Categories
Greinar

Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi

Deila grein

15/06/2022

Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi

Straum­hvörf urðu í um­hverfi kvik­mynda­gerðar árið 1999 þegar lög um end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar á Íslandi voru samþykkt. Með þeim var rekstr­ar­um­hverfi kvik­mynda­geir­ans eflt með 12% end­ur­greiðslu­hlut­falli á fram­leiðslu­kostnaði hér­lend­is. Síðan þá hef­ur alþjóðleg sam­keppni á þessu sviði auk­ist til muna og fleiri ríki hafa fetað í fót­spor Íslands þegar kem­ur að því að auka sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­geir­ans með það að mark­miði að laða að er­lend verk­efni og efla inn­lenda fram­leiðslu. Það er í takt við þá áherslu stjórn­valda víða í heim­in­um að efla skap­andi grein­ar og hug­vits­drif­in hag­kerfi sem skara fram úr.

Það er skýr sýn rík­is­stjórn­ar­inn­ar að Ísland eigi að vera í far­ar­broddi í því að efla skap­andi grein­ar og hug­verka­drif­inn iðnað. Með það í huga er ánægju­legt að segja frá að frum­varp um hækk­un end­ur­greiðslu­hlut­falls úr 25% í 35% í kvik­mynda­gerð er nú á loka­metr­um þings­ins. Mark­mið þess er að styðja enn frek­ar við grein­ina með hærri end­ur­greiðslum til að stuðla að því að fleiri stór verk­efni verði unn­in al­farið á Íslandi. Verk­efn­in þurfa að upp­fylla þrjú ný skil­yrði til að eiga kost á 35% end­ur­greiðslu. Í fyrsta lagi verða þau að vera að lág­marki 350 m.kr að stærð, starfs­dag­ar hér á landi þurfa að vera að lág­marki 30 og fjöldi starfs­manna sem vinna beint að verk­efn­inu þarf að vera að lág­marki 50.

Mark­mið laga­setn­ing­ar­inn­ar frá 1999 hef­ur gengið eft­ir en um­svif kvik­mynda­gerðar hafa auk­ist all­ar göt­ur síðan. Kvik­mynda­gerð hef­ur verið áber­andi í ís­lensku menn­ing­ar- og at­vinnu­lífi og hef­ur velta grein­ar­inn­ar þre­fald­ast und­an­far­inn ára­tug og nem­ur nú um 30 millj­örðum króna á árs­grund­velli en vel á fjórða þúsund starfa við kvik­mynda­gerð. Sí­fellt fleira ungt fólk starfar við skap­andi grein­ar eins og kvik­mynda­gerðina enda er starfs­um­hverfið fjöl­breytt og spenn­andi og ýmis tæki­færi til starfsþró­un­ar hér inn­an­lands sem og er­lend­is. Þá er einnig óþarft að telja upp öll þau stór­verk sem tek­in hafa verið upp að hluta hér á landi með til­heyr­andi já­kvæðum áhrif­um á ferðaþjón­ust­una og ímynd lands­ins. Þannig kom til dæm­is fram í könn­un Ferðamála­stofu frá sept­em­ber 2020 að 39% þeirra sem svöruðu sögðu að ís­lenskt lands­lag í hreyfi­mynda­efni, þ.e. kvik­mynd­um, sjón­varpsþátt­um og tón­list­ar­mynd­bönd­um, hefði m.a. haft áhrif á val á áfangastað.

Hærra end­ur­greiðslu­hlut­fall hér á landi mun því valda nýj­um straum­hvörf­um í kvik­mynda­gerð hér á landi og auka verðmæta­sköp­un þjóðarbús­ins. Með kvik­mynda­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 hafa stjórn­völd markað skýra sýn til að ná ár­angri í þess­um efn­um – enda hef­ur Ísland mannauðinn, nátt­úr­una og innviðina til þess að vera framúrsk­ar­andi kvik­mynda­land sem við get­um verið stolt af. Ég er þakk­lát fyr­ir þann þver­póli­tíska stuðning sem er að teikn­ast upp við málið á Alþingi Íslend­inga og er ég sann­færð um að málið muni hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 15. júní 2022