Categories
Greinar

Öflugir tónlistarskólar

Deila grein

03/10/2019

Öflugir tónlistarskólar

Tón­list­ar­líf hér á landi er öfl­ugt og frjótt. Íslensk tónlist hef­ur átt drjúg­an þátt í að auka orðspor Íslands á alþjóðavett­vangi enda finn­ur ís­lensk menn­ing og sköp­un­ar­kraft­ur sér far­veg um all­an heim. Vel­gengni ís­lenskr­ar tón­list­ar og tón­list­ar­manna hef­ur þó ekki sprottið úr engu. Þar eig­um við tón­list­ar­kenn­ur­um og starfs­fólki tón­list­ar­skóla lands­ins margt að þakka. Fólki sem hef­ur metnað, trú og ástríðu fyr­ir sínu fagi og sí­vax­andi mögu­leik­um mennt­un­ar á því sviði, og ber öfl­ugu starfi tón­list­ar­skól­anna fag­urt vitni.

Starf­semi flestra tón­list­ar­skóla er sam­starfs­verk­efni rík­is og sveit­ar­fé­laga en í gildi er sam­komu­lag um greiðslu fram­lags rík­is­ins til Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga vegna þess. Nem­end­ur í fram­halds­námi í hljóðfæra­leik og á fram­halds- og miðstigi í söng, og aðrir nem­end­ur sem þurfa af gild­um ástæðum að sækja tón­list­ar­skóla utan lög­heim­il­is sveit­ar­fé­lags, njóta stuðnings sam­kvæmt ákveðnum regl­um. Á þessu ári nær sam­komu­lagið til tæp­lega 600 nem­enda í 35 tón­list­ar­skól­um og nema fram­lög­in rúm­lega 550 millj­ón­um kr. eða um 935.000 kr. á hvern nem­anda. Sam­komu­lagið var end­ur­nýjað í lok síðasta árs og gild­ir til árs­loka 2021.

Með til­komu Mennta­skól­ans í tónlist árið 2017 fækkaði nem­end­um sem sam­komu­lagið nær yfir en ákvörðun var tek­in að lækka þó ekki fram­lög til þess. Með þeirri aðgerð varð því um­tals­verð hækk­un á fram­lagi til hvers nem­enda. Fram­lög til Mennta­skól­ans í tónlist nema 390 millj­ón­um kr. á þessu ári. Því má segja að fjár­mögn­un tón­list­ar­kennslu hér á landi hafi sjald­an verið betri en nú.

Framund­an eru mik­il­væg verk­efni sem unn­in verða í góðri sam­vinnu við hagaðila. Ráðgert er að end­ur­skoða lagaum­hverfi tón­list­ar­skóla og aðal­nám­skrá þeirra sem ekki hef­ur enn verið upp­færð í takt við gild­andi aðal­nám­skrár grunn- og fram­halds­skóla. Þá verður einnig metið hvort ástæða sé til að setja heild­stæð lög um list­kennslu hér á landi. Við treyst­um á gott sam­starf um þau mik­il­vægu verk­efni sem verða án efa til þess að efla enn frek­ar tón­listar­fræðslu og starf tón­list­ar­skóla hér á landi.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2019.