Categories
Greinar

Samvinna í lykilhlutverki

Deila grein

03/12/2018

Samvinna í lykilhlutverki

Á 100 ára afmæli fullveldisins finnur maður fyrir nálægð sögunnar í hversdeginum. Lítur yfir farinn veg og sér hvernig hreyfingar samfélagsins dag frá degi verða efniviður í Íslandssöguna. Finnur fyrir ákveðnum þunga á öxlunum en á sama tíma stolti yfir því að fá að taka þátt í sögu þjóðarinnar sem stjórnmálamaður og formaður þess flokks sem hefur í sinni 102 ára sögu haft gríðarleg áhrif á framþróun Íslands. Framsókn á stóran þátt í uppbyggingu atvinnutækifæra á tíma fullveldis Íslands og þá ekki síður í menntamálum og heilbrigðiskerfinu.Okkur hefur farnast velÞað verður víst ekki sagt um okkur Íslendinga að við séum fjölmenn þjóð. Þeim mun mikilvægari verður hver og einn og framlag hans til samfélagsins og þróunar þess. Kannski er það hluti af ástæðu þess hvað okkur hefur auðnast að hreyfa okkur hratt frá fábrotnu samfélagi til þess fjölbreytta og öfluga samfélags sem við byggjum í dag. Okkur Íslendingum hefur farnast vel sem fullvalda þjóð.

Samfélag okkar er ekki fullkomið frekar en önnur samfélög. Við erum þó lánsöm að búa við mikinn jöfnuð og líklega mesta samfélagslega hreyfanleika þannig að fólk getur unnið sig upp samfélagsstigann með hjálp öflugs menntakerfis og námslánakerfis sem sitjandi ríkisstjórn ætlar að breyta í átt að meiri stuðningi og jöfnuði en við höfum þekkt hér á landi áður. Menntun er lykilatriði í því að gefa fólki byr undir vængi og þá um leið samfélaginu. Menntun er grundvöllur allra framfara og við setjum ávallt manngildi ofar auðgildi.

Vélin sem knýr samfélagið

Atvinnulífið er vélin sem knýr samfélagið áfram. Framsókn hefur ávallt verið umhugað um að byggja upp sterkt og fjölbreytt atvinnulíf um allt land. Án atvinnu veikjast bæði samfélög og einstaklingar. Með atvinnu kemur styrkur og áræðni sem skilar fólki og byggðarlögum auknum lífsgæðum og samfélaginu öllu tekjum til að halda utan um þá sem minna mega sín. Stundum þarf að taka umdeildar ákvarðanir til að snúa vörn í sókn. Slíkt verður ávallt að gera með manngildið í öndvegi.

Frjálslyndi og farsæld

Síðasta öld er af mörgum kölluð öld öfganna. Á þeirri öld lék Framsókn og samvinnuhugsjónin oft lykilhlutverk í að leiða saman ólík öfl við stjórn landsins. Eins og segir í grunnstefnu flokksins aðhyllumst við frjálslynda hugmyndafræði og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika. Líklega hefur sjaldan verið nauðsynlegra að rödd og hugmyndafræði Framsóknar heyrist en einmitt nú þegar pólar stjórnmálanna verða ýktari. Nú er mikilvægt að hlusta vel á ólíkar raddir og leiða mál til lykta með samvinnu.

Sátt manns og náttúru

Framtíðin brosir við okkur. Framfarir eru stöðugar, bæði hvað varðar efnahag okkar og lýðræðislegt samfélag. Verkefni okkar stjórnmálamannanna er að þróa áfram samfélagið með því að skapa aðstæður og umhverfi sem gefur öllum tækifæri til að blómstra. Hvert skref sem tekið er verður að hlúa að þeim eiginleikum sem mikilvægastir eru fyrir manneskju og samfélag. Síðustu 100 ár hafa sýnt okkur að Íslendingum eru allir vegir færir. Nú bíður okkar allra verkefnið að efla og styrkja samfélagið í sátt manns og náttúru. Eins og áður er samvinnan þar í lykilhlutverki.

Ég óska Íslendingum öllum til hamingju á hundrað ára afmæli fullveldis Íslands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Categories
Greinar

Menntun og menning til framtíðar

Deila grein

03/12/2018

Menntun og menning til framtíðar

Á þessum hátíðardegi fögnum við aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar. Með sambandslögunum milli Íslands og Danmerkur, sem gildi tóku 1. desember 1918, var það viðurkennt að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki og hefur dagurinn því sérstöðu í sögu okkar. Ég vona að sem flestir gefi sér tækifæri til þess að taka þátt í viðburðum sem skipulagðir eru víða um land af þessu hátíðlega tilefni. Tímamót gefa færi á að líta um öxl og svo vill til að um þessar mundir er ár liðið frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Þetta fyrsta ár hefur verið afar lærdóms- og viðburðaríkt en sem mennta- og menningarmálaráðherra hef ég fengið að kynnast frábæru og fjölbreyttu starfi sem unnið er að á þeim vettvangi.

Stórsókn í menntamálum

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi tekið það verkefni föstum tökum að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu samfélagslegra innviða. Í stjórnarsáttmálanum boðuðum við stórsókn í menntamálum og samþykkt fjármálaáætlun næstu ára ber þess skýr merki. Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld okkar. Við viljum að skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verði áfram undirstaða íslenska skólakerfisins og það geti mætt örum samfélagsbreytingum. Á því byggist samkeppnishæfni okkar til framtíðar. Vinna er hafin við mótun nýrrar menntastefnu til ársins 2030 og þar setjum við í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta-, atvinnu- og velferðarmálum.

Mikilvægi kennara

Brýnt verkefni okkar á sviði menntamála er að styrkja umgjörð í kringum kennara á öllum skólastigum og auka nýliðun í stétt þeirra. Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum því kennarar eru lykilfólk í mótun framtíðarinnar. Fjölþættar aðgerðir sem snúa að nýliðun kennara verða brátt kynntar en við höfum unnið að þeim í góðu samstarfi við skólasamfélagið.

Eflum iðn-, starfs- ogverknám

Eitt forgangsmála okkar er að efla iðn-, starfs- og verknám. Í því felst að styrkja utanumhald með verk- og starfsþjálfun nemenda og auka aðgengi að náminu. Niðurfelling efnisgjalda var mikilvægt skref í þá átt. Þá er brýnt að kynna betur þá fjölbreyttu náms- og starfskosti sem í boði eru. Sú vinna fer einkar vel af stað og sem dæmi fjölgaði innrituðum nemendum á verk- og starfsnámsbrautum framhaldsskóla hlutfallslega um 33% milli ára á haustönn. Kostir verk- og starfsmenntunar eru ótvíræðir og mikil eftirspurn eftir fólki með slíka menntun á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Vinnum gegn brotthvarfi

Annað stórt verkefni eru aðgerðir gegn brotthvarfi nemenda á framhaldsskólastigi. Aðgerðir á því sviði snúast meðal annars um aukin framlög til framhaldsskólastigsins, betri kortlagningu á brotthvarfsvandanum og bætta geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur framhaldsskólanna. Niðurstöður útreikninga á árlegu nýnemabrotthvarfi sýna að það hefur minnkað miðað við gögn síðustu þriggja ára og er það vel, sem og að nú hefur svokölluð »25 ára regla« verið afnumin.

Styrkara háskólastig

Til að stuðla að hagvexti og umhverfi þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit þróast er mikilvægt að fjárfesta í háskólastiginu og hvetja til öflugs samstarfs þess við atvinnulífið. Heildarfjárframlög háskólastigsins nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða kr. eða um 5% milli ára. Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Fjárfestingar okkar í menntakerfinu hafa aukist að undanförnu og hefur hlutfall háskólamenntaðra hér á landi vaxið hratt. Það er ánægjulegt að atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum er mjög lítið hér á alþjóðlegan mælikvarða.

Menningin

Aðgengi að menningu er þýðingarmikill þáttur þess að lifa í framsæknu samfélagi, því skiptir máli að landsmenn allir geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Við fylgjum eftir þeirri vinnu sem unnin hefur verið í uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni og á þessu ári hafa verið tekin mikilvæg skref í uppbyggingu slíkra húsa, á Sauðárkróki og Egilsstöðum. Menningarhúsin hafa sannað mikilvægi sitt víða um land og þau hafa ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif, bæði á bæi og nærsamfélög. Á síðustu árum hefur átt sér stað vitundarvakning í verkefnum tengdum barnamenningu. Í tilefni af fullveldisafmælinu verður stofnaður barnamenningarsjóður með það markmið að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun. Jafnframt verður nýjum styrkjaflokki bætt við styrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem sérstaklega verður ætlaður barna- og ungmennabókum.

Framtíðin er á íslensku

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Þeim til grundvallar er eindreginn vilji til að tryggja framgang tungumálsins, t.a.m. með stuðningi við bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun. Á næstunni mun ég leggja fram þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta meðal annars skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.

Verkin tala

Sem ráðherra fagna ég áhuga á þróun mennta- og menningarmála og þakka þann ríka samvinnuvilja sem ég skynja á vettvangi minna starfa. Hvort tveggja er okkur mikilvægt til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem við höfum sett okkur. Nú horfum við 100 ár aftur í tímann, fögnum tímamótum og hugsum jafnframt til framtíðar. Hún er full af spennandi verkefnum og tækifærum. Til hamingju með fullveldisdaginn.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Categories
Greinar

Náttúruminjasafn á tímamótum

Deila grein

03/12/2018

Náttúruminjasafn á tímamótum

Sýning Náttúruminjasafns Íslands helguð einni mikilvægustu auðlind okkar, vatninu, verður opnuð í Perlunni á morgun, sjálfan fullveldisdaginn. Sýningin ber yfirskriftina Vatnið í náttúru Íslands og mun veita gestum nýstárlega sýn í leyndardóma vatnsins og mikilvægi þess fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu. Markmið sýningarinnar er meðal annars að benda okkur á að umgangast vatnið í öllum sínum myndum af aðdáun og virðingu og fræða gesti um undur náttúrunnar.

Opnun sýningarinnar er merkur áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins. Hún er fyrsta stóra sýningin sem höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum setur upp á eigin vegum síðan safnið var formlega sett á laggirnar árið 2007. Einnig má segja að þessi sýning sé fyrsta skrefið í áttina að því að hér á landi verði til fullbúið safn í náttúrufræðum þar sem fyrir hendi verða sérfræðingar á sviði náttúru- og safnafræða og aðstaða til móttöku náttúruminja, skráningar þeirra og varðveislu. Safnið fær nú til afnota 340 fm hæð í Perlunni í Öskjuhlíð þar sem fyrirtækið Perla norðursins setur upp fjölbreyttar sýningar tengdar íslenskri náttúru og hugviti, listfengi og nýjustu tækni er einnig beitt til þess að gera upplifun gesta sem áhrifaríkasta.

Náttúruminjasafn Íslands er mennta- og fræðslustofnun og ein af grunnstoðum samfélagsins á því sviði. Miðlun með sýningahaldi er mikilvægur þáttur í starfsemi allra safna og nú þegar meiri samkeppni er um tíma fólks og athygli þarf að huga vel að framsetningu og miðlunarleiðum. Nýja sýningin er bæði frumleg og falleg og gerir ráð fyrir virkri þátttöku gesta. Fagnaðarefni er að börnum er gert sérstaklega hátt undir höfði í miðlun sýningarinnar og er sýningin að verulegu leyti sniðin að því að vekja áhuga ungra gesta. Tveir safnkennarar munu sinna sérstaklega móttöku skólahópa á sýninguna og sjá um kennslu, einkum fyrir leik- og grunnskóla.

Íslensk náttúra hefur mikla sérstöðu á alþjóðavísu og er eitt helsta aðdráttarafl fyrir erlendra gesti sem hingað sækja. Í þessari nýju sýningu Náttúruminjasafnsins er þekkingu vísindamanna á íslenskri náttúru miðlað á eftirtektarverðan hátt og fá gestir tækifæri til að upplifa vatnið í nýju og fræðandi ljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Auðveldum ungu fólki að kaupa fyrstu fasteign

Deila grein

29/11/2018

Auðveldum ungu fólki að kaupa fyrstu fasteign

Hús­næðismál eru vel­ferðar­mál. Eitt af meg­in­hlut­verk­um hins op­in­bera er að halda uppi öfl­ugu vel­ferðar­kerfi þar sem öll­um lands­mönn­um, óháð bú­setu, er tryggð ör­ugg fram­færsla, heil­brigðis- og fé­lagsþjón­usta, mennt­un og raun­hæf­ur kost­ur á að eign­ast eða leigja sér ör­uggt hús­næði. Þess vegna verða stjórn­völd og sam­fé­lagið sem heild að líta á og nálg­ast hús­næðismál með sama hætti og önn­ur brýn vel­ferðar­mál.

Staðan á ís­lensk­um hús­næðismarkaði er þannig í dag að skort­ur er á íbúðum fyr­ir ungt fólk og tekju­lága á viðráðan­legu verði. Sam­kvæmt nýj­ustu könn­un Íbúðalána­sjóðs telja 57% leigj­enda sig búa við hús­næðis­ör­yggi sam­an­borið við 94% þeirra sem búa í eig­in hús­næði. Ein­ung­is 8% leigj­enda eru á leigu­markaði vegna þess að þeir vilja vera þar en 64% leigj­enda segj­ast vera á leigu­markaðnum af nauðsyn. Þetta er ekki ásætt­an­legt. Fast­eigna­verð hef­ur stór­hækkað og kaup­end­ur að fyrstu íbúð þurfa annað hvort að eiga nokkr­ar millj­ón­ir króna í spari­fé eða fá hjálp frá aðstand­end­um til að geta keypt íbúð. Marg­ir eru í þeirri stöðu að þess­ir kost­ur eru ein­fald­lega ekki í boði. „Að eign­ast þak yfir höfuðið“ fyr­ir unga og tekju­lága ein­stak­linga er við nú­ver­andi aðstæður risa­vaxið verk­efni svo ekki sé dýpra í ár­ina tekið. Við þessu þarf að bregðast.

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir: „Rík­is­stjórn­in mun fara í aðgerðir sem lækka þrösk­uld ungs fólks og tekju­lágra inn á hús­næðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðnings­kerfi hins op­in­bera end­ur­skoðuð þannig að stuðning­ur­inn nýt­ist fyrst og fremst þess­um hóp­um. Meðal ann­ars verða skoðaðir mögu­leik­ar á því að hægt verði að nýta líf­eyr­is­sparnað til þess.“

Í sam­ræmi við þetta höf­um við verið að kort­leggja þau úrræði sem stjórn­völd í ná­granna­lönd­um okk­ar bjóða upp á fyr­ir tekju­lága á íbúðamarkaði. Þar hef­ur einkum verið litið til Nor­egs og Sviss.

Í Sviss er heim­ilt að nýta upp­safnaðan líf­eyr­is­sparnað til að afla eig­in­fjár­fram­lags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyr­ir­fram­greidd­an eða veðsetja hann. Al­menn­ur líf­eyr­is­sparnaður má vera allt að 90% kaup­verðs en viðbót­ar­líf­eyr­is­sparnaður allt að 100%.

Hus­ban­ken, sem er syst­ur­stofn­un Íbúðalána­sjóðs í Nor­egi, býður upp á sér­stak­an hús­næðisstuðning, svo­kölluð Start­lán, til að aðstoða af­markaðan hóp tekju­lágra við að kaupa sér íbúð. Start­lán eru íbúðalán með lægri vöxt­um og lægri eig­in­fjár­kröfu en tíðkast á markaði. Þau eru aðeins veitt þeim sem geta ekki aflað sér fjár­mögn­un­ar fyr­ir íbúð með hefðbundn­um hætti. Stærsti hóp­ur lán­taka eru fjöl­skyld­ur sem búa við slæma fjár­hags­lega stöðu en start­lán hafa einnig verið veitt m.a. til fyrstu kaup­enda, flótta­manna, fólks með fötl­un og fólks sem býr við fé­lags­leg vanda­mál.

Ný­lega lagði ég fram til­lögu í rík­is­stjórn um að farið væri í að út­færa fyrr­greind­ar lausn­ir hér á landi. Ég bind mikl­ar von­ir við að úr­bæt­ur til handa fyrstu kaup­end­um verði til þess að lækka þrösk­uld ungs fólks og tekju­lágra inn á hús­næðismarkaðinn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Lögreglan efld

Deila grein

28/11/2018

Lögreglan efld

Á síðasta ári var bætt við stöðugildum hjá flestum lögregluembættum um landið til að styrkja skilvirkni lögreglunnar í kynferðisbrotamálum. Þar með var hafin vinna við að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttavörslukerfisins. Sú aðgerðaáætlun felur m.a. í sér að renna styrkari stoðum undir samstarf milli lögreglu og ákæruvalds til að bæta stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum og styrkja réttarstöðu þeirra.

Lögreglan er oftast fyrsti staðurinn sem brotaþolinn leitar til. Það er mikilvægt fyrir brotaþola að móttaka og þekking þeirra sem þeir mæta sé sem faglegust og það sé hægt að treysta á að málin fari í öfluga og skjóta rannsókn. Sérþekking á þessum málum er nauðsynleg hjá þeim sem fyrstir taka á móti brotaþolum því fyrstu viðbrögð skipta miklu máli um hvernig brotaþolinn kemur út úr málinu.

Efling rannsóknar

Þegar kemur að málefnum brotaþola skiptir áreiðanleg og fljótvirk rannsókn þessara mála innan lögreglunnar höfuðmáli. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið að tryggja nægilegt svigrúm svo hægt sé að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum eins og eftirliti með nettælingum og barnaníðsefni. Forvarnir þarf að efla með því að byggja upp enn frekari faglega þekkingu þeirra aðila sem vinna með þessi mál. Það byggir upp traust og hvetur brotaþola frekar til að leita réttar síns í erfiðum málum.

Aukin þjónusta

Í fjárlögum fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir framlagi sem nemur einu stöðugildi til að styrkja málsmeðferð lögreglunnar á Norðurlandi vestra í rannsóknum. Þar með er búið að bæta við stöðugildi hjá öllum lögregluembættum á landinu vegna þessa. Lögreglan um allt land hefur ekki verið ofalin síðustu ár þrátt fyrir fjölda verkefna sem hafa bæst við. Mikil aukning á fjölda ferðamanna hefur stóraukið umferð á vegum landsins. Aukið umferðareftirlit lögreglunnar á Norðurlandi vestra hefur leitt af sér 28% fækkun umferðarslysa í umdæminu sem af er ári sem er afar jákvæð þróun. Lögreglunni á Norðurlandi vestra var falið það verkefni að hafa umsjón með fíknaefnahundum hjá lögregluembættum landsins og verður áhugavert að fylgjast með hvernig það verkefni mun þróast á komandi árum.

Þessi styrking á embættinu ætti að bæta þjónustu lögreglunnar í umdæminu verulega. Nú getur lögreglan einbeitt sér betur að þjónustu við borgarana og sinnt umferðagæslu betur þar sem búið er að bæta við stöðugildi fyrir sérþjónustu og rannsóknir.

Umferð um svæðið hefur aukist mikið allt árið og því mikilvægt að lögreglan sinni því með auknum þunga svo íbúar og aðrir vegfarendur finni sig öruggari auk þess sem hægt er að sinna forvörnum og almennri gæslu. Ég fagna þessari eflingu á lögregluembættinu á Norðurlandi vestra.  Lögreglan ætti að hafa betri tíma til að vera sýnilegri og sinna frekari forvörnum og gæslu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á feykir.is 27. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Dynjandisheiðin – vetrarþjónusta

Deila grein

28/11/2018

Dynjandisheiðin – vetrarþjónusta

Nú er innan við ár þangað til slegið verður í gegn í framkvæmdum við Dýrarfjarðargöng. Þá erum við farin að eygja gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis er að verða að veruleika. Það verða liðnir tveir áratugir af þessari öld þegar við sjáum þetta raungerast. Ótrúlegt! En gott og vel við fögnum þessu ákaft.

Fyrir liggur að farið verður í  uppbyggingu á Dynjandisheiðinni meðfram og í framhaldi á framkvæmdum við Dýrafjarðargöng. Mörgum finnst þær framkvæmdir fái ekki nægjanlega áherslu í framlagðri samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi. Það má taka undir þær áhyggjur og er það augljóst að hraða þarf eins og hægt er uppbyggingu heiðarinnar.

Samvinnuleið í vegamálum

Nokkuð hefur verið talað um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og því hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni.  Fyrr í haust var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Til þessa er horft og vonir eru bundnar við að framkvæmdir við Dynjandisheiðina verði hægt að þoka fram um leið og samvinnuleiðir í vegamálum verða að raunveruleika.

Vetrarþjónusta

Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði fylgir nú G-reglu Vegagerðarinnar. Samkvæmt henni er mokað tvisvar í viku, haust og vor, á meðan snjólétt er en ekki mokað frá 1. nóv. til 20. mars. Þessi regla endurspeglar þá órjúfanlegu leið sem þær systur  Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar byggja. Aðstæður á Hrafnseyrarheiðinni hafa stýrt þessari reglu, eðlilega.

Nú skilja leiðir og sá erfiði fjallvegur yfir Hrafnseyrarheiðina verður ekki til staðar eftir opnun ganga og þá er eðlilegt að vetrarþjónusta á Dynjandisheiði verði endurskoðuð. Sá þrýstingur er þegar komin fram og ekkert sem bendir til þess að svo verði ekki. Vetrarþjónusta þarf ekki að haldast í hendur við framkvæmdalok við heiðina og jafnvel nauðsynleg að auka þjónustuna strax til að fá reynslu hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni.

Það er ekkert sem staðfestir þann orðróm sem virðist vera uppi að ekki verði farið í aukna vetrarþjónustu á Dynjandisheiðinni eftir opnun Dýrafjarðarganga. Hvorki í samgönguáætlun eða í umræðu um hana eða endurspeglar það áætlun Vegagerðarinnar né stjórnvalda.

Áfram er hægt að fagna opnun Dýrafjarðarganga og horfa fram á heilsárssamgöngur milli norður og suðursvæðis Vestfjarða eftir árið 2020.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis

Greinin birtist fyrst á bb.is 28. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Heima er best

Deila grein

28/11/2018

Heima er best

Flest vonumst við til að fá að eldast, halda heilsu og geta búið áfram á eigin heimili. Tölfræðin sýnir okkur að lífaldur Íslendinga er að hækka og heilsa eldra fólks að batna.

Hugtakið velferðartækni er tiltölulega nýtt á Íslandi en það nær yfir fjölmargar tæknitengdar lausnir í þágu notenda sem eru til þess fallnar að viðhalda eða auka færni, samfélagsþátttöku og lífsgæði. Velferðartækni getur fyrirbyggt eða verið viðbót við þá stuðningsþörf sem veitt er. Einnig getur hún aukið skilvirkni í þjónustunni og auðveldað samskipti milli notenda, aðstandenda og starfsfólks. Hugtakið er einkum notað á Norðurlöndunum en þau hafa unnið markvisst að því að kanna hvernig nýta megi nútímatækni til að þróa velferðarþjónustu. Velferðartækni er eitt af áherslumálunum í norrænu samstarfi og er nefnt sérstaklega í formennskuáætlun Noregs í Norðurlandaráði fyrir árið 2018. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á nýsköpun í heilbrigðismálum með því að nýta nýjustu tækni á því sviði og að styrkja þjónustu fyrir aldraða, þ.e. heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.

Velferðartækni hluti af heilbrigðisstefnu

Íslendingar geta nýtt sér reynslu nágranna okkar á Norðurlöndum og útfært verkefni sem þar hafa verið framkvæmd með góðum árangri. Undirrituð hefur því ásamt hópi þingmanna úr flestum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu sem fjallar um að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem meti með hvaða hætti velferðartækni nýtist í þjónustu við eldra fólk og fólk með fatlanir. Hópurinn á að leggja áherslu á að skoða hvernig aðferðir, t.d. í fjarþjónustu, geti nýst hér á landi með hliðsjón af reynslu annars staðar á Norðurlöndum. Lagt er til að hópurinn skili áliti sem nýtist við gerð heilbrigðisstefnu sem nú er unnin í heilbrigðisráðuneytinu.

Ég er sannfærð um að í velferðartækni felast fjölmörg tækifæri fyrir okkur til að bæta þjónustu við aldraða og fólk með fatlanir, sem gerir fólki kleift að búa lengur heima hjá sér og njóta bestu þjónustu og lífsgæða.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Samgöngur til framtíðar

Deila grein

23/11/2018

Samgöngur til framtíðar

Það má sjá bætt vinnubrögð í nýrri samgönguáætlun því hér í fyrsta skipti er hún í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun frá Alþingi. Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Auka á aðgengi fólks að vörum og þjónustu og bæta hreyfanleika.

Meginstoðir
Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Það er ánægjulegt að sjá þær meginstoðir sem samgönguáætlun byggir á en lögð er áhersla á þær stóru stofnbrautir sem eru út úr höfuðborginni og nú á líka að klára grunnnet vegakerfisins á Vestfjörðum.

Strax á næsta ári skal hefja framkvæmdir við 2+1 veg á Kjalarnesi. Það er verkefni sem kallað hefur verið eftir og er mjög brýnt þar sem núverandi vegur uppfyllir engan veginn öryggiskröfur eða stendur undir þeirri gríðarlegu umferðaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum. Grunnnet á Vestfjörðum er í forgangi og búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum á Dynjandisheiði um leið og hönnun á vegstæðinu er lokið og sú leið hefur farið í gegnum umhverfismat. Einnig er búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum í Gufudalssveit. Þá geta Vestfirðingar loksins sagt að þeir búi við eðlilegt samgöngukerfi að mestu.

Samvinnuleið í vegamálum
Nokkuð hefur verið talað um um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja þegar horft er í einkaframkvæmdir. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni. Nú um mánaðamótin var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Í þessu sambandi gætum við nefnt jarðgöng og stórar framkvæmdir í kringum höfuðborgina eins og Sundabraut og tvöföldun Reykjanesbrautar.

Tengivegir og vetrarþjónusta
Um land allt býr fólk við malarvegi sem eiga að þjóna samgöngum til skóla og í vinnu dagsdaglega. Oft eru þetta vegir sem uppfylla ekki kröfur um burðarþol og alls ekki þeær öryggiskröfur sem nútíminn gerir til slíkra samgangna. Dæmi eru um að börn þurfi að heiman og heim að hristast á holóttum malarvegi langan veg í skóla. Það skiptir miklu máli að lögð verði áhersla á að leggja bundið slitlag á tengivegi. Í þessu sambandi vil ég nefna Vatnsnesveg í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar hefur umferð stóraukist á undanförnum árum, enda má finna á þeirri leið eina ferðamannaperlu okkar sem er Hvítserkur. Núverandi vegur hefur ekki staðið undir þeirri miklu umferð og getur því ekki talist til nútíma samgöngumannvirkja.

Í tillögu að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að veita aukið fjármagn til að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi. Það er vonandi að hægt verði að leggja aukna áherslu á tengivegina og vetrarþjónustu með því að horfa á samvinnuleiðir í nýframkvæmdum á stórum framkvæmdum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Land er auðlind

Deila grein

22/11/2018

Land er auðlind

Undanfarið hefur talsverð umræða átt sér stað í samfélaginu um eignarhald á bújörðum. Margir hafa áhyggjur af því að Íslendingar séu með andvaraleysi að tapa eignarhaldi á auðlindum á landi. Í september birtist álit starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Þar voru settar fram átta tillögur að breytingum á jarðalögum og ábúðarlögum í því skyni að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Forsætisráðuneytið mun leiða áframhaldandi vinnu með tillögurnar, enda snúa sumar þeirra að fleiru en einu ráðuneyti.

Ég álít allt land vera auðlind, landið sjálft, jarðveginn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka á verðmæti þess, t.d. veiði og vatnsréttindi. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Þjóðlendur eru nú um 44% landsins, öðru landi er skipt upp í jarðir og þéttbýli. Bújarðir ná því yfir meira en 50% Íslands og eru um 7.000 talsins. Undanfarin ár hefur fólk sem ekki er búsett á Íslandi sóst í auknum mæli eftir eignarhaldi á jörðum. Við það færist eignarhald auðlinda úr landi, auk þess hafa vaknað spurningar um eignasöfnun á fárra hendur og ítrekað kemur upp vandi vegna óþekkts og óljóss fyrirsvars jarða.

Reglulega kemur upp umræða um mögulegar leiðir til að hafa áhrif á ráðstöfun lands en útfærslan hefur þvælst fyrir okkur. Ástæðuna tel ég m.a. vera að það vantar ákveðinn grunn. Annars vegar þarf að undirbyggja markmið landnýtingar í skipulagsáætlunum sveitarfélaga og hins vegar þarf að bæta skráningu á landi.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands. Ég tel mögulegt að festa í lög eða reglugerð skilyrði um að einstaklingar sem öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir landi skuli hafa lögheimili hér á landi eða hafa haft það áður í tiltekinn tíma. Ég tel að slíkar takmarkanir eigi ekki að vera bundnar við land í landbúnaðarnotum, heldur ná yfir allt land. Eignarhaldi og umsjón lands eiga að fylgja skýr ábyrgð og skyldur.

Stjórnvöld og almenningur hafa áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Þar er hægt að setja markmið um búsetu og sjálfbæra landnýtingu. Sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi. Þau geta líka tilgreint jarðir þar sem heilsársbúseta telst æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar, svo sem styrking samfélaga, öryggissjónarmið, eftirlit lands, eftirlit minja og náttúruvernd.

Við þurfum að þekkja landið, skrá það og skipuleggja. Á þeim grunni getum við útfært eðlilegar takmarkanir og búið til hvata til búsetu, nýtingar og nýsköpunar, í strjálbýli.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Ólgan í pólitíkinni

Deila grein

21/11/2018

Ólgan í pólitíkinni

Það er ólga í bæjarpólitíkinni í Vestmannaeyjum þessa dagana. Það ætti engum að dyljast það sem á annað borð fylgist með umræðunni. Í henni eru stóru orðin sjaldnast spöruð og því er ekki nema von um að fólk spyrji mig hvort allt sé hreinlega að verða vitlaust.

Meiri- og minnihlutinn hafa vissulega tekist á, meira að segja nokkuð harkalega í hinum ýmsu málum, stórum og smáum. Og manni finnst stundum eins og smáum málum sé breytt í stórmál og að það sé fyrst og fremst gert til þess að vísvitandi skapa ókyrrð og öldurót í bæjarpólitíkinni. En í hverju gæti þessi ólga falist?

  • Ólgan getur falist í því að draga ítrekað í efa heiðarleika Helgu Jóhönnu Harðardóttir formanns fjölskylduráðs, eina heiðarlegustu og samviskusömustu manneskju sem ég hef hitt, í stað þess að umræðan snúist fyrst og fremst um það hvort breyta eigi aldursviðmiðum við úthlutun frístundastyrks til ungmenna.
  • Ólgan getur falist í því að vera tilbúin til þess að saka meirihlutann um ólýðræðisleg vinnubrögð og svik við kjósendur fyrir það eitt að vilja fara að lögum sem sjálfstæðismenn hafa brotið ár eftir ár, allar götur frá árinu 2012.
  • Ólgan getur falist í því að mæta á fund fræðsluráðs án þess að svo mikið sem kynna sér þau gögn sem lágu fyrir fundinum og vera tilbúin til þess, með sömu gömlu rökunum um einræðisleg vinnubrögð, að berjast gegn afnámi ósanngjarnrar vísitölutengingar leikskólagjalda sem orsakaði það að fjölskyldufólk í Vestmannaeyjum þurfti að borga hæstu leikskólagjöld á landinu.
  • Ólgan getur falist í því að koma því þannig fyrir að ekki færri en þrjá bæjarstjórnarfundi þurfti til þess að klára eins ópólitískt mál og hugsast getur; skipun almannavarnarnefndar.
  • Og það er hægt er að skapa ólgu með útúrsnúningum um að meirihlutanum ætli að fela kostnað við framkvæmdir, þrátt fyrir að vita það mæta vel að sérsamþykkt við fjárhagsáætlun þarf til að fara í kostnaðarsamar framkvæmdir á vegum bæjarins, og þær samþykktir eru ræddar bæði í bæjarráði og í bæjarstjórn áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Þegar stjórnmálaöfl boða svo til súpukennslustundar í ólgu og pólitískum óróleika er ekki nema eðlilegt að velta því fyrir sér hvort ástandið þurfi virkilega að vera með þeim hætti sem einkennt hefur kjörtímabilið hingað til. Fyrir mína parta er það alveg ljóst að fólk á að geta sameinast um að vinna að hag bæjarins og íbúa hans á sanngjarnan á heiðarlegan hátt. Úfin pólitísk alda og jafnvel brotsjór er ekki eðlilegt ástand.

Viljum við ekki róa í sameiningu um lygnari sjó?

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs í Vestmannaeyjum.

Greinin birtist fyrst á eyjarfrettir.is 19. nóvember 2018.