Categories
Fréttir

Á fyrstu 1000 dögunum er lagður grunnur að lífi fólks

Deila grein

25/10/2022

Á fyrstu 1000 dögunum er lagður grunnur að lífi fólks

„Fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna skipta sköpum fyrir allt sem á eftir kemur og við eigum sem samfélag að leggja sérstaka áherslu á að tryggja þeim eins góð skilyrði og hugsast getur. Vinna í þeim málum verður að vera stefnumiðuð og ég vil beina því til þingheims að móta skýra áætlun um nauðsynleg skref til að ná árangri í þeim efnum“ sagði Helgi Héðinsson, varaþingmaður, í störfum þingsins.

Skýrslan „Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndum“ fjallar m.a. um stefnumótunartillögur sem ætlað er að styrkja réttindi og stöðu barna og eftir atvikum foreldra frá þungun og fyrstu tvö æviárin.

Norðurlöndin standa að mörgu leyti framarlega á þessu sviði og margt hefur sannarlega þróast í rétta átt, m.a. með bættri þjónustu við barnafjölskyldur, aukinni áherslu á andlega heilsu foreldra og lengingu fæðingarorlofs.

„Málefni barna hafa fengið aukna athygli, ekki síst að frumkvæði hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, en þó er enn mikið verk að vinna,“ sagði Helgi.

Horfa þarf til lengdar og fyrirkomulags fæðingarorlofs og rétti kvenna á meðgöngu. Rannsóknir sýna fram á að á fyrstu 1000 dögunum er lagður grunnur að lífi fólks.

„Á þessum tíma lærum við m.a. að mynda tengsl og því er samvera með foreldrum sérstaklega mikilvæg,“ sagði Helgi.

Í skýrslunni eru samandregnar sex tillögur að stefnumörkun í þessum málaflokki en rauði þráður skýrslunnar er mikilvægi andlegrar heilsu og vellíðanar, alhliða stuðningur við fjölskyldur, jöfnuður og gæði þjónustu og að brugðist sé rétt og tímanlega við áhættuþáttum.

Ræða Helga á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna hafa blessunarlega fengið aukna athygli á liðnum árum, m.a. vegna frumkvæðis Íslendinga í norrænu ráðherranefndinni. Nefndin skilaði í febrúar síðastliðnum skýrslu sem byggð er á yfirgripsmikilli greiningarvinnu sem hófst árið 2019, en embætti landlæknis leiðir verkefnið fyrir Íslands hönd. Skýrslan, Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndum, fjallar m.a. um stefnumótunartillögur sem ætlað er að styrkja réttindi og stöðu barna og eftir atvikum foreldra frá þungun og fyrstu tvö æviárin. Norðurlöndin standa að mörgu leyti framarlega á þessu sviði og margt hefur sannarlega þróast í rétta átt, m.a. með bættri þjónustu við barnafjölskyldur, aukinni áherslu á andlega heilsu foreldra og lengingu fæðingarorlofs. Málefni barna hafa fengið aukna athygli, ekki síst að frumkvæði hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, en þó er enn mikið verk að vinna. Í því samhengi þarf m.a. að horfa til lengdar og fyrirkomulags fæðingarorlofs og rétti kvenna á meðgöngu. Rannsóknir hafa sýnt að á fyrstu 1000 dögunum er lagður grunnur að lífi fólks. Á þessum tíma lærum við m.a. að mynda tengsl og því er samvera með foreldrum sérstaklega mikilvæg. Í skýrslu nefndarinnar eru samandregnar sex tillögur að stefnumörkun í þessum málaflokki en rauði þráður skýrslunnar er mikilvægi andlegrar heilsu og vellíðanar, alhliða stuðningur við fjölskyldur, jöfnuður og gæði þjónustu og að brugðist sé rétt og tímanlega við áhættuþáttum.

Virðulegi forseti. Fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna skipta sköpum fyrir allt sem á eftir kemur og við eigum sem samfélag að leggja sérstaka áherslu á að tryggja þeim eins góð skilyrði og hugsast getur. Vinna í þeim málum verður að vera stefnumið og ég vil beina því til þingheims að móta skýra áætlun um nauðsynleg skref til að ná árangri í þeim efnum.“