Categories
Fréttir

Eigum að leyfa okkur að gleðjast

Deila grein

22/11/2014

Eigum að leyfa okkur að gleðjast

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknar, hefur lokið ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar Framsóknar á Hornafirði. Kom hann víða víð í ræðunni. Fagnaði hann að núna einu og hálfu ári eftir að miðstjórn flokksins samþykkti stjórnarsáttmála og ríkisstjórnarsamstarf í maí 2013 hafi orðið algjör viðsnúningur á fjölmörgum sviðum. Þetta mun gera svo mikið betur kleift að leysa úr þeim vanda sem eftir stendur og bæta hag allra í íslensku samfélagi.

„Á innan við einu og hálfu ári er skuldaleiðréttingin komin til framkvæmda. Mál sem við framsóknarmenn höfum barist fyrir frá því í upphafi árs 2009. Mál sem við töldum svo mikilvægt að við vorum reiðubúin til að gefa öðrum flokkum tækifæri til að stjórna í minnihlutastjórn gegn því skilyrði að ráðist yrði í aðgerðina.“
Fór Sigmundur Davíð yfir að með hjálp góðra manna hafi tekist „að gera það besta úr stöðu sem hafði virst nánast vonlaus“. Sagði Sigmundur Davíð að með því hafi verð staðið að öllu leiti við fyrirheit sem gefin voru fyrir síðustu kosningar. Minnti hann á að andstæðingarnir hafi kallað það „stærsta kosningaloforð allra tíma“.
Sigmundur Davíð sagði að næstu dagar muni að mestu snúast um fjárlagavinnuna sem nú er í fullum gangi. „Við erum að komast í stöðu til að bæta í og halda áfram endurreisn heilbrigðiskerfisins. Það er þó mikilvægt að ekki gleymist í þeirri umræðu allri að þótt Landsspítalinn sé gríðarlega mikilvæg stoð í heilbrigðiskerfinu er hann ekki heilbrigðiskerfið allt.“
Framlög til Landsspítalans á næsta ári verða þau mestu frá 2008, ekki aðeins í krónutölu heldur að raunvirði, á föstu verðlagi.
Stendur vinna yfir við fjárlög ársins 2015 á Alþingi og eftir helgi verða kynntar tillögur um breytingar vegna annarrar umræðu fjárlaga. Sagði Sigmdundur Davíð að þar væri að vænta góðra frétta og ekki bara á sviði heilbrigðismála. Agi er ný ríkisstjórn innleiddi í ríkisfjármálunum sé þegar byrjaður að skila sér.
Ríkið skuldar um 1.500 milljarða króna
„Árlegar vaxtagreiðslur hafa numið um það bil tvöföldum rekstrarkostnaði Landsspítalans undanfarin ár. Það er því augljóst að á þessum vanda verður að vinna og það er gert annars vegar með því að greiða niður skuldir og hins vegar með því að lækka vextina á þeim skuldum sem eftir standa“, sagði Sigmundur Davíð.
Breytingar á virðisaukaskattskerfinu
„Öll þekkjum við umræðuna um breytingar á virðisaukaskattskerfinu og allir höfum við, framsóknarmenn, viljað fá vissu fyrir því að þær breytingar sem ráðist verður í muni örugglega bæta stöðu almennings, sérstaklega fólks með tekjur undir meðaltali, sagði Sigmundur Davíð og hélt áfram, “skattkerfisbreytingum var ætlað að draga úr skattaundanskotum ekki hvað síst í virðisaukaskattskerfinu með því að, fækka undanþágum, leysa úr flækjum og minnka bilið milli skattþrepa“.
hofn-midstjfundur„Við framsóknarmenn settum það sem skilyrði að tryggt yrði að afleiðingin af aðgerðunum yrði sú að verðlag í landinu myndi lækka“, sagði Sigmundur Davíð.
„Þegar allt er talið á matvælaverð ekki að hækka vegna breytinganna um nema í mesta lagi um 1,4% og helst ekki neitt. Flestar vörur munu lækka í verði og nauðsynleg lyf alveg sérstaklega. Heildaráhrif breytinganna þýða að neysluskattar lækka verulega og, það sem er mikilvægast, áhrifin verða mest hjá þeim tekjulægstu.“
„Takist okkur svo að varðveita verðlagsstöðugleikann með kaupmáttarsamningum á vinnumarkaði getur kaupmáttur haldið áfram að vaxa hraðar á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi og við tryggt að jöfnuður verði áfram einhver sá mesti í Evrópu en nú er Ísland það land þar sem fæstir eru undir lágtekjumörkum eða 12,7% en meðaltalið í Evrópusambandinu er 25%“, sagði Sigmundur Davíð.
„Búast má við mikilli uppbyggingu iðnaðar víða um land, íslenskur sjávarútvegur skilar nú meiri verðmætum til samfélagsins en nokkurn tímann áður og nýjum lögum um stjórn fiskveiða er ætlað að veita greininni stöðugleika og virkja nýsköpunarmöguleika í sjávarútvegi en um leið tryggja hámarks samfélagslegan ávinning.
Landbúnaður, atvinnugrein framtíðarinnar eins og menn eru nú farnir að kalla það, getur vaxið mikið á komandi árum og aukin áhersla á rannsóknir og vísindi auk nýrra hvata mun gera það að verkum að enn fleiri nýsköpunarfyrirtæki munu spretta upp á Íslandi en á undanförnum árum.“
Það skiptir máli hverjir fara með stjórnvöldin og með stefnumótun Framsóknar á síðasta flokksþingi hefur náðst ótrúlegur viðsnúningur.
„Við vitum öll að það er gríðarlega mikið verk óunnið. Við vitum að margt fólk stendur enn höllum fæti í íslensku samfélagi og við vitum að kjörin þurfa að batna meira“, sagði Sigmundur Davíð.
Að lokum sagði Sigmundur Davíð að: „hvers konar árangri er hægt að ná með trúa því að við séum í aðstöðu til að ná lengra, trúa því hægt sé að gera betur. Þess vegna getum við leyft okkur að vera enn bjartsýnni á framhaldið en við vorum fyrir einu og hálfu ári síðan og þess vegna eigum við að leyfa okkur að gleðjast. Framsókn Ísland er frábært land, íslenska þjóðin er frábær þjóð og ef hún hefur trú á sér og því að framtíðin á Íslandi verði enn betri“.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.