Categories
Fréttir

Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis

Deila grein

19/05/2016

Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis

Silja-Dogg-mynd01-vef„Virðulegi forseti. Í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár frá samþykkt laga um jafnrétti kvenna og karla. Í lögunum var tekið fram að tilgangur þeirra væri að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Lögin beindust fyrst og fremst að stöðu kynjanna á vinnumarkaði, ekki síst hvað varðaði launajafnrétti. Einnig voru ákvæði um jafnréttisfræðslu í skólum og kveðið var á um að auglýsendum væri óheimilt að birta auglýsingar sem orðið gætu öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar.
Á þessum tímamótum er rétt að minnast þess að þótt 40 ár séu frá setningu þessara laga eru enn til staðir í heiminum sem ekki veita konum rétt á jafnri stöðu á við karlmenn. 52 ríki eru ekki með jafnrétti í sinni stjórnarskrá líkt og kveðið er á um í 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. 26 ríki veita kynjunum ekki jafna stöðu þegar kemur að erfðarétti og 60% af þeim sem skortir grunnmenntun í heiminum, á borð við lesskilning, eru konur. Kynbundið ofbeldi er stórkostlegt vandamál um heim allan. Sums staðar tíðkast enn að gifta barnungar stúlkur eldri karlmönnum. Konur eru víðast hvar í minni hluta þegar kemur að stjórnun fyrirtækja, þær eru í minni hluta í flestöllum ef ekki öllum þjóðþingum heims og svo mætti lengi telja — árið 2016.
Hluti utanríkismálanefndar Alþingis heimsótti japanska þingið fyrir skömmu. Á nánast öllum fundum var að frumkvæði gestgjafanna rætt um jafnrétti en japanska ríkisstjórnin leggur nú áherslu á að bæta jafnrétti í landinu. Jafnrétti snýst nefnilega ekki bara um mannréttindi fólks, heldur hefur jafnrétti afar jákvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.
Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis. Við getum miðlað af reynslunni og haldið áfram að vera góð fyrirmynd fyrir þjóðir sem eru skemmra á veg komnar en við, en við megum samt sem áður ekki sofna á verðinum.
Dagur sem þessi minnir okkur á það.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 18.05.2016.