Um leið og þeir ríku sem þurfa ekki á peningnum að halda sækja um leiðréttingu og bregðast svo hinir verstu við þegar þeir fá að sjá upphæðina sem þeim var reiknuð því þeim þykir hún of há, er gott að líta til þeirra sem lítið eiga og eru að fá leiðréttingu.
Ef við skoðum útfærslu leiðréttingarinnar kemur fram að 70% fjárhæðar leiðréttingar rennur til einstaklinga sem eiga minna en 11 milljónir í eigin fé og hjóna sem eiga minna en 25 milljónir í eigin fé. En tíðasta gildi leiðréttingarinnar er þar sem eigið fé er í kringum núll.
Því er ekki hægt að halda því fram að auðvaldsmenn séu að soga leiðréttinguna til sín án þess að þurfa á henni að halda og því síður hægt að skilja hvers vegna þetta sama fólk sótti um valfrjálsa leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum til þess eins að koma ríkidæmi sínu á framfæri.
Því ef við lítum aftur á leiðréttinguna þá mun stærstur hluti hennar fara til fólks sem er yngra en 50 ára, á lítið eigið fé í húsnæði sínu, er með lágar tekjur og skuldar á bilinu 15–30 milljónir.
Gíslataka leiðréttingar
Þetta er ekki auðvaldið, þetta er ekki fólkið sem fór óvarlega og kom sér í ofurskuldir og því síður er þetta fólk sem á mikið eigið fé í húsnæði sínu.
Ef við viljum fá nánara dæmi getum við séð að 55% fjárhæðar leiðréttingar fer til einstaklinga sem eiga minna en 4 milljónir í eigin fé og hjóna sem eiga minna en 13 milljónir í eigin fé.
Þeir sem telja sig vel setta halda niðurstöðu leiðréttingarinnar í gíslingu, eins og enginn megi gleðjast og helst eigi að fyrirlíta þá upphæð sem fólk sá birtast á skjánum hjá sér þann 11. nóvember síðastliðinn.
Með leiðréttingunni mun eiginfjárstaða heimila í húsnæði aukast með beinum hætti um leið og lág verðbólga og hækkandi fasteignamat styrkir stöðu þeirra. Um 4.000 aðilar munu færast yfir í jákvætt fé.
Þegar ráðstöfunartekjur aukast, afborganir lána lækka og eiginfjárstaða 54 þúsund heimila, það er 91 þúsund einstaklinga, styrkist er ekki annað hægt en að fagna með samborgurum sínum sem fá lækkun verðtryggðra húsnæðisskulda þó hún sé ekki full leiðrétting á þeim forsendubresti sem varð. Við stígum þó skrefin í rétta átt.
Jóhanna María Sigmundsdóttir
Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. nóvember 2014
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.