Við lifum á einkar áhugaverðum tímum í alþjóðamálum. Valdaskipti í Bretlandi og Bandaríkjunum, yfirvofandi kosningar í Þýskalandi, þrengri efnahagsstaða Evrópusambandsins, áframhaldandi stríðsátök í Úkraínu og stórmerkilegar vendingar í Mið-Austurlöndum skapa flókið og síbreytilegt landslag í alþjóðamálunum. Þjóðríki og ríkjasamtök undirbúa sig fyrir harðnandi samkeppni í alþjóðaviðskiptum, þar sem tolla- og viðskiptahindranir kunna að setja svip sinn á þróunina. Á sama tíma eiga mörg ríki enn í vök að verjast eftir áföllin sem covid-19-heimsfaraldurinn olli í efnahagslífi þeirra, og hefur það haft afgerandi áhrif á ríkisfjármál víða um heim.
Ísland kom hins vegar vel út úr þessum áskorunum og hefur sýnt mikla seiglu í efnahagsstjórn sinni. Lærdómurinn af hagstjórn lýðveldisáranna hefur sannað sig enn á ný: nauðsynlegt er að ríkissjóður sé ávallt vel undirbúinn til að mæta efnahagslegum áföllum, bæði innri og ytri. Þannig nema nú nettóskuldir ríkisins um 30% af vergri landsframleiðslu (VLF), sem er afar hagstæð staða í samanburði við önnur ríki. Til samanburðar nema skuldir ríkja á evrusvæðinu um 90% af VLF og í Bretlandi um 100%, þar sem leitin að sjálfbærum hagvexti er áfram helsta áskorunin.
Eitt af brýnustu verkefnum opinberra fjármála hér á landi er að halda áfram á þeirri braut sem síðasta ríkisstjórn lagði, með það að markmiði að draga úr fjármagnskostnaði ríkissjóðs. Tryggja þarf að lánskjör ríkisins endurspegli hina sterku stöðu landsins á alþjóðavísu. Þessi árangur hefur þegar skilað sér í hækkun lánshæfismats íslenska ríkisins á síðasta ári, sem er vitnisburður um sterka undirliggjandi stöðu hagkerfisins.
Á hinn bóginn standa mörg lönd frammi fyrir miklum áskorunum. Í Bretlandi er hagvöxtur hægur á sama tíma og skuldir aukast. Alþjóðlegir fjárfestar, eins og Ray Dalio, stofnandi fjárfestingasjóðsins Bridgewater, hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu breskra ríkisfjármála og bent á að landið gæti lent í neikvæðum skuldaspíral. Slík þróun gæti þýtt sívaxandi lánsfjárþörf til að standa straum af vöxtum. Dalio bendir á hækkandi ávöxtun á 30 ára ríkisskuldabréfum og veikt pund sem merki um aukna erfiðleika í ríkisfjármálum Bretlands. Við þetta bætist að fjárlagahallinn þar nemur rúmum 4% af landsframleiðslu, sem dregur úr fjárhagslegu svigrúmi stjórnvalda.
Á þessum tímamótum skiptir höfuðmáli að íslensk stjórnvöld taki skynsamlegar og framsýnar ákvarðanir í ríkisfjármálum. Mikilvægt er að viðhalda þeim góða árangri sem þegar hefur náðst og stuðla að áframhaldandi stöðugleika. Forðast þarf allar ákvarðanir sem gætu ógnað lækkunarferli vaxta Seðlabankans eða skapað neikvæðan þrýsting á atvinnulífið.
Lykillinn að farsælli framtíð er að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs, skapa aukið svigrúm til uppbyggingar og tryggja að fyrirtæki og einstaklingar hafi góðar aðstæður til að skapa verðmæti og stuðla að hagvexti.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2025.