Categories
Greinar

Hvað á að gera í húsnæðismálum?

Deila grein

29/09/2015

Hvað á að gera í húsnæðismálum?

ásmundurPáll»Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagur heimilanna.« Þessi orð má finna í fyrstu málsgrein stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins og stjórnvöldum hverju sinni ber að standa vörð um þau.

Í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin að ráðast í veigamiklar aðgerðir í húsnæðismálum. Markmiðið með þeim er að auka framboð hagkvæms og ódýrs húsnæðis, minnka greiðslubyrði húsnæðiskostnaðar, skýra rétt leigjenda og leigusala, auðvelda kaup á fasteign og veita fjölskyldum raunverulegt val um fjölbreyttari húsnæðiskost, svo eitthvað sé nefnt.

Stærsta aðgerðin felst í því að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi þar sem lögð verður áhersla á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum og um leið tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Frumvarp þess efnis verður lagt fram nú strax á haustþingi, ásamt öðrum frumvörpum um breytingar á húsnæðisbótum, húsaleigulögum og lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Lækkum byggingarkostnað 

Auk frumvarpa þessa hausts erum við að líta til þess að endurskoða byggingarreglugerð og skipulagslög svo að af hálfu hins opinbera verði á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar. Á sama hátt verður gjaldtaka sveitarfélaga vegna lóða og gatnagerðargjalda skoðuð. Þannig er hægt að minnka byggingarkostnað og auka þar með framboð á ódýru húsnæði.

Auðveldum kaup 

En aðgerðirnar snúa ekki einungis að leigumarkaðnum og byggingarreglugerðum. Við viljum einnig auðvelda ungu fólki kaup á eigin heimili. Hvatt verður til sparnaðar með skattfrjálsum sparnaði – þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst – þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað sinn við kaup á fyrstu íbúð.

Í dag er alltof algengt að fólk komist ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greiða leigu sem er hærri en afborganir af húsnæðisláni væru. Þar er pottur brotinn og því vijum við að lánveitendum verði einnig veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en greiðslumats við ákvörðun lántöku.

Við fögnum því að framundan séu breytingar. Aðgerðirnar, stórar sem smáar, munu bæta húsnæðismarkaðinn og það sem skiptir mestu máli – bæta hag heimilanna.

Ásmundur Einar Daðason og Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. september 2015.

Categories
Greinar

Leiga raunverulegur valkostur

Deila grein

28/09/2015

Leiga raunverulegur valkostur

Jóhanna María - fyrir vefSilja-Dogg-mynd01-vefEin helsta áhersla Framsóknar – á þessu kjörtímabili sem öðrum – hefur verið á heimilin í landinu. Í byrjun ársins fórum við að sjá áhrif leiðréttingarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum og í vor var samþykkt, samhliða gerð kjarasamninga, að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til úrbóta á húsnæðismarkaði, bæði fyrir leigjendur og eigendur.

Fleiri á leigumarkaði 

Frá árinu 2007 hefur hlutfall heimila í leiguhúsnæði hækkað ört, hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar, almenna markaðarins eða félagslegra leiguíbúða og námsmannaíbúða. Fyrir átta árum voru 15,4% íslenskra heimila í leiguhúsnæði en árið 2013 var hlutfallið komið uppí 24,9%. Það er fjórða hvert heimili.

Þessi fjölgun á leigumarkaði leiðir eðlilega af sér aukna eftirspurn eftir leiguhúsnæði, sem svo leiðir til hækkunar leiguverðs. Þar sem löng bið er eftir félagslegu húsnæði hefur hlutfall lágtekjufólks á almennum leigumarkaði farið ört vaxandi og byrði húsnæðiskostnaðar þess hóps er því orðin þyngri en gengur og gerist hjá fjölskyldum sem hafa meira milli handanna. Rúmlega 63% þeirra sem fá húsnæðisbætur í dag eru heimili með tekjur undir 3 milljónum á ári, eða 250 þúsund krónur á mánuði. Sem samfélagi ber okkur skylda til að létta undir með þeim heimilum.

1,1 milljarður í aukinn húsnæðisstuðning 

Í haust mun Alþingi taka fyrir breytingar á húsnæðisbótum og í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að húsnæðisstuðningur hækki um 1,1 milljarð króna á næsta ári.

Við viljum hækka grunnfjárhæð húsnæðisbóta, hækka frítekjumarkið, hækka hámarkshlutfall af leiguverðinu og miða stuðninginn við fjölda einstaklinga á heimili, í stað fjölskyldugerðar eins og hefur verið. Þannig er tekið tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili.

Markmið þessara breytinga er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og tryggja öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins.

Lægri skattbyrði af leigutekjum 

Auk þess að hækka húsnæðisstuðninginn er litið til þess að lækka skattbyrði leigutekna úr 14% niður í 10%. Markmiðið með þessum breytingum er að hvetja til langtímaleigu íbúðarhúsnæðis og að fasteignaeigendur sjái hag sinn í því að gera langtímaleigusamninga, en hætta er á að skammtímaleiga húsnæðis, til dæmis til ferðamanna, dragi úr framboði á leiguhúsnæði til langs tíma og þrýsti þar með upp leiguverði. Þannig aukum við framboð og öryggi leigjenda með framtíðarhúsnæði í huga.

Framsókn notaði slagorðið »Framsókn fyrir heimilin« í síðustu kosningum og ekki að ástæðulausu. Okkar áhersla er og verður á heimilin í landinu.

Jóhanna María Sigmundsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2015.

Categories
Greinar

Umboðsvandi Landsbankans

Deila grein

24/09/2015

Umboðsvandi Landsbankans

Þorsteinn-sæmundssonLandsbanki Íslands er að níutíu og sjö hundraðshlutum í eigu þjóðarinnar. Þrátt fyrir það er aðkoma og áhrif kjörinna fulltrúa illa skilgreind og í lágmarki. Svo virðist sem 3% hluthafa, en meirihluti þeirra fékk hlut sinn á silfurfati í tíð síðustu ríkisstjórnar, fari sínu fram um stjórnun bankans án nokkurs tillits til vilja meirihlutaeiganda bankans, almennings. Undanfarið hefur farið nokkuð fyrir umræðu um starfsemi og starfshætti Landsbankans af ærnum tilefnum. Þar má nefna sölu bankans á hlutum í Borgun og Valitor sem fram fóru án útboðs og að því er virðist án gaumgæfilegs verðmats á hlutunum. Einnig kynnti stjórn bankans nú nýlega áform sín um að byggja hátimbraðar höfuðstöðvar á verðmætustu byggingarlóð landsins.

Til að skýra þá framkvæmd steig almannatengill bankans fram og kvað bankann skilgreina sig sem ,,miðborgarfyrirtæki“!? Banki allra landsmanna með starfsstöðvar víða um land er sem sagt orðinn að „miðborgarfyrirtæki“!

Ganga fram af þjóðinni

Framangreind atriði eru góð dæmi um hvernig stjórnendur bankans ganga fram af aðaleiganda hans, þjóðinni. Nú þegar landið rís að nýju eftir ófarirnar árin 2005-2008 kærir fólk sig ekki um hegðun eins og þá sem skóp hrunið og eftirköst þess. Almenningur gerir réttilega kröfu um að ríkið og fyrirtæki þess séu rekin af ráðdeild og heiðarleika. Beiðnum um hluthafafund vegna byggingar nýrra höfuðstöðva hefur verið tekið með þögninni.
Bankasýsla ríkisins sem fara á með 97% hlut ríkisins hefur ítrekað verið hunsuð af hálfu stjórnenda bankans eins og raunin var þegar sala á Borgun og Valitor var ákveðin. Bankasýslan hefur greinilega ekki treyst sér til að fylgja fram beiðni um hluthafafund vegna fyrirhugaðrar byggingaframkvæmdar.

Fulltrúar almennings í landinu, kjörnir fulltrúar, eiga ekki sjálfkrafa seturétt á aðalfundi Landsbanka Íslands. Í svari við fyrirspurn á vegum undirritaðs í vor upplýsti bankinn reyndar að þingmönnum væri heimill aðgangur að fundinum ef þeir gæfu sig fram við þjónustuborð bankans og gerðu þar grein fyrir sér. Jafnframt kom fram að þingmönnum væri ekki gert kleift að tjá sig á aðalfundi. Síðastliðinn vetur sendi sá sem hér ritar formlegt erindi til Bankasýslu ríkisins um að Bankasýslan framkvæmdi mat á söluverði á hlut bankans. Svar Bankasýslunnar var í stuttu máli að ekki væri hægt að verða við beiðnum einstakra þingmanna en fjármálaráðherra gæti farið fram á upplýsingar um efnið. Ljóst er af því sem fram kemur hér að framan að Landsbankinn glímir við alvarlegan umboðsvanda þegar kjörnir fulltrúar almennings eiga þess ekki kost að fylgjast með og hafa áhrif á stórar ákvarðanir í rekstri bankans.

Rétt er að taka fram að undirritaður er ekki þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn eigi að horfa yfir axlir stjórnenda við dagleg störf eða hafa áhrif á lánveitingar til viðskiptavina. Brýnt er þó að bankinn ræki samfélagslegt hlutverk sitt og axli samfélagslega ábyrgð. Til þess að svo verði þarf verulega hugarfarsbreytingu í stjórn bankans.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. september 2015.

Categories
Greinar

Alþingi og stjórnskipun Íslands – virðing eða hnignun

Deila grein

19/09/2015

Alþingi og stjórnskipun Íslands – virðing eða hnignun

Vigdís HauksdóttirSamkvæmt stjórnskipun landsins gengur stjórnarskráin framar öðrum lögum. Lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum sem eru lagðar fram í þinginu sem stríða gegn stjórnarskránni skal skýlaust vísað frá á lagatæknilegum grunni. Lagasetning hér á landi er ófullnægjandi í samanburði við Norðurlöndin og fjöldi dómsmála staðfestir það, nú síðast t.d. Árna Páls lögin. Ég hef því í sjöunda sinn lagt fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum, um Lagaskrifstofu Alþingis sem hafi það hlutverk að samræma reglur um samningu lagafrumvarpa og undirbúning löggjafar. Lagaskrifstofan skuli vera til ráðgjafar um undirbúning löggjafar og skal einkum líta til þess að frumvörp standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Eftir að hafa verið þingmaður í rúm sex ár hef ég sannfærst um að búið sé að vinna mikið tjón á þinginu innan frá með sífelldum breytingum á þingsköpum undanfarin 10-15 ár. Alþingi er komið í öngstræti og stundum vart starfhæft og er það mikið áhyggjuefni fyrir þjóðþing sjálfstæðar þjóðar. Þingmenn hafa gengið á lagið vegna óskýrra þingskapa. Lagahyggjan er mikil – og leysa á öll mál með nýrri löggjöf um bókstaflega allt. Þá er ekki verið að huga að »lagabótum« á ýmsum þáttum lagakerfis okkar því sífellt færist það í aukana að kollsteypa á sér stað og heilu lagabálkarnir eru endurskrifaðir með fjölmörgum »laumufarþegum« og eldri lögum beinlínis hent. Hér á ég t.d. við boðuð ný frumvörp um Umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Hverjum er verið að þjóna? Hver biður um slíkt? Ekki verður rætt hér um áhlaupið sem gert var á stjórnarskrána á síðasta kjörtímabili.

Ég var því afar undrandi þegar forsætisnefndarmenn og formenn þingflokka lögðu fram þingsályktunartillögu um siðareglur þingmanna í annað sinn. Þessi þingsályktunartillaga er marklaus þar sem í 47. gr. stjórnarskrárinnar segir: »Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild« og í 48. gr. er kveðið skýrt á um að: »Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.« Er þessum stjórnarskrárákvæðum fylgt eftir í lögum um þingsköp Alþingis til framkvæmda, sbr. 2. gr. »Sérhver nýr þingmaður skal vinna svofellt drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins. Meðan þingmaður hefur ekki unnið heit samkvæmt þessari grein má hann ekki taka þátt í þingstörfum.« Ég veit ekki hver hefur verið flutningsmönnum til ráðgjafar í þessu siðareglna-máli. En eitt er víst að um vanþekkingu er að ræða á stjórnskipun landsins. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er bent á siðareglur Evrópuráðsþingsins, sem eru settar fyrir fjölþjóðasamkomu en ekki þjóðþing hvers ríkis. Þarna opinberast aftur vanþekking – að ætla að tefla slíkum reglum gegn stjórnarskrárvörðum réttindum alþingismanna. Þeir eru einungis bundnir sannfæringu sinni og Alþingi hefur engar valdheimildir til að framfylgja slíkum siðareglum. Það eru landsmenn sjálfir sem endurmeta umboð og frammistöðu þingmanna í alþingiskosningum í síðasta lagi á fjögurra ára fresti. Virðing Alþingis verður endurheimt þegar þingið sjálft fer í einu og öllu að stjórnskipun Íslands sem mælt er fyrir um í stjórnarskrá og fer að sinna störfum sínum af alvöru.

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. september 2015.

Categories
Greinar

Opið bréf til 10. bekkjar Salaskóla

Deila grein

17/09/2015

Opið bréf til 10. bekkjar Salaskóla

GBSKæru nemendur í 10. bekk Salaskóla. Í vor áttum við frábæran fund í skólanum ykkar. Þið kynntuð fyrir mér ykkar sýn á drög að nýjum markmiðum um sjálfbæra þróun, sem var þá verið að ræða í Sameinuðu þjóðunum í New York. „Heimsmarkmiðin“ eins og líka má kalla þau, eru núna tilbúin og verða samþykkt á stórum fundi þjóðarleiðtoga helgina 25.-27. september. Mig langar að þakka ykkur kærlega fyrir fundinn og alla vinnuna sem þið lögðuð í að kynna ykkur markmiðin og miðla þeim til mín. Ég fann það sterkt að ykkur er greinilega ekki sama um hvað gerist í heiminum okkar og í lífi annars fólks. Þið sýnduð frumkvæði, nálguðust málin á ykkar eigin hátt og höfðuð greinilega áhuga á að finna lausnir sem virka til að gera heiminn að betri stað. Það er einmitt hugsunin á bak við nýju heimsmarkmiðin 17 að hvert og eitt land – og hver og ein manneskja – geti unnið að þessum sameiginlegu markmiðum. Í Sameinuðu þjóðunum eru 193 ríki og styrkleikar þeirra og áskoranir eru misjafnar. Ef við tökum sem dæmi markmið númer eitt og tvö, sem er að binda enda á fátækt og hungur í heiminum, blasir við að í sumum löndum þarf mikið að gerast meðan önnur ríki, til dæmis Ísland, standa mun betur. Þess vegna þurfum við að hjálpa. Það gerum við með þróunarsamvinnu, sem sautjánda heimsmarkmiðið fjallar einmitt um. Þróunarsamvinnan snýst ekki um að senda fólki mat, heldur að hjálpa fólki í samstarfslöndum Íslands að læra að hjálpa sér sjálft.

Bjóða upp á ýmsar áskoranir

Malaví er eitt af samstarfslöndum okkar Íslendinga í Afríku. Það er á stærð við Ísland þótt íbúarnir séu fleiri. Ég fór þangað í heimsókn í sumar og fannst minnisstæðast að heimsækja staði sem skipta máli í lífi venjulegs fólks í Malaví, svo sem skóla og spítala. Ísland styður nú við byggingu nýrrar fæðingardeildar til að tryggja líf og öryggi mæðra og barna í kringum barnsfæðingar. Það er ennþá þannig í Malaví að miklu fleiri börn deyja ung, og miklu fleiri mæður deyja vegna barnsfæðinga heldur en hér á landi. Það gleðilega er að þessar tölur eru að lækka og ég er ánægður að Ísland geti lagt af mörkum við að lækka þær enn meira. Þannig stuðlum við að því að Malaví nái þriðja heimsmarkmiðinu um heilsu og vellíðan, en tvö undirmarkmiða þess fjalla einmitt um mæðra- og barnadauða. Baráttan við að ná þeim tengist svo líka fimmta markmiðinu sem fjallar um kynjajafnrétti og fjórða markmiðinu sem fjallar um menntun fyrir alla. Nýju heimsmarkmiðin tengjast nefnilega mikið innbyrðis. Nýju markmiðin taka gildi í byrjun næsta árs, 2016, og gilda til 2030. Þau munu líka gilda fyrir Ísland og önnur þróuð lönd og bjóða upp á ýmsar áskoranir, svo sem í stjórnun umhverfismála. Þar kemur hreina orkan sem við Íslendingar höfum lært að nýta, sterk inn, en við eins og önnur ríki þurfum að skoða hvernig við getum unnið að markmiðunum hér heima og að heiman. Þið sem nú eruð að byrja í 10. bekk eruð fædd árið 2000. Það var árið sem Sameinuðu þjóðirnar settu sér fyrst þróunarmarkmið. Nú eruð þið fimmtán ára og ný og víðtækari markmið eru sett. Hvernig verður heimurinn þegar þið verðið þrítug og tíma þessara markmiða lýkur? Munu þau nást? Hvað geta Íslendingar gert til þess? Ég veit og vona að þið getið haft áhrif á það.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. september 2015.

Categories
Greinar

Dagur íslenskrar náttúru

Deila grein

16/09/2015

Dagur íslenskrar náttúru

Sigrún Magnúsdóttir_001Flest eigum við uppáhaldsstaði í íslenskri náttúru. Fjölbreytileiki náttúrunnar er margslunginn og landslagið síbreytilegt hvort sem er uppi til fjalla, niður til sjávar eða í fallegum dal.

Undirstaða alls gróðurs og lífs er að finna í því sem í daglegu tali nefnist mold og Steinn Steinarr nefndi, „Drottningu lífsins, móður og lífgjafa allra lifandi“. Jarðvegur á Íslandi er um margt einstakur og breytilegur. Það má til sanns vegar færa að moldin líkt og maðurinn mótast af umhverfi og atlæti.

Uppgræðsla hér á landi er saga um ótrúlega elju og eldmóð þeirra sem hafa starfað að vernd jarðvegs og gróðurs í meira en heila öld. Að þessu hafa vísindamenn og bændur unnið af mikilli natni og nákvæmni, leitað leiða til að hefta sandfok, lagað og grætt til að nýta landið á sjálfbæran og vistvænan hátt og skapað verðmæti í þágu samfélagsins alls. Það þekkir enginn betur landið en sá sem yrkir jörðina samkvæmt bestu mögulegu þekkingu og varðveitir auðlindina fyrir komandi kynslóðir. Sá sem hlustar á hjartslátt jarðarinnar, þekkir sitt nánasta umhverfi og vill virkja þann kraft sem býr í náttúrunni, er hinn sanni náttúruverndarsinni.

Sjálfbær nýting lands felur í sér að ekki sé gengið á auðlind heldur að gróður og náttúra viðhaldist og eflist. Ánægjulegt er að erlendir gestir sýna óspilltri íslenskri náttúru mikinn áhuga en um leið hefur umferð ferðamanna talsverð áhrif. Sé þess gætt að virða og verja má á sama tíma njóta og nýta. Stefna í ferðaþjónustu þarf því að haldast í hendur við náttúruvernd til að nýting lands til ferðamennsku sé sjálfbær. Við markaðssetningu áfangastaða er brýnt að hafa í huga viðkvæma náttúru og stuðla að samfélagslegri ábyrgð til að upplifun verði eins og lagt var af stað með.

Ánægður ferðamaður deilir gjarnan sögum og myndum þegar heim er komið. Íslendingar eiga þó ekki síður efni til að deila um íslenska náttúru. Í tilefni dagsins hvet ég sem flesta til að deila með hverjum öðrum hugmyndum sínum, ljóðum og myndum af náttúrunni og nota myllumerkin #stadurinnminn og #DÍN. Til hamingju með daginn.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. september 2015.

Categories
Greinar

Húsnæðismál í brennidepli

Deila grein

15/09/2015

Húsnæðismál í brennidepli

haraldur_SRGBTil að unnt væri að klára kjarasamninga sl. vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu m.a. um aðgerðir í húsnæðismálum. Þær aðgerðir beinast að því að í fyrsta lagi að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, í öðru lagi að auka framboð húsnæðis og lækka byggingarkostnað, í þriðja lagi að styðja við almennan leigumarkað og í fjórða lagið að styðja við kaup á fyrstu íbúð. Í yfirlýsingunni segir að miðað sé við að þau frumvörp sem nauðsynleg eru til að markmiðin nái fram að ganga verði afgreidd fyrir áramót á Alþingi. Frumvörpin, sem yfirlýsingin byggist á, verða væntanleg fjögur. Því blasir við að húsnæðismál verða í brennidepli Alþingis á næstu mánuðum og er það tilhlökkunarefni.

Létt á byggingarreglugerð
Aðgerðarkaflinn um aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingarkostnaðar segir svo »Af hálfu hins opinbera verður á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað. Endurskoðun á byggingareglugerð er þar á meðal og skipulagslög.Við endurskoðun byggingareglugerðar verði tekinn inn nýr flokkur mannvirkja sem undanþeginn verði ákvæðum reglugerðar um altæka hönnun. Þar verði einkum horft til smærri og ódýrari íbúða.« Þessar áherslur eru í takt við þingsályktunartillögu sem ég lagði fram síðasta vor ásamt Elsu Láru Arnardóttur, alþingismanni. Markmið þingsályktunarinnar var að lækka byggingarkostnað með því að endurskoða lög og létta á byggingareglugerð sem nú er um 170 blaðsíður að lengd. Umhverfisráðherra skipaði starfshóp þann 1. september í þessum tilgangi, og fagna ég mjög þessum áherslum.

Stuðningur við fyrstu kaup
Í yfirlýsingunni er fjallað um sparnaðarleiðir og sagt »Hvatt verður til sparnaðar með því að þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst, t.d. þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð. Mikilvægt er að upphæð vaxtabóta og skerðingarákvæði aðstoði einkum fjölskyldur undir meðaltekjum.« Á þennan hátt verður komið til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, en þeir eru oft ungt barnafólk og einmitt sá hópur sem að flestra mati er mikilvægt að hlúa að.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. september 2015.

Categories
Greinar

Íbúðir fyrir alla

Deila grein

15/09/2015

Íbúðir fyrir alla

Silja-Dogg-mynd01-vefÍ velferðarþjóðfélagi eins og Íslandi eiga allir að eiga kost á húsnæði við hæfi. Fjölbreytt framboð húsnæðis verður að vera tryggt og verðlag í samræmi við meðallaun. Því miður er húsnæðiskerfið á Íslandi ennþá vanþroskað og því er mikilvægt að við lítum til nágrannalanda okkar og lærum af því sem þau gera vel á þessu sviði.

Samvinnan
Aðgerðir til úrbóta í húsnæðismálum landsmanna eru forgangsverkefni. Í fjárlögum 2016 er gert ráð fyrir að 2,64 milljörðum króna verði samtals varið til uppbyggingar á félagslegu húsnæði og í nýtt húsnæðisbótakerfi.

Þann 28. maí sl. sendi ríkisstjórnin út yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði. Í henni kemur fram að ríkið skuldbindi sig, ásamt ASÍ, BSRB, BHM og fleiri samtökum, til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Stefnt verður að því að fjölga hagkvæmum og ódýrari íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Fleiri íbúðir-lægra verð
Samkvæmt yfirlýsingunni verður félagslega leigukerfið fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga sem nema um 30% af stofnkostnaði. Framlag ríkis og sveitarfélaga, auk annarra þátta ættu að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en um 25 % af tekjum viðkomandi. Dæmi: Manneskja með 300 þús. kr. í laun greiðir þá að hámarki 65 þús.kr. í húsaleigu.

Gert er ráð fyrir að byggðar verði 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum, max. 600 á ári. Sumum þykir sú upphæð sem ætluð er í þetta verkefni á árinu 2016 lág en þegar rýnt er í forsendur þá kemur í ljós að útreikningar gera m.a. ráð fyrir breytingum á byggingarreglugerð og lækkun lóða og gatnagerðargjalda. Það mun skila sér í lægri byggingarkostnaði. Með þessum hætti verður mögulegt að veita tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Nú þurfum við að taka höndum saman, leggja pólitíkina til hliðar og byggja upp fjölbreytt húsnæðiskerfi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. september 2015.

Categories
Greinar

Á bjargi byggði hyggin maður hús, á sandi byggði …

Deila grein

14/09/2015

Á bjargi byggði hyggin maður hús, á sandi byggði …

Páll Jóhann PálssonÉg hef frekar haldið mig til hlés í umræðunni um Landeyjarhöfn í þeirri von að betur horfði í þessu mikilvæga samgöngumáli Vestmannaeyja. Ég get ekki lengur á mér setið að setja nokkrar línur á blað. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar á að opna tilboð í sanddælingu í og við Landeyjarhöfn þann 11 ágúst nk. Þar er gert ráð fyrir að dæla 750 þúsund rúmmetrum af sandi á næstu þremur árum en fyrri áætlanir um magn í sanddælingu hafa ekki staðist. Áætlað var í upphafi að dæla 30 þúsund rúmmetra á ári en það hefur engan veginn staðist og ég óttast að sama verði uppi á teningnum að þessu sinni. Ég hef lagt mig eftir því að hlusta á þær raddir sem best þekkja aðstæður af eigin raun, raddir þeirra sem þekkja vel til ferjusiglinga og þeirra sem mikla reynslu hafa af hafnargerð. Því miður hafa spár þeirra og reynsla af Landeyjarhöfn orðið að staðreynd en höfnin og innsiglingin virka ekki sem sú samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga eins og til var ætlast nema hluta úr árinu.

Rétt eins og fyrisjáanleika þarf í sjávarútvegi og stöðuleika í atvinnulífi þá þarf stöðuleika í samgöngumál og örugga tengingu við flutningskerfi landsins bæði innanlands og ekki síður fyrir útflutning hvort heldur sem er við millilandasiglinar eða alþjóða flugvöllinn í Keflavík þar sem útflutningur á ferskum fiskafurðum fer ört vaxandi.

Afhendingaröryggi er hluti af gæðum fiskvinnslunnar í landinu og stjórnun veiða og vinnslu í samráði við kaupendur á erlendum ferskfiskmörkuðum lykillinn að aukinni verðmætasköpun í greininni. Samgöngur eru því hluti að gæðakerfi vinnslunnar en yfir helmingur af allri fiskvinnslu á landinu er innan við 100 kílómetra frá Keflavíkurflugvelli. Landeyjarhöfn er veikur hlekkur í þeirri virðiskeðju fyrir Vestmannaeyinga.

Ekki er það síður mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum að hafa öruggar samgöngur þar sem hægt er bjóða upp á reglulegar ferðir allt árið þegar ferðatímabilið er sífellt að lengjast og teygja sig fram á veturinn.

Endurskoðum verkefnið frá upphafi til enda, möguleika hafnarinnar og hvernig ferjur standa sig best í þeim aðstæðum sem eru við Landeyjarhöfn. Það er hægt að leigja ferjur sem geta hjálpað til við að endurskoða verkefnið frá grunni. Stöldrum við í því að moka sandi fram og til baka í Landeyjunum og einbeitum okkur að því sem við þekkjum og reynsla manna um allan heim hefur kennt okkur. Við þurfum ekki að eyða opinberum fjármunum í að finna upp hjólið. Allar hugsanlegar ferjutegundir eru til af öllum stærðum og gerðum sem reynsla er komin á.

Við sem höfum verið til sjós vitum að stundum verður að breyta um stefnu þegar við náttúruöflin er að etja og því fyrr sem horfst er í augu við það því betra. Ég tel að sá tími sé kominn í Landeyjahöfn. Landeyjarhöfn mun nýtast fyrir grunnristar farþegaferjur sem verða fljótar á milli lands og Eyja þegar veður leyfir meðan vöruflutningar verða með alvöru skipum til Þorlákshafnar. Lausleg könnun á Internetinu segir mér að ferja sem væri stærri og öflugri og gengi helmingi hraðar en Herjólfur kosti um 3 milljarða. Jafnvel þótt hún kosti meira en það þá yrði það mikil samgöngubót og varanleg fjárfesting.

Mikil fjárþörf liggur fyrir hjá mörgum höfnum landsins og ekki síst hér á Suðurlandi og má þar nefna Grindavík, Sandgerði og Hornarfjörð og í Þorlákshöfn en þar er áætlað að bæta og breyta innviðum hafnarinnar fyrir 2,2 milljarða á næstu árum. Aflagjöld standa engan veginn undir öðru en rétt reglulegum rekstri fiskihafna í dag og Hafnarbótasjóður sem á að styðja við bakið á þessum höfnum hefur verið sveltur í mörg ár. Faxaflóahafnir standa mjög vel og hyggja á milljarðafjárfestingar á sínu svæði enda bæði með meginhlutann af inn og útflutningi landsmanna. Við Íslendingar erum rétt um 330 þúsund eða eins og mjög lítið sjávarþorp í Evrópu. Er ekki kominn tími til að hugsa málin heildstætt í stað þess að vera að berjast hver í sínu horni og dreifa litlum fjármunum á of marga staði?

Faxaflóamótelið hefur reynst mjög vel og er ekki að sjá að Akranes hafi farið halloka í því samstarfi. Því spyr ég hvort ekki megi skoða þann möguleika að taka Þorlákshöfn og hafnir á Reykjanesi inn í Faxaflóahafnir. Faxaflóahafnir hafa það afl sem þarf til að byggja Þorlákshöfn upp sem viðkomustað stærri millilandaskipa ef horft yrði til lengri tíma. Því er það freistandi að samnýta mannvirkin fyrir öfluga Vestmannaeyjaferju sem færi vel með farþega í 90 mín. siglingu til Þorlákshafnar þó slæmt væri í sjóinn og örugga tengingu vöruflutninga við önnur flutningskerfi hvort sem er flug eða sjófragt.

Ég veit að þeir sem mesta trú hafa á því að sérfræðingar viti hvernig Landeyjarhöfn verði breytt svo hún verði sú lífhöfn sem hún þarf að vera, vilja vel. Bæjarstjóri Vestmannaeyja sem er mjög öflugur málsvari Vestmannaeyja er sannfærður um að sérfræðingar og stjórnvöld geti staðið við fyrri loforð sín um heilsárshöfn í Landeyjum og er duglegur að koma því á framfæri. Kannski ætti bæjarstjórinn að líta sér nær og hlusta meira á sitt eigið fólk og í þessu tilfelli á þaulreynda skipstjóra og sjómenn sem þekkja suðurströndina og sjólagið þar af eigin raun.

Fróðlegt verður að sjá tilboðstölur í væntanlega sanddælingu við Landeyjahöfn, en hverjir treysta sér til að dæla sandi við þessar erfiðu aðstæður allt árið um kring. Því miður er ég þeirrar skoðunar að það verði erfitt verkefni og ég er þess fullviss að minna skip en núverandi Herjólfur er ekki framtíðarlausn fyrir Eyjamenn.

Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í sunnlenska.is 7. ágúst 2015.

Categories
Greinar

Fjölgum hagkvæmum og ódýrum íbúðum

Deila grein

11/09/2015

Fjölgum hagkvæmum og ódýrum íbúðum

Elsa-Lara-mynd01-vefurHver getur ekki nefnt dæmi um einstætt foreldri á leigumarkaði sem nær ekki endum saman og ræður ekki við að borga háa leiguna eða námsmanninn sem kemst ekki inn á stúdentagarða vegna langra biðlista og leigir því herbergi úti í bæ og borgar þar himin háa leigu.

Því miður er hægt að nefna mörg önnur dæmi sama eðlis. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gerir sér grein fyrir að bregðast þarf við þessum vanda og í Fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 má sjá fyrstu aðgerðirnar í þeim efnum. Þar er gert ráð fyrir að 2,6 milljörðum króna verði varið til húsnæðismála. Þar af 1,5 milljarði í stofnframlög vegna uppbyggingar á félagslegu leiguhúsnæði og 1,1 milljarði í húsnæðisbætur.

Nauðsynlegt er að sátt náist um þessi mikilvægu mál í þinginu og að pólitískum klækjaleikjum verði ýtt til hliðar. Sameinumst nú við þessar þörfu aðgerðir fyrir íslensk heimili.

Fjölgum leigufélögum, lækkum leiguverð
Í frumvarpi um stofnstyrki sem lagt verður fram á haustþingi, er lagður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Lögð er áhersla á að fjölga hagkvæmdum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum. Þessi framlög auk annarra aðgerða eins og auknar húsnæðisbætur og endurskoðun á byggingareglugerð, eiga að leiða til þess að einstaklingur með lágar tekjur, borgi ekki meira en 20 – 25 % af tekjum sínum í leigu.

Byggjum 2300 íbúðir á 4 árum
Samkvæmt frumvarpinu geta sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, byggt og rekið félagslegt húsnæði.

Þau verða að hafa það að langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju – og eignamörkum. Stefnt er að því að byggja 2300 íbúðir á næstu fjórum árum, þó að hámarki 600 íbúðir á ári. Í Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 eru fyrstu skrefin stigin og fjármagni veitt í stofnframlög fyrir 400 íbúðir.

Búsetuöryggi á leigumarkaði
Samkvæmt frumvarpinu verður tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi forgangsröðun sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustunnar eða forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum. En við frekari forgangsröðun við úthlutun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði verður horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda.
Það er óhætt að segja að unnið sé í þágu heimilanna. Það höfum við gert og við höldum ótrauð áfram.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 11. september 2015.