Categories
Greinar

Helgi og kröfuhafar

Deila grein

25/10/2013

Helgi og kröfuhafar

Eygló HarðardóttirÍ nýlegri fyrirspurn til fjármálaráðherra spurði Helgi Hjörvar hvort skuldaleiðrétting verðtryggðra húsnæðislána ætti að vera hluti af samningum við erlenda kröfuhafa um afnám gjaldeyrishaftanna.

Þessi fyrirspurn hefur angrað mig nokkuð síðustu daga.

Ekki þó vegna áhuga Helga á skuldaleiðréttingunni. Ég er sannfærð um að hann hefur raunverulegan áhuga á skuldamálum heimilanna, ólíkt ýmsum öðrum í hópi fyrrverandi stjórnarliða. Nei, heldur því að hann skuli gefa sér að erlendir fjármagnseigendur hafi eitthvað með ákvarðanir íslenskra stjórnvalda að gera.

Við erum ekki í neinum samningum við þá um uppgjör þrotabúanna. Líkt og Seðlabankinn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt er hlutverk slitastjórna hinna föllnu banka að koma með tillögur að nauðasamningum sem ógna ekki fjármálalegum stöðugleika landsins.

Sem ógna ekki fjárhagslegu sjálfstæði Íslands.

Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.

Kannski er þetta ný hugsun fyrir suma, en hún fellur mér mun betur en að sitja og standa eins og kröfuhafar vilja.

 

Eygló Harðardóttir

 

Categories
Greinar

Þekking til framfara

Deila grein

24/10/2013

Þekking til framfara

Sigmundur Davíð GunnlaugssonKvennafrídagurinn 24. október er merkilegur dagur í sögu íslenskrar kvennahreyfingar því segja má að þann dag árið 1975 hafi hún á ný risið upp sem hin öfluga, fjölmenna samstöðuhreyfing sem hefur mótað samfélag okkar æ síðan. Framlag hennar er mikilvægt fyrir þróun jafnréttisbaráttunnar, en ekki síður fyrir þróun stjórnmálanna og lýðræðisins.

Frá upphafi hefur áherslan verið á réttindi kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og aðgengi að menntun, störfum og valdastöðum innan atvinnulífs og stjórnmála. Þess vegna er 24. október hátíðar- og baráttudagur og mikilsvert tilefni til að minna okkur öll á ríkulegt framlag kvenna til lífsgæða, mannréttinda og auðlegðar Íslands.

Í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins á sínum tíma og í þakkarskyni við framlag jafnréttishreyfingarinnar til þróunar samfélagsins var stofnað til Jafnréttissjóðs til að styrkja nýsköpun þekkingar á sviði jafnréttis- og kynjafræða með sérstakri áherslu á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í því fólst viðurkenning á nauðsyn þess að efla rannsóknir á hlutskipti kvenna og karla og að skjóta sterkari stoðum þekkingar undir starf að jafnrétti kynjanna á margvíslegum vettvangi, bæði á vegum stjórnsýslunnar sem annarra.

Sérstaklega skyldi styðja ungar fræðikonur við uppbyggingu á fræðimannsferli sínum. Að auki höfðu sterkar líkur verið leiddar að því að konur sem umsækjendur eða rannsóknarverkefni á sviði jafnréttis kynja gætu borið skarðan hlut frá borði við samkeppni um fé í rannsóknarsamfélaginu í heild.

Jafnréttissjóður hefur nú styrkt hátt á þriðja tug rannsóknarverkefna. Í dag er úthlutað styrkjum til fimm ólíkra rannsókna sem öll munu nýtast í jafnréttisstarfinu. Rannsóknirnar snúa að launajafnrétti kynjanna, viðhorfum unglinga til verkaskiptingar kynja, ólíkum áhrifum atvinnuleysis á sálræna líðan karla og kvenna auk þess sem sjónum verður beint að orðræðu samfélagsins sem tengist móðurhlutverkinu.

Loks ber að nefna rannsóknarverkefni þar sem kastljósinu verður beint að fjarveru kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna. Með þessu leggur Jafnréttissjóður sitt lóð á vogarskálarnar til eflingar þekkingar sem nýtist jafnréttisbaráttunni og samfélaginu öllu.
Til hamingju með daginn.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í FRÉTTABLAÐINU 24. október 2013)

Categories
Greinar

Að gefnu tilefni – ekki stutt í fullbúinn samning við ESB

Deila grein

17/10/2013

Að gefnu tilefni – ekki stutt í fullbúinn samning við ESB

Gunnar Bragi SveinssonÍ tilefni af því að framkvæmdastjórn ESB gaf í gær út skýrslur sínar um einstök ríki sem eru í aðildarferli að ESB lýsti stækkunarstjóri ESB því mati sínu að „…við höfum ekki verið það langt frá því að leggja fyrir Íslendinga samning sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins og allra reglna leiksins.“

Hér er farið heldur frjálslega með. Staðreynd málsins er sú að öll stærstu málin í þessum viðræðum stóðu enn út af þegar hlé var gert á þeim. Þrátt fyrir að margir samningskaflar höfðu verið opnaðir og um þriðjungi lokað, þá fær það ekki staðist að stutt hafi verið í samningsniðurstöðu þegar kaflar um sjávarútveg og landbúnað höfðu ekki verið opnaðir svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ESB hafði ekki einu sinni afgreitt sína eigin rýniskýrslu um sjávarúvegskaflann.

Þessi fullyrðing stækkunarstjórans sýnir að það er brýnt að réttar upplýsingar um stöðu viðræðnanna við ESB séu á borðinu. Þess vegna mun sá þáttur einmitt verða hluti af þeirri úttekt sem ég mun kynna fljótlega á nýju ári.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Greinar

Íslenskur raunveruleiki?

Deila grein

10/10/2013

Íslenskur raunveruleiki?

Elsa Lára ArnardóttirFjármálastöðugleikarit Seðlabanka Íslands kom út í gær og greint var frá því í kvöldfréttum. Þar kom fram að samkvæmt mati Seðlabankans væri fjárhagsleg staða íslenskra heimila að styrkjast vegna þess að skuldir þeirra hafi lækkað og eignir hafi aukist. Fram kom að skuldir íslenskra heimila hafi lækkað um 3,2% að raunvirði og mætti meðal annars rekja hækkunina til hærra fasteignaverðs.

Jafnframt kom fram að vanskil heimila væru enn mikil og gætu aukist ef efnahagslífið yrði fyrir áföllum.

Ég set stórt spurningamerki við þetta mat Seðlabankans og hef miklar efasemdir um að íslensk heimili hafi það betra nú en fyrir einhverjum árum eða mánuðum síðan. Það sýnir sig best í þeim fjölda heimila sem boðin eru upp en það eru um það bil þrjú heimili á dag hvern einn einasta dag ársins.

Ég veit vel, og ég heyri það í kringum mig, að róðurinn þyngist stöðugt þar sem verðtryggðar skuldir heimilanna aukast dag frá degi. Heimilin hafa beðið aðgerða, aðgerða sem munu leiða af sér réttlæti. Því miður hafa margir gefist upp, sumir reynt að selja eignir í þeirri von að losna undan skuldum og þá er húsnæðisverðið sprengt upp úr öllu valdi til að reyna að dekka það sem hvílir á eignunum.

Einnig er spurningin hvort þær eignir sem fjármálastofnanir hafa eignast á undanförnum mánuðum séu teknar með í reikninginn en það eru talsvert háar upphæðir sem liggja þar að baki.

Ég vara því við umræðunni um að íslensk heimili hafi það betra nú en áður. Róðurinn þyngist enn. Enn banka erfiðleikar upp á og ekki batnar ástandið þegar fjöldi lána hrúgast inn úr frystingum eða sértækum skuldaaðlögunum; aðgerða sem gerðu ekkert annað en að lengja aðeins í hengingarólinni ef þannig má að orði komast.

Ég vildi svo sannarlega óska þess að þessi jákvæði tónn sem finna má í riti Seðlabankans ætti við rök að styðjast en þetta er ekki íslenski raunveruleikinn.

Pössum umræðna, verum raunsæ og stöndum með íslenskum heimilum. Það ætlum við framsóknarmenn að gera!

 

ELSA LÁRA ARNARDÓTTIR

Categories
Greinar

„Mennt er máttur“

Deila grein

03/10/2013

„Mennt er máttur“

Gunnar Bragi SveinssonMenntun þjóðar er einn besti mælikvarðinn sem til er á þróun og framfarir. Þjóð sem er vel menntuð er nær örugglega vel stödd efnahagslega. Ríkari þjóðir heims tryggja öllum grunnmenntun, sem í dag þýðir víðast hvar vel yfir tíu ára skólagöngu – og flestir eiga kost á framhaldsmenntun, að miklu leyti á kostnað hins opinbera.

Hjá fátækum þjóðum heimsins er þessu öðruvísi farið. Þar er engan veginn víst að öll börn eigi þess kost að sækja skóla, og þaðan af síður að skólinn geti boðið þeim upp á hæfa kennara, kennslugögn eða jafnvel þak yfir höfuðið. Þótt miklar framfarir hafi orðið á seinni árum í því að tryggja börnum aðgang að skóla, og þar hafa þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna verið mikill hvati, vantar mikið upp á að sú kennsla sem þar fer fram nái markmiðum sínum, ekki síst vegna lélegs aðbúnaðar.

Þegar börnin komast á kynþroskaaldurinn hverfa þau frá námi til að leggja sitt til framfærslu fjölskyldunnar. Staða ungra stúlkna er verri en drengja og allt of oft eru þær teknar úr skóla, bæði af efnahagslegum og menningarlegum ástæðum, og hverfa þá stundum beint úr hálfnuðu grunnskólanámi í hjónaband. Ein helsta áskorunin sem heimurinn horfist í augu við gagnvart menntun í fátækum löndum er að halda börnunum í skóla þar til grunnskóla lýkur. Önnur megináskorunin er að auka gæði námsins, með því að tryggja betri námsaðstæður fyrir börnin.

Grundvallarmenntun
Það er skylda þjóða sem hafa efni á, að styðja fátækar þjóðir til þess að veita börnum grundvallarmenntun, svo að allir kunni að lesa, skrifa og reikna. Íslendingar hafa viðurkennt þessa skyldu sína um árabil. Eins og fram kemur í áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016, sem samþykkt var á Alþingi í mars 2013, er menntun einn mikilvægasti þátturinn í þróunarsamvinnu okkar. Hluti hennar er á háskólastigi í gegnum Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en þar höldum við uppi myndarlegu starfi Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans, Landgræðsluskólans og Jafnréttisskólans.

Þá styðjum við einnig við starf stofnana á borð við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), sem styður m.a. við menntun, heilsu og þroska barna og Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) sem starfar að því að tryggja konum grundvallarréttindi á borð við menntun og tækifæri til að nýta hana sér og fjölskyldum sínum til framdráttar.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur lagt verulega áherslu á menntun í verkefnum sínum í fátækum löndum Afríku. Hún snýr að grunnskólamenntun í sumum löndum, að fullorðinsfræðslu í öðrum og atvinnutengdri menntun í enn öðrum. Í öllum tilfellum er menntunin veitt á forsendum heimalandsins og í þeim tilgangi að styrkja félagslega innviði. Áherslan í grunnskólamenntun hefur fyrst og fremst verið á að tryggja menntun barna í fátækum byggðum og á menntun stúlkna.
Þá er rétt að geta þess góða starfs sem mörg íslensk félagasamtök hafa unnið á sviði menntunar í fjölmörgum löndum þar sem unnið er af heilum hug að því að bæta aðgengi barna að námi og auka gæði þess.

Nú stendur yfir kynningarvika sem ber yfirskriftina „Komum heiminum í lag“, en að henni standa félagasamtök sem starfa á sviði þróunarsamvinnu í samvinnu við ÞSSÍ, með stuðningi utanríkisráðuneytisins. Þetta er þriðja árið í röð sem staðið er fyrir slíku kynningarátaki, en að þessu sinni er áherslan á menntun og mikilvægi hennar. Bæði fyrir þróunarlönd og íbúa þeirra, sem og fyrir þegna þeirra ríkja sem veita framlög til þróunarsamvinnu.

Stuðningur við menntun skilar sér margfalt til baka og myndar þær stoðir sem nauðsynlegar eru hverju samfélagi. Menntun eykur hagsæld, jöfnuð og velferð. Mennt er máttur.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Greinar

Fæst hjúkrunarrými á Suðurnesjum og minnst framlög

Deila grein

06/09/2013

Fæst hjúkrunarrými á Suðurnesjum og minnst framlög

Aldraðir eiga að fá áhyggjulaust ævikvöld. Aldraðir einstaklingar sem eru búnir að skila af sér myndarlegu lífsverki eiga að vera metnir að verðleikum og fá þá þjónustu sem þeir þurfa, helst í heimabyggð eða sem næst henni. Hlutfallslega fæst hjúkrunarrými er á hvern íbúa á Suðurnesjum, miðað við aðra landshluta og minnst framlög. Þessu þurfum við Suðurnesjamenn að breyta.

Samræmis á að gæta milli landshluta

Verulega hallar á Suðurnesin þegar fjöldi hjúkrunarrýma og framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru borin saman við aðra landshluta.Á tímabilinu 2000-2010 voru úthlutanir úr Framkvæmdasjóðnum til Suðurnesja aðeins 1,5% af heildinni en 5% aldraðra búa á Suðurnesjum. Úhlutanir til svæðisins nema því aðeins 30,4% af því sem fjöldi aldraðra gefur tilefni til. Framlag úr sjóðnum hefði átt að vera 385 millj. kr. en var aðeins 116,9 millj. kr. Þarna vantar háa upphæð til að sanngirni sé gætt og jafnræði sé á milli landshluta.

Fæst hjúkrunarrými eru á Suðurnesjum á landinu á hverja 1000 íbúa, eða 5,4 en landsmeðaltalið er 7,4. Ef hjúkrunarrými á Suðurnesjum væru í samræmi við meðaltal þá væru þau 157, eða 43 fleiri en þau eru í dag. Þetta eru sláandi staðreyndir og ljóst er að við Suðurnesjamenn verðum að standa saman og bæta stöðu okkar verulega á þessu sviði.

Við þurfum á Garðvangi að halda

Með tilkomu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum bætast við 60 hjúkrunarrými sem mikil þörf er á. Umræðan hefur snúist um hvort loka eigi Garðvangi þegar þau rými hafa verið tekin í notkun. Samkvæmt skýrslu frá Haraldi L. Haraldssyni hagfræðingi sem kynnt var á fundi í Gerðaskóla í síðustu viku, kemur fram að áfram verður skortur á rýmum þrátt fyrir tilkomu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum.

Því væri réttast að halda Garðvangi opnum en gera á honum nauðsynlegar endurbætur svo aðstaðan þar samræmist nútíma kröfum um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Ef endurbætur verða gerðar á Garðvangi þá væri hægt að reka þar 18,8 rými í stað 39 rýma í dag. Kostnaðaráætlun skv. útreikningum byggingarfulltrúa nemur um 153,2 millj.kr. sem er aðeins 2/3 af kostnaðaráætlun Velferðarráðnuneytisins.

Hvað með fjármögnun? Hver á að borga? Ef viljinn er fyrir hendi, þá er hægt að fara ýmsar leiðir til að hægt sé að ráðast í verkefnið. Sveitarfélagið Garður gæti gæti mögulega farið svokallaða leiguleið, þ.e. tekið 100% lán hjá  Íbúðalánasjóði til 40 ára og Ríkið síðan borgað 85% af leiguverði en sveitarfélagið 15%. Það er leið sem vert að skoða vel.

Nesvellir eru góð byrjun

Samkvæmt samþykkt svæðisskipulags Suðurnesja sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum luku við að staðfesta í desember 2012, kemur m.a. fram að stefnan sé að fjölga hjúkrunarrýmum til samræmis við aðra landshluta, auka samvinnu og sérhæfingu á þessu sviði og byggja upp hjúkrunarrými í hverjum þjónustukjarna. Minn skilningur er því sá, að þessu sögðu, að það sé vilji allra sveitarfélaga á Suðurnesjum að byggja upp öldrunarþjónustu á hverjum stað fyrir sig. Þörfin er svo sannarlega til staðar. Hjúkrunarheimilið á Nesvöllum er nauðsynleg viðbót en betur má ef duga skal!

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í fréttamiðlinum Reykjanesi 5. September 2013

Categories
Greinar

Ótímabærar höfuðstöðvar Landsbankans

Deila grein

29/08/2013

Ótímabærar höfuðstöðvar Landsbankans

Frosti SigurjónssonLandsbankinn hefur viðrað áform um að byggja allt að 15 þúsund fermetra húsnæði fyrir nýjar höfuðstöðvar bankans og vill hefja framkvæmdir sem fyrst. Í ljósi þess að Landsbankinn er í eigu ríkisins, sem er mjög skuldugt og stendur í erfiðum niðurskurði, er spurning hvort nýjar höfuðstöðvar ríkisbankans eigi að njóta forgangs.

Ef ríkisbankinn er aflögufær um þá milljarða sem þarf til að byggja höfuðstöðvar, þá hlýtur það að vera krafa eigandans eins og staðan er núna að fjármagnið renni í ríkissjóð í formi arðs. Þannig myndu milljarðarnir nýtast við brýnni verkefni til dæmis í heilbrigðiskerfinu.

Stjórnendur bankans hafa án efa mörg rök fyrir því að nýjar höfuðstöðvar séu þörf fjárfesting frá sjónarhóli bankans. En áður en ráðist væri í slíka fjárfestingu, þarf að kanna hvort hluthafinn, ríkið, hafi einhver brýnni not fyrir fjármagnið. Eru skattgreiðendur fúsir til að borga hærri skatta til að fjármagna nýjar höfuðstöðvar ríkisbankans, eða tilbúnir til að sætta sig við verri heilbrigðisþjónustu í nokkur ár?

Haft hefur verið eftir Sigmundi Davíð forsætisráðherra um byggingaráform Landsbankans: „Ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki í opinberri eigu munu þurfa að spara á næstu árum. Nú er verið að endurskoða ýmis útgjaldaáform þannig að það myndi skjóta skökku við ef ríkisfyrirtæki réðist á sama tíma í byggingu dýrra höfuðstöðva”. Ég get tekið undir hvert orð.

Nýjar höfuðstöðvar yrðu ekki byggðar fyrir íslenskar krónur eingöngu. Ríflega helmingur byggingakostnaðar yrði í erlendum gjaldeyri til kaupa á byggingarefnum, stáli, steypu og fleiru því sem þarf til nýbygginga.  Á sama tíma er óleystur sá vandi að  Landsbankinn á ekki nægan gjaldeyri til að greiða af stóra skuldabréfinu til gamla Landsbankans. Umrætt skuldabréf er eitt af stóru vandamálunum sem þarf að leysa svo hægt sé að afnema hér fjármagnshöft. Vart yrði auðveldara að útvega þann gjaldeyri ef kaupa þyrfti á sama tíma inn byggingavörur fyrir milljarða í erlendum gjaldeyri. Nýju höfuðstöðvarnar munu því miður hvorki spara gjaldeyri né skapa gjaldeyristekjur.

Jafnvel þótt hagur ríkissjóðs væri í blóma og enginn fjármagnshöft, þá væri samt ástæða til að staldra sérstaklega við ef bankar hyggjast ráðast í byggingu nýrra höfuðstöðva.  Því þegar banki byggir, þá leiðir það yfirleitt til aukningar á peningamagni og verðbólgu. Bankar þurfa nefnilega ekki að taka lán fyrir byggingarkostnaðinum, þeir greiða kostnaðinn með krónum sem þeir búa til í formi innstæðna. Innstæðna sem byggingaverktakinn tekur sem fullgilda greiðslu.  Þetta væri auðvitað ekki vandamál ef bönkum væri bannað að búa til peninga, þá þyrftu þeir að fjármagna sínar byggingar með sama hætti og önnur fyrirtæki. Höfuðstöðvar banka yrðu þá kannski byggðar af meiri nægjusemi en verið hefur hingað til.

Ég bind vonir við að skynsöm stjórn Landsbankans opni augun og líti á stóru myndina, íhugi þarfir og forgangsröð eiganda bankans, sem er þjóðin sjálf, og leggi í kjölfarið hugmyndir um byggingu nýrra höfuðstöðva til hliðar, allavega þar til betur árar.

FROSTI SIGURJÓNSSON

(Pistillinn birtist í DV 26. ágúst 2013)

Categories
Greinar

Ábyrgar veiðar

Deila grein

26/08/2013

Ábyrgar veiðar

Aflahlutdeildakerfið, eða hið svo kallaða kvótakerfi, hefur löngum verið þrætuepli manna í millum. Á fyrstu áratugum kerfisins deildu menn einkum um, hvort það ætti rétt á sér, eða hvort það skyldi lagt af. Undanfarin ár hefur sú jákvæða þróun orðið að umræðan hefur færst úr því fari í meiri samhljóm um að veiðistýring, sem byggist á aflahlutdeildarkerfi, hafi þrátt fyrir allt skilað góðum árangri. Því til staðfestingar má nefna frumvörp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, sem lögð hafa verið fram á Alþingi á undanförnum árum, en í þeim er gengið út frá að veiðum verði stýrt með aflahlutdeildum. Einnig má nefna niðurstöðu Sáttanefndarinnar svo kölluðu frá árinu 2010 þar sem breiður hópur frá hagsmunaaðilum og stjórnmálaflokkum sammæltist um það að veiðum skyldi stýrt með aflahlutdeildakerfinu. Stýring með þessu móti er hagkvæm. Um 11% af landsframleiðslunni eru fiskveiðar og -vinnsla. Kerfið stuðlar að sjálfbærri nýtingu á fiskistofnum og flestir stofnar við Íslandsstrendur eru í vexti. Á alþjóðavettvangi er Ísland viðurkennt fyrir ábyrga fiskveiðistjórnun og árangurinn af henni jafnvel talinn öfundsverður.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að fiskveiðistjórnunarkerfið verði yfirfarið og að grundvöllur fiskveiðistjórnunar verði áfram aflahlutdeildakerfið. Í lögum um stjórn fiskveiða segir að ef heildarafli sé takmarkaður skuli úthluta aflahlutdeild til einstakra skipa. Við setningu aflahlutdeildar skal miða við samfellda veiðireynslu undanfarinna þriggja ára.

Í mislangan tíma hefur veiðum á nokkrum fisktegundum verið stýrt með því að ákvarða hámarksheildarafla og leyfisbinda veiðarnar. Verndarsjónarmið ráða þar för og komið hefur verið í veg fyrir ofveiði. Þessar tegundir hefði með réttu átt að hlutdeildasetja um leið og samfelld veiðireynsla lá fyrir.

Breytingar verða gerðar á reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu sem gengur í garð 1. september. Breytingin, sem birt verður í dag, felur í sér þá ákvörðun mína að setja, í fyrsta skipti, leyfilegan heildarafla fyrir blálöngu, litla karfa og gullax. Í þessu felst að í framhaldinu verður aflahlutdeildum, í þessum tegundum, úthlutað til einstakra skipa. Leyfilegur heildarafli tegundanna ákvarðast af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Framangreind rök eiga við um einn stofn til viðbótar; makríl. Ég mun bráðlega setja af stað vinnu þar sem farið verður yfir hvernig réttast verði staðið að því að setja hann í kvóta.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, og umhverfisráðherra

Categories
Greinar

Sameinum krafta og tryggjum öllum öruggt húsnæði

Deila grein

26/08/2013

Sameinum krafta og tryggjum öllum öruggt húsnæði

Fjöldi þeirra sem vilja leigja íbúðarhúsnæði fremur en kaupa hefur tvöfaldast á síðustu sex árum. Ungt fólk og tekjulágt á erfitt með að fjármagna íbúðakaup, eldra fólk vill síður festa fé í fasteignum og margir forðast áhættuna sem felst í því að kaupa og reka húsnæði. Þúsundir íbúða vantar á leigumarkaðinn til að anna eftirspurn.Það er augljóst að við þurfum fleiri valkosti í húsnæðismálum þannig að allir eigi kost á húsnæði sem hentar þörfum þeirra á viðráðanlegum kjörum. Verkalýðshreyfingin talar fyrir umbótum í húsnæðismálum og BSRB vill að almennu leigukerfi að norrænni fyrirmynd verði komið á í þessu skyni. ASÍ vill beita sér fyrir því að komið verði á fót varanlegu og traustu húsnæðiskerfi og að samtökin eigi frumkvæði að mótun og endurreisn félagslegs íbúðakerfis.

Vilji er fyrir hendi – nú þurfa verkin að tala

Ég fagna frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar og hvet til þess að við tökum höndum saman og látum verkin tala. Gott samfélag byggist á samvinnu. Í húsnæðismálum sýnir reynslan að markaðurinn tryggir ekki sjálfkrafa hæfilegt framboð leiguíbúða. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar þurfa að leggja sitt af mörkum.Í kjölfar seinni heimsstyrjaldar var mikill húsnæðisskortur hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð og Noregi byggðu þúsundir íbúða til að bregðast við vandanum. Leiðarljósið var staðlað, vel skipulagt húsnæði á hagstæðu verði.

Í júlí 1965 náðist samkomulag hér á landi milli verkalýðshreyfingarinnar, ríkis og borgar um stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Samkomulagið var liður í lausn á erfiðri vinnudeilu. Í stað launahækkana var samið um byggingu 1.250 íbúða fyrir lágtekjufólk í Reykjavík. Þetta varð fyrirmynd að seinni tíma samningum um þjóðarsátt þar sem samið var um fleira en kaup og kjör.

Örugg búseta í leiguhúsnæði

Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis hér á landi hefur ekki staðið undir nafni. Framboð er lítið, leiguverð hátt og húsnæði sjaldnast leigt út nema til skamms tíma í senn. Við þessar aðstæður býr fólk ekki við það húsnæðisöryggi sem er svo mikilvægt öllum. Þessi staða er þó ekkert náttúrulögmál, með réttum aðgerðum getum við breytt þessu og gert húsaleigu að raunhæfum valkosti.Á síðasta ári var gerð breyting á lögum um húsnæðismál sem setur skýr skilyrði fyrir lánveitingum vegna uppbyggingar leiguhúsnæðis. Íbúðalánasjóði er heimilt að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða að því tilskildu að félögin séu ekki rekin í hagnaðarskyni og hafi útleigu húsnæðis að langtímamarkiði. Lán getur numið allt að 90% af matsverði íbúðar. Ef um er að ræða félagslegar leiguíbúðir sem uppfylla tiltekin skilyrði, meðal annars um að leigjendur séu innan ákveðinna tekju- og eignamarka, eru lánin veitt á niðurgreiddum vöxtum.

Aðkoma verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða

Markmið þeirra sem eiga og reka leigufélög verður að snúast um aukið framboð hagkvæmra leiguíbúða til langtíma. Mér sýnist verkalýðsfélögin öðrum betur fallin til þess að sinna þessu hlutverki. Þau bera hagsmuni félagsmanna sinna fyrir brjósti, eru ekki rekin í hagnaðarskyni og hafa traustan rekstrargrundvöll. Öflug verkalýðsfélög byggjast á því að félagsmenn þeirra hafi á þeim traust og trú og sjái að markvisst sé unnið með hagsmuni þeirra í fyrirrúmi. Verkalýðsfélögin myndu því án efa styrkjast og eflast með því að tryggja félagsmönnum sínum leiguhúsnæði á góðum kjörum. Ný lagaákvæði um lán til uppbyggingar leiguhúsnæðis setja skynsamlegan ramma um uppbyggingu leigumarkaðar til langtíma á réttum forsendum. Áhugi og vilji verkalýðsfélaganna liggur fyrir og lífeyrissjóðir hafa verið með til skoðunar að undanförnu hvort þeir geti fjárfest með aðkomu að uppbyggingu leigumarkaðar fyrir íbúðarhúsnæði.

Ríki og sveitarfélög mega ekki láta sitt eftir liggja til að liðka fyrir þessu máli. Ég tel vel koma til greina að bjóða leigufélögum sem byggja án hagnaðarsjónarmiða byggingarlóðir á kostnaðarverði. Nauðsynlegt er að endurskoða nýju byggingarreglugerðina ef auka má sveigjanleika og draga úr byggingarkostnaði. Eins er mögulegt að bæta skattaumhverfi leigufélaga, til dæmis gæti ríkið fellt niður stimpilgjöld af skuldabréfum þeirra og fleiri leiðir kunna að vera færar.

Ég er þegar byrjuð að funda með verkalýðsfélögum, sveitarfélögum, lífeyrissjóðum og öðrum áhugasömum um þessi mál, auk þess að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Ef við horfum til baka og skoðum árangurinn af júlísamkomulaginu frá árinu 1965 tel ég ljóst að við höfum allar forsendur til að ráðast í slíkt átak ef allir aðilar leggjast á eitt með samvinnu og skýr markmið að leiðarljósi.

Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra

birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2013

Categories
Greinar

Af ESB, IPA og þjóðaratkvæðagreiðslu

Deila grein

19/08/2013

Af ESB, IPA og þjóðaratkvæðagreiðslu

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.” – Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins

ESB

Aðild Íslands að Evrópusambandinu var ekki eitt af stærstu málum kosningabaráttunnar í vetur en flokkarnir upplýstu að sjálfsögðu um fyrirætlanir sínar varðandi málið. Núverandi stjórnarflokkar fóru ekki leynt með þá ætlun sína að ef þeir fengu umboð frá þjóðinni yrði breytt um stefnu. Flokkarnir hlutu meirihluta þingsæta og lýðræðislegan rétt til að fylgja eftir stefnu sinni varðandi ESB og önnur mál.

Í stjórnarsáttmálanum segir að gert verði hlé viðræðunum. Það þýðir að sjálfsögðu að ekki verður meira unnið við aðildarferlið og kröftunum beint í önnur verkefni.  Stöðu viðræðnanna þarf að meta og til grundvallar því liggur stöðuskýrsla frá því í apríl. Verður metið hvort ástæða sé til að skoða ákveðna hluta hennar betur og/eða leita svara við spurningum sem etv. er ekki svarað. jafnframt er ætlunin að leggja mat á þróun Evrópusambandsins frá því að ferlið hófst 2009 og reyna að meta hvernig líklegt er að ESB þróist á næstu árum.

Nýverið birti breska blaðið Daily Mail niðurstöður könnunar sem gerð var meðal íbúa Evrópusambandsins. Spurt var um traust til sambandsins og var niðurstaðan sú að 60% treysta ekki sambandinu. Svo afgerandi lýsing á vantrausti hlýtur að valda stjórnendum ESB áhyggjum.

IPA

Með stöðvun aðildarviðræðna er þó að mörgu að huga, t.a.m. framtíð IPA-verkefna hér á landi.

IPA (Instrument for Pre-Accession Assistance) er samheiti yfir fjölþætta aðstoð sem ESB veitir umsóknarríkjum til að undirbúa aðild. Með það að leiðarljósi var það tekið skýrt fram samhliða stöðvun aðildarviðræðnanna að ekki yrði af IPA verkefnum sem ekki væru hafin að nokkru leyti. Ríkisstjórnin ákvað þó að leggja til að verkefni sem komin voru af stað eða búið var að eyða miklum tíma og kröftum í að undirbúa yrðu kláruð. Á þetta féllst ESB ekki þar sem viðræður um aðild hafa verið stöðvaðar. Ákvörðun Evrópusambandsins um að hætta við styrkina má skilja sem staðfestingu á því að ekki sé lengur litið á Ísland sem ríki í umsóknarferli.

Nokkrar staðreyndir um styrkina:

  • Ekki stendur til að hætta við þau verkefni sem þegar eru hafin, en viðræður um að ljúka þeim fara fram í næsta mánuði. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ESB muni krefjast endurgreiðslu á þeirri upphæð sem  hefur verið lögð í þau verkefni.
  • Heildarstuðningurinn sem Íslandi stóðtil boða nam um 6,2 ma. kr., þar af voru 5,2 ma. ásvokallaðri landsáætlun sem skipt var áárin 2011, 2012 og 2013.
  • Öll verkefni álandsáætlun 2011, aðupphæð1,8 ma. kr., voru umsamin og hafin utan Matís-verkefnisins sem fellur þ.a.l. niður.
  • Öll verkefni á landsáætlun 2012 og 2013 falla niður, utan eitt sem var hafið; styrkur til að undirbúa stjórnunareiningu fyrir þátttöku í uppbyggingarsjóðunum í atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti af landsáætlun 2012.

Yfirlit yfir landsáætlun – https://www.utanrikisraduneyti.is/media/ipa/Yfirlit-IPA-verkefna-2011-2013.pdf

Verkefnin sem hlotið höfðu brautargengi hjá „commisjóninni“ í Brussel eru mörg áhugaverð og hægt að setja sig í spor þeirra sem að þeim standa, að sækja í þá miklu fjármuni sem ESB bauð uppá. Nú þurfa þessir aðilar að leita leiða til að fjármagna verkefnin með öðrum hætti, fresta þeim, hægja á þeim, hætta við eða forgangsraða.

Evrópusambandið og fyrri stjórnvöld höfðu byggt upp miklar væntingar í kringum IPA styrkina. Á alþingi vöruðu alþingismenn við slíkum væntingum og lýstu sumir efasemdum um réttmæti styrkjanna.

IPA styrkir eða annar hvati frá Evrópusambandinu má ekki vera drifkrafturinn fyrir aðildarumsókn. Hún þarf að byggja á vilja sem flestra Íslendinga til að vilja aðlaga líf sitt að sambandinu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Í stjórnarsáttmálanum segir að “Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.” Einhverra hluta vegna hefur þessi setning verið túlkuð með ólíkum hætti en ætti ekki að þurfa. Ekki verður um frekari viðræður eða vinnu að ræða þar sem búið er að gera hlé. Fólk getur treyst því að ekki verða viðræður hafnar á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nýjustu kannanir sýna að 57,4 % Íslendinga eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Þar liggja eflaust margar ástæður að baki en staðreyndin er sú að meirihluti þjóðarinnar er á móti aðild.