Við minnumst 140 ára fæðingarafmælis Jónasar Jónssonar frá Hriflu, sem var einn áhrifamesti stjórnmálamaður og hugsuður Íslands á sinni tíð. Jónas frá Hriflu, eins og hann er jafnan kallaður, var leiðandi afl í Framsóknarflokknum og gegndi lykilhlutverki á umbrotatímum íslenskrar þjóðar. Jónas var tákn og andlit flokksins í huga Íslendinga á 20. öldinni.
Jónas frá Hriflu
Jónas Jónsson fæddist í Bárðardal árið 1885, 1. maí. Hann ólst upp við sveitastörf á bænum Hriflu, æskuheimili sínu, og kynntist þar af eigin raun þeim lífskjörum og áskorunum sem íslenskir bændur og alþýða stóðu frammi fyrir á þessum tíma. Þrátt fyrir bág kjör sóttist Jónas eftir menntun. Hann stundaði nám bæði í Danmörku og Englandi. Menntavegur hans var nokkuð óhefðbundinn en mótaði hann og varð til þess að hann fékk brennandi áhuga á uppbyggingu íslensks samfélags. Að námi loknu sneri Jónas aftur heim uppfullur af hugmyndum um félagslegar framfarir og framsókn. Hann hóf störf sem kennari og fræðimaður og lét strax að sér kveða í umræðu um þjóðfélagsmál.
Stofnun Framsóknarflokksins og pólitískar línur lagðar
Pólitísk arfleifð Jónasar frá Hriflu spannar marga þætti samfélagsins og má skilgreina hann sem róttækan umbótamann. Jónas Jónsson fæðist um svipað leyti og samvinnuhugsjónin festi hér rætur. Hann lagðist snemma á sveif með henni. Samvinnuhreyfingin var í hans augum meginstoð félagshyggjuþjóðfélagsins. „Stofnun Framsóknarflokksins var beinlínis skipulögð af honum,“ sagði Jón Sigurðsson í Ystafelli um Jónas Jónsson frá Hriflu. Framsóknarflokkurinn var stofnaður 16. desember árið 1916. Að auki var hann einn af frumkvöðlunum að stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins haustið 1916. Jónas hafði mjög skýra sýn á það hvernig hið pólitíska landslag ætti að vera á Íslandi á þessum tíma. Hann taldi að það sem myndi henta Íslandi best væri „eðlileg flokkaskipting“, þ.e. þrískipting í íhaldsflokk, frjálslyndan flokk og jafnaðarmannaflokk.
Pólitískur ferill Jónasar
Jónas fer að starfa með Framsóknarflokknum og var driffjöðrin að stofnun dagblaðsins Tímans, 17. mars 1917. Jónas var kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn árið 1922. Jónas var þekktur fyrir skelegg viðhorf sín og kröftugar ræður þar sem hann mælti fyrir félagslegu réttlæti, menntun almennings og fullu sjálfstæði Íslands. Árið 1927 varð hann dóms- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn og gegndi því embætti til 1932. Sem forystumaður í Framsóknarflokknum mótaði Jónas stefnuna á þessum umbrotatímum. Hann var formaður flokksins árin 1934 til 1944 og stýrði Framsókn í gegnum kreppuárin og síðari heimsstyrjöldina. Á þeim tíma festi flokkurinn sig í sessi sem einn af burðarásum íslenskra stjórnmála.
Menntun þjóðarinnar
Menntamál þjóðarinnar voru Jónasi einkum hugleikin og uppbygging menntakerfisins. Hann átti stóran þátt í stofnun og eflingu margra menntastofnana. Má þar nefna Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Laugarvatni, Samvinnuskólann og Héraðsskólann á Laugum. Þá gegndi hann um tíma starfi skólastjóra Samvinnuskólans, fræðslustofnun samvinnuhreyfingarinnar. Húsnæðismál Háskóla Íslands voru honum einnig mikilvæg og í byrjun fjórða áratugarins beitti hann sér fyrir setningu laga sem heimiluðu byggingu nýs háskólahúss. Með þessu lagði Jónas sitt af mörkum til að auka menntun bæði í þéttbýli og dreifbýli, í samræmi við þá sannfæringu sína að þekking og framfarir ættu að ná til allra landsmanna.
Menningarmál ætíð veigamikil
Menningarmál þjóðarinnar voru honum ætíð ofarlega í huga. Hann var eindreginn talsmaður íslenskrar tungu, bókmennta og lista og lagði áherslu á að menning þjóðarinnar byggðist á þjóðlegum grunni. Oft var Jónas gagnrýninn á listamenn eða strauma í menningu sem honum þóttu of framandlegir eða í andstöðu við hefðir þjóðarinnar. Deilur hans við ýmsa fræðimenn og rithöfunda vöktu talsverða athygli á sínum tíma, enda þótti sumum sem Jónas gengi of langt í menningarmálum. Hins vegar beitti hann sér ötullega fyrir því að styrkja umgjörð menningarmála og má nefna Menningarsjóð, stofnun Ríkisútvarpsins, styrki til listamanna úr ríkissjóði og að reist yrði Þjóðleikhús.
Lokaorð
Nú, 140 árum eftir fæðingu Jónasar frá Hriflu, má sjá að margt í framtíðarsýn hans hefur orðið að veruleika og var til þess fallið að efla íslenskt samfélag. Auðvitað hefur tíminn einnig fært samfélaginu breytingar sem Jónas gat vart séð fyrir, en grunnstef hans um menntun, samvinnu og þjóðlega sjálfsvirðingu má enn greina víða. Arfleifð Jónasar lifir þannig góðu lífi og minnir okkur á mikilvægi framtíðarsýnar og hugsjóna við uppbyggingu þjóðar. Segja má að áhrif Jónasar á íslenskt samfélag á mikilvægu mótunarskeiði eigi sér fáar hliðstæður.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí 2025.