Categories
Fréttir Greinar

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Deila grein

23/01/2025

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Við lif­um á einkar áhuga­verðum tím­um í alþjóðamál­um. Valda­skipti í Bretlandi og Banda­ríkj­un­um, yf­ir­vof­andi kosn­ing­ar í Þýskalandi, þrengri efna­hags­staða Evr­ópu­sam­bands­ins, áfram­hald­andi stríðsátök í Úkraínu og stór­merki­leg­ar vend­ing­ar í Mið-Aust­ur­lönd­um skapa flókið og sí­breyti­legt lands­lag í alþjóðamál­un­um. Þjóðríki og ríkja­sam­tök und­ir­búa sig fyr­ir harðnandi sam­keppni í alþjóðaviðskipt­um, þar sem tolla- og viðskipta­hindr­an­ir kunna að setja svip sinn á þró­un­ina. Á sama tíma eiga mörg ríki enn í vök að verj­ast eft­ir áföll­in sem covid-19-heims­far­ald­ur­inn olli í efna­hags­lífi þeirra, og hef­ur það haft af­ger­andi áhrif á rík­is­fjár­mál víða um heim.

Ísland kom hins veg­ar vel út úr þess­um áskor­un­um og hef­ur sýnt mikla seiglu í efna­hags­stjórn sinni. Lær­dóm­ur­inn af hag­stjórn lýðveld­is­ár­anna hef­ur sannað sig enn á ný: nauðsyn­legt er að rík­is­sjóður sé ávallt vel und­ir­bú­inn til að mæta efna­hags­leg­um áföll­um, bæði innri og ytri. Þannig nema nú nettóskuld­ir rík­is­ins um 30% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF), sem er afar hag­stæð staða í sam­an­b­urði við önn­ur ríki. Til sam­an­b­urðar nema skuld­ir ríkja á evru­svæðinu um 90% af VLF og í Bretlandi um 100%, þar sem leit­in að sjálf­bær­um hag­vexti er áfram helsta áskor­un­in.

Eitt af brýn­ustu verk­efn­um op­in­berra fjár­mála hér á landi er að halda áfram á þeirri braut sem síðasta rík­is­stjórn lagði, með það að mark­miði að draga úr fjár­magns­kostnaði rík­is­sjóðs. Tryggja þarf að láns­kjör rík­is­ins end­ur­spegli hina sterku stöðu lands­ins á alþjóðavísu. Þessi ár­ang­ur hef­ur þegar skilað sér í hækk­un láns­hæf­is­mats ís­lenska rík­is­ins á síðasta ári, sem er vitn­is­b­urður um sterka und­ir­liggj­andi stöðu hag­kerf­is­ins.

Á hinn bóg­inn standa mörg lönd frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um. Í Bretlandi er hag­vöxt­ur hæg­ur á sama tíma og skuld­ir aukast. Alþjóðleg­ir fjár­fest­ar, eins og Ray Dalio, stofn­andi fjár­fest­inga­sjóðsins Bridgewater, hafa lýst yfir áhyggj­um af stöðu breskra rík­is­fjár­mála og bent á að landið gæti lent í nei­kvæðum skulda­spíral. Slík þróun gæti þýtt sí­vax­andi láns­fjárþörf til að standa straum af vöxt­um. Dalio bend­ir á hækk­andi ávöxt­un á 30 ára rík­is­skulda­bréf­um og veikt pund sem merki um aukna erfiðleika í rík­is­fjár­mál­um Bret­lands. Við þetta bæt­ist að fjár­laga­hall­inn þar nem­ur rúm­um 4% af lands­fram­leiðslu, sem dreg­ur úr fjár­hags­legu svig­rúmi stjórn­valda.

Á þess­um tíma­mót­um skipt­ir höfuðmáli að ís­lensk stjórn­völd taki skyn­sam­leg­ar og fram­sýn­ar ákv­arðanir í rík­is­fjár­mál­um. Mik­il­vægt er að viðhalda þeim góða ár­angri sem þegar hef­ur náðst og stuðla að áfram­hald­andi stöðug­leika. Forðast þarf all­ar ákv­arðanir sem gætu ógnað lækk­un­ar­ferli vaxta Seðlabank­ans eða skapað nei­kvæðan þrýst­ing á at­vinnu­lífið.

Lyk­ill­inn að far­sælli framtíð er að lækka fjár­magns­kostnað rík­is­sjóðs, skapa aukið svig­rúm til upp­bygg­ing­ar og tryggja að fyr­ir­tæki og ein­stak­ling­ar hafi góðar aðstæður til að skapa verðmæti og stuðla að hag­vexti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2025.