Categories
Greinar

Auðveldum kaup á fasteignum

Deila grein

21/10/2015

Auðveldum kaup á fasteignum

VilllumlíneikÍ tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum sendi ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu um aðgerðir í húsnæðismálum. Þar er til að mynda litið til þess að auðvelda fólki kaup á fasteignum, þá sérstaklega ungu fólki sem vill festa kaup á sinni fyrstu eign.

Séreignarsparnaðarleiðin fest í sessi
Eins og margir muna eflaust fór ríkisstjórnin í skuldaleiðréttingaraðgerðir fyrir íslensk heimili með verðtryggðar húsnæðisskuldir fyrr á þessu kjörtímabili. Aðgerðirnar snerust annars vegar um beina niðurfærslu verðtryggðra lána og hins vegar heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa. Nú er heimildin til skattfrjálsrar ráðstöfunar tímabundin, til fimm ára þegar um er að ræða húsnæðissparnað. Ein af þeim aðgerðum sem samþykkt var að ráðast í er að skoða möguleika þess að húsnæðissparnaðurinn verði gerður að varanlegu sparnaðarformi. Þannig verði komið til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, með hvata til sparnaðar og skattaafslætti. Þetta er oft ungt barnafólk og einmitt sá hópur sem að flestra mati er mikilvægt að hlúa að.

Hagkvæmari byggingar
Þá er verið að leita leiða til að lækka kostnað vegna byggingar íbúðarhúsnæðis. Lækki byggingarkostnaður eru líkur á að framboð á ódýru húsnæði aukist. Sveitarfélög gætu lagt sitt af mörkum með lækkun lóða- og gatnagerðargjalda til að lækka byggingarkostnað enn frekar.

Umhverfisráðherra skipaði starfshóp þann 30. júní sl. í þeim tilgangi að endurskoða byggingarreglugerð og löggjöf á sviði byggingar- og skipulagsmála með ofangreint að markmiði. Gert er ráð fyrir að hann skili tillögum sínum til ráðherra eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.

Litið til fleiri þátta en greiðslumats
Einnig er unnið að því að um fasteignalán til neytenda verði sett sérlög og lánveitendum veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en niðurstöðu greiðslumats við ákvörðun um lánveitingu. Í dag er alltof algengt að fólk komist ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greiða leigu sem er hærri en afborganir af húsnæðisláni og vera í raun fullfært um að standa undir greiðslum af húsnæðisláni.

Þær breytingar sem boðaðar hafa verið eru til þess fallnar að greiða leið þeirra sem vilja skapa sér sitt eigið heimili. Við styðjum því þessar aðgerðir heilshugar.

Willum Þór Þórsson og Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. október 2015.

Categories
Greinar

Íslandsbanki ríkisbanki – Mistökin og framtíðin

Deila grein

20/10/2015

Íslandsbanki ríkisbanki – Mistökin og framtíðin

ásmundurNú berast fréttir af því að kröfuhafar Glitnis leggi til að eignarhlutur í Íslandsbanka renni til ríkisins og það verði hluti af stöðugleikaframlagi. Þessar fréttir verða að skoðast í því ljósi að þetta eru tillögur frá kröfuhöfunum sjálfum og eiga stjórnvöld eftir að taka afstöðu til þeirra. En ljóst má vera að þeir leggja þetta til þar sem ekki er mögulegt að uppfylla ströng stöðugleikaskilyrði með öðrum hætti.

Íslandsbanki var upphaflega stofnaður sem einkabanki og rekinn sem slíkur þar til árið 2008 þegar hann var ríkisvæddur með neyðarlögunum. Ríkisstjórn Vinstri Grænna og Samfylkingar ákvað síðan að afhenda kröfuhöfum bankann á síðasta kjörtímabili.

Þessar nýju fréttir vekja óneitanlega upp spurningar um af hverju Íslandsbanki var afhentur kröfuhöfum á síðasta kjörtímabili? Það var greinilega ekki hugsunin að taka fast á þessum málum og verja hagsmuni Íslands. Eða voru menn kannski að hugsa um að láta kröfuhafana eiga bankanna tímabundið? Ef sú var raunin þá hlýtur að þurfa að gera úttekt á því hvað verðmæti bankans jókst frá þeim tíma til dagsins í dag.

Nóg um það en nú þarf að horfa til framtíðar og læra af mistökum sem gerð voru á síðasta kjörtímabili.

Samfélagsbanki í eigu almennings!

Vandi síðustu ríkisstjórnar var að hún stillti sér upp með fjármálakerfinu og kröfuhöfum í stað þess að standa með almenningi. Bankakerfið er til fyrir heimili og fyrirtæki landsins en ekki öfugt. Verði þetta raunin þá er ljóst að ríkið á tvo af þremur stærstu bönkunum og í framhaldinu þá er nauðsynlegt að móta stefnu fyrir bankakerfið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Það verður að fá fleiri að þeirri vinnu heldur en „reynda“ bankamenn.

Það er mikilvægt að annar þessara banka verði að stórum hluta í eigu almennings í landinu. En í stað þess að ríkið eitt eigi bankann þá ættum við að skoða þann möguleika að allir Íslendingar geti beint og milliliðalaust eignast hlut í öðrum þessara banka. Um hann verði í framhaldinu mótuð stefna með að það markmiði að bjóða sem hagkvæmasta þjónustu og tryggja hagsmuni almennings. Í raun ætti að skoða þann möguleika að afhenda almenningi hluta bankans gegn skýrum skilyrðum og á hagstæðum kjörum. Verði þetta skoðað þá þarf hinsvegar að móta mjög skýrar og gegnsæjar reglur sem tryggja að ekki sé um að ræða aðkomu fárra útvaldra og að ekki sé hægt að framselja hlutina í von um skyndigróða. Ef vel tekst til þá gæti stofnun á slíkum samfélagsbanka orðið skynsamleg aðgerð bæði efnahagslega og lýðræðislega.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á blog.pressan.is/asmundurd/ 20. október 2015.

 

Categories
Greinar

Pylsuvagn á aðventu í Tókýó

Deila grein

11/10/2015

Pylsuvagn á aðventu í Tókýó

GBSNýlega birtust fregnir af því að í hillum verslana í New York væri nú aftur að finna íslenska bjórinn Einstök sem þaðan hafði horfið tímabundið eftir bráðræðislega ákvarðanatöku í ráðhúsinu við Tjörnina.

Á komandi aðventu verður alíslenskum pylsuvagni komið fyrir í Tókýó og í Finnlandi eru þarlendir orðnir heimsins mestu aðdáendur íslenska skyrsins sem selst þar í tvöfalt meira magni en í upprunalandinu. Austur í Moskvu gæða gestir virtustu veitingahúsanna sér á lambakjöti, Japanir dásama íslenskar æðardúnssængur og á síðustu árum hafa Kínverjar kynnst gæðum grásleppunnar okkar.

Hvað eiga þessi mál sameiginlegt fyrir utan það að þessar gæðavörur eru framleiddar úr íslenskum hráefnum og markaðssettar af kraftmiklum íslenskum fyrirtækjum? Um öll þessi mál og aragrúa annarra liggja þræðir til viðskiptafulltrúa sem starfa við sendiráð Íslands en þessir fulltrúar eru þjónustuarmur útflutningsþjónustu utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu erlendis.

Á hverjum degi vaka sendiráð okkar og viðskiptafulltrúarnir yfir hagsmunum íslenskra fyrirtækja sem af áræði og dugnaði reyna að hasla sér völl á nýjum mörkuðum. Viðskiptafulltrúarnir sýna frumkvæði við að þjónusta fyrirtæki, eygja ný tækifæri og greiða viðskiptaaðilum leiðina í gegnum frumskóg skrifræðis og reglugerða og beita til þess ómældri útsjónarsemi. Þá geta þeir brugðist skjótt við vályndum veðrum sem gera oft fyrirvaralaust vart við sig erlendis.

Það liggur í hlutarins eðli að kjötútflutningur til Japans, sala sjávarafurða á Kínamarkað og stríður ferðamannastraumur til Íslands gerist ekki af sjálfu sér og í mörgum tilfellum þarf aðkomu hins opinbera. Viðskiptafulltrúarnir okkar eru staðsettir í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn, Berlín, Moskvu, Nýju-Delí, Peking, Tókýó, Ósló, Helsinki, New York og London og búa þeir yfir ómældri reynslu og þekkingu á staðháttum, hafa mikilvægt tengslanet og sambönd bæði í gistiríkjunum og í umdæmislöndum sendiráðanna. Óhætt er að fullyrða að viðskiptafulltrúarnir eru ómetanlegur hlekkur í keðju utanríkisþjónustunnar og Íslandsstofu við að greiða leið íslenskra fyrirtækja, hugvitsfólks og aðila á sviði lista og menningar á erlendum mörkuðum, eins og dæmin sanna.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. október 2015.

Categories
Greinar

Auðveldara að flytja að heiman

Deila grein

08/10/2015

Auðveldara að flytja að heiman

Elsa-Lara-mynd01-vefurharaldur_SRGBKarl_SRGB4 af hverjum 10 Íslendingum á aldrinum 20-29 ára búa enn í foreldrahúsum samkvæmt tölum Hagstofunnar frá því í sumar. Þetta er nokkuð hátt hlutfall þegar litið er til nágrannalandanna sem við miðum okkur helst við, en t.d. er hlutfallið í Danmörku 10%. Hlutfallið hefur farið hækkandi hér á landi síðustu áratugi. Það má rekja til nokkurra 4 af hverjum 10 Íslendingum á aldrinum 20-29 ára búa enn í foreldrahúsum samkvæmt tölum Hagstofunnar frá því í sumar. Þetta er nokkuð hátt hlutfall þegar litið er til nágrannalandanna sem við miðum okkur helst viðþátta en ljóst er að hækkandi húsnæðisverð á stóran þátt í þessari þróun og er helsta ástæðan sem nefnd er þegar ungt fólk er spurt í dag.

Leiguverð hefur hækkað hratt síðustu ár og framboð hagkvæms og ódýrs húsnæðis er af skornum skammti. Húsnæðisverð hefur hækkað mikið og hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu til að mynda hækkað um 36,5% á einungis 4 árum. Á sama tíma er vilji ungs fólks frekar að kaupa en leigja.

Leiga raunhæfuAuðveldara að flytja að heimanr valkostur
Við viljum auðvelda fólki að flytja að heiman og skapa sér sitt eigið heimili og á haustþingi verða teknar fyrir miklar aðgerðir í húsnæðismálum. Eitt af stóru málunum verður frumvarp um húsnæðisbætur en áætlað er að auka húsnæðisstuðning um 1,1 milljarð króna á næsta ári með það að markmiði að lækka byrði húsnæðiskostnaðar. Við viljum hækka grunnfjárhæð húsaleigubóta, hækka frítekjumarkið og hækka hámarkshlutfall bóta af leiguverðinu.
Einnig verður skattbyrði leigutekna lækkuð úr 14% í 10%. Með því sköpum við hvata fyrir fasteignaeigendur til að gera langtímaleigusamninga og þannig aukum við framboð og öryggi leigjenda með framtíðarhúsnæði í huga.

Auðveldum kaup á fyrstu eign
Við viljum einnig festa í sessi þann hvata til sparnaðar að þeir sem hafa sparað tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst, þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað við kaup á fyrstu íbúð.

Auk þess viljum við veita lánveitendum svigrúm til þess að horfa til fleiri þátta en greiðslumats við ákvörðun um lántöku, en dæmi eru um að fólk sé að greiða leigu sem er mun hærri en afborganir af nýju húsnæði kæmu til með að vera, en komast þó ekki í gegnum greiðslumat.

Framsókn notaði slagorðið „Framsókn fyrir heimilin“ í síðustu kosningum og ekki að ástæðulausu. Okkar áhersla er og verður á heimilin í landinu.

ELSA LÁRA ARNARDÓTTIR, HARALDUR EINARSSON OG KARL GARÐARSSON

Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. október 2015.

Categories
Greinar

Frá fjöru til heiða

Deila grein

06/10/2015

Frá fjöru til heiða

sigrunmagnusdottir-vefmyndFegurð og fjölbreytileiki íslenskrar náttúru er mikill og landslagið síbreytilegt hvort sem er uppi til fjalla, niður til sjávar eða í fögrum dal. Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur 16.september og settu fjölbreyttir og fróðlegir viðburðir víða um land, skemmtilegan svip á daginn.

Í tilefni dagsins voru veitt verðlaun vegna markverðs starfs á sviði náttúruverndar, Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti. Að þessu sinni voru veittar tvennar viðurkenningar til einstaklinga sem hafa af mikilli eljusemi lagt sig fram um að bæta og endurheimta land með ræktun, oft á tíðum við erfið skilyrði. Þessir einstaklingar hafa tekist á við landgræðslu og skógrækt við sorfnar strendur og á hrjóstrugum heiðum og sýnt þannig í verki að þeim er annt um landið.

_MG_5286Viðurkenningarnar hlutu annars vegar hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Núpasveit, sem hafa lagt alúð við að græða og rækta upp jörð sína út við ysta haf. Hins vegar Völundur Jóhannesson sem þekkir hálendið vel og hefur sýnt fram á að þar er hægt að rækta upp og hlúa að gróðri langt yfir þeim hæðarmörkum sem menn hafa talið mögulegt að stunda ræktun.

Á alþjóðlegu ári jarðvegs er við hæfi að heiðra slíka einstaklinga því af jarðveginum og moldinni sprettur gróður og líf sem enginn okkar getur verið án. Um aldir snerist líf og velsæld þjóðarinnar um frjósemi moldarinnar og afrakstur hennar, hvort sem var til beitar eða ræktunar. Góð umgengni um landið felst ekki bara í því að forðast að skilja eftir sig ljót spor eða sviðna jörð heldur ekki síður að leggja sitt af mörkum til að varðveita þann jarðveg sem við eigum og nýta af skynsemi.

Sherry og Jean ræða málinHér á landi hefur verið unnið að jarðvegsvernd í yfir heila öld. Fyrir frumkvæði, þrautseigju og útsjónarsemi frumkvöðla í jarðvegsvernd hér á landi hefur náðst að bjarga sveitum sem voru undirlagðar sandi. Með tímanum hefur aukin þekking og reynsla gert okkur kleift að takast betur á við að laga land og bæta. Það er aðdáunarvert það eljusama starf sem bændur, skógræktarfólk, vísindamenn og áhugafólk hafa af mikilli ástríðu og þolinmæði lagt á sig við að rækta upp, binda örfoka land og græða. Oft á tíðum hefur tekist að endurheimta verðmætt landbúnaðarland sem er lykilþáttur þess að hægt sé að stunda búrekstur í sveitum.

Þessir einstaklingar, líkt og þeir sem hlutu Náttúruverndarviðurkenningar í ár, hafa lagt hug og hönd í verkið án þess að berja sér á brjóst, yrkt jörðina samkvæmt bestu mögulegu þekkingu og virkjað þann kraft sem býr í náttúrunni til að varðveita auðlindina til nota fyrir komandi kynslóðir. Þeir eru sannir náttúruverndarsinnar.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Bændablaðinu 6. október 2015.

Categories
Greinar

Heimilin í fyrsta sæti

Deila grein

05/10/2015

Heimilin í fyrsta sæti

ÞórunnÞorsteinn-sæmundssonEin helsta áhersla Framsóknar – á þessu kjörtímabili sem öðrum – hefur verið á heimilin í landinu. Í byrjun ársins fórum við að sjá áhrif leiðréttingarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum og í vor var samþykkt, samhliða gerð kjarasamninga, að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til úrbóta á húsnæðismarkaði, bæði fyrir leigjendur og eigendur.

Á Íslandi höfum við glímt við fremur takmarkaðan leigumarkað síðustu ár. Fasteignir eru auglýstar til leigu og þá er slegist um hvern lausan fermetra. Þegar eftirspurnin er slík er eðlilegt að verðið hækki samhliða því og efnaminni fjölskyldur eiga þar með erfiðara með að standa undir venjulegum heimilisrekstri. Það er auðsjáanlegt að brýnt er að byggja upp leigumarkaðinn, bæði með auknu framboði hagkvæmra eininga og breytingu á húsaleigulögum. Þessar aðgerðir eru – ásamt fleirum – hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í húsnæðismálum sem birt var síðastliðið vor og verða frumvörp þess efnis lögð fram á þingi nú í haust. Því fögnum við.

Hagkvæmari kostur fyrir tekjulága
Eitt af þessum frumvörpum gengur út á að leggja grunn að nýju leiguhúsnæði. Einungis á næsta ári er ráðgert að verja 1,5 milljörðum króna í verkefnið og í heildina er áætlað að byggja 2.300 leiguíbúðir á næstu 4 árum. Nýja leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema um 30% af stofnkostnaði.

xxx

Markmiðið er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og horft er sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila sem eru í fjárhagsvanda. Framlag ríkis og sveitarfélaga til uppbyggingar leigukerfisins ætti að jafnaði að leiða til þess að leigan nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum. Með nýju kerfi auðveldum við því fjölskyldum að koma undir sig fótunum, leggja til hliðar og minnka greiðslubyrði sína jafnt og þétt. Einnig er mikilvægt að tryggja húsnæði til lengri tíma svo heimili séu laus við þá óvissu sem getur fylgt almennum leigumarkaði.

Skýrari reglur á leigumarkaði
Auk þess verður lagt fram frumvarp um breytingu á húsaleigulögum fyrir hinn almenna markað. Þar er lögð áhersla á aukinn rétt leigjenda og leigusala með skýrari ákvæðum um uppsagnarfrest, samskipti og ástand leiguhúsnæðis. Mikilvægt er að auðvelda samskipti leigjenda og leigusala svo fólk viti betur að hverju það gengur, með það að markmiði að minnka ágreining og koma meiri festu á samskipti. Þannig sköpum við heilbrigðari leigumarkað og meira öryggi fyrir alla aðila.

Framsókn notaði slagorðið „Framsókn fyrir heimilin“ í síðustu kosningum og ekki að ástæðulausu. Okkar áhersla er og verður á heimilin í landinu.

Þórunn Egilsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. október 2015

Categories
Greinar

Hvað á að gera í húsnæðismálum?

Deila grein

29/09/2015

Hvað á að gera í húsnæðismálum?

ásmundurPáll»Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagur heimilanna.« Þessi orð má finna í fyrstu málsgrein stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins og stjórnvöldum hverju sinni ber að standa vörð um þau.

Í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin að ráðast í veigamiklar aðgerðir í húsnæðismálum. Markmiðið með þeim er að auka framboð hagkvæms og ódýrs húsnæðis, minnka greiðslubyrði húsnæðiskostnaðar, skýra rétt leigjenda og leigusala, auðvelda kaup á fasteign og veita fjölskyldum raunverulegt val um fjölbreyttari húsnæðiskost, svo eitthvað sé nefnt.

Stærsta aðgerðin felst í því að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi þar sem lögð verður áhersla á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum og um leið tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Frumvarp þess efnis verður lagt fram nú strax á haustþingi, ásamt öðrum frumvörpum um breytingar á húsnæðisbótum, húsaleigulögum og lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Lækkum byggingarkostnað 

Auk frumvarpa þessa hausts erum við að líta til þess að endurskoða byggingarreglugerð og skipulagslög svo að af hálfu hins opinbera verði á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar. Á sama hátt verður gjaldtaka sveitarfélaga vegna lóða og gatnagerðargjalda skoðuð. Þannig er hægt að minnka byggingarkostnað og auka þar með framboð á ódýru húsnæði.

Auðveldum kaup 

En aðgerðirnar snúa ekki einungis að leigumarkaðnum og byggingarreglugerðum. Við viljum einnig auðvelda ungu fólki kaup á eigin heimili. Hvatt verður til sparnaðar með skattfrjálsum sparnaði – þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst – þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað sinn við kaup á fyrstu íbúð.

Í dag er alltof algengt að fólk komist ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greiða leigu sem er hærri en afborganir af húsnæðisláni væru. Þar er pottur brotinn og því vijum við að lánveitendum verði einnig veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en greiðslumats við ákvörðun lántöku.

Við fögnum því að framundan séu breytingar. Aðgerðirnar, stórar sem smáar, munu bæta húsnæðismarkaðinn og það sem skiptir mestu máli – bæta hag heimilanna.

Ásmundur Einar Daðason og Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. september 2015.

Categories
Greinar

Leiga raunverulegur valkostur

Deila grein

28/09/2015

Leiga raunverulegur valkostur

Jóhanna María - fyrir vefSilja-Dogg-mynd01-vefEin helsta áhersla Framsóknar – á þessu kjörtímabili sem öðrum – hefur verið á heimilin í landinu. Í byrjun ársins fórum við að sjá áhrif leiðréttingarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum og í vor var samþykkt, samhliða gerð kjarasamninga, að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til úrbóta á húsnæðismarkaði, bæði fyrir leigjendur og eigendur.

Fleiri á leigumarkaði 

Frá árinu 2007 hefur hlutfall heimila í leiguhúsnæði hækkað ört, hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar, almenna markaðarins eða félagslegra leiguíbúða og námsmannaíbúða. Fyrir átta árum voru 15,4% íslenskra heimila í leiguhúsnæði en árið 2013 var hlutfallið komið uppí 24,9%. Það er fjórða hvert heimili.

Þessi fjölgun á leigumarkaði leiðir eðlilega af sér aukna eftirspurn eftir leiguhúsnæði, sem svo leiðir til hækkunar leiguverðs. Þar sem löng bið er eftir félagslegu húsnæði hefur hlutfall lágtekjufólks á almennum leigumarkaði farið ört vaxandi og byrði húsnæðiskostnaðar þess hóps er því orðin þyngri en gengur og gerist hjá fjölskyldum sem hafa meira milli handanna. Rúmlega 63% þeirra sem fá húsnæðisbætur í dag eru heimili með tekjur undir 3 milljónum á ári, eða 250 þúsund krónur á mánuði. Sem samfélagi ber okkur skylda til að létta undir með þeim heimilum.

1,1 milljarður í aukinn húsnæðisstuðning 

Í haust mun Alþingi taka fyrir breytingar á húsnæðisbótum og í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að húsnæðisstuðningur hækki um 1,1 milljarð króna á næsta ári.

Við viljum hækka grunnfjárhæð húsnæðisbóta, hækka frítekjumarkið, hækka hámarkshlutfall af leiguverðinu og miða stuðninginn við fjölda einstaklinga á heimili, í stað fjölskyldugerðar eins og hefur verið. Þannig er tekið tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili.

Markmið þessara breytinga er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og tryggja öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins.

Lægri skattbyrði af leigutekjum 

Auk þess að hækka húsnæðisstuðninginn er litið til þess að lækka skattbyrði leigutekna úr 14% niður í 10%. Markmiðið með þessum breytingum er að hvetja til langtímaleigu íbúðarhúsnæðis og að fasteignaeigendur sjái hag sinn í því að gera langtímaleigusamninga, en hætta er á að skammtímaleiga húsnæðis, til dæmis til ferðamanna, dragi úr framboði á leiguhúsnæði til langs tíma og þrýsti þar með upp leiguverði. Þannig aukum við framboð og öryggi leigjenda með framtíðarhúsnæði í huga.

Framsókn notaði slagorðið »Framsókn fyrir heimilin« í síðustu kosningum og ekki að ástæðulausu. Okkar áhersla er og verður á heimilin í landinu.

Jóhanna María Sigmundsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2015.

Categories
Greinar

Umboðsvandi Landsbankans

Deila grein

24/09/2015

Umboðsvandi Landsbankans

Þorsteinn-sæmundssonLandsbanki Íslands er að níutíu og sjö hundraðshlutum í eigu þjóðarinnar. Þrátt fyrir það er aðkoma og áhrif kjörinna fulltrúa illa skilgreind og í lágmarki. Svo virðist sem 3% hluthafa, en meirihluti þeirra fékk hlut sinn á silfurfati í tíð síðustu ríkisstjórnar, fari sínu fram um stjórnun bankans án nokkurs tillits til vilja meirihlutaeiganda bankans, almennings. Undanfarið hefur farið nokkuð fyrir umræðu um starfsemi og starfshætti Landsbankans af ærnum tilefnum. Þar má nefna sölu bankans á hlutum í Borgun og Valitor sem fram fóru án útboðs og að því er virðist án gaumgæfilegs verðmats á hlutunum. Einnig kynnti stjórn bankans nú nýlega áform sín um að byggja hátimbraðar höfuðstöðvar á verðmætustu byggingarlóð landsins.

Til að skýra þá framkvæmd steig almannatengill bankans fram og kvað bankann skilgreina sig sem ,,miðborgarfyrirtæki“!? Banki allra landsmanna með starfsstöðvar víða um land er sem sagt orðinn að „miðborgarfyrirtæki“!

Ganga fram af þjóðinni

Framangreind atriði eru góð dæmi um hvernig stjórnendur bankans ganga fram af aðaleiganda hans, þjóðinni. Nú þegar landið rís að nýju eftir ófarirnar árin 2005-2008 kærir fólk sig ekki um hegðun eins og þá sem skóp hrunið og eftirköst þess. Almenningur gerir réttilega kröfu um að ríkið og fyrirtæki þess séu rekin af ráðdeild og heiðarleika. Beiðnum um hluthafafund vegna byggingar nýrra höfuðstöðva hefur verið tekið með þögninni.
Bankasýsla ríkisins sem fara á með 97% hlut ríkisins hefur ítrekað verið hunsuð af hálfu stjórnenda bankans eins og raunin var þegar sala á Borgun og Valitor var ákveðin. Bankasýslan hefur greinilega ekki treyst sér til að fylgja fram beiðni um hluthafafund vegna fyrirhugaðrar byggingaframkvæmdar.

Fulltrúar almennings í landinu, kjörnir fulltrúar, eiga ekki sjálfkrafa seturétt á aðalfundi Landsbanka Íslands. Í svari við fyrirspurn á vegum undirritaðs í vor upplýsti bankinn reyndar að þingmönnum væri heimill aðgangur að fundinum ef þeir gæfu sig fram við þjónustuborð bankans og gerðu þar grein fyrir sér. Jafnframt kom fram að þingmönnum væri ekki gert kleift að tjá sig á aðalfundi. Síðastliðinn vetur sendi sá sem hér ritar formlegt erindi til Bankasýslu ríkisins um að Bankasýslan framkvæmdi mat á söluverði á hlut bankans. Svar Bankasýslunnar var í stuttu máli að ekki væri hægt að verða við beiðnum einstakra þingmanna en fjármálaráðherra gæti farið fram á upplýsingar um efnið. Ljóst er af því sem fram kemur hér að framan að Landsbankinn glímir við alvarlegan umboðsvanda þegar kjörnir fulltrúar almennings eiga þess ekki kost að fylgjast með og hafa áhrif á stórar ákvarðanir í rekstri bankans.

Rétt er að taka fram að undirritaður er ekki þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn eigi að horfa yfir axlir stjórnenda við dagleg störf eða hafa áhrif á lánveitingar til viðskiptavina. Brýnt er þó að bankinn ræki samfélagslegt hlutverk sitt og axli samfélagslega ábyrgð. Til þess að svo verði þarf verulega hugarfarsbreytingu í stjórn bankans.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. september 2015.

Categories
Greinar

Alþingi og stjórnskipun Íslands – virðing eða hnignun

Deila grein

19/09/2015

Alþingi og stjórnskipun Íslands – virðing eða hnignun

Vigdís HauksdóttirSamkvæmt stjórnskipun landsins gengur stjórnarskráin framar öðrum lögum. Lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum sem eru lagðar fram í þinginu sem stríða gegn stjórnarskránni skal skýlaust vísað frá á lagatæknilegum grunni. Lagasetning hér á landi er ófullnægjandi í samanburði við Norðurlöndin og fjöldi dómsmála staðfestir það, nú síðast t.d. Árna Páls lögin. Ég hef því í sjöunda sinn lagt fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum, um Lagaskrifstofu Alþingis sem hafi það hlutverk að samræma reglur um samningu lagafrumvarpa og undirbúning löggjafar. Lagaskrifstofan skuli vera til ráðgjafar um undirbúning löggjafar og skal einkum líta til þess að frumvörp standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Eftir að hafa verið þingmaður í rúm sex ár hef ég sannfærst um að búið sé að vinna mikið tjón á þinginu innan frá með sífelldum breytingum á þingsköpum undanfarin 10-15 ár. Alþingi er komið í öngstræti og stundum vart starfhæft og er það mikið áhyggjuefni fyrir þjóðþing sjálfstæðar þjóðar. Þingmenn hafa gengið á lagið vegna óskýrra þingskapa. Lagahyggjan er mikil – og leysa á öll mál með nýrri löggjöf um bókstaflega allt. Þá er ekki verið að huga að »lagabótum« á ýmsum þáttum lagakerfis okkar því sífellt færist það í aukana að kollsteypa á sér stað og heilu lagabálkarnir eru endurskrifaðir með fjölmörgum »laumufarþegum« og eldri lögum beinlínis hent. Hér á ég t.d. við boðuð ný frumvörp um Umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Hverjum er verið að þjóna? Hver biður um slíkt? Ekki verður rætt hér um áhlaupið sem gert var á stjórnarskrána á síðasta kjörtímabili.

Ég var því afar undrandi þegar forsætisnefndarmenn og formenn þingflokka lögðu fram þingsályktunartillögu um siðareglur þingmanna í annað sinn. Þessi þingsályktunartillaga er marklaus þar sem í 47. gr. stjórnarskrárinnar segir: »Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild« og í 48. gr. er kveðið skýrt á um að: »Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.« Er þessum stjórnarskrárákvæðum fylgt eftir í lögum um þingsköp Alþingis til framkvæmda, sbr. 2. gr. »Sérhver nýr þingmaður skal vinna svofellt drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins. Meðan þingmaður hefur ekki unnið heit samkvæmt þessari grein má hann ekki taka þátt í þingstörfum.« Ég veit ekki hver hefur verið flutningsmönnum til ráðgjafar í þessu siðareglna-máli. En eitt er víst að um vanþekkingu er að ræða á stjórnskipun landsins. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er bent á siðareglur Evrópuráðsþingsins, sem eru settar fyrir fjölþjóðasamkomu en ekki þjóðþing hvers ríkis. Þarna opinberast aftur vanþekking – að ætla að tefla slíkum reglum gegn stjórnarskrárvörðum réttindum alþingismanna. Þeir eru einungis bundnir sannfæringu sinni og Alþingi hefur engar valdheimildir til að framfylgja slíkum siðareglum. Það eru landsmenn sjálfir sem endurmeta umboð og frammistöðu þingmanna í alþingiskosningum í síðasta lagi á fjögurra ára fresti. Virðing Alþingis verður endurheimt þegar þingið sjálft fer í einu og öllu að stjórnskipun Íslands sem mælt er fyrir um í stjórnarskrá og fer að sinna störfum sínum af alvöru.

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. september 2015.