Categories
Fréttir

40 ár frá fyrstu lögum um jafnrétti

Deila grein

19/05/2016

40 ár frá fyrstu lögum um jafnrétti

Jóhanna María - fyrir vef„Hæstv. forseti. Í dag eru 40 ár frá því að fyrstu lög um jafnrétti á Íslandi voru samþykkt. Þó höfðu áður verið samþykkt atriði sem hluti af öðrum lögum, eins og ákvæði um almennan launajöfnuð kvenna og karla árið 1961, en opinberir starfsmenn voru fyrsta starfsstéttin sem hlaut lögverndað launajafnrétti árið 1954. Það er frekar sorglegt til þess að hugsa hversu langt er liðið frá lagasetningu um launajöfnuð og að við skulum samt ekki vera komin lengra með málið.
Íslenskar konur hafa verið mjög samhentar þegar kemur að því að þoka jafnréttismálum áfram. En núna er markmiðið sett hærra og er mikilvægt að kynin komi saman til að vinna að jafnréttismálum, hagsmunamálum sem varða báða aðila, og að flestir séu með í átakinu HeForShe sem UN Women á Íslandi og aðilar víða í heiminum standa að.
Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla karlmenn til þátttöku. Það er ekki einungis efnahagslegt mál að kynin standi jöfn heldur einnig samfélagslegt. Það snýr líka að því að karlmenn fái tækifæri til að sinna öllu því sem er þeim hugleikið án fyrir fram mótaðra kynjahlutverka. Það er ekkert samfélagslega samþykkt nema við leyfum það. Við skulum ekki láta önnur 40 ár líða áður en við náum árangrinum sem við stefnum að.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 18.05.2016.