Categories
Fréttir Greinar

Á vaktinni í sjötíu ár

Deila grein

23/03/2023

Á vaktinni í sjötíu ár

Í 70 ár hafa Neytendasamtökin unnið einarðlega í þágu neytenda á Íslandi. Fjölmargt hefur breyst á þessum tíma og hafa Neytendasamtökin gegnt mikilvægu hlutverki sem áhrifaafl í þágu bættrar neytendaverndar. Ég vil nýta þetta tækifæri og óska Neytendasamtökunum innilega til hamingju með stórafmælið sem haldið er sérstaklega upp á í dag.

Samstaða er mikilvæg

Það er brýnt að við stöndum saman vaktina í neytendamálum, ekki síst í ljósi þeirrar verðbólguþróunar sem hefur átt sér stað á undanförnum misserum. Neytendamál eru sígilt viðfangsefni og alltaf er rými til að gera betur. Á kjörtímabilinu gerum við ráð fyrir metnaðarfullum umbótum á sviði neytendaverndar. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu stendur nú yfir vinna við heildarendurskoðun á stofnanaumgjörð og nokkrum af mikilvægustu lagabálkum á sviði neytendaverndar ásamt vinnu við stefnumótun í neytendamálum. Liður í því er að styðja betur við starf Neytendasamtakanna en með nýjum samningi voru framlög til þeirra aukin. Ég tel mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram á þeirri braut með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

Samvinna er mikilvæg

Markmiðum um umbætur í neytendavernd verður ekki náð nema með náinni og góðri samvinnu stjórnvalda og Neytendasamtakanna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðfélagið að halda verðbólgu í skefjum og það verkefni þarf að nálgast úr ýmsum áttum. Ég hef þá bjargföstu trú að árangur náist þegar við öll leggjumst saman á árarnar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mikilvægt að neytendur séu á tánum gagnvart verðlagningu á vöru og þjónustu og fyrirtæki hækki ekki verð umfram það sem eðlilegt getur talist. Slíkt skiptir máli fyrir lífskjörin í okkar góða landi.

Það er mín von að Neytendasamtökin haldi áfram að vera það frumkvæðisafl í neytendamálum sem samtökin hafa verið og haldi atvinnurekendum og stjórnvöldum við efnið til langrar framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. mars 2023.