aðeins hækka á gistingu, ekki veitingasölu. Sú ákvörðun býður upp á skattaundanskot og alls kyns tilfærslur sem skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja, sérstaklega á milli minni og stærri aðila. Ef hægri stjórnin vill einfaldara og skilvirkara skattkerfi, þá er þetta ekki rétta leiðin.

Ég óttast að fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar muni ýta undir svarta atvinnustarfsemi. Ég óttast að þeir aðilar sem kjósa að starfa „svart“ í faginu muni ekki hafa sama metnað og leggja jafn mikla áherslu á gæði og þeir sem stunda lögleg viðskipti. Til lengri tíma muni það skaða orðspor og ímynd ferðaþjónustunnar og laskað orðspor er erfitt að endurheimta.
Það er gagnrýnivert að svo hart sé vegið að einni af okkar undirstöðuatvinnugreinum án ítarlegra greininga á langtímaáhrifum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. apríl 2017.

Categories
Greinar

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er röng ákvörðun

Deila grein

18/04/2017

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er röng ákvörðun

Undanfarin ár hef ég fylgst af aðdáun með þeim krafti og áræðni sem hefur drifið áfram hraða uppbyggingu í ferðaþjónustu á fjölmörgum stöðum á Norður- og Austurlandi. Þrátt fyrir að landshlutinn búi við mun lakari kjör varðandi dreifingu ferðamanna en Suðvesturhornið má hvarvetna sjá ný fyrirtæki, ný störf, fjárfestingu og snjallar hugmyndir til að nýta ný tækifæri.

Allt gerist þetta vegna þess að fólkið á svæðinu hefur trú á því að ferðaþjónusta bæti einhverju við samfélagið. Með því að fara úti í þjónustu við ferðamenn eru grunnatvinnuvegir styrktir því bæði bein og afleidd þjónusta dafnar um leið og störfum fjölgar. Með því eru möguleikar á áframhaldandi búsetu auknir því byggðafesta verður meiri.

En til þess að slík starfsemi geti blómstrað þarf stöðugt rekstrarumhverfi og trygga samkeppnishæfni. Fyrir svæði eins og Norðausturland þar sem ferðamenn þurfa flestir að fara langa vegu frá komustað til að njóta þeirrar fegurðar og afþreyingar sem svæðið býður upp á, skiptir þetta jafnvel enn meira máli en fyrir þá sem hafa aðgang að stöðugri straumi ferðamanna.

Sú hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem nú liggur fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun hafa mikil og neikvæð áhrif, sérstaklega á svæðum fjarri Suðvesturhorninu. Þrátt fyrir fjölgun ferðamanna á landinu í heild hefur afkoma ferðaþjónustufyrirtækja versnað milli ára og mörg fyrirtæki standa nú þegar höllum fæti. Gengi krónunnar hefur haft mjög erfið áhrif á samkeppni við önnur lönd og margar ferðaskrifstofur erlendis eru nú þegar farnar að líta í kring um sig til annarra ódýrari áfangastaða í stað Íslands.

Tökum rétta ákvörðun – tryggjum sjálfbærni
Í slíku ástandi er svo stór skattahækkun á ferðaþjónustuna röng ákvörðun. Reynsla nágrannaþjóða sýnir að breytingar á sköttum og gjöldum hafa ekki aðeins áhrif til skamms tíma heldur geta stjórnað aðsókn og afkomu mörg ár fram í tímann. Það hefur til að mynda tekið danska ferðaþjónustu meira en tuttugu ár að ná aftur upp fjölda gistinátta erlendra ferðamanna sem hrundi eftir hækkun á virðisaukaskatti þar í landi árið 1992.

Ég hvet ferðaþjónustuaðila til að láta heyra í sér, hafa samband við þingmenn og ráðherra og koma staðreyndum um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar milliliðalaust á framfæri. Það er gríðarmikilvægt að við stöndum saman gegn áformum um skattahækkanir á þessa mikilvægu atvinnugrein sem hefur skipt sköpum fyrir fjölmarga staði á landsbyggðinni undanfarin ár. Tryggjum framtíð og sjálfbærni ferðaþjónustunnar og verjum störfin sem hún skapar.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist á austurfrett.is 18. apríl 2017.

Categories
Greinar

Skattahækkun á ferðaþjónustu er aðför að landsbyggðinni

Deila grein

18/04/2017

Skattahækkun á ferðaþjónustu er aðför að landsbyggðinni

Nú liggur fyrir Alþingi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 2022. Þar er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði hækkaður í efsta þrep, sem mun hafa miklar og neikvæðar afleiðingar, sérstaklega fyrir litla og meðalstóra ferðaþjónustuaðila utan höfuðborgarsvæðisins.
Ferðaþjónustan glímir nú þegar við margfalda verðhækkun miðað við samkeppnislönd. Gengi krónunnar hefur hækkað mikið sem gerir það að verkum að öll verð hækka skyndilega gagnvart söluaðilum erlendis. Það er vel þekkt að jafnvel litlar verðbreytingar í ferðaþjónustu geta haft mikil áhrif á ákvörðun ferðamanna um áfangastað. Við þetta bætast fleiri þættir sem hafa áhrif á verð og rekstrarskilyrði, t.d. hækkun á gistináttaskatti og hækkun launa á undanförnum tveimur árum.
Íslenskir ferðaþjónustuaðilar finna nú þegar fyrir skilningsleysi erlendra samstarfsaðila gagnvart tugprósenta verðhækkunum milli ára, sérstaklega þar sem hækkanir á helstu samkeppnismörkuðum eins og Norðurlöndum eru yfirleitt mjög litlar í samanburði.

Óumflýjanleg neikvæð áhrif á landsbyggðina
Áform ríkisstjórnarinnar eru vanhugsuð og geta því miður haft mikil neikvæð áhrif, sérstaklega gagnvart minni og meðalstórum ferðaþjónustuaðilum á landsbyggðinni.
Sú mikla og jákvæða uppbygging sem hefur orðið á stöðum eins og m.a. Ísafjarðarbæ, á Snæfellsnesi og í Húnavatnssýslum hefur í för með sér aukin atvinnutækifæri og sterkari byggðir. Það er skelfilegt til þess að hugsa að stjórnvöld skuli ekki taka neitt tillit til þeirra jákvæðu áhrifa sem slík uppbygging hefur í för með sér og huga frekar að því að styrkja markvisst sjálfbærni ferðaþjónustunnar og þar með byggðanna sjálfra.
Því miður hefur ekki verið lögð fram greining á áhrifum þessarar miklu skattahækkunar sem sýnir fram á að hún muni annars vegar ná markmiðum um tekjuöflun ríkissjóðs og hins vegar ekki hafa óafturkræf neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi til langs tíma.

Það er grunnkrafa að þegar lagt er í aðgerðir sem eru svo augljóslega mjög íþyngjandi, sérstaklega fyrir dreifðari byggðir landsins, liggi fyrir ítarleg greining á áhrifum þeirra.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á skessuhorn.is 13. apríl 2017.