Categories
Fréttir

Aðgerðaáætlun í jarðamálum – enda land ekki eins og hver önnur fasteign

Deila grein

01/10/2019

Aðgerðaáætlun í jarðamálum – enda land ekki eins og hver önnur fasteign

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „aðgerðaáætlun í jarðamálum“.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Aðgerðaáætlunin hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu.
Aðgerðaáætlun þessi feli í sér eftirfarandi verkefni og aðgerðir:
1. Lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila.
2. Jarðakaup verði leyfisskyld.
3. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið flýti gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands og móti leiðir til að skilgreina búsetuskyldu í dreifbýli í skipulagi.
4. Löggjöf á sviði skráningar landeigna og eignarmarka verði endurskoðuð.
5. Fasteignamat í dreifbýli verði uppfært.
6. Komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa.
7. Lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð í ljósi annarra aðgerða í áætlun þessari og reynslu af framkvæmd þeirra svo sem jarðalög, ábúðarlög og lög um veiðifélög.
Forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. febrúar 2021.

„Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna.
Land er takmörkuð auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Auk þess geta fylgt landi verðmætar viðbótarauðlindir.
Meðferð og notkun lands skiptir máli nú og til framtíðar. Það felast því miklir almannahagsmunir í ákvörðunum um ráðstöfun lands og öll ákvarðanataka um eignarhald og landnýtingu hefur áhrif á almannahagsmuni til framtíðar. Það geta því ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign,“ sagði Líneik Anna.
„Gildandi lagaumhverfi leiðir af sér að rúmlega 500 milljón manns geta keypt land og aðrar fasteignir hér á landi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Flutningsmenn telja brýnt að settar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi enda hefur ásókn fólks sem ekki er búsett á Íslandi eftir eignarhaldi á jörðum aukist á síðustu árum. Þá eru dæmi um að sami aðili eigi fjölda jarða og fyrirsvar jarða sé óþekkt og óljóst, sagði Líneik Anna.
„Á síðustu árum hafa ýmsir starfshópar skoðað þessi mál, einkum út frá eignarhald á bújörðum og landbúnaðarlandi. Í september 2018 skilaði slíkur starfshópur áliti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar voru settar fram átta tillögur að leiðum til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins með breytingum á jarðalögum og ábúðarlögum. Nú stendur yfir frekari vinna á vegum forsætisráðherra með tillögurnar þar sem leitað er leiða til að skýra lagarammann fyrir jarða- og landaviðskipti, þar á meðal stöðu landsréttinda og vatnsréttinda, eins og kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra. Auk þess er unnið að upplýsingaöflun um eignarhald á landi.
Tillagan sem við ræðum er unnin til að draga það fram að verkefnið er enn víðtækara en sú vinna sem þegar er hafin og mikilvægt að fylgja málinu eftir á mörgum sviðum,“ sagði Líneik Anna.
„Við gerð reglnanna verður að gæta að þeim takmörkunum sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar sem og þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og verður þar einkum að líta til 40. gr. samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga innan svæðisins. Flutningsmenn benda þó á að svo virðist sem gengið hafi verið lengra í að opna heimildir til kaupa á landi en skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum gera ráð fyrir. Það leiði af samningnum að heimilt sé að takmarka eignarhald á fasteignum með lögum og án bótaskyldu á grundvelli skilgreindra markmiða byggðra á almannahagsmunum,“ sagði Líneik Anna.
„Með því að gera jarðakaup leyfisskyld verður einnig tryggð nauðsynleg aðkoma ríkis og sveitarfélaga að aðilaskiptum að landi svo að mögulegt verði að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðal-, svæðis- og deiliskipulaga. Að mati flutningsmanna er jafnframt brýnt að skoðað verði sérstaklega hvort rétt sé að endurvekja forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum sem afnuminn var með samþykkt jarðalaga, nr. 81/2004, en leyfisskyldan og forkaupsrétturinn gætu að einhverju leyti náð sömu markmiðum.“
„Það er mjög mikilvægt að fyrstu skrefin í framfylgd áætlunarinnar verði stigin sem fyrst því að það þarf að byrja að púsla saman betri umgjörð um landið, um jarðir og auðlindir á landi, til að reglur, framkvæmd og eftirfylgni batni. Góð og ígrunduð stjórnun lands og eigna er einn af grundvallarþáttum í efnahagslegri þróun samfélaga og sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og því óhjákvæmilegt verkefni stjórnvalda. Ekki má ríkja sinnuleysi á þessu sviði eins og hefur að mörgu leyti verið á síðustu árum,“ sagði Líneik Anna að lokum.