Velferð

Velferðarmál - Fjárfestum í fólki

Framsókn vill fara í almennar aðgerðir til þess að fjárfesta í fólki til framtíðar. Fara þarf í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk sem hefur verður fyrir áföllum á lífsleiðinni. Lykillinn er að velferðarþjónustan leggi áherslu á snemmtæka íhlutun með fjölþættum og fyrirbyggjandi aðgerðum líkt og gert hefur verið í barnamálum á kjörtímabilinu. Tryggja verður að þjónustan vinni betur og meira saman og geti fylgt málum eftir þvert á einstakar stofnanir. Þær lausnir þarf að móta með samvinnu.

  • Framsókn vill fjárfesta í fólki sem lendir í alvarlegum áföllum á lífsleiðinni. Áföll eru jafn mismunandi og þau eru mörg. Þessa einstaklinga ætlum við að aðstoða  að byggja sig upp að nýju og ná fyrri styrk. Það skiptir sköpum fyrir þá að fá viðeigandi aðstoð og skilning, en einnig liggja í því mikil verðmæti fyrir samfélagið í heild. Þetta gerum við með því að taka heildstætt utan um viðfangsefnið, tengja saman ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra viðkomandi aðila og móta heildstæða umgjörð um það hvernig tekið er utan um hvern og einn sem þarf á þjónustu að halda.

Félagsmál

Framsókn vill standa vörð um velferð allra landsmanna og tryggja jafnt aðgengi að öflugri velferðarþjónustu, óháð efnahag og búsetu.

Sú stefna samræmist grunngildum framsóknarstefnunnar um samvinnu, sjálfsábyrgð, lýðræði, sanngirni, jafnrétti og samfélagslega ábyrgð, þar sem manngildi er ætíð sett ofar auðgildi.

Fjárfestum í fólki

Á þessu kjörtímabili hafa verið stigin mikilvæg skref í breytingum þegar kemur að því að horfa á velferðarmál sem fjárfestingu en ekki útgjöld. Þetta var m.a. gert með mjög ítarlegri hagrænni greiningu á því hvernig fjárfesting í málefnum barna mun skila sér margfalt til baka að ákveðnum árafjölda liðnum. Þegar við ræðum fjárfestingar þá erum við hins vegar oft að tala um steinsteypu, vegagerð og aðrar veraldlegar framkvæmdir. Við þurfum að breyta um stefnu, hugsa til lengri tíma og horfa til þess að tengja meira saman velferðarmál og hagræna nálgun. Beita fjárfestingahugsun þegar kemur að fólki, viðurkenna, og mæla ávinning af slíkri fjárfestingu. Með því erum við að viðurkenna að raunverulega er hægt að fjárfesta í fólki. Samfélag sem tekur upp slíka stefnu mun verða sterkt samfélag.

Eldra fólk
  • Framsókn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Afnema ber ákvæði um að starfsmönnum hins opinbera sé skylt að hætta störfum við 70 ára aldur. Þeir sem vilja vera virkir á vinnumarkaði áfram eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess.

  • Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks út frá grunngildum aldursvæns samfélags, samþættingu, persónumiðaðrar þjónustu og skýrrar sýnar á hlutverk og skyldur þeirra sem að þjónustunni koma. Horfa ætti til reynslunnar af endurskipulagningu opinberrar þjónustu við börn sem unnin var á kjörtímabilinu. Lykilatriðið er aukin samvinna innan kerfisins.

  • Framsókn vill gera stórátak í uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma. Bæta og fjölga endurhæfingarúrræðum, sem og forvörnum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa sem lengst heima hjá sér, eftir því sem það vill og heilsa leyfir. Með því móti getur það haldið sjálfstæði sínu, sjálfræði, reisn og virðingu m.a. með fyrirbyggjandi aðgerðum.

  • Framsókn vill leggja áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði aukna tæknivæðingu og markvissan stuðning við aðstandendur eldra fólks. Stórefla þarf samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustunnar m.a. svo þjónustan sé persónumiðuð og sé að mestu veitt á heimilum fólks. .

  • Nútímavæða þarf þjónustuna og aðgengi að henni með aukinni notkun á velferðartækni, rafrænni þjónustu, fjarþjónustu og upplýsingagáttum. Við tæknivæðinguna þarf að aðstoða þá sem ekki hafa náð að tileinka sér upplýsingatækni.

  • Framsókn leggur áherslu á að upplýsingakerfi verði samræmd og byggð verði upp öflug upplýsingagátt. Með henni verði hægt að innleiða eina gátt umsókna um þjónustu hins opinbera. Notendur þjónustunnar þurfa þá ekki að sækja um þjónustu á mörgum stöðum heldur fari umsókn í eina þjónustugátt og í gegnum hana fái viðkomandi viðeigandi þjónustu á hverjum tíma. Tryggingastofnun þarf að bæta upplýsingagjöf til notenda þjónustunnar.

  • Samhæfa þarf fjölbreytt úrræði og sníða að hverju svæði fyrir sig. Sveitarfélög eru misjafnlega sett með aðstöðu út frá stærð, mannfjölda og fl. Sömu úrræðin ganga ekki alls staðar,en gæði þjónustunnar þurfa að vera þau sömu.

  • Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Almenna frítekjumarkið verður að fylgja verðlagsþróun. Nauðsynlegt er að hækka það sem fyrst í 50.000 og síðan áfram í skrefum upp í 100.000. Framsókn vill mæta þeim verst stöddu og horfir þá sérstaklega til húsnæðismála, en flestir þeir sem búa við bág kjör búa í mjög skuldsettu húsnæði eða greiða háa leigu. Skoða þarf möguleika á hlutdeildarlánum fyrir eldra fólk.

Mikil og dýrmæt reynsla hefur skapast á liðnu kjörtímabili í vinnu Framsóknar í málefnum barna og barnafjölskyldna. Þar hefur tekist að koma í gegn stórum kerfisbreytingum sem eiga að bæta þjónustu og loka gráum svæðum í velferðarkerfinu. Það er mögulegt að nýta margt í þessu verkefni og vinna á nákvæmlega sama grunni að málefnum eldra fólks. Breytingar hafa orðið á aldurssamsetningum þjóða og er einstök áskorun sem Ísland sem og aðrar þjóðir þurfa að bregðast við. Hækkandi lífaldur og bætt lífskjör kalla á breytt viðhorf í þjónustu við eldra fólk og nauðsyn þess að skýra og skerpa á málaflokknum. Mikilvægt er að marka skýra framtíðarsýn og heildarstefnu í málefnum eldra fólks með þeim hætti að eitt þjónustusvið taki hnökralaust við af öðru. Setja þarf fram aðgerðaáætlun um hvernig þessum markmiðum verður náð.

Ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila sé ávallt skýr, „gráum svæðum“ sé útrýmt og veitt sé markviss þjónusta sem byggist á faglegu mati á einstaklingsbundinni þörf. Leggja þarf aukna áherslu á heildstæða og samþætta þjónustu í heimahús, þátttöku og virkni eldra fólks auk eflingar lýðheilsu og forvarna.

Leggja þarf áherslu á heilsueflingu eldra fólks, virkniþjálfun, félagslegan stuðning og skimun til að vinna gegn einmanaleika, félagslegri einangrun, kvíða, þunglyndi og aldurstengdum fordómum. Huga þarf einnig að tækifærum til endurmenntunar og aukins aðgengis að ferðaþjónustuá viðráðanlegu verði. .

Þörf er á heildstæðri og samþættri endurhæfingu og viðhaldsendurhæfingu, auknum sveigjanleika í þjónustu s.s. varðandi dagþjálfun. Mikilvægt að fjármagn fylgi einstaklingnum í samræmi við þarfir hans.. Þá felast mikil tækifæri í betri nýtingu á fjölbreyttri velferðartækni sem og samhæfingu innan og á milli þjónustukerfa til að bæta þjónustu við notendur velferðarþjónustunnar. Gæta þarf að nýsköpun í störfum sem snúa að umönnun eldra fólks, aukinni fræðsla til þjónustuveitenda um aldurstengda sjúkdóma og tryggt sé að starfsfólk hafi kunnáttu í íslensku þar sem það á við.

Ávinningurinn liggur í hagkvæmni, endurskoðun á lausnum og framkvæmd, minni sóun á tíma og mannafla og umfram annað, aukin lífsgæði og sjálfstæði notendanna.

Framsókn ætlar að setja í forgang endurskoðun á allri þjónustu fyrir eldra fólk með sama hætti og gert hefur verið í málefnum barna á þessu kjörtímabili út frá grunngildum aldursvæns samfélags, samþættingar, persónumiðaðrar þjónustu og skýrrar sýnar á hlutverk og skyldur þeirra sem að þjónustunni koma.

Settur verði pólitískur þungi í þennan málaflokk, kallaðir verði að borðinu allir aðilar sem tengjast málefnum eldra fólks með ofangreind markmið að leiðarljósi. Það þarf að ráðast í raunverulegar kerfisbreytingar til að ná þessum markmiðum og til að það geti gengið þá verða að koma að borðinu hagsmunasamtök eldra fólks, ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðrir hagaðilar.

Heilsa, lýðheilsa og forvarnir
  • Framsókn vill fara í þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum til að efla einstaklinga til virkni og bættrar heilsu í íslensku samfélagi. Það er þýðingarmikil fjárfesting í fólki.

  • Framsókn vill að skoðað verði hvort frekari tilefni sé til fjölbreyttara rekstrarforms innan heilbrigðisgeirans. Það þarf einfaldlega að nota þær aðferðir sem skila bestum árangri á sem skjótasta máta og útrýma biðlistum sem fyrst.

  • Framsókn leggur áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustunnar séu ávallt eins og best verður á kosið. Vitanlega þarf ávallt að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna því að um 60% fjármuna ríkisins fara til heilbrigðis- og velferðarmála, en markmið Framsóknar er og verður alltaf að tryggja öllum íbúum landsins þjónustu óháð búsetu og efnahag. Það skiptir meira máli en hvort að hið opinbera veiti alla þjónustuna sjálft eða kaupi hana af öðrum.

  • Framsókn vill efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni fyrir alla. Það er skynsamlegt eins og á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar til að fyrirbyggja frekari vanda með því að bregðast snemma við – áður en vandinn verður stærri. Standa þarf við fyrirheit um að niðurgreiða þjónustu fyrir alla..

  • Framsókn vill stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana, sérstaklega fyrir eldra fólk. Hugsa þarf þjónustuna í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og eins.

  • Framsókn vill nýta tæknilausnir eins og t.d fjarlækningar eins og kostur er til að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem þjónusta hefur minnkað hjá íbúum utan þéttbýlustu svæðanna. Þó verði tryggt, eftir fremsta megni, að efling fjarlækninga komi hvorki niður á þeirri þjónustu sem þegar er á heilbrigðisstofnunum víða um land, né standi í vegi fyrir mögulegri uppbyggingu á frekari staðbundinni þjónustu á sömu stofnunum ef aðstæður kalla eftir því.

  • Áður en farið er í umræður um afglæpavæðingu neysluskammta þarf að viðurkenna fíknivanda sem heilbrigðisvanda og efla forvarnir og aðstoð, t.d. með skaðaminnkandi nálgun.

Framsókn vill að heilbrigðisþjónusta hérlendis verði áfram í fremstu röð. Efla þarf þjónustu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar. Auka þarf þjónustu við sjúklinga og lækka kostnaðarþátttöku. Vinna ber að sameiningu greiðsluþátttökukerfis læknisþjónustu og lyfja. Fólk á aldrei að þurfa að glíma við fjárhagsörðugleika vegna veikinda sinna, barna eða ástvina. Takmarkið er að veikir borgi ekki. Þjónusta eins og til að mynda geðheilbrigðisþjónusta þarf að vera í boði allt árið.

Ávallt skal tryggja landsmönnum heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Efla þarf fjarlækningar og þannig nýta færni sérfræðinga til þess að þjónusta alla landsmenn.

Utanspítalaþjónusta er oft fyrsta þjónusta heilbrigðiskerfisins við bráðar uppákomur, en það vill oft gleymast að sjúkraflutningar eru heilbrigðismál. Skýra þarf fyrirkomulag utanspítalaþjónustu um land allt. Þannig verði til heildstætt  kerfi, sem uppfylli viðmið um lágmarks viðbragðstíma  og lagaumhverfi tryggi að þessi þjónusta sé hluti af heilbrigðiskerfinu.

Stefna ber að því að veikindaréttur verði samræmdur milli hópa með aðkomu stofnana, stéttarfélaga og annarra hagaðila. Gera þarf átak til að auðvelda einstaklingum, sérstaklega þeim sem eru í erfiðri stöðu,  að nálgast upplýsingar um réttindi sín og leiðir til að fylgja þeim eftir. Að því þurfa að koma ríki, sveitarfélög, stéttarfélög og aðrir sem að málinu koma.

Efla þarf sérstaklega lýðheilsustarf Landlæknis með auknum fjárheimildum til málaflokksins, s.s. til rannsókna og þróunar, útgáfu fleiri lýðheilsuvísa og tengdra verkefna. Leggja þarf aukna áherslu á þverfaglega vinnu að forvörnum með samvinnu og stuðningi heilbrigðiskerfisins. Bregðast þarf sérstaklega við aukningu lífstílstengdra sjúkdóma, með virkari forvörnum og aðgerðum. Vinna verður markvisst eftir lýðheilsustefnu til 2030 sem samþykkt var á Alþingi vorið 2021 og tryggja fjármagn til framkvæmdar hennar. Hér þarf að koma aukið fjármagn frá ríki til sveitarfélaga til að hægt sé að vinna markvisst í lýðheilsumálum og heilsueflingu ásamt því að efla heilsugæslur á landsbyggðinni.

Tryggja þarf starfrækslu markvissra og gagnreyndra forvarnarverkefni gegn neyslu fíkniefna  í öllum grunnskólum landsins. Sérstakt átak þarf að gera í forvörnum gegn kannabisneyslu.  Ná þarf böndum yfir notkun og dreifingu rafrettna.

Örorka
  1. Framsókn vill heildarendurskoðun á málefnum öryrkja hér á landi. Sú endurskoðun verður gerð með þau markmið bæta stöðu öryrkja og virkni innan samfélagsins og vinnumarkaðsins.

  2. Framsókn vill að öryrkjar fái að vinna vinnu við hæfi. Draga þarf úr skerðingu hjá Tryggingastofnun þannig að öryrkjar eigi möguleika á að taka þátt í atvinnulífinu til að bæta lífsgæði þeirra og draga úr félagslegri einangrun.

  3. Framsókn vill koma húsnæðisátaki á kjölinn sem aðstoðar öryrkja við að hafa tryggt þak yfir höfuðið.

  4. Þjónusta við öryrkja á að lúta sömu lögmálum og við aðra skilgreinda hópa þ.e. að hún sé sveigjanleg, einstaklingsmiðuð og miði að því að einstaklingarnir séu eins virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og kostur er. Hjálpin sé fyrst og fremst til sjálfshjálpar.

Skoða þarf einnig samspil atvinnu- og lífeyristekna þessa hóps í ljósi ofangreindra markmiða.  Einnig þarf að skoða skörun á milli mismunandi lífeyriskerfa eins og endurhæfingar- og örorkulífeyris.

(Ályktun 36. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)