Categories
Fréttir

Á erfiðleikatímum verðum við að standa saman

Deila grein

19/03/2020

Á erfiðleikatímum verðum við að standa saman

„Þetta er hættuástand sem fá okkar hafa upplifað fyrr. Faraldurinn bitnar hart á öllum norrænu löndunum og virðir engin landamæri. Við slíkar aðstæður er afar mikilvægt að halda heildarsýn og missa ekki sjónar á gagnsemi þess að samhæfa aðgerðir milli landa. Norrænt samstarf og alþjóðlegt samstarf opna á möguleika sem gagnast hverju og einu landanna,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar og forseti Norðurlandaráðs í yfirlýsingu.
Silja Dögg leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um aldraða og aðra sem tilheyra áhættuhópum. Hún hefur skilning á því að yfirvöld neyðist til að grípa til róttækra aðgerða á þessum fordæmalausu tímum.
„Um leið er traustvekjandi að sjá að almenningur á norrænu löndunum treystir því virkilega að yfirvöld taki réttar ákvarðanir. Það sýnir á hve sterkum grunni okkar norrænu samfélög byggja.“
Samfélagsöryggi forgangsmál í Norðurlandaráði
Samfélagsöryggi og samstarf á hættutímum eru mikilvæg svið fyrir Norðurlandaráð. Nú síðast á þingi ráðsins í október 2019 samþykkti það einróma nýtt stefnuskjal um samfélagsöryggi. Í stefnuskjalinu er lagt til að samstarf verði aukið á ýmsum sviðum, meðal annars hvað varðar framfærslu- og heilbrigðisviðbúnað.
„Norrænu löndin eiga nú þegar í frábæru samstarfi á mörgum ólíkum sviðum. Stefnuskjalið inniheldur ýmsar raunhæfar tillögur að því hvernig samstarfið geti orðið enn betra á hættutímum, nokkuð sem Norðurlandaráð vill vinna áfram með,“ segir Silja Dögg.
Starfið heldur áfram á formi fjarfunda
Kórónufaraldurinn sem nú stendur yfir hefur einnig áhrif á störf Norðurlandaráðs. Meðal annars hefur þemaþingi ráðsins, sem fara átti fram 30.–31. mars í Helsinki, verið aflýst og sama gildir um málþing ráðsins í Brussel 17.–18. mars.
Hið pólitíska starf Norðurlandaráðs heldur þó áfram þrátt fyrir faraldurinn. Fjöldi fjarfunda fer fram og undirbúningur að áframhaldandi starfi eftir að faraldrinum linnir er í fullum gangi.

Heimild: norden.org