Categories
Fréttir

„Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar“

Deila grein

23/03/2023

„Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór í störfum þingsins yfir þjóðfélagsumræðuna gagnvart sjókvíaeldi. Umræðan hefur farið hátt eftir að Ríkisendurskoðandi birti nýverið skýrslu sína um stjórnsýsluúttekt á greininni. Boston Consulting Group kom einnig fram með skýrsla þars sem metin voru framtíðartækifæri og áskoranir í íslensku lagareldi og greina tækifæri til sjálfbærrar verðmætasköpunar.

Fjölmargar jákvæðar hliðar lagareldis – engin ástæða til skautunar í umræðunni um laxeldi

„Staðreyndin er að sjókvíaeldi er ekki jafn slæmt og það er málað upp í fjölmiðlum. Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar. Ef við tölum um próteinframleiðslu er kolefnisfótspor fiskeldis, þar með talið sjókvíaeldis, minna en próteinframleiðsla annarra dýraafurða á landi. Hér á landi eru góð skilyrði fyrir fiskeldi, þ.e. sjálfbær orka, góð vatnaskipti í fjörðum og mikil og góð þekking á lífríki sjávar. Allt þetta er mikilvægt til að fiskeldi vegni vel. Fiskeldið er komið af stað og við höfum alla möguleika á að sjá það dafna í sátt við umhverfi og samfélag,“ sagði Halla Signý.

Ísland getur skapað sér samkeppnisforskot í lagareldi með skýrum ramma utan um eldið segir í skýrslu Boston Consulting Group. Eins verði að sinna eftirliti og rannsóknum í nærumhverfinu og styrkja þarf getu sveitarfélaganna til að fjárfesta í innviðum með endurskoðun á skiptingu skatta og gjalda á milli ríkis og sveitarfélaga.

„Þessi atriði hef ég bent á hér áður og lagt til tillögur þess efnis. Okkar verkefni er að laga þau atriði sem bent hefur verið á í þessum skýrslum, greininni til heilla,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Undanfarnar vikur hefur sjókvíaeldi verið mikið í umræðunni eftir að ríkisendurskoðandi birti skýrslu sem innihélt stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi. Þá kom einnig út önnur skýrsla á dögunum, skýrsla sem unnin var af Boston Consulting Group og var ætlað að meta framtíðartækifæri og áskoranir í íslensku lagareldi og greina tækifæri til sjálfbærrar verðmætasköpunar. Skýrslan tekur undir málflutning þeirra sem horfa á fiskeldi sem lykilstoð í uppbyggingu sterkrar landsbyggðar og sem vaxandi stoð í hagkerfi landsins. Í þeirri skýrslu er einnig komið inn á jákvæðar hliðar lagareldis. Því miður er ákveðin skautun í umræðunni hér á landi um laxeldi. Staðreyndin er að sjókvíaeldi er ekki jafn slæmt og það er málað upp í fjölmiðlum. Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar. Ef við tölum um próteinframleiðslu er kolefnisfótspor fiskeldis, þar með talið sjókvíaeldis, minna en próteinframleiðsla annarra dýraafurða á landi. Hér á landi eru góð skilyrði fyrir fiskeldi, þ.e. sjálfbær orka, góð vatnaskipti í fjörðum og mikil og góð þekking á lífríki sjávar. Allt þetta er mikilvægt til að fiskeldi vegni vel. Fiskeldið er komið af stað og við höfum alla möguleika á að sjá það dafna í sátt við umhverfi og samfélag.

Í skýrslu BCG kemur fram að Ísland geti skapað sér samkeppnisforskot í lagareldi, en til þess þarf sterkan ramma utan um eldið. Bæði fiskeldi og sveitarfélög sem koma að eldinu hafa ítrekað kallað eftir að eftirliti og rannsóknum sé sinnt í nærumhverfi þess. Þá tekur BCG undir ákall sveitarfélaganna um að endurskoða þurfi skiptingu skatta og gjalda á milli ríkis og sveitarfélaga til að auka getu sveitarfélaga til að fjárfesta í innviðum. Þessi atriði hef ég bent á hér áður og lagt til tillögur þess efnis. Okkar verkefni er að laga þau atriði sem bent hefur verið á í þessum skýrslum, greininni til heilla.“