Categories
Fréttir

Unnið er að takmarka mataraðstoð til þeirra sem þegar lifa við skort og auka aðstoð til þeirra sem lifa við hungur

Deila grein

25/10/2022

Unnið er að takmarka mataraðstoð til þeirra sem þegar lifa við skort og auka aðstoð til þeirra sem lifa við hungur

„Vinnan fram undan er að takmarka mataraðstoð til þeirra sem þegar lifa við skort og reyna að auka aðstoð til þeirra sem lifa við hungur. Lausnin er m.a. sú að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna styrki þjóðir til að virkja og nýta sínar auðlindir sem best núna til að bjarga mannslífum,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins, er hún fór yfir þingmannaferð á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York .

Þetta kom fram á fundi með fulltrúm matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Hún sinnir mikilvægum störfum en vandinn er að vaxa henni yfir höfuð.

„Þetta eru ógnvænlegar staðreyndir. Þótt við hér á Íslandi búum ekki við hungur eða matarskort þá erum við hluti af þessari heild. Matarverð hækkar í Evrópu, orkuskortur er yfirvofandi í Evrópu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og framboð á hrávöru minnkar meðan Rússar halda Úkraínu í heljargreipum. Þótt framleiðslan haldi áfram í landinu eru flutningsleiðir til Evrópu takmarkaðar,“ sagð Halla Signý.

„Búist er við að nærri 350 milljónir manna í 82 löndum standi frammi fyrir matvælaskorti á komandi ári og er það nærri fjórðungsaukning frá því sem var í byrjun þessa árs. Þar af er helmingurinn börn,“ sagði Halla Signý.

Nokkuð sögulegt var að meðan á heimsókninni stóð fór fram neyðarfundur hjá allsherjarþinginu. Til umræðu var ályktun aðildarríkja, þar sem innlimun Rússa á fjórum héruðum í austanverðri Úkraínu var fordæmd. Þetta var ellefti neyðarfundur allsherjarþingsins frá upphafi eða frá 1945.

Þingmannhópurinn átti fundi með nokkrum undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Þar kom fram þung undiralda í áherslum þeirra: stríðið í Úkraínu, yfirvofandi matvælaskortur í heiminum, afleiðingar Covid og loftslagsváin.

Ræða Höllu Signýjar á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Ég fór ásamt þremur öðrum þingmönnum til New York og sótti heim allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Það var virkilega fróðleg og upplýsandi heimsókn. Meðan á heimsókninni stóð var neyðarfundur í þinginu þar sem til umræðu var ályktun aðildarríkja þar sem innlimun Rússa á fjórum héruðum í austanverðri Úkraínu var fordæmd. Þetta var neyðarfundur og sá ellefti í röðinni frá upphafi en Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 1945. Við sóttum einnig heim nokkrar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna. Það var þung undiralda í áherslum þeirra; stríðið í Úkraínu, yfirvofandi matvælaskortur í heiminum, afleiðingar Covid og loftslagsváin. Meðal annars fengum við kynningu á starfsemi matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Þar komu fram nokkuð sláandi staðreyndir, líkt og komu fram í Silfri sunnudagsins þar sem rætt var við David Beasley framkvæmdastjóra. Búist er við að nærri 350 milljónir manna í 82 löndum standi frammi fyrir matvælaskorti á komandi ári og er það nærri fjórðungsaukning frá því sem var í byrjun þessa árs. Þar af er helmingurinn börn.

Virðulegi forseti. Þetta eru ógnvænlegar staðreyndir. Þótt við hér á Íslandi búum ekki við hungur eða matarskort þá erum við hluti af þessari heild. Matarverð hækkar í Evrópu, orkuskortur er yfirvofandi í Evrópu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og framboð á hrávöru minnkar meðan Rússar halda Úkraínu í heljargreipum. Þótt framleiðslan haldi áfram í landinu eru flutningsleiðir til Evrópu takmarkaðar.

Virðulegi forseti. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna sinnir mikilvægum störfum með sína dyggu aðstoð og lausnir en vandinn er að vaxa henni yfir höfuð. Vinnan fram undan er að takmarka mataraðstoð til þeirra sem þegar lifa við skort og reyna að auka aðstoð til þeirra sem lifa við hungur. Lausnin er m.a. sú að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna styrki þjóðir til að virkja og nýta sínar auðlindir sem best núna til að bjarga mannslífum.“