Categories
Greinar

Upp með álverið

Deila grein

14/04/2013

Upp með álverið

sij-sdgKosningarnar í vor snúast um að taka á vanda skuldugra heimila. Við framsóknarmenn ætlum að leiðrétta lán og taka á verðtryggingunni sem er mein í íslensku samfélagi. Heimilin eru undirstaða samfélagsins. Samhliða þarf að grípa til margvíslegra aðgerða til að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik.

Framsókn er atvinnumálaflokkur – við viljum byggja upp fjölbreytt atvinnulíf þar sem allir landsmenn geta fundið verkefni við sitt hæfi. Hér á Suðurnesjum er atvinnuleysi búið að mælast mest og í lengstan tíma. Það þarf því að setja sérstakan kraft í atvinnuuppbyggingu hér.

Stóra atvinnuverkefnið
Stóriðjuframkvæmdir í Helguvík eru stórt atvinnuverkefni og þar með mikið hagsmunamál allra Suðurnesjamanna. En ekki bara Suðurnesjanna heldur Íslands í heild. Við þurfum verulega aukna fjárfestingu og aukinn hagvöxt.  Framsókn styður áframhaldandi uppbyggingu atvinnustarfsemi í Helguvík. Næg atvinna er forsenda og undirstaða velferðar t.a.m. nauðsynlegrar enduruppbyggingar heilbrigðiskerfisins.

Reykjanesvirkjun stækkuð í 180 MW
HS Orka fékk þann 15. september árið 2011 virkjunarleyfi frá Orkustofnun fyrir 80MW stækkun á Reykjanesi. Orkuverið er  nú 100MW þannig að þegar stækkunin hefur átt sér stað þá framleiðir orkuverið 180MW. Frekari stækkanir eru í farvatninu. – Ef samningar um orkuverð nást og álverið í Helguvík hefur starfsemi sína þá mun það kaupa raforku af fleiri orkufyrirtækjum, m.a. HS Orku.

Orkufyrirtækin í eigu Íslendinga
Framsókn stefnir að því að í framtíðinni verði virkjanaleyfi til stærri verkefna háð því að a.m.k. 2/3 hlutar orkufyrirtækisins verði í eigu opinberra aðila til að tryggja að arðurinn af orkunni renni til íslensks samfélags. Við teljum það öryggis- og hagsmunamál íslensku þjóðarinnar.

Nú er staðan sú að erlent einkafyrirtæki, Alterra Power, á meirihlutann í HS Orku en restin er í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að erlendir aðilar komi á morgun og geri Alterra gott tilboð í HS Orku. Til að tryggja samstöðu um orkunýtingu viljum við fara að fordæmi Norðmanna og tryggja breiðari eignaþátttöku opinberra aðila í stórum virkjanaframkvæmdum.  Orkufyrirtækin okkar eru eitt af því sem ekki á að ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði.

Með því að taka á skuldamálum heimila samhliða öflugri atvinnuuppbyggingu leggjum við grunn að góðu samfélagi framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson
1. sæti Framsóknar í Suðurkjördæmi

Silja Dögg Gunnarsdóttir
2. sæti Framsóknar í Suðurkjördæmi

Categories
Greinar

Valið er okkar

Deila grein

12/04/2013

Valið er okkar

Þórunn EgilsdóttirÍsland er ríkt land, bæði af auðlindum og mannauði. Á Norðausturlandi er mikil verðmætasköpun og íbúar landshlutans standa á bakvið drjúgan hluta af landsframleiðslunnar. En því miður er nú svo komið að veruleg óvissa ríkir um sjálfsagða grunnþjónustu í kjördæminu. Svo hart hefur verið vegið að grunnatvinnuvegum okkar að allt bendir til þess að þeir verði ekki það hryggjarstykki í hagkerfinu sem þeir þurfa að vera til að samfélagið virki sem skyldi.

Fram til þessa höfum við Íslendingar haft raunhæft val um búsetu hvar sem er á landinu, vitandi það að við bjuggum við sama rétt og grunnþjónustu um allt land. Því miður er nú svo komið að veruleg óvissa ríkir um grunnþjónustuna sem öllum landsmönnum er þó ætlað að greiða fyrir, þjónustuna sem er forsenda búsetu í landsbyggðunum og felur í sér örugga löggæslu, aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu, fjölbreytta möguleika til náms, góðar samgöngur og fjarskipti.

Löggæslumál í kjördæminu eru ekki með þeim hætti að ásættanlegt sé, heilbrigðisþjónustan hefur stöðugt átt undir högg að sækja og við, íbúar kjördæmisins, þurfum oft um langan veg að fara til að sækja þá heilbrigðisþjónustu sem við þörfnumst.

Nú höfum við val um að snúa óheillavænlegri þróun til baka. Val um að efla grunnþjónustuna um landið og snúa okkur frá miðstýringu. Val um að á Íslandi verði hægt að fá læknisþjónustu án þess að þurfa að sækja hana um langan veg. Val um að íbúar Íslands verði öruggir þar sem lögreglan vakir yfir byggðunum. Val fyrir gamla fólkið okkar að verja ævikvöldinu í sinni heimabyggð en ekki vera flutt hreppaflutningum á hjúkrunarheimili í fjarlægum bæjarfélögum.

Nú höfum við val um að halda Íslandi í byggð.  Framsókn hefur lagt fram róttæka stefnu í byggðamál. Kjósum því X-B í alþingiskosningunum 27. apríl næstkomandi.

Þórunn Egilsdóttir

Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

 

Categories
Greinar

Heima eða heiman?

Deila grein

11/04/2013

Heima eða heiman?

Jóhanna María Sigmundsdóttir, 4. sæti í Norðvesturkjördæmi

Minnkandi námsframboð á landsbyggðinni er vandi, það er vandi í hverju samfélagi fyrir sig. Þetta er mein sem smitar út frá sér til annarra grunnstoða. Ungt fólk getur ekki lært það sem það vill í sinni heimabyggð og þarf því að flytja annað. Um leið og það er komið á nýjan stað fer það að búa sér til umhverfi, sækja um vinnu, finna íbúð, eignast vini og þar fram eftir götunum.

Þetta sama fólk býr á staðnum í kannski fjögur ár á meðan það stundar námið. Að þessum árum liðnum er umhverfið orðið heilsteyptara. Inn í spilið er kominn maki, jafnvel barn og íbúðin er orðin að heimili, vinnan er skemmtileg  og viðkomandi er líka búin að vinna sig upp í góða stöðu þar. Eftir að hafa svo lokið námi býðst viðkomandi föst staða við fyrirtækið og góð laun.

Hvar er hvatinn til að flytja aftur heim í samfélagið þar sem ekkert var í boði fyrir þig, fyrir fjórum árum síðan? Af hverju ættir þú að rífa fjölskylduna upp, losa þig við íbúðina, segja upp vinnunni og flytja heim, til að byrja að skapa þér umhverfi upp á nýtt?

Heftandi eða hvetjandi?

Því miður missa samfélög á landsbyggðinni alltof mikið af ungu fólki á þennan hátt. Námsmöguleikar eiga að vera jafnir óháð búsetu, staðreyndin er sú að það er alls ekki svoleiðis í dag. En staðreyndin er einnig að ekki þarf mikið til að vinna til að svo geti orðið.

Ef við gætum aukið notkun á nútímatækni eins og er  t.d. í Háskólasetri Vestfjarða, væri hægt að efla menntaskóla á svæðinu enn frekar, auka fjölbreytni námsleiða, auðvelda námsgagnagerð og stuðla að gagngerðri uppbyggingu á meðan komið er í veg fyrir stöðnun svo við horfum ekki á sama vandamál sem lýst er hér að ofan.

Hægt er að efla tengingu á milli menntakerfis og atvinnulífs á hverju svæði.  Með því væri boðið upp á nám tengt blómstrandi atvinnugeirum í byggðarlaginu og möguleikar viðkomandi auknir á  að geta búið og starfað í heimabyggð.

Unga fólkið á ekki að þurfa að sækja allt nám til Reykjavíkur eða annarra stærri svæða, samfélagið þarf að koma til móts við þetta fólk. Því þættir sem þessir verka heftandi á ungt fólk og því miður nær það ekki að blómstra sem skyldi ef höft eru á námsvali eða búsetu. Nám á ekki að stýra því hvar fólk þarf að búa.

Færum unga fólkinu námsmöguleika og eflum byggðina heima um leið.

Jóhanna María Sigmundsdóttir,

4. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

feykir@feykir.is

 

Categories
Greinar

Kæru landsmenn!

Deila grein

11/04/2013

Kæru landsmenn!

AlliÞann 27. apríl næstkomandi göngum við til alþingiskosninga. Ég el þá von í brjósti að þessar kosningar verði frábærar í því tilliti að flokkurinn minn, Framsókn komi afar vel út. Ég er í hjarta mínu sannfærður um að stefna Framsóknar í þeim málum sem brenna á landsmönnum, staðfesta í stjórnarandstöðu sl. fjögur ár, staðfesta forystumanna flokksins og úrræði þau sem flokkurinn hefur kynnt til handa landsmönnum eftir kosningar leiði flokkinn til forystu og gefi Framsókn tækifæri til að sýna landsmönnum hvað býr í því sterka og fjölhæfa liði sem í framboði er fyrir flokkinn.  Það er gaman að sjá stækkandi hóp þeirra sem sjá að loforð Framsóknar og forystumanna flokksins eru ekki innantóm orð, heldur raunhæf og vel útfærð markmið sem munu leiða okkur á braut gæfu og gengis og verða landi og þjóð til heilla til allrar framtíðar.

Kæri kjósandi, kynntu þér markmið og stefnu flokksins sem metur manngildi ofar auðgildi og vill að þjóðin hafi síðasta orðið.  Samvinna og samheldni er það sem þarf í dag.

Við setjum X við B.

Aðalsteinn Júlíusson

Greinarhöfundur er skipstjóri og skipar 9. sæti fyrir Framsókn í Norðausturkjördæmi

Categories
Greinar

Skynsöm þjóð

Deila grein

07/04/2013

Skynsöm þjóð

HÞÞPistlarnir koma okkur ekkert sérstaklega á óvart. Þegar við lögðum fram tillögur um leiðréttingu lána á vordögum ársins 2009 birtust sams konar pistlar í blaðinu þar sem tillögurnar voru kallaðar svipuðum nöfnum. Tillögur sem flestir eru nú sammála um að voru raunhæfar, sanngjarnar og til þess fallnar að skapa sátt í samfélaginu.

Leiðararnir eru einnig í sömu veru og við þurftum endalaust að búa við í baráttunni gegn því að Icesave-samningarnir yrðu samþykktir. Því var fylgt eftir með fréttaflutningi um að hitt og þetta myndi gerast ef Alþingi myndi ekki staðfesta samningana. Fréttir um hugsanlegar afleiðingar sem enga stoð áttu sér í raunveruleikanum og tók okkur oft margar vikur að leiðrétta fyrir þjóðinni.

Tillögur okkar eru í þeim anda sem við höfum talað fyrir síðastliðin fjögur ár. Við höfum bent á þann forsendubrest sem varð við fall gömlu bankanna og nauðsyn þess að taka á vogunarsjóðunum, sem hafa hagnast gríðarlega á skuldsettum heimilum landsins. Við höfum líka talað fyrir því að koma á sanngjörnu lánafyrirkomulagi á Íslandi þar sem áhættan skiptist jafnt á milli lántaka og lánveitanda. Þar skiptir afnám verðtryggingarinnar miklu. Við teljum að það sé raunhæft að breyta þessu fyrirkomulagi og að þannig verði Ísland best rekið til framtíðar.

Í Icesave-málinu gerðum við okkur grein fyrir því að almenningur væri skynsamur og vel til þess búinn að setja sig inn í flókin deilumál. Hann væri líka fær um að kynna sér mismunandi rök og beita gagnrýnni hugsun til að móta sér afstöðu. Tillögur okkar eru einmitt settar fram með það að markmiði að þær séu skoðaðar, gagnrýndar og metnar. Sú afstaða leiðarhöfundar Fréttablaðsins laugardaginn 16. mars sl. að “veruleikafirring“ þjóðarinnar sé ástæða þess að tillögur okkar hljóti hljómgrunn er því miður ódýr afgreiðsla á annars vel menntaðri og vel meinandi þjóð.

Höskuldur Þórhallsson

Categories
Greinar

Lítil fyrirtæki stækka mest

Deila grein

25/03/2013

Lítil fyrirtæki stækka mest

Silja Dögg GunnarsdóttirÖll vitum við að ekkert verður til úr engu. Til þess að skapa verðmæti þá þurfum við atvinnu. Til þess að auka hagvöxt og byggja upp velferð þá þurfum við að auka fjárfestingar og framleiðni. Stöðugt og fjölbreytt atvinnulíf byggist á hugviti og dugnaði einstaklinga en rekstrarumhverfið þarf líka að vera hagstætt. Skattpíning skilar engu. Fyrirtæki þurfa einfaldara regluverk og einfaldara skattkerfi til að geta vaxið. Við megum ekki höggva ræturnar af trénu, við verðum að vökva það og næra. Hið sama gildir um fyrirtækin okkar.

Blómlegt atvinnulíf er undirstaða velferðar

Um 90% íslenskra fyrirtækja eru lítil og meðalstór.  Stöðugleikinn er meiri þegar við höfum ekki öll eggin í sömu körfunni.  Því telur Framsóknarflokkurinn mikilvægt að leggja áherslu á að styrkja hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þegar skattaumhverfi þeirra er orðið vænlegra þá skila þessi fyrirtæki meiri tekjum, sem þýðir að þau geti fjölgað störfum.  Það þýðir að fleiri fá atvinnu, atvinnuleysi minnkar, tekjur heimilanna hækka og staða þeirra batnar.

Litli kallinn borgar

Rekstur smærri fyrirtækja hefur verið mjög erfiður síðustu misseri. Ástæðurnar eru margar. Helst má nefna sífelldar skattabreytingar, flóknara regluverk,  óhagstætt gengi krónunnar,  aukinn rekstrarkostnað  og hærri afborganir lána.  „Stóru kallarnir“ fengu margir hverjir afskrifaðar skuldir eftir Hrun en „litlu kallarnir“ sitja uppi með sínar skuldir. Sumir fyrirtækjaeigendur halda áfram ennþá á þrjóskunni en aðrir hafa því miður gefist upp. Í stað þess að auðvelda atvinnurekendum róðurinn á þessum erfiðu tímum, þá hefur núverandi ríkisstjórn gert sitt til að þyngja hann enn frekar með endalausum skattaálögum. Rekstarumhverfið hefur verið mjög óstöðugt og menn veigrað sér við að fara út í frekari fjárfestingar því óvissa ríkir um í hverju skuldbindingarnar muni felast.

Þessu þarf að breyta og því ætlar Framsókn að beita sér fyrir fái hún til þess umboð frá kjósendum í vor. Vinna, vöxtur, velferð eru sígild slagorð. Við verðum að byggja upp atvinnulífið með öllum ráðum. Fjölskyldan og heimilin eru undirstaða samfélagsins en þau eiga allt sitt undir því að atvinnulífið gangi vel.

Framsókn fyrir atvinnulífið! Framsókn fyrir heimilin! Framsókn fyrir Ísland!

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir 2. sæti Framsókn í Suðurkjördæmi

Categories
Greinar

Samfélagið verður Sigurvegarinn

Deila grein

18/03/2013

Samfélagið verður Sigurvegarinn

Það eru engin ný sannindi að í flestum keppnum sigrar einhver og það tapar einhver. En stundum þarf að taka skref til baka og velta keppninni fyrir sér hvort það þurfi endilega einhver að tapa. Rannsóknir á vettvangi afreksíþrótta segja að hugarfarið sé lykill að árangri; ástríða, þrautseigja og skuldbinding á verkefnin.

Í mínum huga eiga stjórnmálin að snúast um það samfélag sem við viljum byggja upp og búa í, um þær ákvarðanir sem að því lúta og þar á enginn að þurfa að tapa. Nú í aðdraganda kosninga munu stjórnmálaflokkarnir setja fram sína stefnu, sem er til þess fallin að kynna samfélaginu þá leið sem þeir telja hyggilegast að fara. Stjórnmálamenn munu etja kappi, aðallega á velli fjölmiðlanna, og reyna að koma hugmyndum sínum á framfæri í þeim tilgangi að sannfæra kjósendur, heimilin og fyrirtækin um hina ?réttu leið?. Svona hef ég upplifað stjórnmálin frá því ég fór að fylgjast með og upplifa þennan kappleik. Ég hreifst gjarnan af kappsfullum og mælskum stjórnmálamönnum sem fóru mikinn í orðræðu, svöruðu skarplega og fimlega öllum andmælum og hljómuðu svo sannfærandi að ég trúði því að þarna væri sannleikann að finna. Þeir höfðu andstæðinginn undir.

Samfélagið í uppnámi

Þrátt fyrir misvísandi skilaboð í öllu því upplýsingaflæði sem dembist yfir okkur á prenti, á netinu og öldum ljósvakans held ég að enginn geti mælt því mót að samfélagið er í besta falli í uppnámi. Heimilin búa við stökkbreyttar skuldir, rýrnandi kaupmátt, skertar ráðstöfunartekjur, sífelldar og almennar verðhækkanir, atvinnuleysi og ofan á allt það stöðugar breytingar á skattkerfinu og skattahækkanir. Fyrirtækin búa við óstöðugt efnahagsumhverfi, skattabreytingar, skattahækkanir og heilu atvinnugreinarnar búa við algera óvissu. Allt hefur þetta lamandi áhrif á samfélagið, heimilin halda að sér höndum og fyrirtækin hafa minna svigrúm til fjárfestinga og mannaráðninga. Í þessum kappleik tapa allir. Þetta kallast tilfinning taparans.

Til að snúa ósigri í sigur þurfum við leiðandi afl, sem hefur hið sanna hugarfar. Afl sem hikar ekki við að taka ákvarðanir, hefur vilja til að takast á við breytingar og umfram allt hefur kjark og dug til þess að koma á umbreytingum. Til þess að framfylgja breytingum og ná þeim árangri sem stefnt er að þarf að koma til þrautseigja og skuldbinding á verkefnin, þeir lykilþættir sem rannsóknir sýna að þurfi til í leitinni að árangri. Í samfélaginu er ákall um slíka forystu.
Fyrir skemmstu unnum við öll mikilvægan sigur í Icesave-málinu. Sá sigur vannst fyrir slíkan dugnað, forystu dugandi fólks, skuldbindingu á verkefnið, þrautseigju og ástríðu fyrir hagsmunum þjóðar.

Nú þarf ekkert minna en að hrinda af stað umbreytingarferli sem felur í sér bætt kjör heimila og fyrirtækja. Lykilmálin eru leiðrétting á skuldum og afnám verðtryggingar. Þar er á ferðinni réttlætismál og forsenda hagvaxtaraukningar. Einfalda þarf skattkerfið og lækka skatta eins og t.d. tryggingagjald.

Munurinn á þessum kappleik og hefðbundnum íþróttakappleik er að hér, líkt og í Icesave-málinu, sigra allir. Samfélagið allt er undir og verður hinn eini sanni sigurvegari. Vinnum saman og ráðumst í breytingar.

Árangurinn mun byggja á hugarfarinu. Framsókn fyrir heimilin.

Willum Þór Þórsson

Categories
Greinar

Hvers eiga gamlir að gjalda?

Deila grein

15/03/2013

Hvers eiga gamlir að gjalda?

Skoðanafrelsi: Einn er sá hópur þegna í þjóðfélagi okkar sem með óréttmætum hætti er stundum settur hjá. Ekki er tekið sanngjarnt tillit til skoðana eldri borgara og þeim er ekki gefið tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið með sama hætti og öðrum þjóðfélagshópum. Sum fyrirtæki, sem standa fyrir skoðanakönnunum meðal almennings, leggja ekki spurningar fyrir fólk eldra en 67 ára. Það er eins og viðhorf þess skipti engu máli. Með sterkum rökum má segja að tjáningarfrelsi aldraðra sé heft með þessu framferði, en klárlega er þetta virðingarleysi gagnvart galvösku fólki á góðum aldri.

 

Atvinnufrelsi: Annað tilvik af svipuðum toga er það þegar stór hópur aldraðra er sviptur atvinnufrelsi. Þeim sem unnið hafa hjá hinu opinbera og raunar mörgum einkafyrirtækjum er gert að hverfa úr störfum ekki seinna en sjötugir, alveg án tillits til heilsufars, vinnugetu, starfshæfni eða vilja viðkomandi. Sem betur fer býr þjóðin enn við góða heilsugæslu og margir halda góðri vinnufærni langt fram yfir sjötugt. Margt af þessu fólki er ekki ginnkeypt fyrir því að láta af störfum og setjast í sófann og einangrast frá þjóðlífinu. Mikill vinnukraftur fer þannig forgörðum að óþörfu.

 

Efnahagsstaða: Sem betur fer er staða margra aldraðra sæmileg eða góð. Margir hafa eignast íbúðir sínar að fullu en aðrir þurfa að berjast við að halda úti stökkbreyttum húsnæðislánum eins og þeir sem yngri eru. Sennilega hafa aldraðir tapað meiri fjármunum í hruninu en aðrir þjóðfélagshópar. Óreiðumennirnir sem settu þjóðina hérumbil á hausinn komu aðeins í undantekningartilfellum úr hópi eldra fólks. Það eru ekki margir í hópi 67 ára og eldri sem hafa fengið gefnar upp skuldasúpur og sennilega fáir úr þessum hópi sem eru eigendur að fúlgum í skattaskjólum erlendis.

 

Fjárhagslegt frelsi: Eignir aldraðra fyrir hrun voru fyrst og fremst húsnæði og réttindi í lífeyrissjóðum. Sumir áttu einnig innstæður í bönkum og einhver hlutabréf. Húsaverð hefur fallið, innstæður rýrnað vegna verðbólgu og halda hvergi nærri verðgildi sínu, hlutabréf eru í flestum tilfellum orðin verðlaus og lífeyrisgreiðslur stórlega skertar, bæði frá sjóðum og frá tryggingunum. Nú er það í sjálfu sér ástæðulaust að aldraðir skilji eftir sig verulegan arf. Hitt ætti að vera sanngjarnt að sem allra flestir þurfi ekki að líða skort og geti búið við sæmilegt efnahagslegt öryggi á efri árum. Því miður er alls ekki svo hjá öllum. Einnig ber á það að líta að eldra fólk sem hefur orðið fyrir efnahagslegum áföllum, hefur hvorki möguleika né tækifæri til að byggja á ný upp sjóði sér til öryggis á ævikvöldinu. Um 20% þjóðarinnar eru svokallaðir eldri borgarar. Það er sárt að tilheyra hálfgerðum utanveltuhópi í þjóðfélaginu og því verðum við að breyta. Ef við sýnum samstöðu og dug getum við haft veruleg áhrif á okkar sameiginlegu hagsmuni. Málefni aldraðra þurfa aukna athygli og þeir að njóta eðlilegs réttlætis.

Sigrún Magnúsdóttir

Categories
Greinar

Verðtryggingin ólögleg?

Deila grein

27/02/2013

Verðtryggingin ólögleg?

“Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda heimila. Afstaða Framsóknarflokksins er eindregið sú að ekkert geti réttlætt að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns.“

Þetta var meðal þess sem var samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna sem fram fór helgina 8.–9. febrúar.

Skilaboð fulltrúa á þinginu til þjóðarinnar eru ótvírætt þau að leita eigi áfram leiða til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán sem stökkbreyttust í efnahagshruninu.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa frá árinu 2009 lagt fram tillögur um leiðréttingar á lánum heimila og aðgerðir til afnáms verðtryggingar á neytendalánum. Því miður hafa tillögurnar ekki náð fram að ganga og því búum við enn við óbreytt ástand. Verðtrygging húsnæðislána hefur lengi sætt mikilli gagnrýni. Eðlilega finnst mörgum undarlegt að þegar kaffi hækkar eða ríkisvaldið eykur álögur á bensín hækki húsnæðislánin þeirra. Margoft hefur verið bent á að verðtrygging sé ekki lögmál.

Brot gegn neytendalögum
En hvað gerist ef verðtrygging húsnæðislána verður dæmd ólögleg? Elvíra Mendez Pinedo, dósent í Evrópurétti við Háskóla Íslands, hefur fært fyrir því sannfærandi rök að verðtrygging brjóti gegn neytendalögum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verði lántakandi að geta séð hvernig höfuðstóll lánsins muni þróast út lánstímann og í öðru lagi megi ekki breyta lánsupphæð eftir á. Þá hefur Verkalýðsfélag Akraness höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um það hvort verðtrygging standist lög um verðbréfaviðskipti og tilskipun Evrópuréttar.

Hafi Elvíra rétt fyrir sér og/eða ef Héraðsdómur dæmir Verkalýðsfélaginu í hag mun það að sjálfsögðu undirstrika réttlæti og mikilvægi þess að lán verði leiðrétt.

Hvað sem því líður munu þingmenn Framsóknar halda áfram baráttunni fyrir leiðréttingu og afnámi verðtryggingar á nýjum neytendalánum þar sem fátt er jafn mikilvægt og að gera íslenskum fjölskyldum kleift að komast úr fjötrum skulda eins fljótt og frekast er unnt. Það að gera ekki neitt fyrir skuldsettar fjölskyldur getur varla verið valkostur því heimilin eru undirstaða alls efnahagslífsins.

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Greinar

Okkur ber að verja börn og unglinga gegn klámi

Deila grein

27/02/2013

Okkur ber að verja börn og unglinga gegn klámi

Strax og farið er að ræða um klám og klámvæðingu kemur upp spurningin hvað flokkist sem klám. Það má réttilega segja að í skilgreiningunni felist huglægt mat – gildismat, breytilegt frá kynslóð til kynslóðar og á milli menningarheima. Að mínu mati er klám orð eða efni sem sýnir kynlíf samofið misnotkun, valdbeitingu og niðurlægingu og líkist ekki samskiptum kynjanna sem tengjast virðingu, samþykki, ábyrgð og jákvæðri upplifun.

Ábyrgð allra
Í íslenskum lögum er klám refsivert, sbr. 210. grein í almennum hegningarlögum. Það er á ábyrgð opinberra aðila að setja mörk hvað varðar leyfi til birtingar eða sýningar. Eftirlitsaðilar eiga síðan að fylgja eftir lögum og reglum, foreldrar að ala upp börn og unglinga með dómgreind sem byggir á gildismati sem tekur afstöðu gegn ofbeldi, kúgun og misbeitingu valds. Síðan kemur til kasta skóla að skapa skólabrag og vinna með nemendum í anda námsskrár. Jafnrétti er ein af grunnstoðum í starfi leik-, grunn- og framhaldsskóla og gefur það vonir um að skólakerfið komi til með að leggja enn meiri áherslu á jafnréttisfræðslu, kynfræðslu og þar með fræðslu og umræðu um klám. Vinna í góðu samstarfi við foreldra og þá aðila sem bjóða skólum upp á vandaða fræðslu. Ekki má gleyma ábyrgð fjölmiðla og allra þeirra sem með einum eða öðrum hætti koma að því að móta lífsstíl og gildismat barnanna okkar.

Áherslur Framsóknar og Barnasáttmálinn
Framsóknarmenn styðja endurskoðun barnalaga og þá sérstaklega með tilliti til Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Í honum er lögð áhersla á velferð barna, en einstaklingur telst barn til 18 ára aldurs. Allar ákvarðanir yfirvalda eiga að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst. Vernd gegn óæskilegu efni, kynferðislegu ofbeldi og þátttöku í klámiðnaði. Ég hef unnið með unglingum í yfir 30 ár og allan þann tíma fléttað kynfræðslu inn í starf mitt. Einn þáttur fræðslunnar hefur alltaf verið umfjöllun um klám. Unglingar hafa á reiðum höndum skilgreiningu á klámi, eiga auðvelt með að koma með dæmi, sjá hvað klám sýnir óraunverulega mynd af jákvæðu kynlífi en neita því ekki að hafa horft á klám – sérstaklega strákar. Að þeirra sögn er klám alls staðar og auðvelt að nálgast það. Ég sé mikinn mun á túlkun og umfjöllun unglinga í dag og unglinga fyrir áratugum. Fyrir 30 árum byggði skilgreining þeirra og dæmi á allt öðrum veruleika en í dag. Nú eru dæmin allt önnur, mun grófara ofbeldi, nákvæmari og nærgöngulli lýsingar af athöfnum. Tilkoma tölvuleikja sem flokkast ekki undir neitt annað en klám og ofbeldi og netið með allt sitt aðgengi og magn af efni hefur bæst við flóruna. Ég er viss um að foreldrar og þeir sem vinna með börnum og unglingum hafa áhyggjur af þessari þróun. Ég fagna nýju átaki þriggja ráðuneyta sem í samstarfi við skóla vilja vekja unglinga til umhugsunar um klám og kynferðislegt ofbeldi. Það má fagna myndinni Fáðu já en hún tekur á samskiptum kynjanna sem tengjast virðingu, samþykki, ábyrgð og jákvæðri upplifun af kynlífi.

Klámvæðingin
Kynferðislegar og klámfengnar tilvísanir er mjög víða að finna í lífi unglinga og línan á milli kynlífs, kláms og ofbeldis er alltaf að verða óljósari. Nýleg rannsókn sýnir að strákar neyta kláms í stórum stíl og himinn og haf er á milli notkunar stráka og stelpna. Mismunandi hlutverk og staða kynjanna kemur berlega í ljós í heimi klámvæðingar. Ef þeir sem ekki vilja sjá að í heimi kláms eru konur þolendur og hafa ekki völdin ættu í huganum að skipta um kyn á persónum og leikendum og sjá hvort skoðun þeirra breyttist ekki. Rannsóknir hafa sýnt að stöðvar í heilanum sem lesa og túlka tilfinningar mynda þol og við getum horft á grófara ofbeldi og klám án þess að bregðast við – þolmörkin færast til.

En hvað á að gera?

Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af börnum, unglingum og ungu fólki sem er að móta gildismat sitt og lífsstíl. Það má kalla þetta viðhorf mitt forræðishyggju og telja það neikvætt en ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Ef það er gerlegt að stemma stigu við því flóði af klámefni sem stendur börnum okkar og unglingum til boða þá er ég því fylgjandi. Alveg á sama hátt og okkur sem samfélagi á að finnast það eðlilegt að hefta aðgengi að ákveðnum kvikmyndum og tölvuleikjum. Ég er ekki sérfræðingur í netheimum og get því ekki skorið úr um hvort til séu aðgengilegar leiðir. Vegir netsins eru það óútreiknanlegir að ég óttast að erfitt reynist að festa hönd á óæskilegu efni án þess að reglur og eftirlit verði allt of íþyngjandi fyrir almenna notendur netsins. Það þarf að fara fram almenn umræða um forvarnir, skilgreina betur hvað fellur undir klám og refsirammann. En fyrst og síðast er það gildismatið í þjóðfélaginu sem þarf að taka afstöðu gegn klámi. Allir þurfa að gefa skýr skilaboð á heimavelli, vinnustöðum og opinberlega. Skýr afstaða er það aðhald sem ég held að virki vel. Það er skylda okkar að standa vörð um velferð barnanna okkar.

Fanný Gunnarsdóttir