Categories
Fréttir

17. júní ávarp formanns!

Deila grein

17/06/2022

17. júní ávarp formanns!

Kæra Framsóknarfólk!

Upp er runninn sautjándi júní, þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Landið okkar hefur tekið græna litinn sem fer því svo vel. Og það á ekki einungis við tún, hlíðar og skóga heldur hefur græni liturinn færst yfir samfélagið. Sumir tala um grænu bylgjuna þegar rætt er um árangur Framsóknar í kosningunum í haust og vor. Fyrir ári síðan, í byrjun júní, var fylgi Framsóknar að mælast 10,4% sem var örlítið undir fylgi okkar í þingkosningunum 2017. Við höfðum á því kjörtímabili búið við slakar skoðanakannanir. Í september 2020, réttu ári fyrir þingkosningar, mældumst við með 6,7% fylgi í könnun Gallup. En við misstum ekki móðinn, gleymdum ekki erindi okkar og uppruna, heldur héldum ótrauð áfram að berjast fyrir stefnumálum okkar og hugsjónum.

Árangur Framsóknar hefur ekki orðið að veruleika fyrir einhverja heppni. Að baki þessa árangurs er þrotlaus vinna flokksfólks um allt land. Metnaðarfullir frambjóðendur mega síns lítils ef ekki væri fyrir öfluga grasrót sem leggur nótt við dag í kosningabaráttu fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningar.

Á þjóðhátíðardaginn 2022 horfi ég stoltur á árangur okkar í Framsókn. Stoltur af því öfluga fólki sem flokkurinn hefur á að skipa um allt land. Stoltur af þeim krafti sem í fólkinu mínu býr, fólki sem gefst aldrei upp, fólki sem vinnur saman að því að bæta samfélagið okkar.

Ég er þakklátur fyrir það að standa í stafni þessa merka umbótaafls sem Framsókn er.

Ég óska ykkur, kæru félagar, gleðilegs þjóðhátíðardags og vona að sumarið verði ykkur gjöfult og gott.

Kær kveðja, Sigurður Ingi