Í vikunni birtist frétt í Morgunblaðinu um tillögur Viðskiptaráðs, en þær hafa það að markmiði að spara ríkinu ákveðnar fjárhæðir. Það sem þar kemur aðallega á óvart er að margar tillögur snúast um það að ríkið eigi að virða skuldbindingar sínar að vettugi og draga úr mikilvægum aðgerðum fyrir fólkið í landinu.
Að eiga aðild að samningum er ábyrgð sem ber að sinna af heiðarleika og heilindum og það er engum til heilla ef ríkið á að draga til baka loforð, skuldbindingar og undirritaða samninga. Slík ríkisstjórn myndi varla vera traustvekjandi í augum þjóðarinnar, hvað þá einstaklinga sem binda miklar vonir við þær aðgerðir sem ríkið hefur skuldbundið sig til.
Að sjálfsögðu á ríkið að vera með ábyrga og skynsamlega hagstjórn. Við sjáum að aðhald og aðgerðir núverandi ríkisstjórnar eru farin að hafa áhrif á lækkun verðbólgu og vextir eru byrjaðir að lækka.
Aðkoma að kjarasamningum
Það er umhugsunarvert að svo virðist sem að Viðskiptaráð beri ekki mikla virðingu fyrir rótgróinni meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda. Það er rétt að skiptar skoðanir eru á því hvort ríkið hefði átt að stíga inn í síðustu kjaraviðræður. Einnig er rétt að það er mikilvægt að við tökum þátt í slíkum samningaviðræðum af varfærni, eins og Viðskiptaráð hefur bent á. En þegar búið er að gefa fyrirheit, þá er mikilvægt að standa við það sem lagt hefur verið fram.
Undirritun kjarasamninga í mars sl. á almennum markaði var mikilvæg skref. Aðilar almenna vinnumarkaðarins sýndu með þessum samningum mikla ábyrgð og framsýni. Aðkoma stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, skipti sköpum í þeirri samningagerð. Þær aðgerðir, sem ríkið skuldbatt sig til, eru til þess fallnar að auka ráðstöfunartekjur heimila með sérstakri áherslu á húsnæðisuppbyggingu, tryggja húsnæðisstuðning og stórefla stuðning við barnafjölskyldur. Þetta er stuðningur við þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði og hafa orðið fyrir aukinni byrði vegna húsnæðiskostnaðar. Aðgerðir til að auka framboð íbúðarhúsnæðis stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði og lægri húsnæðiskostnaði.
Er Viðskiptaráð virkilega að leggja til að auka byrði barnafjölskyldna og auka byrði húsnæðiskostnaðar þeirra sem síst geta? Það að svíkja skuldbindingar sínar og láta þann hóp bera aukinn kostnað getur haft langvarandi áhrif þó svo að það myndi spara ríkissjóð einhverjar fjárhæð í dag.
Mikilvægar aðgerðir ríkisins í húsnæðismálum
Hvað varðar tillögu Viðskiptaráðs um lækkun vaxtabótakerfisins og hlutdeildarlána er nauðsynlegt að ítreka að ríki og sveitarfélög hafa aðkomu að þriðjungi af byggingu húsnæðis ár hvert. Það er ekki nýtt að ríkið gangi til aðgerða á húsnæðismarkaði með það að markmiði að grípa viðkvæma hópa og jafna aðgengi að markaðnum.
Tímabilið 2019-2024 hefur verið mesta uppbyggingartímabil Íslandssögunnar, en það hefur þó ekki dugað til. Eftirspurn eftir húsnæði hefur aukist umtalsvert á stuttum tíma samhliða mikilli fólksfjölgun hér á landi. Því erum við að byggja undir áætlaðri íbúðaþörf, en ekki vegna aðgerðaleysis í húsnæðismálum.
Við í Framsókn höfum lagt höfuðáherslu á að auka aðgengi að húsnæði, sérstaklega fyrir ungt fólk, fyrstu kaupendur og leigjendur. Þetta gerum við m.a. með hlutdeildarlánunum, sem hafa reynst þessum hópum vel og reynst mikilvæg aðgerð í húsnæðismálum.
Hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur eru komin til að vera og ríkisstjórnin hefur nú þegar samþykkt að veita 4 milljarða til hlutdeildarlána á þessu ári. Annars vegar til að styðja við fyrstu kaupendur og til að hvetja framkvæmdaaðila til að halda áfram að byggja. Eins var þetta til þess að framkvæmdaaðilar lækkuðu verð til að passa inn í viðmið hlutdeildarlána. Hlutdeildarlánin stuðluðu beinlínis að því að halda fasteignaverði niðri, þvert á orð Viðskiptaráðs.
Við stöndum við það sem segjum
Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimilanna síðustu misseri var á árinu 2024 greiddur út sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og eignaskerðingamörk í húsnæðisbótakerfinu hækka 1. júní 2024 auk þess sem aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar og munu framlög til húsnæðisbóta aukast um 2,5 ma.kr. á ársgrundvelli vegna þessa.
Áfram verður dregið úr tekjuskerðingum barnabóta þannig að mun fleiri foreldrar njóta stuðnings. Barnabætur hækka því ríflega og unnið verður að því í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með hausti 2024. Þá verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þegar breytingar á framlagi til Fæðingarorlofssjóðs verða að fullu komnar til framkvæmda árið 2027 nemur uppsöfnuð hækkun um 5,7 ma.kr. á ársgrundvelli.
Við í Framsókn leggjum mikla áherslu á hag íslensku þjóðarinnar í heild m.a. með nauðsynlegri íhlutun ríkisins á húsnæðismarkaði. Við höldum áfram með aðgerðir til að tryggja stöðugleika og draga úr neikvæðum áhrifum á hagkerfið og viljum stuðla að því að áfram verði unnið með þann grundvöll sem þegar hefur verið lagður.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2024.