Categories
Fréttir

Aðalfundur Sambands eldri Framsóknarmanna (SEF)

Deila grein

17/03/2018

Aðalfundur Sambands eldri Framsóknarmanna (SEF)

Kæru flokkssystkin!
Ég vill byrja á því að þakka öllum þeim sem komu á flokksþing okkar um síðustu helgi kærlega fyrir samstarf og samveru þar. Flokksþingið var bæði kraftmikið í störfum sínum og frjótt og ekki síður var góður andi á því sem skilaði sér svo vel inn í vinnu þess og málefni. Sannkallaður félagshyggjuandi eins og á að vera í öllum störfum okkar framsóknarfólks og samheldni mikil.
Eitt af því sem samþykkt var á liðnu þingi voru lagabreytingar sem fólu í sér að Samband eldri Framsóknarmanna fyrir 60 ára og eldri (SEF), sem stofnað var 2013, fékk formlega stöðu sem sérsamband innan Framsóknarflokksins og mun formaður þess hér eftir sitja í framkvæmdarstjórn flokksins og landsstjórn líkt og formenn SUF og LFK. Er ég afar ánægður með þessa samþykkt þingsins enda gott að stofna til vettvangs til að vinna að málefnum þessa aldurshóps og vera flokknum til ráðgjafar í þeim.
Nú er hafinn undirbúningur að aðalfundi SEF sem haldinn verður á Hverfisgötu 33 í Reykjavík þann 25. apríl nk. Samkvæmt lögum SEF hafa atkvæðisrétt á þeim fundi allir félagar í Framsóknarflokknum, 60 ára og eldri, sem skráðir eru í flokkinn 30 dögum fyrir aðalfund skv. félagatali á skrifstofu hans. Þá skal eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund hafa borist tillögur um frambjóðendur til trúnaðarstarfa til stjórnar. Þar sem ekki er virk stjórn í SEF nú um stundir þá er rétt að senda þær tillögur til skrifstofu flokksins með sama fresti.
Trúnaðarstöður þær sem kosið er um eru formaður, fjórir meðstjórnendur og þrír í varastjórn. Þá skal einnig kosið trúnaðarráð sem í sitja sex eða einn úr hverju kjördæmi. Er það stjórn sambandsins til ráðgjafar og liðsinnis. Nú í undirbúningi aðalfundarins er skrifstofa flokksins að skoða hvernig sé hægt að gera flokksfólki, sem ekki á heimangengt til Reykjavíkur, kleift að taka þátt í störfum hans og verður það kynnt er nær dregur.
Um leið og þessu er fylgt úr hlaði hér þá vona ég að sem flestir heldri Framsóknarmenn komi til þessa aðalfundar til að hleypa starfsemi SEF af stokkunum með krafti. Ég er þess fullviss að líkt og SUF og LFK verði SEF til þess að styrkja ennfrekar okkar góða flokksstarf og gera Framsóknarflokkinn enn sterkari í stjórnmálalífi landsins. Takið því 25. apríl nk. frá.
Með framsóknarkveðjum,
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins