Categories
Greinar

Horfum á heildarmyndina

Deila grein

08/04/2014

Horfum á heildarmyndina

Elsa lára_SRGB_fyrir_vefMikilvægt er að horfa á heildarmyndina þegar rætt er um skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar. Þau frumvörp sem eru til umræðu í þinginu þessa dagana og taka til verðtryggðra húsnæðisskulda heimilanna, eru eingöngu einn liður af tíu úr aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Umfang skuldaleiðréttinganna eru 150 milljarðar og nær til um 100 þúsund heimila. Ánægjulegt er að um sé að ræða almenna aðgerð en ekki sértæka. Vissulega hefði það verið mjög jákvætt ef hægt hefði verið að hafa þakið hærra, fyrir þann hóp, sem varð hvað einna mest fyrir forsendubrestinum vegna efnahagshrunsins. En í því samhengi er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina í þeirri vinnu er snýr að skuldavanda heimilanna.

Í verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála er unnið að mörgum mikilvægum þáttum er snerta íslensk heimili og framtíð þeirra. Þar má nefna vinnu að húsnæðislánakerfi til framtíðar og lyklafrumvarpið. Einnig er unnið með verðtrygginguna og þar eru bæði meirihlutaálit verðtryggingarhópsins og séráliti Vilhjálms Birgissonar höfð til hliðsjónar. Mikilvægt er að verðtryggingin verði afnumin um leið og skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.

Einnig mun verkefnastjórnin skila af sér hugmyndum hvernig komið verði á öruggum leigumarkaði hér á landi. Þannig að þeir sem hér búa geti haft raunhæft val um séreign eða leiguhúsnæði. Jafnframt er horft til þess hvernig mögulegt verði að lækka leigukostnað og tillögur stjórnarinnar hljóma upp á allt að 20 % lækkun í þeim efnum. Auk þessa er unnið félagslegu húsnæðiskerfi með það að markmiði að allir geti haft öruggt þak yfir höfuðið.

Verkefnastjórnin mun skila af sér tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í lok þessa mánaðar.

Í desember síðast liðnum, lagði innanríkisráðherra fram frumvarp, um að fresta nauðungasölum fram í september 2014. Nær frestunin til íbúðarhúsnæðis með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Frumvarpið var samþykkt.

Í janúar síðast liðnum samþykktu þingmenn frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta. Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir á vef embættis umboðsmanns skuldara. Umsóknarferlið er skilvirkt og áætlað er að ferlið taki um tvær vikur frá því öll gögn berast vegna málsins.
Í lok mars lagði félags- og húsnæðismálaráðherra fram tvö frumvörp og þau eru heimilunum í hag. Annað þeirra varðar húsaleigubætur til þeirra sem misst hafa eignir sínar á uppboði og leigja þær nú til búsetu. Þessi hópur hefur, hingað til ekki átt rétt á húsaleigubótum og hefur það verið miður. Því ber að fagna að bæta skuli réttindi þeirra. Hitt varðar embætti umboðsmanns skuldara og heimild hans til að sekta fjármálastofnanir, ef þær draga eða neita að afhenda embætti hans þær upplýsingar, sem á þarf að halda til að vinna að málefnum þeirra sem til hans leita. Samkvæmt frumvarpinu getur sektargreiðsla numið allt frá 10 þúsund krónum – 1 milljón á dag, líkt og dagsektir samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Hér hefur verið skrifað um aðgerðir ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfsstæðisflokksins, í þágu heimilanna. Umræðan um að ekkert sé verið að gera fyrir heimilin er ósanngjörn. Við verðum að horfa á heildarmyndina.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 8. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ættleiðingar og mannréttindi

Deila grein

07/04/2014

Ættleiðingar og mannréttindi

johannaÁ Íslandi gilda lög um að samkynhneigðir mega ættleiða. Staðan er sú að ekkert erlent land sem við erum í samskiptum við leyfir ættleiðingar milli landa til samkynhneigðra. Í þessu máli skarast reglur upprunaríkis og móttökuríkis svipað og gerist með lög um ættleiðingar einhleypra einstaklinga og fatlaðra. Þetta er ástæða þess að samkynhneigð pör geta aðeins ættleitt innanlands.

Misskilningurinn er sá að margir lesa út úr þessum tilmælum að það sé verið að banna samkynhneigðum hérlendis að ættleiða. En sú er ekki raunin og í rauninni er Ísland alveg undir það búið, ef önnur lönd fara að leyfa ættleiðingar milli landa til para af sama kyni, að taka þá þátt í því.

Þegar við skoðum hvaða lönd það eru helst sem Íslendingar eru að ættleiða frá, þá sjáum við að það eru lönd sem eru frekar aftarlega í röðinni þegar kemur að mannréttindum og réttindum samkynhneigðra sér í lagi, það eru Indland, Kína, Kólumbía, Tékkland og Tógó.

Ísland hefur í lengri tíma unnið að því að bæta stöðu sína hvað varðar ættleiðingar sem og uppfæra lög og reglur er að því snúa. Samkvæmt Haag-samningnum, sem Ísland er aðili að, skal tryggja við ættleiðingar á börnum milli landa að hagsmunir þeirra séu hafðir að leiðarljósi og þær ættleiðingar fari fram í samvinnu stjórnvalda í bæði uppruna- og móttökuríki, einnig setja reglur um hæfi væntanlegra kjörforeldra. Stjórnvöld geta þá sett reglur um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að ættleiða milli landa.

Innanríkisráðuneytið og baráttan

Í svari innanríkisráðuneytis við fyrirspurn minni kemur fram að: »Ráðuneytinu er kunnugt um að ekkert par af sama kyni, búsett á Íslandi, hafi ættleitt barn (saman) erlendis frá síðan lög um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun), nr. 65/2006, tóku gildi. Staðan á Íslandi hvað þetta varðar er sambærileg og þegar kemur að öðrum norrænum ríkjum, en samstarfsríki þeirra eru þó mun fleiri en samstarfsríki Íslands.«

Hér á landi fara löggilt ættleiðingarfélög með milligöngu fyrir millilandaættleiðingum. Þau hafa séð um að afla nýrra sambanda við ríki sem núna er og verður hægt að ættleiða frá. Innanríkisráðuneytið leggur til alla þá hjálp sem það getur í þessum málum.

Í dag er virkur samstarfshópur Íslenskrar ættleiðingar og Samtakanna ’78 sem hefur unnið að því að kanna möguleika á ættleiðingum til samkynhneigðra. Og á meðan önnur lönd vinna sig í áttina að því að leyfa ættleiðingar milli landa til samkynhneigðra þá ættum við að vinna áfram það góða starf sem við getum hérlendis til að vera undir það búin þegar stundin kemur.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Norrænn þjóðfundur ungs fólks

Deila grein

05/04/2014

Norrænn þjóðfundur ungs fólks

Eygló HarðardóttirHvernig vil ég að framtíð mín verði? Þessari spennandi og áleitnu spurningu munu norræn ungmenni á aldrinum 18-25 ára svara á Þjóðfundi norrænna ungmenna sem fram fer í dag, 5. apríl, kl. 9-17 á Hilton Nordica hóteli. Yfirskrift fundarins er „demokrati og kreativitet“. Fundurinn er eitt af verkefnunum í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 og er á vegum NORDBUK, barna- og ungmennanefndar Norrænu ráðherranefndarinnar. Alls eru um eitt hundrað þátttakendur skráðir frá öllum Norðurlöndunum til fundarins.

Lýðræðisvitund og þátttaka
Ein af áskorunum í norrænum samfélögum er að auka lýðræðisvitund og þátttöku ungs fólks. Mikilvægt er að beita ólíkum leiðum til þess að fá sem flesta að borðinu og taka þátt. Á Þjóðfundi norrænna ungmenna gefst ungu fólki tækifæri til að koma saman og ræða um hvernig þau vilja sjá framtíð sína. Notast verður við fundaraðferð sem beitt var á Þjóðfundinum hér á Íslandi árið 2009. Allir fá að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum á framfæri og skipta skoðanir allra þátttakenda jafn miklu máli.

Framtíðarkynslóðin talar
Það verða hvorki langar ræður eða fyrirlestrar haldnir á fundinum heldur munu þátttakendur sjálfir vinna hver með öðrum til að kanna og tjá drauma sína um framtíðina, samfélagið, jörðina og náttúruna, vinnu og fjölskyldu, menningu og atvinnuvegi. Það er undir þátttakendum komið hvaða mál fá mesta áherslu og hvaða lausnum og hugmyndum unga fólkið vill koma á framfæri um betri framtíð. Hér er því um að ræða einstakt tækifæri fyrir kynslóðir framtíðarinnar að láta í sér heyra.

Hverjir hlusta?
Niðurstöðum fundarins verður komið á framfæri við Norrænu ráðherranefndina og norrænu ríkisstjórnirnar. Þær verða einnig sendar til samtaka ungs fólks og annarra sem vilja nýta þær til samfélagsrýni og umbóta. Ég hlakka til að sjá niðurstöður Þjóðfundar norrænna ungmenna og hef fulla trú á því að þær skili okkur betri framtíð.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Bregðumst við loftslagsvánni

Deila grein

04/04/2014

Bregðumst við loftslagsvánni

Sigurður Ingi JóhannssonVísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) birtir nú í áföngum fimmtu úttekt sína á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Kaflar um líkleg áhrif loftslagsbreytinga hafa vakið mikla athygli að undanförnu. Það er ekki nýtt að IPCC dragi upp dökka mynd, en vísindin styrkjast með hverri úttekt og vægi niðurstöðunnar vex.

Ekki síst valda áhyggjum spár um fæðuöryggi. Til lengri tíma getur hlýnun lofthjúpsins leitt til minni uppskeru nytjajurta á borð við hveiti, maís og hrísgrjón. Áhrif á fiskistofna eru einnig illfyrirsjáanleg, þar sem þeir færa sig eftir breyttu hitastigi og straumum. Þetta er slæm tíðindi á sama tíma og mannkyn vex um tvo milljarða munna eða meira á næstu áratugum.

Allar þjóðir munu bera skaða af stórfelldum loftslagsbreytingum, líka við Íslendingar. Fyrir okkur er hin svokallaða súrnun sjávar eitt helsta beina áhyggjuefnið tengt loftslagsbreytingum. Aukinn styrkur CO2 breytir efnasamsetningu í sjó, sem getur haft alvarleg áhrif á vistkerfi hafsins. Röskun á náttúrufari og lífsskilyrðum á heimsvísu hefur einnig óbein áhrif á Ísland, vegna aukinnar hættu á upplausn, ófriði og flóttamannavanda.

Til skemmri tíma geta einstakir þættir orðið Íslendingum og öðrum norðlægum ríkjum hagfelldir. Þannig telja vísindamenn líklegt að hlýnun muni bæta ræktunarskilyrði á Íslandi. Þetta er staðreynd, sem breytir engu um að loftslagsvandinn er hnattræn vá, sem Ísland berst gegn ásamt öðrum. Það er líka rétt að benda á að í öllum vanda felst von um lausn. Hún felst að miklu leyti í loftslagsvænni tækni, sem dregur úr losun og bætir lífsgæði. Mörg íslensk fyrirtæki skara fram úr í slíkri tækni og á sviði endurnýjanlegrar orku. Ég fagna því ef nýsköpun á þessu sviði blómstrar og fyrirtækjum með loftslagslausnir gengur vel.

Skýrsla IPCC er ákall til ríkja heims að gera betur. Ísland stendur sig að mörgu leyti vel í loftslagsmálum. Auðvitað getum við þó gert enn betur. Það má efla hlut rafbíla. Það má nýta loftslagsvænar tæknilausnir íslenskra hugvitsfyrirtækja í skipum. Það má efla kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu. Tökum loftslagsspánum af alvöru og vinnum að lausnum með bjartsýni að vopni.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

»Þetta reddast«

Deila grein

30/03/2014

»Þetta reddast«

Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefÞegar talað er um fjármálalæsi er verið að tala um getuna til að fjalla um peninga og meðferð þeirra án vandræða, skilja helstu atriði eigin fjármála og hvernig er hægt að hafa áhrif á þau.

Reglulega kemur upp umræðan um það hve Íslendingar séu illa að sér í fjármálalæsi.

Mikið var unnið í þessum málum á árunum 2008-2009 en þá var meðal annars stofnuð nefnd af viðskiptaráðherra Íslands til að kanna stöðuna. Þá kom í ljós að aðeins um helmingur almennings væri almennilega fjármálalæs og að því væri sérstaklega ábótavant hjá tekjulægstu hópunum og þeim sem hafa litla menntun.

Niðurstaða nefndarinnar var að lokum sú, að orðatiltækið »þetta reddast« væri ríkjandi í hugsun Íslendinga. Því um leið og minnihluti sagðist ekki hafa áhyggjur af fjármálum sínum, þá var meirihlutinn á því að geta ekki greitt skuldir sínar á réttum tíma næsta hálfa árið.

Vandinn í kennslu fjármálalæsis liggur ekki í því að hana vanti inn í námsskrár, heldur er það frekar vilji og kunnátta kennara sem ákvarðar hvort þetta sé tekið fyrir. Námsefnið er til og kunnáttan er til staðar, það vantar bara nokkur verkfæri til að miðla henni.

Þegar við tölum um fjármálalæsi meinum við m.a. að einstaklingur eigi að hafa vit á helstu hugtökum sem koma fyrir á launaseðli hans og hvernig þeir liðir eru reiknaðir. Hvernig og hvers vegna skuli borga skatt, grunnur í gerð heimilisbókhalds, hvað kostar að borga með korti og hvernig er best að ávaxta laun eða lífeyrirssparnað eftir því hvernig kerfi eru í gangi hverju sinni.

Fjárhagsleg framtíð
Svona kennsla mun styrkja vitund þeirra einstaklinga sem neytenda og auka siðferði í fjármálum.

Íslendingar eru það heppnir að eiga Stofnun um fjármálalæsi, forstöðumaður hennar, Breki Karlsson, hefur verið duglegur að vekja athygli á vankunnáttu í fjármálalæsi og um leið mikilvægi þess.

»Með bættu fjármálalæsi hefur fólk tækifæri til að móta fjárhagslega framtíð sína út frá því efnahagsumhverfi sem það býr við. Það stuðlar einnig að gagnrýninni og upplýstri umræðu og ýtir undir fyrirhyggju í fjármálum. Þannig er ekki aðeins lagður grunnur að meiri lífsgæðum, heldur einnig stuðlað að ábyrgara og heilbrigðara samfélagi,« segja samtökin um eiginleika fjármálalæsis.

En um leið og við eigum þessa stofnun sem vinnur að þjóðarátaki í fjármálalæsi, gerum kannanir og skýrslur þá erum við ekki að taka almennilega á vandanum. Stýrihópur um eflingu fjármálalæsis í grunn- og framhaldsskólum var settur á laggirnar 2011 og á að ljúka vinnu í árslok 2014.

Við höfum þurft að taka á ýmsum kvillum þess að fjármálalæsi fólks er ekki meira en raun ber vitni og þar má til að mynda nefna SMS-lánin. Vonandi koma aðgerðir út úr vinnu stýrihópsins, hnitmiðuð niðurstaða þar sem Íslendingar eru teknir í fjármálakennslu á mannamáli áður en það verður að vandamáli hjá einstaklingum sem þurfa að treysta á að »þetta reddist«.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Baráttan skilar sér

Deila grein

30/03/2014

Baráttan skilar sér

elsaNú eru frumvörp ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um skuldaleiðréttingar fyrir heimilin, komin inn í þingið. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að undanfarin fimm ár hafa þingmenn Framsóknarflokksins barist fyrir því að komið yrði til móts við skuldsett heimili og loksins mun baráttan skila árangri. Vissulega hefði verið betra fyrir alla ef forsendubresturinn hefði verið leiðréttur strax árið 2009 en framsóknarmenn náðu ekki eyrum þáverandi stjórnarflokka í þeim efnum.

Nauðsynlegt er að þetta stóra og mikilvæga verkefni komist hratt í gegnum þingið. Á því eru miklar líkur þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið duglegir að kalla eftir frumvörpunum undanfarnar vikur, fjallað um mikilvægi þess að stjórnarflokkarnir standi við stóru orðin.

Ríkisstjórnin stendur við orð sín. Verið er að framkvæma leiðréttinguna sem boðuð var í lok nóvember.

Forsendubrestur leiðréttur
Í kynningunni í nóvember var gert ráð fyrir að verðtryggð húsnæðislán yrðu færð niður um fjárhæð sem samsvaraði  verðbótum umfram verðbólgu á tímabilinu desember 2007 – 2010. Við útreikning kom hins vegar í ljós að forsendubresturinn hafði eingöngu áhrif á lán á árunum 2008 og 2009 og því liggur staða verðtryggra lána yfir það tímabil til grundvallar leiðréttingunni.

Umfang skuldaleiðréttingarinnar
Skuldafrumvörpin sem nú eru komin fram eru almenn aðgerð í þágu heimilanna,  en ekki sértæk. Heildarumfang leiðréttingarinnar eru áætlað um 150 milljarðar króna og mun hún ná til um 100 þúsund heimila.

Einfalt
Framkvæmdin verður einföld fyrir almenning þó um stórt og flókið verkefni sé að ræða. Einstaklingar sækja um leiðréttingarnar rafrænt á vef ríkisskattstjóra og verður umsóknartímabilið frá 15. maí – 1. september 2014. Ástæða þess að miðað er við 15. maí er sú að þá á vorþingi að vera lokið og skuldamálin að fullu afgreidd í gegnum þingið.

Ferlið mun ganga hratt fyrir sig og í lang flestum tilvikum ætti að vera hægt að sjá áhrif aðgerðarinnar strax að loknu umsóknarferli í haust.

Höfuðstólslækkun og séreignasparnaður
Frumvörp ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna eru tvö, annars vegar frumvarp um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána og hins vegar frumvarp um séreignasparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Umsóknarferlinu lýkur 1. september 2014. Eftir að ríkisskattstjóri hefur afgreitt umsóknirnar fara umsækjendur strax að sjá áhrifin. Niðurfelling lánsins í heild mun birtast í heimabanka og á greiðsluseðli þar sem fasteignaláni verður skipt niður í frumlán og leiðréttingarlán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlán verður greitt af ríkissjóði, með bankaskattinum, næstu árin.

Hægt verður að byrja að nýta séreignasparnaðinn í júlí og tryggja sér um leið skattaafslátt ríkisstjórnarinnar. Ekki er um að ræða uppsafnaða inneign því stór hluti fólks nýtti hann eftir hrunið. Heldur er um að ræða séreignarsparnað næstu þriggja ára.

Hér er jafnframt um að ræða nýja hugsun í húsnæðismálum. Þeir sem eru ekki með fasteignalán geta nýtt sér séreignarsparnaðarúrræði til að spara fyrir kaup á íbúðarhúsnæði.

Að lokum
Eins og ég hef alltaf sagt þá er ég ánægð að um sé að ræða almenna aðgerð en ekki sértæka. Ég er ánægð að hún nái til um 100 þúsund heimila sem eru um 80 % heimila í landinu. Hins vegar fer ég ekki í felur með að ég hefði gjarnan viljað sjá þakið hærra til að koma betur til móts við þá sem eru í erfiðri stöðu. Jafnframt horfi ég til þess að þessi aðgerð er eingöngu einn liður af tíu í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

Nú þegar er unnið að verðtryggingarmálum inni í ráðuneytum, þar sem horft er bæði til meirihlutaálits og sérálitis. Mikilvægt er að þau mál komi til umræðu í þinginu sem allra fyrst. Að mínu mati er nauðsynlegt að verðtryggingin verði afnumin um leið og aðgerðir í skuldamálum ná fram að ganga.

Það er óhætt að halda því fram að ríkisstjórnin vinni að bættum hag heimila í landinu. Á næstu dögum mun verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skila af sér vinnu þar sem tekið er á mörgum mikilvægum málum, eins og t.d. lyklafrumvarpinu og úrræðum á almennum og félagslegum leigumarkaði.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 28. mars 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Langþráð réttlæti fyrir heimilin

Deila grein

28/03/2014

Langþráð réttlæti fyrir heimilin

Silja Dögg GunnarsdóttirFramsókn fyrir heimilin, var slagorð Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa barist fyrir því um fimm ára skeið, að komið yrði til móts við skuldsett heimili með verðtryggð húsnæðislán. Auðvitað hefði verið best fyrir alla ef forsendubresturinn hefði verið leiðréttur strax árið 2009, en það var ekki gert og nú þurfum við að horfa til framtíðar. Loksins eru skuldaleiðréttingafrumvörpin komin fram og það eru góðar fréttir.

Jafnræði
Heildarumfang aðgerðanna munu skila heimilum landsins allt að 150 milljörðum króna. Þær munu ná til allt að 100 þúsund heimila, sem eru 80% allra heimila landsins. Hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri. Þannig að þeir tekjulægri fá í raun meira. Meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem fjöldi barna er meiri, þar sem stærri fjölskyldur eiga iðulega stærra húsnæði og meiri skuldir. Leiðréttingin er fjármögnuð með bankaskattinum, sem nær til þrotabúa og þar með kröfuhafa. Skattgreiðendur eru sumsé EKKI að greiða leiðréttinguna í þeim skilningi sem sumir vilja túlka svo.

Einfalt
Gert er ráð fyrir að menn munu geta sótt um leiðréttingu eftir 15. maí á vef Ríkisskattstjóra, www.rsk.is, og umsóknartímabilinu lýkur 1. september. Umsóknarformið er einfalt og sumir segja að það verði einfaldara en að panta sér pizzu. Það er á valdi hvers og eins hvort hann sækir um leiðréttingu og hvort fólk vilji nýta báðar leiðir, þ.e. höfuðstólslækkun og/eða séreignasparnaðinn. En þess má geta að séreignarsparnaðarleiðin mun einnig nýtast ungu fólki við að kaupa sína fyrstu íbúð.

Í þessu samhengi er ekki hægt að líta framhjá tilvist verðtryggingarinnar og auðvitað hefði maður viljað sjá skuldaleiðréttinguna verða meiri. Framsóknarflokkurinn virðist vera eini flokkurinn sem er með það á stefnuskrá sinni að  afnema verðtrygginguna og við munum halda áfram að berjast fyrir afnámi hennar. Rétt er að benda á að ef þessi leiðrétting kæmi ekki til nú, þá yrði hækkun höfuðstóls enn meiri vegna verðbólgunnar.

Sanngjarnt
Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, fyrir tæpu ári síðan, þá var varla liðinn einn sólarhringur áður en sumir töluðu um svikin loforð. Nú hefur stærsta kosningaloforðið verið efnt og þá reyna sumir að gera lítið úr skuldaleiðréttingunni. Hið rétta er hins vegar að um jafnræðisaðgerð er að ræða, aðgerð sem mun koma flestum íslenskum heimilum til góða. Loksins fær undirstaða samfélagsins, íslensku heimilin, að njóta einhverrar sanngirni og réttlætis.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist á hornafjordur.is 28. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta

Deila grein

27/03/2014

Fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta

Eygló HarðardóttirEignalausum einstaklingum gefst nú kostur á að fá fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, en lög þess efnis tóku gildi þann 1. febrúar sl. Um nýmæli er að ræða í íslenskri löggjöf en úrræðinu er ætlað að koma til móts við þá einstaklinga sem geta ekki lagt sjálfir fram greiðslu til tryggingar fyrir skiptakostnaði.

Lágmarksgreiðsla á slíkri tryggingu er 250.000 krónur og getur það reynst þungur baggi þeim sem eru í þeirri stöðu að vilja sjálfir krefjast gjaldþrotaskipta. Reynslan sýnir að ekki eru miklar líkur á að kröfuhafar krefjist gjaldþrotaskipta hjá þeim sem hefur verið gert hjá árangurslaust fjárnám og eiga því engar eignir. Setning laganna er því mikil bót fyrir þá sem vilja sjálfir lýsa sig gjaldþrota og njóta þannig styttri fyrningarfrests til að endurreisa fjárhag sinn og fjölskyldunnar eftir að hafa burðast með óviðráðanlegar skuldir árum saman.

Getur verið skásta lausnin
Skilyrði fjárhagsaðstoðarinnar er að umsækjandi eigi í verulegum fjárhagserfiðleikum, geti ekki greitt tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta og hafi reynt önnur greiðsluvandaúrræði, eða að umboðsmaður skuldara meti það svo að önnur greiðsluvandaúrræði dugi ekki til að leysa greiðsluvanda hans.

Skuldavandi einstaklinga og fjölskyldna er margvíslegur og ljóst að sumum gagnast hvorki greiðsluaðlögun né önnur greiðsluvandaúrræði sem hafa verið í boði. Þegar svo háttar kann gjaldþrot að vera skásta lausnin og með því er greitt úr skuldamálunum innan tveggja ára frá lokum skipta. Það getur þó tekið lengri tíma að byggja upp fjárhagslegt traust gagnvart fjármálafyrirtækjum á ný.

Gjaldfrjáls aðstoð
Umboðsmaður skuldara hefur fengið það hlutverk að taka við umsóknum þeirra sem hyggjast sækja um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar og kanna hvort umsækjendur uppfylli skilyrði laganna. Sótt er um fjárhagsaðstoð á vef embættisins www.ums.is. Samþykki umboðsmaður skuldara umsókn um fjárhagsaðstoð gefur hann út yfirlýsingu þess efnis sem umsækjandi leggur fyrir héraðsdómstól ásamt kröfu um gjaldþrotaskipti. Verði héraðsdómstóll við kröfunni er fjárhagsaðstoðin greidd skipuðum skiptastjóra.

Einstaklingurinn sjálfur þarf að greiða 15.000 króna þingfestingargjald til héraðsdóms þegar beiðni hans er lögð fram hjá dómstólnum. Þjónusta umboðsmanns skuldara er gjaldfrjáls og aðstoðar hann einstaklinga við gagnaöflun og ritun greinargerðar ef með þarf. Einstaklingar þurfa því ekki að leita sér kostnaðarsamrar aðstoðar til þess að sækja um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Stjórnvöld víða um heim vara við sýndarfé

Deila grein

27/03/2014

Stjórnvöld víða um heim vara við sýndarfé

Frosti SigurjónssonÞann 19. mars gáfu íslensk stjórnvöld út aðvörun um þá áhættu sem fylgir sýndarfé (e. virtual currencies) svo sem Auroracoin og Bitcoin. Tilefni aðvörunar nú er fyrirhuguð úthlutun sýndarfjárins Aurauracoin til Íslendinga á vegum aðila sem vinnur undir dulnefninu Baldur Friggjar Óðinsson.

Stjórnvöld fjölmargra landa hafa séð tilefni til að upplýsa almenning um þá áhættu sem felst í kaupum, varðveislu eða viðskiptum með sýndarfé. Notendur eru ekki varðir gegn tapi á sýndarfé, t.d. ef “markaðstorg” sem skiptir eða varðveitir sýndarfé bregst skyldum sínum, greiðsla misferst eða kemst í hendur óviðkomandi aðila.

Hvorki Bitcoin né Auroracoin eru viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga. Hér á landi má aðeins Seðlabanki gefa út gjaldmiðil sem getur gengið manna á milli í stað peningaseðla og löglegrar myntar. Talsmenn Auroracoin fara ekki leynt með þann ásetning sinn að Auroracoin eigi að koma í stað íslenskra króna í viðskiptum en það væri einmitt brot á lögum um Seðlabanka.

Stjórnvöld í ESB og fjölmörgum löndum standa frammi fyrir því verkefni að ákveða lagalega stöðu sýndarfjár, þar á meðal hvernig skuli greiða skatta af viðskiptum með sýndarfé. Líklega munu notendur þurfa að greiða annað hvort virðisaukaskatt eða fjármagnstekjuskatt af viðskiptum með sýndarfé. Það myndi leiða til mikillar rýrnunar á verðmæti sýndarfjárins.

Sýndarfé gefur vissa nafnleynd og hefur því verið notað sem greiðslumáti í ólöglegum viðskiptum á netinu. Verði sett lög gegn sýndarfé mun það leiða til verðfalls.

Jafnvel þótt ekki væri yfirvofandi skattaleg eða lagaleg óvissa um sýndarfé, þá er margt annað sem veldur óvissu um sýndarfé. Verðgildi sýndarfjár hefur sveiflast gríðarlega. Eftir að hafa hækkað í verði um hundruði prósenta á nokkrum mánuðum, þar til það náði hámarki í desember sl., hefur bitcoin helmingast í verði á nokkrum mánuðum. Enginn gjaldmiðill hefur verið eins óstöðugur og bitcoin á þessum tíma.

Svo má líka nefna tap þeirra fjölmörgu sem áttu bitcoin hjá Mt. Gox sem var stærsti bitcoin miðlari heims þegar hann fór skyndilega í þrot. Talið er að tölvuhakkarar hafi náð að brjótast inn í Mt. Gox og ræna 850.000 bitcoinum sem þar voru geymd og metin voru á tugi milljarða króna.

Eins og þessi dæmi sýna þá er óvarlegt að treysta á sýndarfé. Líklega verða sett lög um sýndarfé og skattskyldu þess og þá er líklegt að verðmæti sýndarfjár falli hratt. Gengi sýndarfjár hefur verið mjög óstöðugut. Það hefur sveiflast um hundruði prósenta undanfarna mánuði. Miðlarar fyrir sýndarfé hafa ekki staðist árásir hakkara. Aðvörun stjórnvalda um áhættu sýndarfjár er því ekki að tilefnislausu.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 26. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Þingið bregst og almenningur borgar

Deila grein

26/03/2014

Þingið bregst og almenningur borgar

Karl GarðarssonSkattgreiðendur hafa borgað um 1.300 milljónir króna vegna þriggja skýrslna sem rannsóknarnefndir Alþingis hafa gert. Endanleg upphæð verður örugglega nær 1.400 milljónum. Engar fjárhagsáætlanir lágu fyrir þegar þingmenn samþykktu gerð þeirra.

Rannsóknarskýrslan um aðdraganda og fall bankanna, sem kynnt var árið 2010, kostaði rúmar 453 milljónir króna. Nokkur umræða varð um skýrsluna en síðan hefur hún rykfallið ofan í skúffu. Skýrslan um Íbúðalánasjóð kostaði um 250 milljónir. Hún er enn í meðförum þingsins. Nefndin um sparisjóðina átti að skila af sér í lok árs 2012. Síðan hefur gjaldmælirinn gengið og í síðustu viku var kostnaður við skýrslugerðina kominn í um 600 milljónir króna. Enn er beðið eftir skýrslunni. Engin fjárveiting er í fjárlögum ársins 2014 vegna verksins og stefnir í að 100 milljóna króna reikningur bætist við fjáraukalög ársins.

Ljóst er að þingið hefur algjörlega brugðist í þessu máli. Eftirlit hefur ekkert verið og reikningar hafa verið borgaðir þegjandi. Þetta er ekkert annað en sjálftaka. Hluti vandamálsins er síðan að verkefnin hafa ekki verið nógu vel afmörkuð í byrjun og því hafa skýrsluhöfundar lent í vandræðum. Það er líka á ábyrgð þingsins.

Forsætisnefnd á að sinna fjárhagslegu eftirliti á Alþingi. Hér hefur það ekki verið til staðar og reikningurinn, upp á allt að 1.400 milljónir króna, er á endanum sendur á skattgreiðendur.

Íbúðalánasjóðsskýrslan er harðlega gagnrýnd í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem Ögmundur Jónasson formaður nefndarinnar ritar líka undir. Þannig hefur stjórnskipunarnefnd kallað fyrir fjölmarga aðila sem aldrei voru kallaðir fyrir rannsóknarnefndina, þó full ástæða hefði verið til. Ómaklegar árásir og pólitískar dylgjur er víða að finna. Ljóst er að kostnaður tryggir ekki gæði. Vonum að sparisjóðaskýrslan verði vandaðra plagg.

Þingið hefur nú skipað rannsóknarnefnd til að rannsaka rannsóknarnefndirnar. Bíðum spennt eftir niðurstöðunni en fyrsta mál hlýtur að vera að samþykkja ekki óútfyllta tékka.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.