Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði í störfum þingsins í gær að fyrir liggji „að börn fá ekki aðstoð tímanlega, bið eftir greiningum er allt of löng og á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex. Aðkallandi er að meiri samfella og samtenging sé á milli opinberra þjónustuaðila en staðan í dag er sú að þeir aðilar sem veita börnum þjónustu tala ekki endilega saman. Dæmi eru um að tiltekin svið sveitarfélaga séu ekki með formlega ferla sín á milli og enginn með skilgreinda ábyrgð. Ef samfella þjónustu er ekki til staðar fær barnið ekki eins góða þjónustu og mögulegt er að veita.“
„Réttindi barna og bætt þjónusta við börn og barnafjölskyldur eru meðal áhersluatriða ríkisstjórnarinnar og birtist með skýrum hætti í stjórnarsáttmálanum. Alþingi samþykkti á dögunum tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til fjögurra ára. Henni er ætlað að efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum, stuðla að snemmtækri íhlutun, auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga og fjölga gagnreyndum úrræðum. Gert er ráð fyrir 600 millj. kr. fjáraukningu til að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu í málaflokknum,“ sagði Silja Dögg.
„Mig langar að vekja athygli á þingsályktunartillögu, sem ég hef mælt fyrir og hefur verið send til umsagnar af velferðarnefnd, sem fjallar um rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Í henni felst að dómsmálaráðherra verði falið að semja lög sem tryggi þeim börnum sem getin eru með kynfrumugjöf sjálfstæðan rétt til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Þetta er í fimmta sinn sem Alþingi fjallar um málið. Nágrannaríki okkar, þau sem við berum okkur helst saman við, hafa þegar tryggt þessi réttindi barna með lögum og ég vona að það fari að koma að því að við gerum það líka,“ sagði Silja Dögg.
Categories
„Á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex“
10/10/2019
„Á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex“