Categories
Greinar

Notandi eða skapandi

Deila grein

14/03/2017

Notandi eða skapandi

Staðan er þessi: Við erum á barmi nýrrar iðnbyltingar. Við vitum að atvinnulíf framtíðarinnar verður ólíkt því sem það er í dag, þ.e. aukin áhersla á róbótavæðingu í ýmsum geirum atvinnulífsins og á gervigreind. Þess vegna verðum við að velta vandlega fyrir okkur og taka ákvarðanir sem fyrst, þ.e. hvaða hlutverk við ætlum að spila í framtíðinni. Ætlum við einungis að vera notendur nýrrar tækni eða ætlum við að skapa hana og byggja upp lífvænleg nýsköpunarfyrirtæki á þeim grunni?

Með því að skapa nýja tækni þá búum við til tekjur fyrir Ísland til framtíðar. Ekki bara með tekjuskatti vegna þeirra starfa sem skapast, heldur líka tekjur af vörunum sem við seljum á alþjóðlegum mörkuðum. Hér á landi eru fjölmörg sprotafyrirtæki sem og stærri nýsköpunarfyrirtæki eins og CCP, Marel og Össur, sem eru stöðugt að þróa framúrstefnuleg verkefni á heimsmælikvarða. Jarðvegurinn hér er frjór, flóran er til staðar en garðyrkjumaðurinn verður að vinna vinnuna og rækta garðinn sinn. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna.

Lög um nýsköpunarfyrirtæki sem voru sett í apríl á síðasta ári voru afar jákvætt skref en þau eru takmörkuð þar sem skattaívilnandi þakið er of lágt, en í Bretlandi t.d. er ekkert þak á skattaívilnanir til þróunarverkefna. Nú er staðan þessi að stærri nýsköpunarfyrirtæki þurfa sum hver að færa þróunarverkefni sín til annarra landa, ef þau hafa tækifæri til þess, þar sem það er mun hagkvæmara fyrir þau. Ef við ætlum að verða samkeppnishæf þá verðum við að beita sértækum aðgerðum og stuðningi þar sem gengissveiflur eru íslenskum fyrirtækjum erfiðar, við erum langt frá mörkuðum og það er oft erfitt að fá hæft starfsfólk í þau störf sem um ræðir.

Lagaumhverfið í dag hamlar vexti nýsköpunarfyrirtækja, bæði stórra og smárra, og við það verður ekki búið. Að mínu mati eigum ekki að líta á skattaívilnanir sem kostnað heldur leið til að auka tekjur okkar til framtíðar. Það er mín skoðun, að ef við förum ekki þá leið, þá verði róðurinn of þungur fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki og þau MUNU sitja eftir í alþjóðlegri samkeppni og ríkissjóður verður af miklum tekjum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. mars 2017.

Categories
Greinar

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Deila grein

08/03/2017

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Ein leið væri til dæmis sú að breyta núverandi löggjöf um fæðingarorlof.

Löng bið
Verðandi foreldrar á landsbyggðinni sem búa fjarri fæðingarþjónustu eða/og búa við þær landfræðilegu aðstæður að samgöngur eru ótryggar, þurfa yfirleitt að fara að fara að heiman nokkru fyrir áætlaðan fæðingardag. Þetta á t.d. við um íbúa í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Yfirleitt er miðað við 38. viku meðgöngu nema að um áhættumeðgöngu sé að ræða. Börnin koma þegar þeim hentar þannig að foreldrar geta lent í því að bíða fæðingar í allt að 4 vikur, fram að 42. viku en þá eru konur yfirleitt gangsettar.

Breytingar á lögum
Núverandi kerfi felur í sér óásættanlegan ójöfnuð á milli landshluta. Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, af ofangreindum ástæðum og þá dregst sá tími, þ.e. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Þannig að barn og foreldrar njóta styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu.

Réttur barnsins
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð, ásamt fleiri þingmönnum, fram frumvarp með breytingu á lögum um fæðingarorlof. Með frumvarpinu er lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Málið hefur fengið umfjöllun á Alþingi og er nú í vinnslu hjá Velferðarnefnd.

Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Greinin birtist á www.dfs.is 5. mars.

Categories
Greinar

Hvers vegna að halda upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars?

Deila grein

08/03/2017

Hvers vegna að halda upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars?

Það er í fyrsta lagi réttlætismál. Við viljum væntanlega flest öll að að mæður okkar, konur, systur og dætur hafi sömu möguleika og karlar. En ekki nóg með það, við viljum einnig nýta allra krafta og eins og oft hefur verið sagt áður þá er jafnréttisbaráttan ekkert einkamál kvenna, langt í frá.

Nú um stundir er mikið rætt um Jafnlaunavottun og þau sjálfsögðu réttindi að borga körlum og konum sambærileg laun fyrir sömu vinnu. Árið 2005 var haldið málþing á vegum jafnréttisráðs en Jafnréttisþing sem nú er haldið annað hvert ár hefur leyst það að hólmi. Þá, árið 2005, var farið að fjalla um nauðsyn þess að innleiða kerfi eða staðal og unnið var með módel frá Staðlaráði. Í ræðu sem þáverandi Velferðarráðherra, Árni Magnússon hélt sagði hann kynbundinn launamun ekki vera náttúrulögmál og hann sagði ennfremur að æskilegast væri að innleiða gæðavottunarkerfi til þess að ná fram markmiðum, eða til þess að eyða kynbundnum launamun. Hann rökstuddi mál sitt með því að nefna umhverfisvottun sem hafði virkað vel og þannig yrði árangur fyrirtækja og stofnana í jafnréttismálum eftirsóknarverður og hvati til aðgerða. Ráðherra benti einnig á að þá þegar var hafin í félagsmálaráðuneytinu vinna við útfærslu íslensks jafnlaunavottunarkerfis og að unnið hafi verið að því nánu samráði við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu sem og fulltrúa vinnuveitenda og launafólks.

Allar götur síðan hefur farið fram markviss vinna í átt að því að innleiða Jafnlaunastaðalinn, hugsa allar leiðir til þess að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka skrefin til enda. Árið er 2017 og jöfn laun fyrir sömu vinnu er jafn sjálfsögð krafa og hún var árið 2005 þegar fyrstu hugmyndir ráðherra Framsóknar um jafnlaunavottun komu fram. En það er ekki sama hvernig verkið er unnið, allir þurfa að vanda sig, réttu hvatarnir þurfa að vera til staðar þannig að við þurfum ekki að bíða áfram í 12 ár til þess að sjá þau sjálfsögðu réttindi að borga körlum og konum sambærileg laun fyrir sömu vinnu. Til hamingju með daginn – öll sem eitt.

Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður LFK, og Sunna Gunnars Marteinsdóttir, varaformaður LFK.

Categories
Greinar

Brýnasta velferðarmálið

Deila grein

06/03/2017

Brýnasta velferðarmálið

Um allangt skeið hafa vextir á Íslandi verið mun hærri en gerist og gengur í öðrum vestrænum ríkjum.

Almennt séð hljóta háir vextir að rýra lífskjör almennings sem og samkeppnisstöðu atvinnulífsins og langvarandi vaxtamunur við útlönd, óháð hagsveiflum, hlýtur því að fela í sér töluvert velferðartap fyrir landið. Það ætti því enginn að velkjast í vafa um það að lækkun vaxta sé eitt brýnasta velferðarmálefni sem nú blasir við landsmönnum.

Of háir, of lengi

Vaxtamunur við útlönd hefur gjarnan verið rakinn til þess að verðbólga hér hefur verið hærri en erlendis. Það leiðir til hærri verðbólguvæntinga, sem svo hlýtur að leiða til hærri nafnvaxta. Jafnframt að sparnaðarhneigð sé fremur lítil meðal almennings og því þurfi tiltölulega hátt raunvaxtastig til þess að halda innlendri eftirspurn í skefjum á uppsveiflutímum. Þessi rök eru í sjálfu sér góð og gild. Hins vegar er staðan sú að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið vel neðan við skilgreind verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands undanfarin þrjú ár. Jafnframt er ljóst að einkaneysla hefur þrátt fyrir allt vaxið hægar en ráðstöfunartekjur á sama tíma, samhliða því að skuldir heimilanna hafa lækkað sem hluti af landsframleiðslu. Virðist því sem að tengslin á milli sparnaðar og vaxta hafi breyst eftir bankahrun. Allan þennan tíma, frá ársbyrjun 2014, hefur Seðlabankinn spáð hærri verðbólgu en raunin hefur orðið og miðað stýrivexti sína við þær spár. Má af því leiða að bankinn hefur haldið vöxtum of háum allan þennan tíma.

Alþingi og Seðlabankinn

Vart verður um það deilt að sjálfstæði seðlabanka er einn af hornsteinum hans. Pólitísk afskipti af bankanum ættu að vera sem minnst. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að lög um markmið Seðlabankans, og bankana að öðru leyti, eru samin af löggjafanum, Alþingi, og eru því í eðli sínu pólitísk. Þá má ekki gleyma því að Seðlabanki Íslands er banki ríkissjóðs. Útgjöld sem ákveðin eru af Alþingi og framkvæmd af ráðherrum eru greidd af Seðlabankanum þar sem helsti viðskiptareikningur ríkissjóðs er til staðar.

Seðlabankinn getur ekki neitað ríkissjóði um bankaþjónustu á borð við útgreiðslu gjalda sem Alþingi hefur samþykkt að skuli eiga sér stað jafnvel þótt Seðlabankinn geti gert athugasemd um hagræn áhrif slíkra útgjalda, sem hann oft gerir. Þá sér Seðlabankinn um að gefa út ríkisskuldabréf á markaði. Starfsemi Seðlabankans er við kemur þjónustu við pólitíska aðila er því töluverð þótt Seðlabankinn sé sjálfstæður þegar kemur að beitingu stýritækja sinna.

Lokkandi stýrivextir

Eitt af helstu stýritækjum Seðlabankans til að tryggja verðbólgumarkmið, eru svo kallaðir stýrivextir, sem eru grundvöllur að vaxtastiginu í landinu. Eftir því sem vextir Seðlabankans eru hærri, því hærri eru vextir á markaði. Það er ekki óalgengt að svo kölluð vaxtamunaviðskipti (e. carry-trade) séu stunduð á mörkuðum smárra mynta, eins og íslensku krónunnar. Þá taka fjárfestar lán á lágum vöxtum og fjárfesta þar sem hærri vextir bjóðast.

Það blasir við að vaxtastefna Seðlabankans átti stóran þátt í því hversu mikið fjármagn kom til landsins í aðdraganda hrunsins; hinir háu vextir lokkuðu fjárfesta hingað. Þess má geta að vextir í mörgum Evrópulöndum eru nú í kringum 0,0%, en á Íslandi eru þeir 5,0%. Staðan um þessar mundir á Íslandi er svo sú, að íslenskir fjárfestar hafa búið við gjaldeyrishöft frá haustinu 2008 og vegna þeirra hefur byggst upp ójafnvægi milli núverandi vægis eigna í eignasöfnum þeirra þegar kemur að innlendum og erlendum eignum. En m.a. vegna hárra vaxta á Íslandi minnkar hvati lífeyrissjóða – og annarra íslenskra aðila – til að dreifa áhættu fjárfestinga sinna milli Íslands og umheimsins. Vægi hins óstöðuga íslenska hagkerfis verður of mikið miðað við erlend hagkerfi í eignasöfnum lífeyrissjóða sem dregur úr styrk þeirra til að mæta efnahagslegum áföllum. Þessi staða getur ekki talist heppileg.

Svara þarf …

Nú hefur verið lögð fram á Alþingi, af þingflokki Framsóknar, tillaga til þingsályktunar um að fela forsætisráðherra að skipa þverpólitíska nefnd óháðra sérfræðinga til að rannsaka með greinargóðum og nákvæmum hætti: Áhrif af breytingum á gengi íslensku krónunnar á innlenda neysluhegðun; áhrif af gengissveiflum á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og atvinnugreinaskiptingu landsins; tengsl stýrivaxta Seðlabanka Íslands og gengis íslensku krónunnar; áhrif af innstreymi gjaldeyris á innlenda vexti, bæði langtíma og skammtímavexti; hvort 3,5% uppgjörskrafa lífeyrissjóða stuðli að háum langtímavöxtum á Íslandi; hvort vaxtastefna Seðlabanka Íslands stuðli að háum vaxtakostnaði fyrir ríkissjóð.

Svör við þessum spurningum eru afar mikilvæg til að tryggja samkeppnishæfni landsins, stöðugleika og almenna velferð.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2017.

Categories
Greinar

Efnahags- og viðskiptanefnd kemur að borðinu

Deila grein

04/03/2017

Efnahags- og viðskiptanefnd kemur að borðinu

Fjármálakerfið á að styðja við hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu, en ekki vera eingöngu til fyrir sjálft sig. Stjórnvöld eru í einstakri stöðu til að búa svo um hnútana að fjármálakerfið tryggi hagsæld í landinu. Ekki aðeins getur ríkisvaldið mótað lagaumgjörð fjármálafyrirtækja, heldur geta stjórnvöld gripið til beinna aðgerða í ljósi umfangsmikils eignarhalds á stærstu fjármálafyrirtækjum landsins.

Fjármála- og efnahagsráðherra birti nýverið drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins. Í henni er aðallega fjallað um vilja hins opinbera til að selja hlut sinn, en engin framtíðarsýn er sett fram fyrir fjármálakerfið í heild. Ríkissjóður ráðgerir að eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa, en selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa.

Hér þarf að staldra við, því áður en kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki verða selda þurfum við að meta hvernig fjármálakerfi hentar best íslenskum aðstæðum. Við eigum að; 1) skoða heildarstærð bankakerfisins, hvort hægt sé að hagræða og þá lækka þjónustugjöld og vaxtakostnað, 2) meta hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera í fjármálafyrirtækjum til skemmri og lengri tíma litið, 3) meta hvort og þá með hvaða hætti eigi að skilja að viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, 4) meta hvort dreift eignarhald eða samþjappað þjóni hagkerfinu best til lengri tíma litið og 5) skoða hvernig bankakerfið geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka. Í þessari mikilvægu vinnu er brýnt að líta til alþjóðlegrar þróunar og taka mið af reynslu annarra þjóða.

Í umræðum á Alþingi í upphafi vikunnar lagði ég áherslu á mikilvægi þess að ráðast í heildarendurskoðun á fjármálakerfinu áður en sala ríkiseigna hæfist. Víðtæk sátt virðist vera um slíka endurskoðun innan efnahags- og viðskiptanefndar er samstaða um að taka málið að sér og vinna vegvísi að framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar. Það er fagnaðarefni að löggjafinn hafi tekið að sér það mikilvæga hlutverk á fyrstu stigum málsins. Fólkið í landinu á skilið að vandað verði til verka.

Lilja Alfreðsdóttir.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. mars 2017. 

Categories
Greinar

Dauðafæri: framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar

Deila grein

27/02/2017

Dauðafæri: framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar

Ég vil fjármálakerfi sem er hagkvæmt og traust og þjónar landsmönnum öllum, jafnt heimilum og atvinnulífi. Fjármálakerfi sem er stöðugt og getur tryggt nauðsynlega innviði öllum stundum. Aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði eru einstakar til mótunar framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar, þar sem eignarhald Ríkissjóðs Íslands á fjármálafyrirtækjum er með því umfangsmesta meðal ríkja í Evrópu. Ekki aðeins getur ríkisvaldið sett lagaumgjörð um bankana og þannig haft áhrif á framtíðarskipan fjármálakerfisins heldur getur það náð fram breytingum sem eigandi þeirra. Endurskipulagning bankakerfisins eftir fjármálaáfallið hefur tekist vel, bankarnir eru traustir og gæði eigna hafa aukist umtalsvert síðustu ár.

Engin framtíðarsýn í drögum að eigendastefnu
Hinn 10. febrúar sl. birti fjármála- og efnahagsráðherra uppfærð drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkissjóður stefnir að því að eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess. Að öðru leyti er nefnt að 60-66% eignarhlutur í bankanum verði seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkaði. Ríkissjóður stefnir að því að selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa.

Fjármálakerfið þjónusti heimili og fyrirtæki
Áður en lengra er haldið og tilkynnt er um umfangsmikla eignasölu á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum þarf að ákveða hvernig fjármálakerfi hentar okkur best. Markmiðið hlýtur að vera að bankakerfið þjóni heimilum og atvinnulífi á hagkvæman hátt og að fjármálakerfið sé traust. Í þeirri vinnu þarf meðal annars að horfa til eftirtalinna sjónarmiða.
Heildarstærð bankakerfisins. Skoða þarf umfang bankakerfisins, meta hvort núverandi stærð þess sé æskileg og hvort hægt væri að ná fram frekari stærðarhagkvæmi í kerfinu. Ný eigendastefna skilar hér auðu.
Eignarhlutur og þátttaka á fjármálamarkaði. Meta þarf hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera til skemmri og lengri tíma litið ásamt því að skoða hversu stór þátttakandi ríkissjóður á að vera á fjármálamarkaði. Í ljósi sögunnar er rétt að ríkissjóður sé leiðandi fjárfestir í a.m.k. einum banka.
Endurskipulagning fjármálakerfisins. Skoða þarf hvort hagkvæmt sé að sameina ákveðnar einingar eða skipta þeim upp. Í þessu gætu falist möguleikar til hagræðingar og lækkunar kostnaðarhlutfalla.
Aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi. Greina þarf leiðir til að draga úr áhættu fjármálakerfisins gagnvart ríkissjóði og kanna meðal annars hvort aðskilnaður á viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi komi til með að vera heppilegt fyrirkomulag í því sambandi. Þennan þátt þarf sérstaklega að skoða með hliðsjón af því hver þróunin er hjá öðrum ríkjum.
Dreift eignarhald eða leiðandi fjárfestar. Skoða þarf gaumgæfilega hvaða form af eignarhaldi hentar best hagsmunum hagkerfisins og líta til þess hversu burðug eftirspurnarhliðin er í þeim efnum. Einnig ber að líta á fýsileika erlends eignarhalds, hvað sé farsælt til lengri tíma litið og skoða Norðurlandaríkin sérstaklega.
Erlend lánsfjármögnun. Með hækkandi lánshæfismati samhliða trúverðugri endurreisn hagkerfisins hefur fjármögnunarkostnaður bankakerfisins lækkað verulega. Hann er hins vegar ennþá í hærri kantinum. Greina þarf hvernig bankakerfi geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka og hvernig samkeppnishæfni þeirra gæti aukist með skynsamlegu rekstrarfyrirkomulagi.
Alþjóðlegur samanburður. Afar brýnt er að líta til alþjóðlegrar þróunar og taka mið af því sem hefur reynst öðrum þjóðum vel.

Tillaga til stjórnvalda
Ég legg til að settur verði á laggirnar hópur sérfræðinga sem gerir drög að vegvísi fyrir framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar þar sem ofangreindir þættir verði skoðaðir. Markmiðið verði að móta tillögu að skipulagi á fjármálamarkaði sem komi til með að þjónusta íslensk heimili og fyrirtæki á ábyrgan og farsælan hátt. Sérstaklega skal litið til annarra lítilla opinna hagkerfi og reynslunnar á Norðurlöndum. Einnig kann að vera skynsamlegt að ríkissjóður skilgreini fyrirfram hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar á fjármálamarkaði áður en kemur til söluferlis í þeim tilgangi að auka fyrirsjáanleika og trúverðugleika á markaðnum.
Það er einstakt tækifæri og dauðafæri til að útfæra farsæla stefnu er varðar íslenskan fjármálamarkað og því er brýnt að nýta þetta tækifæri vel og vanda til verks.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2017. 

Categories
Greinar

Jöfnum stöðu foreldra

Deila grein

25/02/2017

Jöfnum stöðu foreldra

Öllum börnum er það mikilvægt að eiga góð samskipti við báða foreldra sína. Lagaþróunin síðustu áratugina hefur verið á þá leið að jafna stöðu foreldra  svo að foreldrar geti tekið jafna ábyrgð á umönnun og velferð barna sinna, má þar m.a. nefna breytingar á barnalögum frá árinu 1992 og ný lög um húsnæðisbætur.
Á síðustu árum hefur mikill meirihluti foreldra sem hafa skilið eða slitið samvistum, eða 85  – 95 % samið um sameiginlega forsjá. Er þá oft um að ræða að barn sé viku hjá föður og viku hjá móður.

Þrátt fyrir þessa staðreynd í okkar ágæta samfélagi og þau spor sem stigin hafa verið, þá er regluverk ríkisins enn talsvert brotakennt þegar kemur að þessum þáttum. Það getur haft áhrif víðar út í samfélagið, t.d. til sveitarfélaga sem reka þjónustu og haga störfum sínum eftir því regluverki sem að þeim er sett.

Þann 12. maí 2014 var samþykkt þingsályktunartillaga um að fela innanríkisráðherra og félags – og húsnæðismálaráðherra að skipa starfshóp sem kanni með hvaða leiðum megi jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Þann 24. september 2015 skilaði starfshópurinn niðurstöðum sínum. Niðurstöðurnar voru að gerðar verði breytingar á barnalögum til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ákveða að ala upp barn saman á tveimur heimilum. Þar komi inn nýtt ákvæði sem heimili skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Auk þessa eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum varðandi opinberan stuðning, breytingar á lögum um lögheimili og breytingar á barnalögum. Ásamt því er lagt  til að sveitarfélög landsins lagi þjónustu sína að breyttum þjóðfélagsháttum og taki þannig virkt tillit til jafnrar ábyrgðar og skyldna foreldra á uppeldi og umönnun barna í málum sem þau varða og falla undir valdsvið sveitarfélaga.

Nú er komið um eitt og hálft ár síðan starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum. Einu breytingarnar sem komið hafa fram er að með nýjum lögum um húsnæðisbætur telst barn til heimilis hjá báðum foreldrum sínum og eru það afar jákvæð skref. En enn er beðið eftir öðrum aðgerðum sem starfshópurinn lagði til. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi á dögunum til dómsmálaráðherra. Þar spurði ég eftirfarandi spurninga: er unnið að lagabreytingum á grunni skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum sem lögð var fram á Alþingi í september 2015? Ef svo er, hvenær verða frumvörp um málið lögð fram? Ef ekki, hvenær ætlar ráðherra að hefja þá vinnu? Ég hef fulla trú á að ráðherra svari fyrirspurn minni fljótt, þar sem þetta mál er eitt af áherslumálum núverandi ríkisstjórnar.

En í stjórnarsáttmálanum segir m.a. að samfélagið eigi að styðja við ólíkar fjölskyldugerðir og hvetja til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt. Þar kemur jafnframt fram að réttur barna skuli tryggður til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og aðstaða umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra jöfnuð.

Hér er linkur á fyrirspurnina sem lögð var fram: https://www.althingi.is/altext/146/s/0254.html

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 24. febrúar 2017.

Categories
Greinar

Við getum og eigum að gera betur

Deila grein

21/02/2017

Við getum og eigum að gera betur

Undanfarin ár hefur það verið skýr og sanngjörn krafa landsmanna að allir hafi góðan og greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Krafan er að allir hafi aðgang, óháð stöðu, búsetu eða efnahag. Krafan er mjög skiljanleg. Því þrátt fyrir að á síðasta kjörtímabili hafi verið gefið verulega í til málaflokksins, þá þarf meira til. Enn betur þarf að laga starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna, aðstöðu sjúklinga og síðast en ekki síst þarf stefnumótun í heilbrigðismálum. Í því samhengi þarf að líta til þjóðarsjúkrahúss okkar, LSH og einnig til þeirra öflugu heilbrigðisstofnana sem eru víða um landið.

Forgangsmál Framsóknarmanna á þessum þingvetri er þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun. Markmið tillögunnar er að heilbrigðisráðherra vinni heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þessa áætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Hjá því liggur þekkingin, það er fólkið sem þekkir til aðstæðna, sóknarfæra og þess sem betur má fara í kerfinu. Okkur Framsóknarmönnum finnst mikilvægt að fagfólkið komi víða af landinu, því aðstæður geta verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu á landsbyggðinni eða Landspítalann.

Við gerð heilbrigðisáætlunar skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt að okkar mati, því undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir víða um landið verið sameinaðar. Þær sinna nú margar heilu landsfjórðungunum og oft er um erfiðan veg um að fara milli starfsstöðva stofnananna. Samkvæmt tillögunni skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo að eitthvað sé nefnt. Auk þess skal jafnframt líta til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala.

Við, þingmenn Framsóknarflokksins vonum að samstaða náist um þessi mikilvægu mál. Við þurfum að svara: hver er framtíðarsýn fagfólks og stjórnmálamanna um heilbrigðismál? Hvert ætlum við að stefna? Viljum við efla heilbrigðisstofnanir víða um landið eða á að bjarga málunum með auknum einkarekstri? Hvað vilja landsmenn? Hér er um að ræða stórar spurningar en taka þarf ákvörðun. Það er löngu tímabært.

Elsa Lára Arnardóttir og Þórunn Egilsdóttir. 

Greinin birtist á Visir.is 21. febrúar 2017. 

Categories
Greinar

Óvinsæl ríkisstjórn

Deila grein

06/02/2017

Óvinsæl ríkisstjórn

SigurdurIngi_vef_500x500 (1)Stuðningur landsmanna við nýja ríkisstjórn hefur nú verið mældur og er fjórðungur ánægður með hana. Þeir sem eru mjög ánægðir eru innan við 10%. Það sem vekur nokkra athygli þegar rýnt er í niðurstöðu Maskínu, sem gerði könnunina, er að ríkisstjórnin nýtur mikillar hylli hjá þeim sem háar tekjur hafa. Þar er hlutfall ánægðra um þriðjungur. Og enn hækkar hlutfall ánægðra þegar hópurinn sem telur sig hafa hærri tekjur en meðaltekjur heimila í landinu er veginn. Þar er ánægjan um 40%. Þetta er í sjálfu sér ekkert vandamál en segir okkur kannski eitthvað um þá skírskotun sem hin nýja stjórn hefur.

Annar kostur
Það var ekki augljóst eftir kosningar hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, svokallað flækjustig var hátt, aðallega vegna þess að ýmsir höfðu verið með ótímabærar og stórkarlalegar yfirlýsingar fyrir kosningar og jafnvel eftir. Ég vil þó segja hér að ég tel, og er þess raunar fullviss, að aðrir möguleikar hafi verið uppi á borðum. Hægt hefði verið að mynda annars konar stjórn sem hefði haft mun breiðari pólitíska skírskotun en sú hægri stjórn sem var mynduð undir stjórn og forystu þeirra Engeyjarfrænda. Forsætisráðherra er mætavel kunnugt um það. En sá á kvölina sem á völina og 25% ánægja er niðurstaðan með það val. En það sem er liðið er liðið. Framtíðin er það sem mestu máli skiptir. Nú er bara að vona að þær traustu undirstöður, sem lagðar voru fyrir efnahagslegar framfarir og hagsæld á tíma síðustu ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins, haldi.

Þjónar, ekki herrar
Vinna, vöxtur og velferð, manngildi ofar auðgildi eru einkunnarorð Framsóknarmanna. Til þess að tryggja velferð verður að vera örugg atvinna um allt land, fyrir alla. Það er ekki ástæða til að örvænta um framtíð Íslands. Nú sem fyrr höfum við úr miklu að spila og enginn á að þurfa að líða skort. Við munum væntanlega fá meira af því sama á næstu árum. Verðbólga verður lág, hagvöxtur mun halda áfram, kaupmáttur launa mun vonandi styrkjast enn frekar. En það mun koma að því að um hægist. Því er mikilvægt að tryggja hagsmuni okkar sem þjóðar til framtíðar. Það verður best gert í sátt. Fólk má ekki fá þá tilfinningu að sumir séu jafnari en aðrir, vegna ákvarðana sem teknar eru á vettvangi stjórnvalda. Stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins, ekki herrar.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Dagskránni 2. febrúar 2017. 

Categories
Greinar

Kæruleysi stjórnvalda

Deila grein

03/02/2017

Kæruleysi stjórnvalda

lilja____vef_500x500Sjómenn og fjölskyldur þeirra finna verulega fyrir verkfallinu sem staðið hefur í yfir sjö vikur. Fiskverkafólk í landi er að lenda í alvarlegum vandræðum vegna tekjumissis. Að auki hefur verkfallið víðtæk áhrif á þau sveitarfélög sem eru háð sjávarútvegi. Í sumum tilfellum koma um 40% tekna sveitarfélaganna beint eða óbeint frá sjávarútvegi. Af þessu má ljóst vera að talsverð óvissa ríkir hjá mörgum sveitarfélögum, þar sem þau halda að sér höndum varðandi fjárfestingar og samneyslu. Erlendir markaðir eru að glatast þar sem afhendingaröryggi ferskra sjávarafurða er ekki lengur tryggt. Samkvæmt greiningu Sjávarklasans tapast á hverjum degi 640 milljónir króna í útflutningstekjum og daglegt heildartap er nærri milljarði króna, ef deilan leysist ekki von bráðar. Miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi og tjónið mikið á meðan fiskiveiðiflotinn liggur óhreyfur við bryggju.

Óundirbúin ríkisstjórn

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í vikunni kom fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki látið meta hve mikið þjóðhagslegt tjón hlýst af deilunni. Það er heldur ekki búið að kanna hvort þörf sé á mótvægisaðgerðum fyrir þau sveitarfélög sem koma verst út. Raunar er engu líkara en að sjómannaverkfallið komi ráðherra sjávarútvegsmála ekkert við, því þótt málið hafi ekki verið krufið til mergjar hefur ráðherra útilokað allar sértækar aðgerðir sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar. Slíkt kæruleysi er varasamt og getur valdið meiri þjóðhagslegum skaða af hinu langvinna verkfalli.

Mikilvægt að leysa deiluna án lagasetningar

Sjómenn hafa staðið vaktina fyrir íslenska þjóð í aldaraðir og því er mikilvægt að deilan leysist á farsælan og sanngjarnan hátt án lagasetningar. Allir hlutaðeigandi – útgerðarfyrirtæki, sjómenn og stjórnvöld – þurfa að skoða með opnum huga allar leiðir sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar. Mikil ábyrgð hvílir á þeim öllum og brýnt er að þessi meginstoð atvinnulífsins skaðist ekki til langframa. Stjórnvöld mega ekki stinga höfðinu í sandinn heldur verða þau að meta hið þjóðhagslega tjón strax. Sjómannadeilan ætti að vera helsta viðfangsefni stjórnvalda þessa dagana. Ríkisstjórnin getur ekki látið reka á reiðanum þegar helsta atvinnugrein landsins er í lamasessi og veldur þjóðbúinu ómældu tjóni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er skelegg í allri sinni framgöngu og lætur vonandi til sín taka í þessu erfiða deilumáli.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. febrúar 2017.