Categories
Greinar

Staðgöngumæðrun og samkynhneigð

Deila grein

25/11/2014

Staðgöngumæðrun og samkynhneigð

Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefNú hafa fyrstu drög að frumvarpi um staðgöngumæðrun litið dagsins ljós og byrjar í formlegu umsagnarferli. Vinna hefur greinilega verið ítarleg enda allt gert til að framkvæmd staðgöngumæðrunar verði fagleg. »Það skilyrði er einnig sett að hinir væntanlegu foreldrar geti ekki af læknisfræðilegum ástæðum eignast barn eða líffræðilegar ástæður útiloki meðgöngu.« Þarna er komið inn í frumvarpið að samkynhneigðir megi notast við þessa leið. Því er ekki haldið fram að það séu sjálfsögð mannréttindi að fá að eignast barn. Að geta eignast barn og svo að eignast barn og ala það upp eru forréttindi. En í dag hafa ekki allir jafnan rétt til mögulegra úrræða. Til að mynda getur kona sem vantar eggjastokka fengið alla þá læknisfræðilegu hjálp sem möguleg er í dag til að verða ólétt á meðan kona sem ekki er með leg eða getur af öðrum ástæðum ekki gengið með barn fær engar hjálp. Kona sem er án legs, en með eggjastokka sem framleiða heilbrigð egg, má ekki láta búa til fósturvísa og geyma en má hins vegar gefa egg sín annarri konu í velgjörðarskyni sem leiðir að því að eggþeginn má fæða og eiga líffræðilega barn þeirrar konu sem ekki er með leg en hefur heilbrigðar eggfrumur. Með því að koma staðgöngumæðrun á sem hefur strangan lagaramma, gott aðhald lækna og sérfræðinga auk samþykkis einstaklings sem uppfyllir þær kröfur sem settar eru fram í frumvarpinu ætti staðgöngumæðrun alls ekki að vera verri leið.

Íslensk heilbrigðis- og félagsþjónusta
Andstæðingar staðgöngumæðrunar hafa farið mikinn í baráttunni gegn því að frumvarpið líti dagsins ljós og reyna að slá ryki í augu fólks með því að benda á þær aðstæður sem eru í umhverfi staðgöngumæðra í hinum fátækustu löndum, slæm og oft engin læknisþjónusta, nauðung til þátttöku og mikil fátækt sem hvetur konur til að reyna allt ef það færir mat á borðið. En hérlendis yrði raunin ekki sú. Lykilpunktur í umræðunni er sá að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni verður óheimil, þá er einnig bannað að leita eftir eða nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði laganna. Það er ekki verið að reyna að fara framhjá neinu heldur tryggja vandaða framkvæmd, hag og réttindi barnsins, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og farsæla aðkomu hinna væntanlegu foreldra. Þá eru álíka ákvæði og við ættleiðingu þegar kemur að því að segja barninu frá fæðingu þess með staðgöngumæðrun, en það skal gera eigi síðar en fyrir sex ára afmælisdag þess. Ég fagna því að drögin eru komin fram og hlakka til umræðunnar, því þrátt fyrir að einstaklingur geti nýtt sér ættleiðingu þá hugnast sú leið ekki öllum og með frumvarpinu værum við að stíga skref í átt að jafnari rétti til mögulegra úrræða en að sjálfsögðu með réttindi barnsins að leiðarljósi.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.