Sjötíu ára afmæli Neytendasamtanna er fagnað í dag – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mætti færandi hendi á skrifstofur Neytendasamtakanna með afmælistertu.
„Neytendasamtökin hafa staðið vaktina í 70 ár en starf samtakanna skipta neytendur svo sannarlega máli. Það er sérstaklega mikilvægt að huga vel að neytendamálum á tímum hárrar verðbólgu,“ sagði Lilja Dögg að tilefni tímamótanna.
„Í slíku ástandi vex þörfin á öflugu neytendaeftirliti, enn þurfa allir að vera á tánum gagnvart verðlagningu á vörum og þjónustu. Slíkt skiptir máli fyrir lífskjörin í okkar góða landi. Ég óska Neytendasamtökunum til hamingju með þennan merkisáfanga og hlakka til áframhaldandi samstarfs við þau,“ sagði Lilja Dögg.
Lilja Dögg færði samtökunum fimm og hálfa milljón króna frá ríkisstjórninni og ráðuneyti sínu. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR stéttarfélags, var einnig með í för og færði samtökunum fjórar milljónir frá VR.
Lilja Dögg segir í viðhorfsgrein í Fréttablaðinu í dag að umbætur í neytendavernd verði „ekki náð nema með náinni og góðri samvinnu stjórnvalda og Neytendasamtakanna“.
„Ég hef þá bjargföstu trú að árangur náist þegar við öll leggjumst saman á árarnar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mikilvægt að neytendur séu á tánum gagnvart verðlagningu á vöru og þjónustu og fyrirtæki hækki ekki verð umfram það sem eðlilegt getur talist. Slíkt skiptir máli fyrir lífskjörin í okkar góða landi.
Það er mín von að Neytendasamtökin haldi áfram að vera það frumkvæðisafl í neytendamálum sem samtökin hafa verið og haldi atvinnurekendum og stjórnvöldum við efnið til langrar framtíðar.“
Fram koma við þessi ánægjulegu tímamót að fjármunirnir séu eyrnamerktir úttektar, sem Neytendasamtökin hafa lengi reynt að hrinda í framkvæmd, á tryggingamarkaðnum á Íslandi, greiningu á því hvers vegna tryggingariðgjöld eru svo miklu hærri hér á landi en í nágrannalöndum okkar.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði ánægjulegt að finna stuðningi bæði í orði og á borði. Úttektin væri nærri því að vera fullfjármagnaða og telur Breki að vonir standi til að önnur launþegasamtök muni koma með fjárstuðning fyrir því sem upp á vantar, en áætlað er að úttektin muni kosta um 12 milljónir króna.
„Við erum hins vegar komin svo nálægt fullri fjármögnun að nú getum við farið að leita tilboða í framkvæmd úttektarinnar,“ sagði Breki við tímamótin.
„Það er ánægjulegt á þessum merkisdegi íslenskra neytenda að finna fyrir þessum ríka stuðningi við neytendur frá bæði launþegahreyfingunni og yfirvöldum, ekki aðeins í orði heldur líka á borði.“
Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum að veita Neytendasamtökunum þriggja milljóna króna styrk af ráðstöfunarfé sínu í tilefni af 70 ára afmæli samtakanna sem fagnað er í dag.
Markmið styrksins er að styðja við mikilvæg verkefni sem framundan eru hjá Neytendasamtökunum og má þar nefna úttekt þeirra á tryggingamarkaði á Íslandi og réttindum neytenda þegar kemur að tryggingamálum.
Síðastliðið haust voru framlög til Neytendasamtakanna einnig hækkuð í uppfærðum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðuneytisins við samtökin. Er hækkunin í samræmi við áherslu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um styrkingu samtaka neytenda.
Ágúst Bjarni Garðsson, alþingismaður, tekur undir og fagnar að baráttumál hans hafi verði tekið fastari tökum.
„Ég hef nú talað fyrir því í töluverðan tíma að ráðast í úttekt á tryggingamarkaðnum hér á landi og fá raunverulegan samanburð við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við,“ segir Ágúst Bjarni.
Leggjum allt undir í þeirri úttekt sem er framundan
„Við Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, áttum svo fund um nákvæmlega þessi mál og önnur fyrir skemmstu og að þessu hefur verið unnið síðan. Frábært að sjá þetta baráttumál mitt raungerast og á Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra, miklar þakkir skildar fyrir að tryggja verkefninu fjármagn í samvinnu við m.a. VR. Ég hlakka til að fylgjast með þessari vinnu og fylgja eftir afurð hennar,“ sagði Ágúst Bjarni.